Leita í fréttum mbl.is

Leiftursókn frjálslyndra

Nú liggur það fyrir að Magnús Þór Hafsteinsson var endurkjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins og um leið hefur þingflokkurinn staðfest völd sín í flokknum. Margrét Sverrisdóttir kveðst ætla að hugsa sinn gang eftir hinn nauma ósigur sinn, en ég fæ ekki séð að henni sé vært í flokknum lengur. Tala nú ekki um ef Samfylkingin getur fundið gott sæti fyrir hana. Aðalástæðan er þó grundvallarágreiningur um stefnuna í innflytjendamálum, sem Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, hamraði á í setningaarræðu sinni.

Það getur skipt sköpum um framvindu mála í komandi kosningum hvort Margrét hrekkur eða stekkur.

Skoðanakannanir benda til þess að mjótt verði á mununum hjá smáu flokkunum á miðju og vinstri væng stjórnmálanna. Fylgið hefur haldið áfram að kvarnast af Samfylkingunni og er aðeins um 18,5% samkvæmt hinni síðustu. Það þýðir að flokkurinn er að komast á jaðarinn, getur fengið að vera með, en verður tæpast það forystuafl á vinstri vængnum, sem að var stefnt. En hugsanlega gæti innreið Margrétar Sverrisdóttur verið sú blóðgjöf, sem Samfylkingin þarf svo ljóslega á að halda ef hún á ekki að enda í jafnaðarstyrk Alþýðuflokksins gamla. Og hver veit, kannski Margrét sé einmitt sá aðsópsmikli forystumaður með kjörþokka, hugsjónir, hreinan skjöld, óspjölluð af flokkadráttum og innanflokkserjum fortíðar, sem Samfylkinguna skortir — jafnvel fyrr en nokkur hugði — til þess að taka við formennsku flokksins.

Skoðanakannanirnar upp á síðkastið hafa gefið til kynna að hið pólitíska landslag sé að breytast ört. Í stórum dráttum má segja að þar veki afhroð Samfylkingarinnar mesta athygli, samsvarandi stórsókn vinstrigrænna, lífsbarátta framsóknar og uppgangur frjálslyndra.

Könnun Fréttablaðsins um liðna helgi var afdráttarlaus um þetta og hún var að mínu viti nokkuð söguleg. Hún var þriðja skoðanakönnunin í röð, sem gaf til kynna að Frjálslyndi flokkurinn gæti náð um 10% atkvæða í komandi kosningum. Það út af fyrir sig segir manni að fyrri mælingar voru engin slys og mér blandast enginn hugur um að því veldur upphlaup flokksins í útlendingamálum og ekkert annað. Ekki svo að skilja að frjálslyndir hafi tekið af skarið í þeim efnum og fráleitt er að jafna þeirri orðræðu við kynþáttahyggju, en hitt er deginum ljósara, að flokkurinn hefur náð eyrum fjölmargra, sem bera ugg í brjósti um áhrif nýrra landnema og efast um ágæti fjölmenningarsamfélagsins. Þær áhyggjur og efasemdir eru ekki úr lausu lofti gripnar, þó draga megi í efa að frjálslyndir hafi snjöll svör á reiðum höndum, en þeir eru þrátt fyrir það eini stjórnmálaflokkurinn, sem vakið hefur máls á þeim, og auðvitað höfðar það til einhverra.

Fyrst þegar frjálslyndir sóttu í sig veðrið mátti greina fylgistap hjá Sjálfstæðisflokknum, en úr því dró í næstu könnun og nú virðist það nær engin áhrif hafa á fylgi hans. Sjáum nú til hvernig það fer, en það blasir við að frjálslyndir eru engan veginn að sækja hið nýja fylgi sitt í þann rann einan. Umrótið á vinstri vængnum og hátt hlutfall þeirra, sem ekki vilja eða nenna að svara, kann þó að valda einhverju um og síðan má ganga að því sem gefnu að sjálfstæðismmenn uppskera ekki jafnmikið í kosningum og kannanir gefa til kynna.

Átökin meðal frjálslyndra kunna þó að setja strik í reikninginn. Fari Margrét mun hún örugglega taka talsvert fylgi með sér, einkum hinn gamla flokkskjarna, sem hefur skömm á innflytjendaorðræðu þingflokksins. Það er sjálfsagt ekki minna en 3% af fylgi flokksins, en með því að flytja sig á þekkilegri stað gæti hún hæglega uppskorið meira, sérstaklega ef hún nær sér á strik með viðræðu við almenning og setur fram markviss málefni. Fram að þessu hefur kjörþokki hennar byggst á þægilegri nærveru og skynsamlegri, almennri pólitík á mannamáli, en kjósendur þurfa að vita meira um fyrir hvað hún stendur til þess að hún nái umtalsverðum árangri.

Og þeir, sem eftir sitja í Frjálslynda flokknum? Þeir munu að venju sigla fram með eitt málefni í stafni og sjálfsagt uppskera betur en nokkru sinni. En varla nema rétt undir 10% ef vel gengur. Um leið munu þeir uppskera víðtæka fyrirlitningu á málstað sínum og erfitt er að sjá að nokkur annar flokkur vilji leiða þá til áhrifa. Verði þeim að góðu.


mbl.is Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Ditto. Vel að orði komist að venju.

Guðmundur H. Bragason, 28.1.2007 kl. 01:45

2 identicon

Cactus telur vandamálið vera Magnús Þór Hafsteinsson. Ruglaður skratti.

Fyrst sonur Grundartanga Jóns.

Þá Gunnar Örlygsson.

Því næst Margrét Sverris.

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 12:18

3 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Hvernig er það Andrés.

Ertu hættur að blogga? 

Hlynur Jón Michelsen, 9.2.2007 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband