Leita í fréttum mbl.is

Heimskortið við Hallveigarstíg

Heimskort Samfylkingar

Það má merkilegt heita að eftir allt, sem á undan er gengið, skuli Samfylkingin ekki lengur telja Evrópumálin einnar messu virði, hvað þá meir. Fyrir aðeins örfáum vikum leit Samfylkingin á það sem frágangssök í ríkisstjórn ef samstarfsflokkurinn myndi dirfast að vera annarar skoðunar. Síðustu daga tiltóku fráfarandi ráðherrar það enn og aftur sem ein helstu afglöp sín og/eða stjórnarinnar að hafa ekki þokað Íslandi eina sjómílu nær Brussel. Og árangur hinnar auknu Evrópuumræðu helstur sá, að þjóðinni snerist hugur til hugsanlegrar aðildar og þreifinga þar um!

Í dag virðast ráðherrar Samfylkingarinnar og flokksforysta (en þetta tvennt fer ekki saman) ekki einu sinni geta fundið Evrópu á korti, hvað þá nefnt hana á nafn. Að ofan má sjá heimskortið við Hallveigarstíg, höfuðstöðvar Samfylkingarinnar.


Forseti á villigötum

Forstjórinn og forseti hans galdra peninga.

Það var gaman að hlýða á forseta lýðveldisins, herra Ólaf Ragnar Grímsson, áðan þar sem hann kynnti „áherslur sínar“ við lausn stjórnarkreppunnar. Sjálfsöryggi hans mátti vel merkja á því hversu oft hann endurtók það, sem hann hafði að segja. Og ef einhver efaðist um hver er aðalkallinn á Íslandi, þá vefst það ekki lengur fyrir honum hver er skoðun herra Ólafs á því. Gaman að hógværðin og sjálfsgagnrýnin, sem hann hét þjóðinni í nýársávarpi sínu, skuli hafa enst í heila 25 daga. Það er nýtt met.

Forsetinn sagði brýnast væri að skapa á ný „samfélagslega sátt í íslensku samfélagi“. Eða hvað menn vildu kalla það, þjóðareitthvað, nýtt Ísland, nýtt lýðveldi eða eitthvað svoleiðis. Í því samhengi kynni einhver að vilja minnast þess hversu vel forsetanum tókst til síðast þegar hann var á þessum buxunum, upptekinn af sínu eigin einstaka hlutverki við að „brúa gjána milli þings og þjóðar“. Ég nenni því ekki að sinni.

En er það verkefni í alvöru brýnast? Ég tek heilshugar undir þau sjónarmið að stjórnkerfi Íslands og helstu stofnanir þjóðfélagsins hafi brugðist; ekki aðeins á síðustu vikum á mánuðum, heldur ræðir hér um samfellda þróun undanfarna áratugi. Þar má tína flest allt til: löggjafann, framkvæmdavaldið og dómsvaldið; fjölmiðla, fræðasamfélag og fjármálamarkað. Og já, meira að segja sjálfan forsetann, þennan æðsta handhafa sannleika og réttlætis. Það, að smíða nýtt lýðveldi, er hins vegar ekki vandalaust verkefni og allra síst ber að flana að því. Nei, hér eru mun brýnni verkefni eins og að bjarga því, sem bjargað verður, koma í veg fyrir gjaldþrot atvinnulífsins, fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot heimila og að fólk missi heimili sín. Að ógleymdu langtímamarkmiðinu, sem er að koma í veg fyrir að hér blasi við landauðn innan nokkurra áratuga, sem er raunveruleg og aðsteðjandi hætta.

En finnist forsetanum brýnast að búa til nýtt lýðveldi, áður en ljóst er hvort hér verður þjóð, hann um það. Hann ætti þó máske að líta sér nær. Væri ekki tilvalið að forsetinn gengi á undan með góðu fordæmi við að skapa hið nýja Ísland með því að axla loks ábyrgð á öllu sínu ömurlega auðmannaflangsi sem brautryðjandi útrásarinnar og segði af sér?

Ef ekki, getur þess verið langt að bíða að búasáhaldabyltingin frelsi Bessastaði?


mbl.is Skapa þarf samfélagslegan frið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagar reiði og pólitísk ábyrgð

Bankamálaráðherrann skýrir málin.

Áfallið mikla hefur að vonum verið helsta umhugsunarefni þjóðarinnar undanfarnar vikur. Hvað fór úrskeiðis? Hverjum er um að kenna? Hversu mikið er tjónið? Eru sökudólgarnir enn að störfum? Af hverju brást kerfið? Þarf að stokka það allt upp? Mun þjóðin nokkru sinni rétta úr kútnum? Af hverju skyldi hún bera ábyrgð á afglöpum einkafyrirtækja? Hver er ábyrgð stjórnvalda? Og svo framvegis. Einn og einn hefur jafnvelt velt vöngum yfir því hvernig megi bæta úr því sem komið er og hefja endurreisnina.

Fyrst og fremst hafa menn þó orðið varir við háværa kappræðu, þar sem þátttakendurnir virðast halda að sá vinni, sem er reiðastur. Auðvitað er fólk felmtri slegið. Og reitt. Bálreitt, raunar. Reiðin er hins vegar afleitt vegarnesti á háskaför og minnkar beinlínis líkurnar á því að menn komist heilir á leiðarenda.

Hafa stjórnvöld brugðist? Já, það hafa þau augljóslega gert á fjölmörgum sviðum, bæði á undanförnum árum, ekki síður á misserinu í aðdraganda áfallsins og enn frekar má gagnrýna ýmsar aðgerðir (og aðgerðaleysi) eftir að ósköpin dundu yfir. Það að skipta leifunum af bankakerfinu upp eftir búsetu innistæðueigenda reyndist t.d. vera glapræði þegar nær hefði verið að skipta því upp eftir gjaldmiðlum. Það að láta undan kúgun Evrópusambandsins vegna Icesave-reikninganna kann að reynast þjóðhættulegt ef eftir gengur (og máske er ekki allt komið í ljós þar). Værukærð um lagaleg úrræði vegna efnahagshryðjuverka Gordons Brown og breskra stjórnvalda vekur aðeins frekari spurningar. Eins má vel spyrja af hverju hugmyndin um tafarlaus og einhliða gjaldmiðilsskipti hefur ekki fengið verðskuldaða umfjöllun á sama tíma og stjórnvöld fóru nánast umhugsunarlaust í stórfenglegar erlendar lántökur til þess að reyna að bjarga krónunni upp á von og óvon. Því miður mætti fleira tína til.

Það er því ekki skrýtið þó málsvarar reiðinnar hrópi eftir afsögn ríkisstjórnarinnar, brottekstri helstu embættismanna og þingkosningum. Hins vegar hafa þeir ekki getað bent á það hvað skuli síðan til bragðs taka, sem máske er ekki svo skrýtið í ljósi tengsla helstu hávaðaseggjanna við hina vinstrigrænu grasrót. Sumir þeirra eru þó merkilegt nokk vel tengdir inn í Samfylkinguna og orðræðan fremur mörkuð af innanflokksátökum um komandi forystukreppu þar en áhuga á velfarnaði þjóðarinnar.

Vel er skiljanlegt að margir vilji kjósa á nýjan leik, en hvort það er hyggilegt er önnur saga. Næstu mánuðir eru dýrmætur tími, sem ekki má sóa; það er ástæða fyrir því að kveðið er á um reglulegar kosningar og kjörtímabil; þjóðin er í þvílíku uppnámi að kosningabarátta myndi vafalaust gera illt verra; síðast en ekki síst má draga í efa að kosningaúrslit byggð á andrúmslofti upplausnar og reiði séu vænleg til endurreisnarstarfsins sem bíður okkar. Flatneskjulegt líkingamál um eldsvoða, brennuvarga og slökkviliðsstjóra hefur móðins síðustu vikur, en svo nýgervingunni sé haldið áfram: væri skynsamlegt að efna til klukkutíma skyndiútboðs um hönnun og smíði nýbyggingar meðan maður horfir á gamla húsið fuðra upp?

Bakarar og bölvasmiðir
Auðvitað finnur ríkisstjórnin fyrir þessum þrýstingi. Það eru ekki bara hettuklæddir anarkistar (sem mér heyrist raunar að séu fremur syndíkalistar) sem hafa vantrú á getu hennar til þess að kljást við vandann. Jafnvel innan ríkissjórnarinnar hafa menn fundið að mistökum og vandræðum annarra ráðherra. Þess vegna heyrist manni nú að forystumenn ríkisstjórnarinnar vilji kaupa sér frið með því að hræra í ráðherraliðinu, væntanlega þannig að þjóðinni (eða háværustu vandlæturum hennar) finnist að einhverjir ráðamenn hafi sætt ábyrgð, pólitískri ábyrgð.

Það væri nú gott og blessað ef ábyrgðin var skýr hjá tilteknum ráðherrum. En er það svo? Það er helst um það rætt að í hópi sjálfstæðismanna í ríkisstjórn verði það Björn Bjarnason, sem víki úr stóli dómsmálaráðherra. Dettur einhverjum í hug að það komi áfallinu við? Að hann hafi með störfum sínum á einhvern hátt brugðist, í aðdraganda eða eftir áfall? Nei, það er öðru nær.

Innan Samfylkingarinnar er helst rætt um að það verði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, sem verði látin fara. Af hverju Tóta ætti að víkja veit ég ekki. Fyrir að hafa drepið hvítabjörn í gáleysi? Hugsanlega sjá forystumenn Samfylkingarinnar þó fram á að þurfa að grípa til þeirra ráðstafana í atvinnuuppbyggingu, sem Þórunn myndi aldrei fallast á af umhverfisástæðum, en þá þarf líka að segja það hreint út: að umhverfisstefna Samfylkingarinnar hafi bara verið upp á punt.

Með Björgvin gegnir öðru máli. Hann er bankamálaráðherra, segja menn, og í bankahruni er eðlilegt að hann segi af sér. Ekki að honum hafi orðið á neitt saknæmt eða þannig, heldur sé þetta bara eðli pólitískrar ábyrgðar. Virkilega? Svo ef skip sekkur eða flugvél ferst, þá segir samgönguráðherra af sér?

Nei, svara menn þá, en hann átti að vita alls kyns hluti um ástandið í bankakerfinu og hann átti að grípa tilviðeigandi ráðstafana til þess að afstýra voðanum. Í þeim röksemdum kunna að felast meiri efni. Við fyrstu sýn að minnsta kosti. Nenni menn að skoða málið nánar er hins vegar erfitt að sjá að þau haldi.

Það hefur vissulega komið fram að Björgvin vissi ekki um margvísleg varnaðarorð vegna bankakerfisins, ekki síst þau sem mælt voru úr Seðlabankanum, en af hverju heyrði hann þau ekki? Jú, vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði honum ekki frá þeim. Hún sat þá fundi, þar sem greint var frá þessum viðsjám, en kaus að greina ráðherra bankamála ekki frá þeim af einhverjum ótilgreindum ástæðum. Á Björgvin að bera pólitíska ábyrgð á þeim óskiljanlegu ákvörðunum Ingibjargar Sólrúnar?

Nei, það hlýtur hver maður að sjá að í því fælist engin sanngirni, heldur væri þvert á móti verið að dýpka hinum pólitísku syndum í málinu með því að hengja Bjögga fyrir Sollu. Ég efa hins vegar að til þess komi. Léti hún hann víkja úr ríkisstjórn vegna bankahrunsins væri hún um leið að viðurkenna eigin ábyrgð — sem óneitanlega er veruleg — en neita að axla hana. Ég hugsa að pólitísk sjálfsbjargarviðleitni hennar komi í veg fyrir það.

Ekki þar fyrir, Björgvini hefur ekki gengið allt í haginn í viðskiptaráðuneytinu, gert mistök, yfirsést eitt og annað og það má meira en vel vera að hann hafi átt að vera almennt krítískari í garð fjármálaiðnaðarins en hann var. Mér finnst hann hins vegar farið vaxandi sem stjórnmálamaður á þessum erfiðu tímum, ekki síst í ljósi þess að meintir samherjar hans hafa ekki alltaf verið að hjálpa honum. Ég hef ekki verið sammála öllu því sem hann hefur sagt eða gert (eða ekki sagt og ekki gert), en ég fæ ekki séð að hann hafi neitt gert af öðru en fyllstu heilindum, þvert á það sem sumir hafa gefið til kynna og ýjað að.

Telji forystumenn ríkisstjórnarinnar á annað borð að einhverjir ráðherrar eigi að víkja vegna áfallsins þurfa þeir ekki að leita lengi að viðkomandi. En það væri fráleitt ef þeir veldu bara 1-2 fagráðherra til þess að fórna sem syndahöfrum. 


Einn kostur, ekkert val

Meðan allt lék í lyndi

Ég hélt eitt augnablik að það væri varaformannskjör í uppsiglingu í Sjálfstæðisflokknum, því af orðum, sem höfð voru eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í norska vinstriblaðinu Klassekampen varð ekki séð að hún hefði áhuga á að leita endurkjörs.

Jeg tror ikke Island har noe valg etter den knekken vår valuta har fått.

Nú hefur Þorgerður Katrín sagt að þarna sé ekki rétt eftir henni haft, hún hafi aðeins sagt að aðildarviðræður væru nauðsynlegar. Það má vera að það sé eina leiðin til þess að komast að því hvaða kostir væru í boði, þó ég haldi nú að það sé nógsamlega skjalfest hvernig því öllu er farið. Fyrirfram hef ég efasemdir um það þegar atburðarásir eru settar af stað, því þeir sem það gera hafa yfirleitt meiningar um hvert þær skuli leiða. Tala nú ekki um þegar hafist er handa við að kanna í þaula aðeins einn kost eins og þennan, en aðrir látnir liggja milli hluta. 

Þjóðráð og afarkostir
Svona almennt og yfirleitt lýsir það vitaskuld ráðleysi að sjá engan kost nema einan, en þegar því er þannig farið er ljóst að menn telja sig þess ekki umkomna að hafa nokkur áhrif á atburðarásina. Þegar ráðamenn eru komnir í þá stöðu að vera fórnarlömb atburðarásar en ekki forystumenn er augljóst að þeir þurfa að rýma til fyrir öðrum, sem vilja leiða fremur en láta leiðast.

Ekki síst á það við í máli sem þessu, sem varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Flokksforysta Sjálfstæðisflokksins virðist hafa farið að tilmælum (eða hótunum) Samfylkingarinnar og ætlast til þess að sjálfstæðismenn — landsfundarfulltrúar altjent — geri Evrópumálin upp við sig fyrir janúarlok. Gott og vel, til er ég. En hvernig væri þá að þingmenn flokksins gæfu upp sína afstöðu, af eða á? Það er varla til of mikils mælst. Reynist þeim það ofviða ættu þeir að snúa sér að einhverju öðru en stjórnmálastarfi.

Vandi Evrópusinnanna í Sjálfstæðisflokknum er hins vegar sá að gefi þeir sig upp eru þeir í raun að snúa baki við sjálfstæðisstefnunni. Það stendur í nafninu hvert er grundvallarerindi Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum. En þeir geta þá gengið til liðs við nýfrjálshyggjumennina í Samfylkingunni, sem er snöggtum eðlilegra en að við, þessir klassísku frjálshyggjumenn sem kjósum sjálfstæðið, göngum til liðs við vinstrigræna, eins og Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins stakk upp á af alkunnri gamansemi í viðtali við Fréttablaðið um helgina.

Nauðhyggjan
Það þarf ekki að rekja vandann, sem Íslendingar standa frammi fyrir. Kostirnir eru ekki margir og fæstir góðir. En er þá ástæða til þess að fækka þeim frekar? Veigamikil álitamál eru ítrekað reifuð á þann hátt að aðeins séu tveir kostir í boði og virðist einu gilda hvort málshefjendur eru stjórnarliðar, í stjórnarandstöðu eða hinir margrómuðu hlutlausu fræðimenn. Í Evrópumálunum láta nú sumir eins og það sé ekki einu sinni kostur lengur að standa fyrir utan ESB. Hin sögulega nauðsyn sé öll á eina leið.

Nauðhyggjan hefur leikið þjóðina nógu grátt undanfarnar vikur, þar sem menn hafa tekið erfiðar ákvarðanir á skömmum tíma og án þess að leita umræðu um þær. Icesave-samningarnir svokölluðu eru hræðilegt dæmi um það. Eftir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna um að þeir myndu ekki láta kúga sig fór óvænt að bera á tíðindum um að samkomulag væri að nást og svo var það kynnt sem meiri háttar sigur, þegar orðalagið „skilyrðislaus uppgjöf“ hefði átt betur við. Þar var enn tönnlast á því að ekki hefði verið um nema einn kost að ræða. Eitthvað var umlað um „þjóðréttarlegar skuldbindingar“ án þess þó að nokkur hefði fyrir því að útskýra hvenær fullveldisafsalið til útibúa Landsbankans erlendis hafi átt að hafa farið fram. Undir síðustu helgi samþykkti þingið svo þingsályktun um að ríkisstjórninni yrði barasta falið að semja um þetta allt saman. Væntanlega af því að henni hefur farnast svo vel því sviði að undanförnu.

Máske er ekki öll nótt úti í því samhengi, en ekki er maður bjartsýnn. Enn sem fyrr varpar hver ábyrgðinni yfir á annan, þannig að allt útlit er fyrir að Íslendingar klúðri því að sækja rétt sinn á hendur breska ríkinu vegna árásar þess á íslenska bankakerfið. Árásar sem síðan var fylgt eftir með afarkostum Evrópusambandsins, sem fylkti sér að baki óþokkanum Gordon Brown til þess að kúga Íslendinga. Vanræki ríkisstjórnin eða stofnanir, sem starfa á ábyrgð hennar, að grípa til varna og sóknar í þessu máli er aukast vandræði stjórnarinnar enn, en ekki hálft eins og vandræði þjóðarinnar, sem mun sitja uppi með óbærilegar skuldir löngu eftir að þessi ríkisstjórn verður farin frá og ráðherrar hennar orðnir sendiherrar í Brussel, Strassborg, Lúxemborg, Frankfurt og Haag.

Uppgjöfin gagnvart þessum fantabrögðum óvinaþjóða okkar í Evrópu er ömurleg. En hálfu verra er að horfa upp á þau viðbrögð að þá sé eina ráðið að gangast undir okið að öllu leyti og ganga ofsækjendum okkar á hönd. Mér finnst það raunar ganga landráðum næst.

 


mbl.is Ekkert annað hægt en sækja um aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er evran svarið?

euroquake

Þessa dagana virðist þorri fólks kominn á þá skoðun — eftir vandlega yfirvegun peningamálastefnu — að Íslendingar þurfi að taka upp evruna svo skjótt sem auðið er. Sjálfur er ég því ekki samþykkur og hygg að þessi almenna skoðun sé tæpast grundvölluð á öðru en óþoli á íslensku krónunni. Nema náttúrlega meðal evrókratanna, sem vilja evruna af hugsjón eða sem agn inn í Evrópusambandið (ESB).

Í þessu samhengi hefur mönnum jafnan láðst að gaumgæfa markmiðin með gjaldmiðilsskiptum önnur en þessu almennu, að krónan sé svo lasin að hún sé ekki á marga vetur setjandi. Sumir nefna að landið þurfi tryggan og stöðugan gjaldmiðil, að ekki veiti af almennilegum lánveitanda til þrautavara og svo framvegis. Vandinn er sá að evran er ekkert sérstaklega vel til þess að uppfylla þau skilyrði, sem helst eru nefnd fyrir nýjum og betri gjaldmiðli hér á landi.

Umræðan um upptöku evru á sér stað víðar en á Íslandi. Þannig eru efnahagsvandræði lygalaupsins Gordon Brown enn að aukast og hann er á góðri leið með að taka Breta með sér í fallinu. Því hafa ýmsir spekúlantar þar í landi farið að ræða um það hversu tilvalið væri fyrir þá að taka upp evruna við fyrstu hentugleika. Meðal hinna fremstu í þeim flokki er hinn meinti Íslandsvinur Willem Buiter.

Því fer hins vegar fjarri að sú skoðun njóti sams konar hylli á Englandi og hér. Martin Wolf, aðstoðarritstjóri Financial Times og helsti penni blaðsins um efnahagsmál, skrifar ágæta grein um þau mál í blaðið í dag, sem sérstök ástæða er til þess að hvetja menn til þess að lesa.

Það sem er merkilegast við grein og greiningu Wolfs á ástandinu er þó það, að ef orkujöfnuður landanna er undanskilinn verður ekki séð að nokkur munur sé á Íslandi og Bretlandi hvað varðar aðsteðjandi vanda.

Margir hafa kvartað undan því að umræðan um þessi mál hér á landi sé óþroskuð, sem vissulega má taka undir. Til hennar gefst sjálfsagt nokkur tími nú, en það er óþarfi að reiða okkur einvörðungu á Íslands helstu heila til þess að leiða hana. Í þeim efnum getum við notið þrætubókar okkar bresku vina. Og óvina, eftir atvikum.


Það ætti einhver annar að skoða þetta

Auðvitað er það rétt hjá Landsbankanum að svara ekki fyrirspurninni á annan hátt. Bankaleynd leyfir það ekki og nógu standa bankarnir völtum fótum svo þeir fari ekki að rugla í því.

Löggjafinn á enda ekkert með að vera að setja sig í stellingar sem rannsakari og dómsvald.

Það vekur hins vegar spurningar hvort málið kalli ekki einmitt á athugun annarra til þess bærari yfirvalda.

Jón Ásgeir hefur með yfirlýsingum og málshöfðunarhótunum sínum staðfest að hann sé potturinn og pannan í því að hreinsa bestu bitana út úr 365 í nýtt og nánast óspjallað félag. Hann sjálfur. En nú má hann ekki — eins og nokkuð hefur verið um fjallað — veita nokkru félagi forstöðu, hafa prókúru eða annað ámóta, af því að hann er dæmdur maður.

Vel má vera að hann sé með hið nýja félag leppað í bak og fyrir, en fyrir liggur viðurkenning hans á því hver sé aðalmaðurinn. Vissi Landsbankinn það ekki? Er ekki augljóst að hann var að taka þátt í óhreinindum með dæmdum manni? Það mætti og ætti að rannsaka.


mbl.is Báru fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarmálaráðherrann á hnjánum

landrad

Þessi frétt á Vísi vakti athygli mína. Ekki síst þó myndatextinn. Er þetta utanríkisráðherra, sem þarna er á hnjánum?

En grínlaust, gengur þetta áhugaleysi varnarmálaráðherrans ekki landráðum næst? Að það sé erlendum herjum í sjálfsvald sett hvort þeir komi hingað eða ekki. Eða er staðan máske þannig að hernám Breta er næsti leikur? Það er ein leið inn í Evrópusambandið.

 


Bullið á Bessastöðum

Útrásarvíkingarnir skoða góssið að Bessastöðum

Ég held að forsetinn sé endanlega búinn að spila út. Herra Ólafur Ragnar Grímsson er stakur bindindismaður, þannig ekki er unnt að kenna Bakkusi um þessa makalausu ræðu forsetans yfir sendimönnum erlendra ríkja, þar sem hann hellti úr skálum reiði sinnar, bæði sér og Íslandi til skaða og skammar. Gæti hugsast að hann hafi fengið taugaáfall í geðshræringu liðinna vikna þegar allir hans bestu vinir standa uppi auralausir og sumir ærulausir?

Vandinn felst vitaskuld í því að forsetinn hefur óáreittur fengið að reka eigin utanríkisstefnu undanfarin misseri, því þó þetta sé alvarlegasta bullið frá Bessastöðum til umheimsins er þetta fráleitt fyrsta útspilið af hálfu forsetans, sem hann hefur tekið upp á án samráðs við utanríkisráðuneytið. Það fær hins vegar að taka til eftir hann með misgóðum árangri.

Það má rétt vera að Íslendingar ganga ekki að öllum þeim vinum vísum, sem við töldum okkur eiga. Sumir hafa reynst okkur andsnúnir og margir þeirra eru hikandi gagnvart Íslandi. Er það vænlegt til árangurs að ráðast á þá með óbótaskömmum? Eða að rausa um hvað réttast væri að gera við Keflavíkurflugvöll? Það væri nær að forsetinn upplýsti þjóðina um það hvers vegna hans frábæru vinir á Indlandi og í Kína hafa ekki reynst tryggari og örlátari en raun ber vitni. Og hvað með hans hnattrænu tengsl til bandarískra auðmanna?

Hirðvæðing forsetaembættisins var hlægileg á sínum tíma. Erindrekstur forsetans og þjónkun við auðmenn og útrásarvíkinga var skammarleg. Ég nenni ekki einu sinni að minnast á ógeðið í kringum fjölmiðlalögin 2004, nema að þar tók forsetinn sér völd án ábyrgðar. Þá ömurlegu slóð er hann enn að feta, landi og þjóð til verulegs tjóns, nú þegar við síst megum við því.

Herra Ólafur Ragnar verður að þegja af sér. Ella á hann að segja af sér. Best færi á því að hann gerði hvort tveggja.


mbl.is Forsetinn gagnrýndi nágrannaríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fornsögur af FL Group

 FLGroup2

Undanfarin dægur hefur nokkuð borið á fréttum um að Hannes Smárason, þáverandi stjórnarformaður FL Group, hafi mokað þremur milljörðum króna út úr almenningshlutafélaginu til þess að ljá Pálma Haraldssyni í Fons (áður Feng) til þess að kaupa danska lágfargjaldafélagið Sterling. Sem síðan var selt nokkrum sinnum milli Sterling og FL Group við sífellt hærra verði, þó aldrei linnti taprekstrinum og flestum öðrum bæri saman um virði félagsins lækkaði ört.

Ég átta mig þó ekki fullkomlega á því hvers vegna þessi frétt er núna að koma upp á yfirborðið. Sjálfur skrifaði ég þessa frétt í Blaðið hinn 23. september árið 2005. Hún var að vísu því marki brennd að enginn vildi staðfesta hana eða ræða málið undir nafni. Enginn vildi hins vegar neita henni og þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan komst ég lítið lengra með fréttina.

Mér þykir því harla merkilegt, að nú þegar þessi frétt er rifjuð upp, skuli í raun engar betri heimildir vera fram komnar fyrir því sem gerðist. Maður skilur mætavel að þátttakendur í þessum barbabrellum skuli ekki vilja opinbera hvað átti sér stað, en það voru fleiri til frásagnar. Þannig voru í stjórninni fulltrúar almennra hluthafa, sem sögðu af sér vegna þessa máls, en þeir sögðu aldrei fullum fetum frá því sem gerðist.

Kannski Agnes Bragadóttir nái því fram nú þegar hún hefur dregið málið fram á ný. Hún kveðst hafa óyggjandi heimildir fyrir fréttinni nú, sem hún hafi ekki haft á sínum tíma, en nefnir þær svo ekki. Fyrir því geta þó verið ýmsar haldbærar ástæður og ástæðulaust að fetta fingur út í það. En hver skyldi þessi skotheldi heimildarmaður vera? Þar hlýtur Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, að koma sterklega til greina, en hann var meðal æðstu stjórnenda hjá FL Group á þessum tíma og mér var raunar sagt þá, að hann hafi verið virkur þátttakandi í þessum fjármunaflutningum. Þess vegna hafi hann líka verið kvaddur með mikilli rausn, þegar hann lét af störfum hjá félaginu skömmu síðar.

— — —

Nú vísar Hannes þessu enn og aftur alfarið á bug. Ég átta mig ekki á því hversu trúverðug sú afneitun er. En í ljósi þeirra orða, sem Inga Jóna Þórðardóttir, fulltrúi almennra hluthafa, lét falla um stjórnarhætti félagsins þegar hún sagði af sér á sínum tíma, þykir mér einsýnt að hún þurfi að stíga fram og greina frá því hvernig málið horfði við henni og nákvæmlega hvað gerðist.

Enn frekar hljóta menn þó að velta fyrir sér hver þáttur Ragnhildar Geirsdóttur, þáverandi  forstjóra FL Group var, en hún lét af störfum með einn glæsilegasta starfslokasamning Íslandssögunnar í kjölfar þessara atburða. Sem engir voru ef marka mátti orð hennar á þeim tíma og afneitun Hannesar nú.

Ef eitthvað er hæft í þessu blasir við að þarna var á ferðinni glæpsamlegt athæfi, samsæri stjórnenda og sumra eigenda almenningshlutafélags gegn öðrum hluthöfum. Það kallar á rannsókn.

Eða hvað? Samkvæmt dómum í Baugsmálinu var þarna kannski aðeins um viðskipti að ræða. Já, þau voru margslungin viðskiptin í „nýja hagkerfinu“.

— — —

Það er mikið talað um ábyrgð manna í samfélaginu. Það væri því máske ástæða til þess að velta fyrir sér ábyrgð dómara í Baugsmálinu, sem vildu fremur láta halla á réttvísina en þessa snillinga viðskiptalífsins. Í því samhengi geta menn velt fyrir sér hvernig sakborningar gátu fengið sýknu í afar venjulegu og lágkúrulegu tollsvikamáli vegna innflutnings á bílum, þar sem lögin eru skýr, sægur dómafordæma og réttarframkvæmdin í föstum skorðum um áratugabil.

Ábyrgðin liggur nefnilega víðar en oftast er talað um. Hver er til dæmis ábyrgð Viðars Más Matthíassonar og félaga hans í yfirtökunefnd? Sú nefnd var sett á laggirnar til þess að sýna fram á að markaðurinn gæti sjálfur tekið á ýmsum álitaefnum, sem upp kæmu, en hlutverk nefndarinnar var að leggja mat á það hvenær yfirtökuskylda myndaðist í hlutafélögum þegar einstakir hluthafar eða hluthafahópar væru orðnir svo ráðandi innan félags, að aðrir hluthafar mættu sín einskis.

Það er skemmst frá því að segja að Viðar Már og nefnd hans sá aldrei ástæðu til þess að úrskurða að yfirtökuskylda hefði myndast. Jafnvel ekki þegar 25% hlutafjár í FL Group skipti um hendur, öll stjórnin (nema Hannes) sagði af sér og í hana settust Jón Ásgeir Jóhannesson, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Sigurður Bollason og Magnús Ármann. Pálmi Haraldsson var ennfremur ekki langt undan í eigendahópnum. En seisei nei, Viðar Már taldi af og frá að þessir kappar væru að vinna saman, en samanlagt voru þeir með liðlega 60% hlutafjár í félaginu.

Því er við að bæta að nefndin lognaðist út af í sumar, engum harmdauði, enda erindi hennar og trúverðugleiki að engu orðin.

— — —

Rúmum mánuði eftir að ég skrifaði fyrrnefnda frétt var boðað til hluthafafundar hjá FL Group. Þar var samþykkt að auka hlutafé félagsins um 2/3, 44 milljarða króna, en það yrði þá samtals um 65 milljarðar króna og um 50 milljarðar þess handbærir til frekari fjárfestinga. Þetta var samþykkt með lófataki og raunar virtust flestir viðstaddra hinir ánægðustu með ástandið. Ekki þó allir, Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, spurði ýmissa óþægilegra spurninga, sem lutu að væntanlegri hlutafjáraukningu, kaupunum á Sterling og þrálátan orðróm um heimildarlausan fjármunaflutning stjórnenda hjá félaginu í sumar sem leið. Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður, varð til svara og svaraði í stuttu máli ekki. Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar, kvaddi sér einnig hljóðs, en var ekki jafngagnrýninn og Vilhjálmur. Sagði þó að sér sýndist menn ekki hugsa jafnvel um vörnina og sóknina. Það reyndust orð að sönnu þegar allt heila klabbið brann upp á mettíma. En ætli menn hefðu ekki átt að gefa orðum Vilhjálms meiri gaum.

Ég tók viðtal við Skarphéðinn Berg eftir fundinn og þar hafði hann m.a. þetta að segja við lesendur Blaðsins (spurningar mínar eru feitletraðar):

Vilhjálmur Bjarnason spurði á fundinum út í meinta fjármunaflutninga í heimildarleysi og ég hjó eftir því að þú nefndir að þess sæist ekki stað í sexmánaðauppgjörinu. En var það ekki einmitt málið? Mínar heimildir herma að greiðslan hafi verið látin ganga til baka, einmitt til þess að það kæmi ekki fram í uppgjörinu.

„Það er bara rangt. Þegar endurskoðandi skoðar bókhald og fjárreiður félags skoðar hann það ekki á tilteknum tímapunkti, heldur lítur á tiltekið tímabil. Ef það hafa átt sér stað svona greiðslur, sem ég veit raunar ekkert um annað en það sem ég hef séð í fjölmiðlum, á það að koma fram við endurskoðun á reikningum.“

En er það ekki mikilvægt fyrir almenningshlutafélag eins og FL Group að þegar slíkur kvittur kemst á kreik — hvort sem hann er réttur eða rangur — að eyða öllum vafa sem fyrst?

„Jújú, enda hef ég sagt að endurskoðun á bókhaldi og fjárreiðum félagsins vegna þessa árs hefst á næstu dögum. Þá verður vafalaust kannað hvort eitthvað er til í þessum sögum. “

Var skoðað sérstaklega af stjórninni hvort einstakir stjórnendur FL Group hafi komið að kaupum Fons á Sterling á sínum tíma?

„Mér dettur ekki í hug að svo sé. Það er ekkert kannað á hverjum morgni, sem menn mæta í vinnuna, hvort þeir hafi eitthvað á prjónunum en að sinna þeim verkefnum, sem þeim eru falin. Ég veit ekki til þess að það sé nokkurt tilefni til þess að vera með slíkar getgátur. Það er ekkert í starfsemi félagsins, sem mér er kunnugt um, sem bendir til þess að hlutirnir séu með öðrum hætti en þeir eiga að vera. “

 

Það mætti kannski spyrja Skarpa aftur núna? Eða ættu þar til bær yfirvöld e.t.v. loksins að skoða málið? Það væri gustuk, þó ekki væri nema til þess að fá á hreint afstöðu dómstóla til viðskipta af þessu tagi.


mbl.is Hannes vísar ásökunum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaraunir

Úr óútgefnum tölvuleik frá Kaupþingi. Sem sjá má er landið komið í heppilega stærð, þar sem pálmar blakta á baðströndunum, skóglendi umkringir háhýsin, stutt er að fara í fótbolta og nóg pláss fyrir einkaþotur.

Egill Helgason bendir á furðulega ráðstöfun hjá Royal Bank of Scotland. Fyrir um þremur árum kom út skýrsla frá greiningardeild þessa banka, þar sem fjallað var um KB banka, sem svo var nefndur það misserið. Þar var varað við einu og öðru hjá bankanum, sem eftir á að hyggja átti sjálfsagt við fleiri banka hér á landi.

Á þeim tíma var þessari gagnrýni tekið víðs fjarri, ekki aðeins af bönkunum, heldur afgreiddu ýmsir fjölmiðlar aðfinnslurnar, sem hroðvirkni, áróður eða öfund! Stórfenglegast var þó að lesa grein í Fréttablaðinu hinn 27. nóvember 2005, þar sem höfundur lýsti af fágætum næmleik og skáldlegu innsæi hvernig þessi lélega skýrsla var búin til:

Taktfastur slátturinn í lestinni er svæfandi og tíminn líður hratt þegar maður er önnum kafinn. Tom Jenkins situr í lestinni og hamast við að klára síðustu kaflanna [svo!] í stuttri greiningu sem á að senda viðskiptavinum bankans. Veröldin þýtur hjá utan lestargluggans og tíminn líka. Hann verður að ná að klára þetta… Lestin nálgast stöðina og hann lýkur við skýrsluna. Hefði kannski þurft að tékka nokkur atriði, en ákveður að setja punktinn aftan við og skýrslan er til. Hann finnur til feginleika um leið og hann bítur í neðri vörina og það er eins og hann verði skömmustulegur um stund. Síðan tekur straumur mannfjöldans hann með sér að næsta áfangastað.

Hver ætli sé skömmustulegur núna?

Sjálfur skrifaði ég forystugrein Blaðsins um þetta hinn 25. nóvember 2005. Mér sýnist að leiðarinn hafi elst furðuvel, þó hitt hafi að vísu komið á daginn að það var líkast til Kaupþing, sem stóð bankanna best að vígi.

Vafi um KB banka

Yfirleitt er litið svo á að heimskreppan mikla hafi hafist í New York hinn 29. október 1929, en menn gleyma því gjarnan að markaðurinn náði sér aftur á strik um hríð og um mitt næsta ár töldu flestir að niðursveiflan væri að baki. En undirstöðurnar voru veikar og það hrikti í stoðum fjármálastofnana. Hinn 11. desember 1930 komst einkabankinn United States Bank í þrot, en þó öðrum bönkum hefði verið í lófa lagið að koma honum til bjargar, höfðu hinir fínu bankamenn engan áhuga á því þar sem eigendurnir voru gyðingar. Þegar út spurðist að banki með svo voldugt nafn væri farinn á hausinn var ekki að sökum að spyrja: Á einni nóttu glötuðu allir bankar trausti almennings og kreppan hófst af alvöru og stóð í tæpan áratug.

Bankar eru hornsteinn efnahagslífsins og til þess að þeir geti gegnt hlutverki sínu þurfa þeir að hafa afar traustan fjárhag og bolmagn til þess að mæta áföllum. Fyrst og síðast þrífast bankastofnanir þó á trausti. Trausti almennings og annarra bankastofnana.

Að utan berast nú fregnir um að erlendar bankastofnanir efist um stjórn KB banka, að hann hafi tekið of mikla áhættu, m.a. með lánveitingum til skuldsettrar yfirtöku á fyrirtækjum og kaupum bankans sjálfs í þeim. Þá er vakin athygli á stærð bankans, hann sé ekki nógu stór til þess að geta forðast vandræði, en hann sé of stór til þess að íslenska ríkið geti hlaupið undir bagga með honum ef illa fer.

Hér er ekki um neinar bölbænir að ræða, en hinar erlendu bankastofnanir hafa augljóslega ríkar efasemdir um bankann, sem er ekki aðeins stærsti banki Íslands, heldur stór á evrópskan mælikvarða. Þær efasemdir munu óhjákvæmilega vekja efasemdir um aðra íslenska banka, hvernig sem þeim er stjórnað.

Íslenskir athafnamenn í útrás þekkja vel hvernig Baugsmálið hefur varpað skugga á önnur íslensk fyrirtæki á erlendri grundu. Vangaveltur af því taginu geta reynst fyrirtækjum afar erfiðar, en bönkum geta þær riðið að fullu.

Yfirmenn KB banka hafa með réttu bent á að hinar erlendu bankastofnanir hafi farið nokkuð geyst fram og nefnt dæmi um að þeir fari með meiri gætni, en þar var haldið fram. En á sama tíma geta þeir kennt sjálfum sér um. Þeir hafa ekki svarað ýmsum áleitnum spurningum um stöðu bankans eða eytt vafa um tilteknar ákvarðanir, fjárfestingar og viðskipti, sem ýmsum sögum fer af.

Slíkur vafi er óþolandi og KB banka ber að gera út um hann með hreinskilnum hætti, ekki aðeins vegna bankans sjálfs eða annarra íslenskra banka, heldur vegna íslensks efnahagslífs og orðspors landsins á alþjóðavettvangi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband