Leita í fréttum mbl.is

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn er á sunnudag. Þessi grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar er að sönnu ekki jafnumfangsmikill og áður, sérstaklega ekki þegar litið er til hversu margir starfa við sjávarútveg, en á hinn bóginn stendur greinin í heild sinni með blóma og færir björg í þjóðarbú með miklu minni fyrirhöfn en áður. Þar valda meðal annars gríðarlegar tækniframfarir á öllum sviðum sjósóknar, en einnig verður ekki hjá því litið að það fiskveiðistjórnunarkerfi, sem við búum við, hefur reynst afar farsælt, bæði fyrir fisk og fiskimenn.

Ég get alveg játað það, að ég hef aldrei fellt mig við hvernig staðið var að tilurð kvótakerfisins og hending eða happdrætti í Hæstarétti varð til þess að útgerðarmenn fengu þar mikil réttindi í hendur með hætti sem margir telja ósanngjarnan. Í því samhengi er einnig rét að hafa í huga að til kerfisins var stofnað sem bráðabirgðakerfis og engum dat í hug að það yrði varanlegt. Á hinn bóginn var það á sína vísu mikið gæfuspor að koma á eignarrétti í greininni, en þannig höfum við Íslendingar sloppið við að miðin yrðu fyrir „harmleik almenningsins“, því menn ganga af meiru hirðuleysi um það, sem allir eiga (enginn á) en hitt þar sem þeir eiga beinna hagsmuna að gæta. Þess vegna get ég fellt mig við kvótakerfið, en nú orðið hafa nær allir kvótahafar orðið sér úti um kvótann með kaupum í góðri trú. Frá því verður ekki snúið án gífurlegs herkostnaðar fyrir þjóðarbúið allt.

En um leið eiga sér stað óþolandi atburðir eins og Flateyringar vöknuðu við á dögunum og nú reynir á hina nýju ríkisstjórn, þó fyrst og síðast verði það auðvitað Önfirðingar sjálfir, sem hafa gæfu sína í hendi sér. Ég vona af heilu hjarta að þar rætist skjótt úr, enda er á Vestfjörðum að finna dugnaðarfólk sem lætur ekki deigan síga þó á móti blási í eiginlegri sem óeiginlegri merkingu.

Í minningunni skein sól ávallt í heiði á sjómannadeginum. Þegar ég var lítill fór pabbi með mig í langar gönguferðir og á sjómannadag lá leiðin niður að Reykjavíkurhöfn, þar sem jafnan var múgur og margmenni. Skipin voru fánum prýdd, hreystimenni kepptu í stakkasundi og kappróðri, en mest spennandi þótti mér þó koddaslagurinn á ránni, þar sem annar keppandinn að minnsta kosti steyptist að lokum í sjóinn með miklum gusugangi. Þetta var mikill hátíðardagur.

Hann fékk aðra þýðingu fyrir mér á unglingsárunum þegar ég fór sjálfur á sjó (sem ég held að hafi verið mér lífsins hollasti skóli). Þá var það brýningin í öryggismálum sjómanna, sem hæst bar, og þó Ægir og Rán beri enn sín skelfilegu nöfn með rentu er ástandið með allt öðrum hætti en var, þegar menn litu nánast á mannskaða á sjó sem þolanlegar fórnir. En það er fleira, sem Sjómannadagsráð hefur áorkað og þar má helst telja ótrúlega elju og framsýni frumkvöðlanna við að reisa dvalarheimili fyrir aldraða og slitna sjómenn. Þeir töldu að í þeim efnum væri nær að treysta á sjálfa sig en hið opinbera. Af því má enn draga lærdóm í dag.

Ég vinn niðri við höfnina, í Slipphúsinu nánar til tekið, og þaðan hef ég útsýni yfir gömlu höfnina og slippinn. Sit aðeins kippkorn þar frá, sem Magnús Magnússon langafi minn hafði skrifstofur útgerðar sinnar um og upp úr aldamótum, en hann var jafnan kenndur við Alliance. Sjálfur var hann harðduglegur sjómaður, sem fór að stunda sjóinn á barnsaldri, var varla fermdur þegar hann var orðinn formaður á bát, tók síðar stýrimannapróf og kenndi í gamla Stýrimannaskólanum við Öldugötu. Um leið gaf hann sig að menntun og menningu, hafði ægifagra rithönd og skrifaði fullkomna spegilskrift af gamni sínu, hann var sigursæll í skautahlaupi hér á Tjörninni og var meðal stofnenda ÍR. Ætli það megi ekki kalla hann 20. aldar renaissance-mann?

Nú eru uppi hugmyndir um að reisa bryggjuhverfi þarna við höfnina og hið fyrsta sem borgaryfirvöldum hugkvæmdist, til þess að gera það að veruleika, var að flytja slippana burtu. En af hverju fylla þau þá ekki bara upp í höfnina? Ég held einmitt að það, sem gæði höfnina lífi, sé atvinnulífið og náin snerting við það. Skipin í slippnum gnæva eins og skúlptúrar á stöllum sínum og hamarshögg og logsuðuurg minna á að gangverk atvinnulífsins er undirstaða hins, að menn geti rölt um bryggjuhverfið og sötrað espresso — sem farmenn fluttu hingað á norðurhjara — í friði og spekt. Er nokkur ástæða til þess að hrófla við þeirri nálægð okkar borgarbúa við hafið og hetjur þess?

Til hamingju með daginn sjómenn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Ha, hefur eitthvað breyst? Er ekki sjómannadagurinn ennþá fyrsti sunnudagur í júní?

Pétur Gunnarsson, 1.6.2007 kl. 11:10

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Jú, auðvitað. Ég lét Sjómannadagsblaðið, sem fylgdi Mogganum, glepja mér sýn og fylltist óstöðvandi andagift í svefnrofunum við morgunverðarborðið! Ég laga það.

Hins vegar hefur sú umræða komið upp, að flytja daginn til þennig að hann beri ekki upp á venjulegum frídegi og mig minnir að þá hafi föstudagur helst verið nefndur. En af því hefur nú ekki enn orðið. Takk fyrir ábendinguna. 

Andrés Magnússon, 1.6.2007 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband