Leita í fréttum mbl.is

Yðar skál!

Góðir hlutir gerast hægt var mér einhverntíman kennt. En fyrr má nú rota en dauðrota. Hugmyndir um sölu léttvíns og bjórs hafa skotið upp kollinum með reglubundnum hætti undanfarna tvo áratugi og lengur jafnvel, en það er nú fyrst sem það hillir undir að málið kunni að mjakast áfram og ekki seinna vænna, því þetta er í þriðja sinn, sem þetta tiltekna frumvarp er lagt fram af Guðlaugi Þór Þórðarsyni og félögum hans í þinginu, bæði úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki. Sú seigla er þakkarverð, en nú hefur Allsherjarnefnd afgreitt málið til annarar umræðu og mælir með því að frumvarpið verði samþykkt. Aðeins Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstrigrænna, var því andvíg í nefndinni, en meirihluti er sjálfsagt fyrir málinu á þingi (séu menn nógu vel fyrir kallaðir til þess að mæta).

Flutningsmennirnir ásamt Gulla voru þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni BenediktssonSigurður Kári Kristjánsson, Arnbjörg SveinsdóttirPétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már SigurðarsonKatrín Júlíusdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Örlygsson, Ásta Möller og  Sigurrós Þorgrímsdóttir. Ég er almennt þeirrar skoðunar að þjóðin geti betur treyst þeim þingmönnum, sem treysta henni, en hinum sem líta á það sem sitt helsta hlutverk að hafa sífellt vit fyrir henni.

Við þetta er því svo að bæta að Kjartan Ólafsson, þingmaður úr Ölfusi, vildi ganga lengra en þetta í Allsherjarnefnd og hefur lagt fram fram breytingartillögu um að einkaleyfi ÁTVR til smásölu á áfengi verði afnumið með öllu, en fyrrgreind tillaga tekur aðeins til víns og bjórs.

Í kvöld hyggst ég skála fyrir flutningsmönnum frumvarpsins og stuðningsmönnum þess á þingi. Það mun ég gera með barmafullu glasi af Jim Beam í kók. Fyrir Kjartani mun ég svo skála tvisvar. 

 


mbl.is Allsherjarnefnd afgreiddi frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á léttvíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Núverandi meirihluti hefur haft heil 12 ár til að afnema einokunn á léttvíni og bjór en kosið að þagga málið niður þing eftir þing.  Málið hefur verið svæft í nefnd mörg þing í röð og þetta er gert þrátt fyrir að skoðanakannanir sýni að almenningur vill breyta þessu fyrirkomulagi og afnema ríkiseinokunina.   En það er spurning hvort að þetta séu ekki framkvæmdastjórnmál í hnotkskurn, þ.e. að tala digurbarklega um framkvæmdir en gera svo ekkert í málunum.

Annars bendi ég á nýjasta pistil minn um þessi mál á www.sigfus.blog.is

Sigfús Þ. Sigmundsson, 16.3.2007 kl. 11:22

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Ég hygg að hér ræði fremur um hina gamalkunnu sjálfheldu sérhagsmunanna. Stjórnmálamenn í öllum flokkum hafa óttast stórfenglegar árásir áhugafólks um áfengisvandamálið, ungmennafélögum, kvenfélögum, íþróttahreyfingunni, afskiptasömu fólki og svo framvegis. Kommarnir mega svo ekki heldur til þess hugsa að nokkuð kvarnist úr ríkinu. Þá má ekki gleyma því að tengsl templara við verkalýðshreyfinguna eru enn til staðar, þó þau séu vissulega veikari en áður. En nú virðast frjálslyndir menn í meirihluta á þingi og sá meirihluti gengur þvert á flestar flokkslínur.

Andrés Magnússon, 16.3.2007 kl. 12:04

3 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Ekki Jim Beam Andrés. Svo góðu frumvarpi á að skála fyrir í góðu Whisky. Veldu gamalt skost malt whisky.

Hlynur Jón Michelsen, 16.3.2007 kl. 15:58

4 identicon

Maður á nú eftir að sjá frv. fara í gegnum þingið. Það er í reynd alveg stórfurðulegt að þeir sem ekki nota áfengi skuli alltaf hafa mestu áhrifin á stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Er ekki kominn tími til að hlusta á sjónarmið neytenda? Auk þess er verðlagning á áfengi út úr öllu korti. Í seinni tíð hafa menn fundið út að heilsufarsleg sjónarmið ráði för í þessu efni. Það eru handhæg lygarök. Sannleikurinn er auðvitað sá, að hér er um að ræða ofurskattheimtu á neytendur. Sá sem ekki notar áfengi lætur sér í léttu rúmi liggja verð á vínflösku, hans vegna mætti hún kosta milljón. Mér væri nokk sama þótt mjólkurpotturinn kostaði 1000 kr. en samt vil ég þó taka tillit til þeirra sem vilja neyta mjólkur.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 21:58

5 Smámynd: Sverrir Einarsson

Ég er strax farinn að sjá fyrir mér börnin sem eru að afgreiða í Bónus og öðrum stórmörkuðum neita vinum og kunningjum á sama aldri um afgreiðslu á áfengi hehe. Vil benda á að í stórmörkuðum eins og t.d. 10-11 vinna krakkar sem mega ekki neyta tóbaks að selja jafnöldrum sínum án athugasemda þau versla þetta bara um leið og snakkið, er ekki alveg farinn að sjá þau breyta neinu þó það verði áfengi í innkaupakörfunni.

Fyrst þú ert nú að auglýsa áfengi (whisky) er það líka reyndu þá að aglýsa almennilega tegund..

ps mér er slétt sama hvort tóbakspakkinn kosti 10 eða 1000 kr sama er með vínflöskuna eða kippuna af bjór má mínvegna kosta 10 þús.
en ég nota mjólk í kaffið og er þvi ekki sama um verðið á mjólkurlítranum.......er þett ekki bara spursmál um neyslu hvort einhver láti sig varða verðið. Meðan við flytjum ekki inn mjólk þá erum við að styðja Ísl. landbúnað.

Sverrir Einarsson, 18.3.2007 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband