Leita í fréttum mbl.is

Einar Oddur Kristjánsson

Þegar ákvörðun um sumarleyfi varð ekki lengur frestað ráðguðumst við hjónin við góða vinkonu okkar, öllu kunnugri landsbyggðinni, og spurðum hvert hún myndi fara til þess að eiga náðuga daga. „Nú, auðvitað til mömmu og pabba,“ svaraði Brynhildur Einarsdóttir án þess að hugsa sig tvisvar um. Og það gerðum við.

Einar Oddur og Sigrún tóku alúðlega á móti okkur þegar við komum til vikudvalar í næsta húsi við þau hjónin á Sólbakka. Í raun leið okkur fremur eins og við værum snúin heim í faðm fjölskyldunnar en að við værum aðkomufólk og telpurnar okkar hændust að þessum skrýtna afa og góðu ömmu á augabragði.

Þrátt fyrir að Einar Oddur ætti í nokkrum önnum þessa viku — það var verið að þinga um niðurskurð þorskveiðiheimilda og fjöregg Vestfjarða — lét hann eins og hann hefði ekkert betra við tímann að gera en að sinna okkur, segja okkur sögur og sögu, útskýra náttúruundrin, tala um pólitík, menningu og atvinnuuppbyggingu, fortíð og framtíð, hringrás lífsins og heimspeki; ekkert var honum óviðkomandi. Hann hafði leiftrandi frásagnargáfu, var samræðusnillingur og góður hlustandi, en þetta þrennt fer til ólukkunnar sjaldnast saman.

Það er óþarfi að rekja hin margvíslegu afrek Einars Odds á lífsleiðinni hér, en við færðum sumt af því í tal við hann þessa viku. Hann svaraði fúslega ýmsum spurningum þar um og bætti einu og öðru við þá fróðleg sögu, sumu með bliki í augum og prakkarabrosi. En það vottaði ekki fyrir stærilæti yfir glæstum ferli, þvert á móti reyndi hann að gera sem minnst úr sínum hlut. Það var frekar þegar hann leiddi okkur í gegnum gróðurvin sína á Sólbakka, einn fegursta garð landsins, sem hann talaði af fullu og verðskulduðu stolti. Þar átti hvert tré nafn (jafnvel latnesk, þó ekki sé víst að Linnaeus hefði kannast við þau öll) og sögu, sem einatt tengdist fjölskyldunni, en þegar talið barst að henni minnkaði stoltið ekki eða augljós ástúðin.

Garðræktin laut engu skipulagi, heldur fékk að þróast, og jafnvel ekki að fullu ljóst hver ræktaði hvern; Einar Oddur garðinn eða garðurinn Einar Odd. En gróðinn var gagnkvæmur, að ógleymdum ávinningi allra hinna, sem fá að njóta ávaxtanna um ókomna tíð.

Það var í aldingarðinum á Sólbakka, sem við kvöddum Einar Odd, allt of snemma fannst okkur. Og þó við værum að halda heim á leið, þótti okkur við fremur vera að fara að heiman. Við hétumst að hittast hið fyrsta og ekki síðar en að ári í Önundarfirði. Það heit munum við efna, þó það verði með öðrum hætti en við hlökkuðum til, því viku síðar var Einar Oddur örendur.

Dauði hans er mikill skaði, fyrst og fremst fyrir Sigrúnu og fjölskylduna alla, sem við finnum sárt til með. En skaðinn er einnig mikill fyrir íslenska þjóð, sem hefur misst manninn, sem náði að hrífa hana með sér úr viðjum stöðnunar og sundurþykkju og skapa þjóðarsátt með því að rifja upp hin eilífu og augljósu en stundum gleymdu sannindi, að við erum öll á sama báti.

Andrés Magnússon og Auðna Hödd Jónatansdóttir.

 

 

 

 

....................

Greinin hér að ofan er minningargrein, sem við hjónin skrifuðum um Einar Odd vin okkar í Morgunblaðið í dag. Ég hef ekki verið viðstaddur fjölmennari kveðjuathöfn, en hvert sæti Hallgrímskirkju var fyllt og fjöldi manns stóð á göngunum að auki. Ég giska á að þarna hafi verið 1.200-500 manns. Athöfnin var hátíðleg og tónlistarflutningurinn einstakur. Ég verð líka að minnast á líkræðu síra Hjálmars Jónssonar, vinar og fyrrum þingbróður Einars Odds. Hún var óvenjuleg, en afar falleg og persónuleg um leið og hún var óður til lífsins og mjög í anda Einars Odds. Ég held að hann hafi flutt hana óskrifaða, sem jók á orðkynngina. Í lokin, eftir blessunina, stóð öll líkfylgdin og söng einum rómi Ó, fögur er vor fósturjörð. Það var óviðjafnanlegt.

Að kveðjuathöfninni lokinni var haldið til erfisdrykkju í Súlnasal Hótel Sögu, sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð til. Þar var margt um manninn og góður andi. En það var erfitt að hitta hana Sigrúnu, ekkju Einars Odds, því hvað hefur maður að segja við slíkar aðstæður? Orð eru öldungis ófullnægjandi, en þau eru bráðnauðsynleg samt. En mest föðmuðum við hana nú og kysstum. Og hina vini okkar í fjölskyldunni, sem báru sig vel en eru harmi lostin. Ég er dapur þegar ég skrifa þessar línur og veit ég á eftir að sakna hans um alla tíð. Guð blessi minningu hans og gæti hans nánustu.


mbl.is Mikill fjöldi við kveðju- og minningarathöfn um Einar Odd Kristjánsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband