Leita í fréttum mbl.is

Minni trú á stjórnmálaflokkum?

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er flennifyrirsögn: „Minni trú á stjórnmálaflokkum“ og þar svo kynnt ýtarleg umfjöllun inni í blaði um aukningu mótmælaaðgerða hvers konar. Raunar er það svo að í greininni er ekki að finna neina innistæðu fyrir fyrirsögninni, helst að hún eigi að vera einhverskonar túlkun á tilgátu, sem dr. Gunnar Helgi Kristinsson, stjórnmálafræðiprófessor, setur fram í viðtali, en hann telur að „heildarlausnir stjórnmálaflokkanna henti [fólki] ekki lengur“ líkt og áður. Bendir hann á dvínandi þátttöku í flokksstarfi og minni kjörsókn til dæmis um það hvernig hefðbundið stjórnmálastarf hafi misst byr á sama tíma og óhefðbundið stjórnmálastarf hafi sótt í sig veðrið.

Það er vafalaust nokkuð til þessu hjá dr. Gunnari Helga, en mér fannst ekki koma nægilega vel fram hjá honum hvers vegna þessarar þróunar hefur gætt nær hvarvetna á Vesturlöndum á undanförnum árum, en að því er mér virðist (þó ég hafi ekki grafist sérstaklega fyrir um það) án þess að samhengið sé beint eða augljóst. Kjörsókn á Vesturlöndum hefur minnkað mismikið eftir löndum, en áhugi á mótmælum hefur ekki aukist meira eða minna eftir því hversu mikil kjörsóknin er. Það best ég veit. Ég held að menn ættu ekki að vanmeta áhrif tískustrauma í þessum efnum. Þeir geta haft víðtæk áhrif en rista sjaldnast djúpt.

Fyrirsögnin vakti mig hins vegar til umhugsunar, þó hún hafi ekki verið botnuð í greinabálkinum. Ég er ekki frá því að mikið sé til í henni og það hefði sjálfsagt verið athyglisverðara rannsóknarefni heldur en götuleikhús hrínandi dekurbara velferðarríkja Vesturlanda, sem ljóslega hafa alltof rúman tíma og ráðstöfunarfé. Sem kannski má líta á sem enn eina skrautfjöðrina í hatt kapítalismans. Hann hefur auðgað lýðræðisríkin svo mjög, að orðin er til ný stétt iðjuleysingja, sem getur ferðast heimshorna á milli til þess að sýna af sér dáraskap og skemmdarfýsn án þess að mönnum þyki það tiltökumál.

Eða hvað? Það má þá kannski minna á það, að einmitt þannig urðu liðsmenn hryðjuverkasamtaka á borð við Baader-Meinhof til: þeim fannst kröfulabbið 1968 ekki skila miklum árangri en hrifust æ meir af ofbeldi því, sem helstu hetjur þeirra í þriðja heiminum voru lofsungnar fyrir. Í því samhengi geta menn svo velt fyrir sér dálæti því, sem róttæklingarnir núna hafa á Hamas, Che Guevara og ámóta herrum. Ég sá meira að segja tvo hálsklúta ættaða frá rauðu khmerunum í hópi þessara mótmælenda um daginn. Hvaða skilaboð eru fólgin í því?

Kannski er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeim hneigðum öllum, kommúnískir og fasískir fjöldamorðingjar fyrri ára kváðust að minnsta kosti bera hagsmuni mannkyns sér fyrir brjósti, þó fórna yrði nokkrum einstaklingum, stéttum eða þjóðum fyrir dýrðina. Grænstakkar nútímans draga hins vegar enga dul á það, að þeim þykir ekkert til um hagsmuni manna þegar jarðargyðjan er annars vegar. Þó margir í þeirra hópi segist vera trúlausir ber hugmyndafræðin öll merki trúarkreddu og sannfæringarofsinn við útbreiðslu fagnaðarerindisins, píslarvættishneigðin og hugmyndir um hið einstaka hlutverk þeirra segir sína sögu.

En aftur að spurningunni um minnkandi trú á stjórnmálaflokkum. Í könnunum á trausti almennings á stofnunum þjóðfélagsins undanfarin ár hefur greinilega komið fram að traust á Alþingi hefur farið minnkandi, jafnt og þétt. Það er því ekki óvarlegt hjá dr. Gunnari Helga að álykta sem svo, að eðlilegt sé að fólk leiti eftir nýjum farvegi til þess að koma áhugamálum sínum og umkvörtunarefnum á framfæri. Það getur enda verið ofureðlilegt og sjálfsagður réttur manna í lýðræðisþjóðfélagi, svo fremur sem þau mótmæli rjúfa ekki lög eða almannareglu.

En sú leið getur einnig verið varasöm. Hún býður heim hættunni á múgræði, en lýðræðisfyrirkomulagið og réttarríkið er einmitt tæki siðaðra manna til þess að hafa hemil á múgnum, þeirri hvikulu, bráðráðu og blóðþyrstu skepnu. Eins er það engan veginn óþekkt að þrýstihópar eða samsærismenn reyni að beita slíku fyrir sig til þess að ná fram tilteknum markmiðum, sem aldrei næðu fram að ganga á torgi lýðræðisins, þar sem hófsemi, umburðarlyndi og tillitssemi ríkja jafnan. Slíkt er ekki óþekkt hér á landi fremur en annars staðar, þar sem dómstólar, löggjafi og framkvæmdavald eru beitt þrýstingi með slagorðaglamri, en frelsið og réttur sögð eiga að víkja fyrir alls kyns dægurflugum félagsverkfræðinnar.

Helstu stofnanir lýðræðisins geta að miklu leyti sjálfum sér um kennt með því að láta undan slíkum þrýstingi, ekki síst þegar meintir „fagaðilar“ hafa látið til sín taka, að sögn til þess að bæta mannlífið en undantekningalaust með þeirri hliðarverkun að eldur er skaraður að eigin köku. Dómarar eru átaldir fyrir að gæta höfuðreglu eins og þeirrar að hver maður sé saklaus uns sekt hans er sönnuð; löggjafinn eftirlætur framkvæmdavaldinu að semja lögin, sem aftur eftirlætur skrifræðinu það, en löggjafinn samþykkir ósköpin svo eftir pöntunum; forsetinn dúkkar svo upp með sjálfstætt löggjafarvald en löggjafarvaldið lætur undir höfuð leggjast að greiða úr þeim vafa. Og svo framvegis.

Trúnaðarbrestur trúnaðarmanna
Það er þó ekki svo, að þessar helstu greinar ríkisvaldsins séu aðeins leiksoppar aðstæðna, sem hafi veikt sig með undanlátssemi. Þvert á móti hafa þær verið gerendur í þessum skollaleik. Þingmenn flokkanna hafa eftirlátið forystumönnum sínum æ meiri völd, þannig að þeir eru á mörkunum að halda trúnað við umbjóðendur sína. Þá hafa flokkarnir, sem eiga fulltrúa á Alþingi, allt í einu og umræðulaust orðið hluti af ríkinu og valdakerfi þess, án þess að þess finnist staður í stjórnarskrá. Og það er ekki eins og kjósendur hafi látið sig það miklu varða, miklu fremur láta þeir í sér heyra ef þingmenn dirfast að hlíta samvisku sinni og skipta um flokk og þá aðallega til þess að atyrða þá, krefjast afsagnar og hafa uppi gífuryrði um að flokkarnir eigi þingsætin, rétt eins og þingmenn séu viljalausar atkvæðavélar.

Í því samhengi er rétt að minnast á það, að enginn talaði hærra og af meiri einurð fyrir því, að núverandi stjórnmálaflokkar á Alþingi yrðu löghelgaðir með svo miklum fjárframlögum að þeir skila umtalsverðum rekstrarafgangi, en einmitt Morgunblaðið. Auðvitað var það sérkennilegt að blaðið skyldi aðhyllast kvótakerfi, byggt á veiðireynslu, í þessum efnum. Sjálfum þótti mér það ótrúlegur óheiðarleiki af þingheimi að samþykkja þessar vélar gegn lýðræðinu og borgurum landsins. Kjósendum þótti það þó ekki meira hneyksli en svo að þeir endurkusu langflesta af þessum óvinum lýðræðisins, en þeir eru eftirtaldir enn á þingi:

Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni M. Mathiesen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Geir H. Haarde, Guðlaugur Þór Þórðarson, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson, Pétur H. Blöndal, Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Þetta eru 25 þingmenn af 63, þannig að það er minnihluti þingsins. En ætli það sé nokkur hætta á því að þessi ólög verði úr gildi felld? Ég get ekki talað fyrir aðra, en trú mín á stjórnmálaflokkunum og Alþingi minnkaði verulega þegar þessi lög voru samþykkt, að ekki sé minnst á traust og virðingu.

Það má líka spyrja hvar öryggisventillinn á Bessastöðum var þegar kom að þessum lögum. Eða virkar hann bara þegar bestu vinir hans í auðmannastétt landsins telja hagsmuni sína í hættu? Áfram má spyrja hvort stjórnmálaflokkarnir eigi skilið aukna trú almennings þegar stærsti stjórnmálaflokkur landsins býður fram þjóf, sem dæmdur var fyrir að misnota traust almennings og aðstöðu, sem hann komst í í skjóli þess. Eða þegar stjórnmálaforingi, sem er sérstaklega er mærður fyrir tæpitunguleysi og prinsippmennsku, kallar eftir netlöggu, krefst svo afsökunarbeiðni, þegar á það er bent, og hrópar loks „ég sagði það alltaf“, þegar hann heldur að vindurinn hafi snúist. Eða þegar fyrrverandi stjórnarflokkur snýst til ákafrar stjórnarandstöðu en bendir um leið á að hinn nýi stjórnarsáttmáli sé eins og úr sínu hjarta. Eða þegar hinn nýi stjórnarflokkur gleymir öllum heitstrengingunum og lætur það verða sitt fyrsta verk í ríkisstjórn að raða sínu fólki á garðann?

Jú, sjálfsagt er minni trú á stjórnmálaflokkum og ekki að ófyrirsynju. Þeir geta sjálfir sér um kennt. En það geta góðir menn lagað, því þeir finnast enn. Jafnvel í stjórnmálaflokkunum. Lýðræðið finnur á hinn bóginn ekkert svar í mótmælaaðgerðum, skemmdarverkum og múgæsingu. Hugum að því. 


mbl.is Minni trú á stjórnmálaflokkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Góður að vanda :)

Hjörtur J. Guðmundsson, 22.7.2007 kl. 22:29

2 Smámynd: Karl Tómasson

Bessastaðablúsinn klikkar ekki.

Þetta er tregablandin lesning.

Bestu kveðjur gamli vinur úr Mosó. Kalli Tomm.

Karl Tómasson, 23.7.2007 kl. 02:10

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Samræmi milli fyrirsagna og innihalds er oft skrýtið í Mbl. núorðið. Um daginn birtist fréttaskýring á forsíðunni þar sem spurt var hvort breytingar á olíumarkaði myndu leiða til þess að olía hætti að berast hingað til lands. Þegar textinn var lesinn kom í ljós, að blaðamaðurinn hafði jú spurt einhvern að þessu, en svarið auðvitað neikvætt!

Þorsteinn Siglaugsson, 23.7.2007 kl. 13:18

4 identicon

Þetta er góður pistill hjá þér Andrés. Ég skal bjóða þér í þáttinn þegar ég tek við Silfrinu í haust:) Annar sýnist mér að íþróttasíðurnar beri af öðru efni í Morgunblaðinu. Þar hefur til dæmis ekkert verið fjallað um sjávarútvegsmál í sumar. mbkv

Kristján Jónsson (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 14:19

5 identicon

Sæll Andrés,  í framhaldi af þessum pistli rifjaðist upp fyrir mér vísa sem vinur minn sagði mér einu sinni og á ágætlega við hérna:

Þeir sem gefa þjóðum lög

þurfa mikið veganesti

verða að skilja dulin drög

vonir fólksins, hjartaslög

bænir þess og bresti.

Þeim er skylt að eigja í anda

inní framtíð sinna landa

en miða þó sín miklu tök

við manndóm sinn og æðstu rök

Því löggjafar sem lítið skilja,

lúta aldrei fólksins vilja.

Koma öllu á vonarvöl,

verða sjálfir þjóðarböl.

Kveðja frá Eskifirði.

Jens G. Helgason (IP-tala skráð) 5.8.2007 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband