Leita í fréttum mbl.is

Kynjamyndir kvikmynda

leni_riefenstahl.jpg

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kennir ýmissa grasa að venju. Þar má meðal annars finna tvö viðtöl við tignendur Thalíu, þau Silju Hauksdóttur, leikstjóra, og Jóhann Ævar Grímsson, handritshöfund. Silja leikstýrði kvikmyndinni Dís á sínum tíma (og skrifaði handritið upp úr samnefndri metsölubók, sem hún var einn þriggja höfunda að), en í sumar leikstýrði hún næstu röð Stelpnanna fyrir Stöð 2. Ævar skrifaði handritið að Astrópíu og er einn handritshöfunda Næturvaktarinnar, grínþáttaraðar sem Stöð 2 hefur sýningar á í kvöld. Þau eru á svipuðu reki og fljótt á litið á svipuðum stað í lífinu, en Inga Rún Sigurðardóttir tók bæði þessi viðtöl.

Það hefði því ekki komið manni á óvart þó viðtölin tvö hefðu verið nokkuð keimlík, en það er öðru nær. Auðvitað eru þau Ævar og Silja ólíkt fólk, ég kannast við þau bæði, og aðkoma þeirra að kvikmyndagerðinni var með sitt hvorum hættinum. En meðan Ævar er augljóslega himinlifandi yfir að hafa ná sér á strik í þessum harða bransa er Silja mun reyndari og það skín í gegn. Ég held að allir þeir, sem hafa áhuga á kvikmyndagerð hafi gagn og gaman af því að lesa þessi viðtöl og bera þau saman.

Viðtalið við Silju er umfangsmeira og því er gert hærra undir höfði með tilvísun og stórri mynd á forsíðu. En forsíðutilvísunin er eilítið skrýtin, finnst mér. Fyrirsögnin er „Sögur af báðum kynjum“ og undirfyrirsögnin er „❚ Fleiri kvenleikstjórar samfélagsleg nauðsyn ❚ Íslendingar aftarlega“. Síðan er haft eftir Silju:

Það er staðreynd að það er alltof lítið af kvenleikstjórum á Íslandi. Það er augljóst að það að gera bíómyndir er listræn ábyrgðarstaða sem krefst gríðarlegra fjármuna og fjármögnunar. Peningarnir og aðgangur að fjármagni er eitthvað sem hefur áhrif á þetta jafnvægi og raskar þess vegna kynjahlutfallinu. Því er miður og þessu verður að breyta. Það er samfélagsleg nauðsyn að sögurnar okkar séu sagðar af báðum kynjum til jafns ef við ætlum að halda því fram að þær endurspegli samfélag okkar á raunsæjan hátt, segi okkur eitthvað um okkur sjálf.

Af þessu mætti draga þá ályktun að Silju sé mjög heitt í hamsi vegna þessa og það væri hennar helsta erindi í kvikmyndagerð. En það er nú ekki svo, þó hún sé femínisti. Hún segir enda líka:

Ég hugsa ekki mikið um að ég sé kona í þessum bransa og mér persónulega finnst kyn mitt ekki skipta máli í þessu samhengi. Í gegnum tíðina hefur það að vera kona bæði unnið með mér og á móti mér en ég velti mér ekki upp úr því.

Hið skrýtna er, að í viðtalinu inni í blaði er ekki minnst á þetta aðalatriði forsíðutilvítnunarinnar. Enda væri það alveg alveg út úr kú þar inni og myndi brjóta upp afar eðlilega og flæðandi framvindu þess. Ég veit ekki hvað veldur, en þessi framsetning er augljóslega á ábyrgð blaðsins og það lýsir ekkert sérstaklega miklum trúnaði við viðmælandann að gera að aðalatriði eitthvað, sem í hennar augum er ljóslega aukatriði í eigin lífshlaupi. Að minnsta kosti er þetta ójafnvægi Morgunlaðinu meira áhyggjuefni en henni.

En gefum okkur nú augnablik að þetta sé rétt, að hlutverk listanna sé að endurspegla samfélagið af raunsæi (sem ég er ekki viss um að sé endilega rétt athugað), hvort heldur er fyrir okkur núbúana til þess að spegla okkur í eða til þess að skilja eftir heimild fyir komandi kynslóðir. Hver segir að það verði best gert með því að listamennirnir séu eitthvert fall af lýðmengi dagsins? Hafa ekki velflestir góðir listamenn einmitt verið fremur óvenjulegir og einatt á skjön við hefðir dagsins? Er málið ekki einmitt það, að þeir eru flestir gestir í sínu samfélagi og með glöggt auga í samræmi við það?

Þeir D.W. Griffith, Cecil B. DeMille, Fritz Lang, Erich von Stroheim, Charlie Chaplin, Sergei Eisenstein, John Ford, Orson Welles, John Huston, King Vidor, Elia Kazan, Frank Capra, George Cukor, Alfred Hitchcock, Jacques Tati, Federico Fellini, Akira Kurusawa, Ingmar Bergman, Stanley Kubrick, Sidney Lumet, Sam Peckinpah, Roman Polanski, Ken Russell, Martin Scorsese, Woody Allen, Jean-Luc Godard, François Truffaut, Ridley Scott, Werner Herzog, David Lynch, Terry Gilliam, John Woo og Spike Lee, að ógleymdum þeim Hrafni Gunnlaugssyni, Friðriki Þór Friðrikssyni og Baltasar Kormáki, eiga það allir sameiginlegt að vera karlmenn, satt er það, en fyrst og fremst eiga þeir það sameiginlegt að vera óvenjulegir menn, með sjá samtímann, fortíð og framtíð með öðrum augum en aðrir. En það á líka við um þær Leni Riefenstahl (sem sjá má á myndinni að ofan), Jane Campion, Sharon Maguire, Sofia Coppola og Julie Dash.

Þessi upptalning segir hins vegar sína sögu og þá er rétt að hafa einnig í huga að ég teygi mig aðeins í upptalningu kvenleikstjóranna. Af þeim á aðeins Leni Riefenstahl öruggt sæti í kvikmyndasögunni með þeim körlum, sem upp voru taldir, og Jane Campion stingi ekki í stúf heldur. Jafnvel þó svo körlum væri kvikmyndaleikstjórn eiginlegri en konum af einhverjum óþekktum líffræðilegum ástæðum, verður því vart trúað að munurinn sé svo afgerandi. En hver veit, er klipparastarfið ekki nánast orðið kvennastétt?

Svo má auðvitað horfa á þetta frá allt öðrum vinklum ef við teljum nauðsynlegt að öllum sjónarhornum sé gaumur gefinn af þessum samfélagsspegli. Mætti ekki allt eins segja að hlutfall hægrimanna í kvikmyndagerð sé jafnvel enn lægra en hlutfall kvenna? Hvenær ætli Morgunblaðið bendi á það sem brýnt úrlausnarefni samfélagsins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband