Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Greind, greining og Group

 

Frá greiningardeildum bankanna streyma álitsgerðir og greiningar, spádómar og speki. Ekki er það nú allt jafnfrábært. Það er t.d. minnstætt á dögunum, þegar Kaupþing batt vonir við það í afkomuspá sinni fyrir 365, að „góð innlend dagskrágerð [skilaði] auknum tekjum til félagsins á árinu“. Merkilegt nokk, var ekkert á það minnst að verkfall handritshöfunda vestanhafs (sem allt útlit er fyrir að verði langt og strangt) hafi minnstu áhrif á tekjurnar, en ef grípa þarf til mikilla endursýninga í stað þess að sýna glænýja þætti að vestan, er ekki útilokað að einhverjir áskrifendur fari að hugsa sig um.

Í Morgunkorni Glitnis  í morgun var bent á skýrslu er greiningardeild bankans hefur unnið um lausafjárvandann, stöðu og horfur. Orðið skýrsla er raunar fullhástemmt, því þetta er glærupakki, sem fróðlegt hefði verið að heyra kynninguna með. Ég ætla ekki að rekja efni glæranna, en víkja að niðurstöðunum, sem teknar eru saman aftast í kynningunni. Hvað skyldi nú vera þar efst á blaði?

Við teljum líklegast að sveiflur verði á helstu mörkuðum næstu mánuði

Var það virkilega?! Verða sveiflur á helstu mörkuðum? Og við sem höfðum búist við því að þar myndi ekkert haggast og öll línurit vera flöt! Svona eins og í línuritinu að ofan.

Þetta er sama greiningardeild og benti mönnum á það fyrir rúmum mánuði að kauptækifæri fælust í Kaupþingi, eftir hagnaður bankans var nokkuð undir væntingum.

Við höldum 6 mánaða markgengi okkar á Kaupþingi óbreyttu í 1.320 kr. á hlut og ráðleggjum fjárfestum að kaupa hlutabréf Kaupþings.

Síðan hefur gengi Kaupþings fallið um 17% úr 1.116 kr. í 925 kr. , en í sumar náði það langhæst í 1.280 kr.

FL Group

Áfram má halda. Í frétt hjá Dow Jones Newswires frá í morgun um sölu FL Group á 8% hlut sínum í AMR, móðurfélagi American Airlines, er það haft eftir Árna Frey Ólafssyni, greinanda hjá Glitni, að salan sé jákvæð þar sem hún „minnki áhættuna í eignasafni þeirra“. Heldur hann að FL Group sé lífeyrissjóður?

Annars er svo margháttaður misskilningur í gangi um FL Group, að maður veit ekki hvar á að byrja. Jafnvel stjórnarformaðurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, virtist ekki vera með eðli félagsins á hreinu í forsíðuviðtali við Viðskiptablaðið í gær:

Þrátt fyrir að markaðsvirði FL hafi lækkað að undanförnu er undirliggjandi rekstur félagsins enn með ágætum.

Undirliggjandi rekstur? Hvaða rekstur hefur fjárfestingafélag með höndum? Fyrir utan smávægilegt skrifstofuhald er hann vitaskuld enginn.  Gengi félagsins ræðst alfarið af því hvernig fjárfestingarnar lukkast og staðan er á mörkuðum, eins og FL Group er að súpa seyðið af núna. En Jóni Ásgeiri er kannski vorkunn, því rekstrarkostnaðurinn hjá FL Group hefur verið ævintýralegur. Óskiljanlegur raunar.

Aftur að greiningu Glitnis á sölu FL Group á AMR-bréfunum: Salan kann í sumra augum að vera jákvæð, því hún eyðir einhverri óvissu um félagið og menn hafa af því áhyggjur að AMR eigi eftir að fara illa út úr frekari hækkunum á olíumörkuðum. En þegar til þess er horft, að  AMR er í þann veginn að selja frá sér umtalsverðar eignir og fjárhagsstaðan því að batna (líkt og Hannes Smárason hvatti til í frægu bréfi), hlýtur það að vekja spurningar um bolmagn FL Group, að það geti ekki beðið þess í von um að hlutafjárverðið hækki ögn.

Í því samhengi er einnig áhugavert að velta fyrir sér gengi hlutabréfa í AMR á undanförnum árum. Sem sjá má á línuritinu voru hlutabréf félagsins nánast penníbréf fyrir fimm árum, en þá hafði erfiður samruni við Trans World Airways og áfallið við árásirnar á Bandaríkin 2001 reynst félaginu þungt í skauti. Árið 2003 tók hins vegar hagur Strympu að vænkast nokkuð ört og vonir voru bundnar við að félagið væri komið á beinu brautina. Sumir töldu jafnvel að hlutabréfaverðið kæmist í svipaðar hæðir og fyrir áratug, þegar það var í ríflega $60. Kannski Hannes hafi verið einn þeirra, en á einhverju hlýtur hann að hafa byggt stöðutökuna í AMR.

Ég veit ekki hvenær FL Group hóf að kaupa hlutafé í AMR, en líkast til gerðist það undir lok árs 2006, því á jólum í fyrra var greint frá tæplega 6% eign FL í félaginu, en þá stóð hluturinn í um $30. Við næstu viðskipti eftir áramót hækkaði gengið nokkuð, í liðlega $40, og hélst á því róli fram í næsta mánuð og einmitt þá ákvað FL Group að auka hlut sinn enn. Síðan fór aftur að halla undan fæti og hefur gengið lækkað jafnt og þétt niður í um $20, þar sem það er nú.

Það er erfitt að átta sig á því hver stefna FL Group gagnvart AMR hefur verið og hvers vegna henni er breytt nú. Eftir á að hyggja mætti halda því fram að FL Group hafi tímasett kaup sín á hlutum í AMR af mikilli nákvæmni til þess að hámarka tap sitt á viðskiptunum, en það nemur um 15 milljörðum króna. Fyrsti bitinn var tekinn þegar AMR var í hæsta verði í meira en 5 ár, en sá síðari einmitt þegar nýju hámarki hafði verið náð. Og nú er selt, þegar það er lægra en nokkru sinni á eignarhaldstíma FL Group í félaginu.

Jú, kannski það sé jákvætt í einhverjum skilningi, því það verður varla við svo búið unað. Það hefur gengið erfiðlega að ná í Hannes til þess að ræða stöðu félagsins við hann, sem hlýtur að teljast verra þegar almenningshlutafélag á í hlut. Mér segir svo hugur um að þegar það næst í hann, verði hugað að uppstokkun í yfirstjórn félagsins.


Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband