Leita í fréttum mbl.is

Ávextir launaleyndar

Menn eru talsvert að ræða nýtt jafnfréttisfrumvarp, sem Magnús Stefásson félagsmálaráðherra boðaði í Þjóðmenningarhúsi á dögunum að yrði lagt fram á nýju þingi í haust. Helst hafa menn staldrað við afnám launaleyndar, sem mælt er fyrir um í því. Hin viðteknu viðhorf, sem þessi tillaga byggir á, virðast vera þau, að „afnám launaleyndar [sé] líklega einhver árangursríkasta leiðin sem kostur er á til þess að leggja til atlögu við hina djúpstæðu meinsemd: Kynbundinn launamun.“ Eða svo sagðist Guðmundi mínum Steingrímssyni frá.

Ég dreg ekki í efa einlægan ásetning manna í þeim efnum, en mér finnst nokkuð á vanta, að menn hafi rökstutt að afnám launaleyndar sé árangursríkasta leiðin til þess. Sérhver íhlutun hins opinbera í frjálsa samninga er íþyngjandi og felur í sér dulinn kostnað, ómældan og mælanlegan. Ekki aðeins fyrir hlutaðeigandi heldur þjóðfélagið allt. Þá verð ég einnig að minnast á að mér finnst með ólíkindum – í ljósi þess hversu aðkallandi vandinn er sagður vera — hvað allar upplýsingar um meintan kynbundinn launamun hafa reynst vera óljósar og misvísandi; hinum ýmsu „rannsóknum“ ber fráleitt saman, framsetning á niðurstöðum hefur reynst vera villandi og allri gagnrýni nánast tekið sem guðlasti. Hvað þá að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti, að launamunurinn sé í raun og veru kynbundinn.

Áður en menn ausa úr skálum reiði sinnar um það í athugasemdunum vil ég benda mönnum á að kynna sér grein Helga Tómassonar, dósents við Háskóla Íslands, doktors í tölfræði og fyrrverandi starfsmanns kjararannsóknanefndar, sem birtist í vetrartölublaði Þjóðmála árið 2005. Greinin bar fyrirsögnina „Tölfræðigildrur og launamunur kynja“ og í henni leiddi dr. Helgi rök að því að ekki liggi fyrir upplýsingar, sem réttlæti staðhæfingar um kynbundinn launamun. Greinin hlaut furðulitla umræðu miðað við hversu glatt menn hafa rætt um kynbundinn launamun sem sjálfgefna staðreynd og þær alvarlegu ábendingar, sem dr. Helgi hafði fram að færa. Svona er þetta nú stundum á Íslandi þar sem unnt virðist að kveikja í þjóðfélaginu öllu með órökstuddum staðhæfingum, en þegar einhver leyfir sér að leggja orð í belg út frá staðreyndum máls, viðurkenndum vísindum og óyggjandi orsakasamhengi virðst þögnin grúfast yfir hann ef niðurstaðan er ekki í samræmi við hina viðteknu orðræðu rétttrúnaðar dagsins. Galíleó hvað?

Aftur að launaleyndinni: Afnám hennar með lögum er að mínu viti svo veigamikla íhlutun hins opinbera í samningsfrelsi borgaranna, að þar þurfa að koma mun afdráttarlausari og brýnni rök en þegar hafa verið lögð fram. Í því samhengi þarf að sýna fram á að launamunurinn sé í raun kynbundinn, en helgist ekki af öðrum aðstæðum. Þá þarf að sýna fram á að ekki sé unnt að ná sömu markmiðum með vægari aðgerðum hins opinbera eða öðrum hætti. Loks verður að sýna fram á það svo ekki verði um efast, að þessar aðgerðir séu í raun til þess fallnar að ná markmiðunum, en láta ekki nægja að greina frá því að einhver nefnd telji annað ósennilegt.

Nú er rétt að ítreka að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að launþegar verði skikkaðir til þess að láta laun sín uppi, heldur er fyrirboðið að atvinnurekendur geti gert „það að skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns, að honum sé bannað að veita þriðja aðila upplýsingar um laun sín eða kjör“.

Afleiðingar ákvæðisins eru engan veginn ljósar, en þó held ég megi fullyrða að vinnuveitendur muni fremur veigra sér við að umbuna góðum starfsmönnum en áður. Eins hygg ég að menn hafi ekki hugleitt áhrifin á samkeppni fyrirtækja um starfsmenn, því ekkert í lögunum bannar atvinnurekendum að krefjast þess af umsækjendum að þeir veiti upplýsingar um kaup og kjör hjá fyrri vinnuveitanda og setji það sem skilyrði fyrir ráðningu. Finnst mönnum það frábær hugmynd? Enn eitt mætti tína til: Sumir sérfræðingar eru svo eftirsóttir og fágætir, að ráða verður þá framhjá launastrúktúr fyrirtækisins. Launin geta þannig orðið verulega hærri en hjá flestum yfirmönnum þeirra og önnur algeng viðmið á borð við starfsaldur, menntunarstig og því um líkt þurfa að fjúka út um gluggann. Slíkt væri varla hægt án áskilins trúnaðar.

Ein augljós afleiðing alls þessa er þó sú, að verktakasamningar munu aftur færast í vöxt. Er launþegum greiði gerður með því?

Í þessu tilviki, eins og flestum öðrum ráðagerðum, megum við ekki missa sjónar af mælanlegum staðreyndum um afleiðingarnar og tapa okkur í orðagjálfri um göfug markmið. Af þeim er ávallt nóg, en afleiðingarnar eru einatt á aðra og ófyrirséða lund. Jesús orðaði þetta fallegar í fjallræðunni: „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá“ (Matt. 7:16).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Ragnarsson

Það er ekkert nýtt að fólk geri geggjaða hluti og hagi sér eins og bjánar í góðri trú. Það er heldur ekkert nýtt að pólitík rétthugsun gangi út í öfgar og breytist í andhverfu sína. Við sáum það nýlega á umræðunni um fyrirhugaða ráðstefnu framleiðenda á kynferðislega opinskáu efni þar sem kastjósinu var skyndilega beint að mansali og barnaklámi sem kom þessum væntalegu ráðstefnugestum ekkert við. Umræðan gekk jafnvel enn lengra og náði sennilega toppnum í ”Smáralindarkláminu” í  vikunni. Hvað launaleynd varðar eru gild rök bæði með og á móti en ég er ekki viss um að löggjöf, boð eða bönn þar að lútandi bæti eitt né neitt. Þessi pistill þinn er hins vegar athyglisvert innlegg í umræðuna.

Víðir Ragnarsson, 10.3.2007 kl. 15:10

2 identicon

Alveg er ég sammála þér með málsgreinina um skrif dr. Helga og umræðurnar á Íslandi.

Það er eitt sem ég hef velt fyrir mér varðandi afnám launaleyndar og það er eftirfarandi atriði sem ég lærði einu sinni í hagfræði-námskeiði

Eitt af megin skilyrðum skilvirks og samkeppnishæfs markaðar, er óhindrað og fullkomið upplýsingaflæði.

Er ekki afnám þess að fyrirtæki geti skikkað mönnum til að gefa ekki upp upplýsingar um laun, liður í því að auka upplýsingaflæði og þar með stuðla að samkeppnishæfum og skilvirkum markaði.

Leiðréttu mig endinlega, því ég held þú vitir meira en ég um hagfræði.

Hlynur (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband