Leita í fréttum mbl.is

Í upphafi skyldi endinn skoða

Ég var að glugga í blöðin frá í morgun, svona til þess að sópa upp það, sem ég skildi eftir í morgun. Þá rak ég augun í grein eftir Mörð Árnason. Við eigum ýmislegt saman að sælda, þó sjálfsagt verðum við trauðla sammála í pólitík. Frekar en feður okkar, sem voru miklir vinir þrátt fyrir djúpstæðan pólitískan ágreining og það í Kalda stríðinu. En við Mörður getum alltaf verið sammála um KR, oft (en ekki alltaf) um íslenskt mál og það hefur jafnvel komið fyrir að við getum deilt skoðun á stöku þjóðþrifamáli. Og svo á hann það til að vera skemmtilegur.

Grein Marðar fjallaði um jafnréttisfrumvarpið svo nefnda, sem Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, boðaði að yrði lagt fram á næsta þingi. Í greininni (sem enn er ekki að finna á vefsetri Marðar, en birtist þar vafalaust innan skamms) var hann að skamma stjórnarþingmenn og þá sérstaklega flokkssystkin mín á þingi fyrir að hafa komið í veg fyrir að frumvarpið hefði verið lagt fram fyrir þinglok. Rakti svo einhverjar kenningar um það allt saman.

Mörður lét þó ekki þar við sitja, heldur taldi hann upp nokkrar greinar frumvarpsdraganna, sem honum fundust alveg sérstaklega frábærar. Ég fjallaði aðeins um drögin þegar þau voru kynnt, en þau þóttu mér alveg einstaklega galin í veigamiklum atriðum, vanhugsuð og hættuleg.

Hinn ágæti 7. þingmaður Suður-Reykjavíkur minnti mig hins vegar á að þar var að finna miklu meiri dellu, en ég komst yfir að gagnrýna á sínum tíma. Eins og að öllum vinnustöðum með fleiri en 25 starfsmenn beri að gera reglulegar jafnréttisáætlanir. Líkt og sjá má á myndinni að ofan er starfsmaður Gúmmívinnustofunnar í Skipholti næsta ráðvilltur svona gersamlega jafnréttisáætlunarlaus. En úr því vill Mörður bæta með reglulegum hætti. Það kallar væntanlega á nýja og ferska eftirlitsskrifstofu hins opinbera til þess að ganga úr skugga um að hin 807 fyrirtæki landsins, sem hafa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði, skili inn reglulegum jafnréttisáætlunum, að eitthvað sé í þær varið, að þær séu í samræmi við anda og orð laganna, að starfsmönnum séu kynntar þær með viðunandi hætti og fyrirtækin uppfylli önnur þar að lútandi ákvæði þessara íþyngjandi laga.

En ég hnaut um annað í grein Marðar, sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Sumsé ákvæði frumvarpsdraganna um að með sérhverju „stjórnarfrumvarpi sem ráðherra leggur fram á Alþingi skal fylgja umsögn þar sem efni frumvarpsins er metið með tilliti til jafnréttissjónarmiða.“ Með öðrum orðum er lagt til að ekkert stjórnarfrumvarp sé tækt til meðferðar á Alþingi án þess að það hafi fyrst fengið jafnréttisvottun.

Lötum þingmönnum finnst kannski gott að hafa slíkar vottanir við höndina og hundinginn ég efast ekki um að innan ekki of margra ára verði ótal vottorð önnur áskilin með frumvörpum: umsögn út frá mögulegum umhverfisáhrifum, lýðheilsusjónarmiðum, menningaráhrifum og alls kyns öðrum mögulegum og ómögulegum áhyggjustöðlum dagsins. Nú eru fæst lög samin á löggjafarþinginu en draumurinn felst sjálfsagt í því að þingheimur þurfi ekki að taka afstöðu til neins nema vottorða skriffinnanna. Hinna sömu og skrifuðu þau.

Það er hins vegar svo merkilegt, að það er sjaldnast kynnt í umræðu um frumvörp hvað þau kunni að kosta. Væri ekki nær að kveða á um það að ekkert frumvarp megi leggja fram án þess að reiknaður hafi verið út kostnaðurinn sem af því hlýst; bæði fyrir ríkissjóð og einstaka skattborgara, en ekki síður þá sem bera þurfa kostnað er hlýst af ákvæðum laganna? Ætli þingmenn myndu ekki hugsa sig betur um og vér kjósendur gefa þeim betur auga?

Mér dettur líka í hug, að nýafstaðnar kosningar í Hafnarfirði hefðu farið á annan veg ef kjósendum hefði verið gerð grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum þeirra kosta, sem í boði voru.

Eins og ég hef oft minnt á hér sem annars staðar eru markmið — göfug sem jarðbundin — ekki gild röksemd fyrir lagasetningu eða stjórnarstefnu ein og sér. Það eru afleiðingarnar, sem máli skipta. Að því mætti oftar gæta við löggjöfina. Rétt eins og frumvarpsdrögin að jafnréttislögum verða ekki frábær fyrir það eitt að vera kennd við jafnrétti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Skelfilega er ég sammála þér í þessu máli. Til eru fullt af góðum lögum og ákvæðum sem lúta að jafnrétti kynjanna. Allt er meir og minna galopið svo langt sem lög geta náð. Nú virðist krafan vera sú að setja lög sem neyða fólk til að nýta þessi réttindi hvort sem því líkar betur eða ver, hvart sem það hefur áhuga eður ei. Menn enda sjálfsagt með að skipta þinginu upp í deildir (kvenna og karla) og setja numerus clausus út um allt. - Góður punktur hjá þér þetta með vottunina hægri vinstri. Þá þurfa þingmenn ekki að vinna! Hin hliðin er, - setjum lög, lög, þá þurfum við ekki að berjast fyrir neinu eða leggja eitthvað á okkur.

Pétur Tyrfingsson, 5.4.2007 kl. 13:04

2 identicon

2. mgr. 30. gr. þingskaparlaga hljóðar svo

"Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð."

Fjasið um að ekki sé fjallað um kostnað af frumvörpum á því ekki rétt á sér.  Þetta eiga menn að vita sem fylgjast með þingstörfum.

Þröstur Þórsson (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 15:44

3 identicon

Getum við ekki einfaldað vitleysuna og sett í stjórnarskrá:"Hvorki má leggja fram stjórnarfrumvarp né þingmannafrumvarp á Alþingi, án þess að það hafi fyrst verið lagt undir mælistiku "hins vísindalega sósíalisma". Verði undan þessu vikist skulu flutningsmenn tafarlaust sendir á námskeið í réttu verklagi. Námskeiðið skulu annast menntamenn úr Vg og Sf og skal það haldið að Bifröst, en þó aldrei nema með aðkomu Stofnunar í jafnréttis- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Aukinheldur skulu fulltrúar frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Menningar og friðarsamtökum íslenskra kvenna halda valda fyrirlestra allt eftir eðli yfirsjónarinnar. Bregðist þetta, skulu viðkomandi stjórnmálamenn sendir í langtímameðferð." 

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 17:58

4 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Gengur ekki upp Gúsaf. Þetta fólk er svo illa lesið eins og allir vita og vitleysan í því hallast öll frá en ekki að hinum "vísindalega sósíalisma".

Pétur Tyrfingsson, 5.4.2007 kl. 20:01

5 identicon

Við getum jú Pétur skipt út orðunum um hinn "vísindalega sósíalisma" og sett í staðinn "vísindalegan femínisma" og þá gengi dellan kannski upp?

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 20:50

6 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Hvaða deila? Ég á ekki í deilu við þig. Andrés er löngu búinn að gefa í skyn þau skriðuhlaup sem þú ýjar að eða þá niðursöllun í fáránleika (reductio ad absurdum) sem þú ert að reyna að koma áframfæri. Reyndu ekki að abbast uppá kallinn? Þú ferð bara illa út úr því.

Pétur Tyrfingsson, 6.4.2007 kl. 00:17

7 identicon

Það hjálpar alltaf að menn séu sæmilega edrú og með rétt gleraugu á nefinu komnir á okkar aldur. Geri þó ráð fyrir því að bláedrú sértu. Ég er ekki að tala um "deilu" heldur "dellu". Fyrir löngu er búið að salla niður fáránleikann (les: Hinn vísindalega sósíalisma), en hann hefur tilhneigingu til að rísa að nýju. Ekki satt?

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 01:58

8 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Hver sallaði hann niður? Það fór alveg framhjá mér. Þú veist greinilega ekkert hvað niðursöllun í fáránleika þýðir. Það er rökfræðileg tækni ef þú vissir það ekki. Farðu nú og kynntu þér það áður en þú skensar mig.

Pétur Tyrfingsson, 6.4.2007 kl. 02:15

9 identicon

Vertu nú svo vænn að gefa okkur fáfróðum stuttan fyrirlestur um merkingu "niðursöllunar fáránleikans". Ég geri svo sem ráð fyrir því að margt hafi farið fram hjá þér, en látum það liggja á milli hluta. Og ég lofa að minnast aldrei aftur á "dellu" og "deilu".

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 02:27

10 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Hér hefur þú það og spara ég þér nú fyrirlesturinn. Enda mínir lestrar bæði langir og leiðinlegir: http://en.wikipedia.org/wiki/Reductio_ad_absurdum

Pétur Tyrfingsson, 6.4.2007 kl. 03:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband