Leita í fréttum mbl.is

Samráð við Göran

Það var vel til fundið hjá núverandi formanni Samfylkingarinnar að fara til Svíþjóðar á landsfund jafnaðarmanna í höll alþýðunnar um leið og verið er að ljúka þingstörfum á Íslandi og kosningabaráttan hefst af alvöru.

Spurningin er bara sú, hver eigi að læra af hverjum. Sænskir sósíaldemókratar eru einmitt að funda til þess að velja sér nýjan formann eftir að Göran Persson leiddi flokkinn til kosningaafhroðs í fyrra. Gaman að segja frá því að þar í landi líta jafnaðarmenn á það sem afsagnarástæðu formanns þegar flokkurinn fær aðeins 35% úr kjörkössunum. Það er eins og mig rámi að hafa heyrt þá prósentu nefnda áður… bara í öðru samhengi.

Ósigur Görans fólst í því að tapa 4,8% atkvæða frá kosningunum 2002, en fyrir vikið misstu þeir 14 þingsæti, fóru úr 144 sætum í 130.

Hvað ætli íslenskir jafnaðarmenn geti lært af systurflokknum í Svíþjóð?

Horft um öxl 
Árið 2002 hafði Samfylkingin verið í jafnri og góðri sókn í skoðanakönnunum, farið úr 26,8% kjörfylgi í kosningunum 1999 í 32-35% fylgi að jafnaði og raunar farið fram úr Sjálfstæðisflokknum í janúar 2003 með 38% fylgi. Svo var tilkynnt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Í framhaldinu útskýrði hún að ekkert minna en 35% kjörfylgi væri ásættanlegt, en auk þess ætti að fella ríkisstjórnina og hún að verða forsætisráðherra. Þjóðin svaraði þessari áskorun og næstu vikur minnkaði fylgi flokksins aftur hratt og örugglega. Í kosningunum fékk Samfylkingin svo 31% atkvæða, en skömmu áður hafði markið raunar verið lækkað í 32%. Hin markmiðin náðust ekki heldur og til þess að bæta gráu ofan á svart náði forsætisráðherraefnið ekki inn á þing.

Í framhaldinu minnkaði fylgið nokkuð áfram, en náði nokkru jafnvægi í kringum 28% þar sem það hélst út árið, en um haustið hafði Ingibjörg Sólrún gerst varaformaður flokksins. Upp úr áramótum 2003-2004 hélt hún svo utan til náms. Þá stóð fylgið í 26%. Varaformannslausum tókst Össuri Skarphéðinssyni þó bærilega að þrauka veturinn og kom flokknum upp í 34% í janúar 2005. Lengst af frá landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 hefur leiðin legið niður á við og aldrei náð fyrri hæðum. Fylgi í kringum 25% var vanalegast, en undanfarna mánuði hefur það farið niður í um 20% (±2% eftir því hvaða könnuði skal trúa) Þá undanskil ég raunar könnun Fréttablaðsins í fyrrihluta febrúar, en ég held að hún hafi verið eitthvað misheppnuð, enda mjög á skjön við allar aðrar kannanir, sem gerðar voru um svipað leyti.

Með öðrum orðum hefur Ingibjörg Sólrún helmingað fylgi Samfylkingarinnar frá því hún færði sig með braki og brestum úr Ráðhúsinu yfir í landsmálin. Þegar spurt er um traust stjórnmálamanna eða hverjum fólk treysti best til þess að gegna embætti forsætisráðherra hefur útkoman reynst enn hraklegri fyrir hana. Í fyrrnefndri Fréttablaðs-könnun, þar sem heil 27,9% svarenda kváðust styðja Samfylkinguna, voru ekki nema 12,1% sem treystu henni best af stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar. Jafnvel í lýði þar sem stuðningsmenn Samfylkingarinnar voru nánast örugglega fleiri en með réttu, var traustið á þessum mikla mannkynsfrelsara ekki meira en raun bar vitni. Og það sem verst var: Þrír af hverjum fimm stuðningsmönnum Samfylkingarinnar treystu einhverjum allt öðrum en henni betur fyrir lyklavöldum í stjórnarráðinu.

Hvað hefði Göran gert?

Í þessum ömurlegu sporum er vandséð að Göran Persson hefði látið nægja að segja af sér formennsku. Ég hugsa að hann hefði flutt til Túrkmenistan, skipt um nafn, fengið sér vefjarhött og safnað skeggi.

Það er hins vegar engin hætta á því að Ingibjörg Sólrún geri eitthvað slíkt alveg í bráð. Til þess er afneitunin of sterk. Aðspurð um fylgistapið horfir hún aðeins á síðustu vikur og segir skýringuna vera þá, að konur séu sérfræðingar í samviskubiti og sektarkennd! Með því átti hún við að margar konur, sem áður hefðu stutt Samfylkinguna, sæju nú eftir því að hafa ekki staðið upp gegn Kárahnúkavirkjun á sínum tíma og hölluðu sér því að vinstrigrænum þessa dagana af iðrun og til yfirbótar. Er það virkilega? Í ljósi þess, að Samfylkingin (og ekki síst Ingibjörg Sólrún sjálf) studdi stóriðjuna fyrir austan, er hún sumsé að segja, að stuðningsmennirnir hefðu átt að flýja miklu fyrr. Eða hvað? Enginn er jafnblindur og sá sem ekki vill sjá.

Kropið við kagann
Nú eru 57 dagar til kosinga og auðvitað tómt mál að tala um afsögn Ingibjargar svo skömmu fyrir kosninga, þó sumir hafi látið í það skína að Kanaríeyjaferðin á dögunum hafi nánast verið flótti frá raunalegum raunveruleikanum hér heima. Eftir það sem á undan er gengið gæti hún enda ekki verið þekkt fyrir að skilja flokkinn eftir í sárum rétt fyrir kosningar. Þá er frekar að setja hausinn undir sig og vona það besta, en búa sig undir hið versta.

Sumir vinir mínir í Samfylkingunni segja raunar að niðurlægingin sé orðin slík, að ástandið geti ekki annað en skánað úr þessu. Það kann að vera rétt hjá þeim, en ég hygg að slíkt sé háð utanaðkomandi ástæðum; hneykslismáli í öðrum flokki, efnahagsáföllum, íhlutun Guðs eða ámóta. Það sé a.m.k. ekki fyrir mér að Ingibjörg Sólrún nái sér á slíkt strik, að það muni valda einhverjum straumhvörfum í kosningabaráttunni. Og haldi einhverjir, að vinstrigrænir séu komnir að endimörkum vaxtarins í fylgi, þykir mér rétt að minna á að þeir eru ekki einu sinni byrjaðir að nota sitt nýja og ferska fólk að neinu ráði. Þegar þær Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir fara að beita sér er hætt við að afgangurinn af kvennafylgi Samfylkingarinnar hugsi sér til hreyfings. Og einhverjir karlarnir örugglega líka.

Fari sem horfir mun Samfylkingin fá sinn versta skell frá því stofnað var til kosningabandalagsins, sem síðar varð flokkur. En þá er flokknum það líkast til einnig hollast að enginn velkist í vafa um ábyrgðina á ósigrinum. Með afsögn eftir kosningar gæti núverandi formaður þá dregið strik í tímans sand, tekið fúla fortíðina með sér og gefið flokknum tækifæri til þess að endurnýja sig og erindi sitt.

Spyrjið bara Göran!


mbl.is Ingibjörgu Sólrúnu boðið á landsfund sænska Jafnaðarmannafloksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband