Leita í fréttum mbl.is

Fréttablaði flett

Fréttablaðið

Það er vinsælt sport hér á Moggabloggi að blogga um fréttir af mbl.is, bæði af því að þær vekja menn gjarnan til umhugsunar en eins er mér sagt að það sé afar vænleg leið til betri lesturs. Af einhverri ástæðu hefur Vísisbloggið aldrei náð sér almennilega á strik og fyrir vikið er ekki bloggað um fréttir Vísis og Fréttablaðsins af sama móð og Árvakursmegin í tilverunni. Fréttablaðið var að detta hér inn um lúguna og því datt mér í hug að bæta aðeins úr þessu. Næg er tilefnin. Að neðan eru nokkrar fyrirsagnir úr blaðinu í dag og mislangar athugasemdir þar um.

Meta hvort forsendur fjárlaga séu brostnar
Helsta forsíðufrétt blaðsins segir af því að Fjárlaganefnd Alþingis undir forsæti Gunnar Svavarssonar hafi af því áhyggjur að verðfallið í Kauphöllinni geti orðið til þess að skattheimtur verði mun lægri en ráð var fyrir gert við samningu fjárlaga, við blasi að fjármagnsskattur verði ekki svipur hjá sjón og fyrirsjáanlegt er að tekjuskattur fyrirtækja verði rýrari. Já, þær eru margvíslegar áhyggjurnar! Ég deili þeim hins vegar ekki, því skatttekjur hins opinbera eru komnar á það stig að til mestu vandræða horfir. En þar fyrir utan gera þessi ömurlegu fjárlög ráð fyrir því að 30 milljarða króna afgangur verði af þeim, sem er ekki aðeins heimskulegt heldur rangt. Siðlaust jafnvel. En þess vegna er nóg borð fyrir báru og tollheimtumennirnir þurfa ekki að grípa til nýrra óþokkabragða gegn skattborgurum.

Meirihluti styður borgarstjórn
Fyrirsögnin er reyndar eilítið brosleg, því varla bjuggust menn við að meirihluti borgarbúa væri á móti borgarstjórn?! Hér er vitaskuld átt við að nýi meirihlutinn njóti stuðnings meirihluta borgarbúa ef marka má könnun Fréttablaðsins. Það kemur mér ekki á óvart, enda sæmilega í takt við niðurstöður síðustu kosninga, þó fylgið á vinstri vængnum hafi þéttst á Samfylkinguna, sem er nokkur sigur fyrir Dag B. Eggertsson. Samkvæmt könnuninni kæmu frjálslyndir ekki manni að (sem ég efa að yrði raunin ef kosið væri) og sömuleiðis myndi Björn Ingi Hrafnson falla út. Á því hef ég meiri trú, hann rétt marði þetta síðast sem ungi, ferski gaurinn með hugmyndagnótt og hugrekki, en núna er hann bara enn einn falur framsóknarmaðurinn.

Samkvæmt könnuninni héldi Sjálfstæðisflokkurinn sínu miðað við kosningar, sem ég kalla gott. Ég hefði allt eins átt von á því að hann væri kominn niðurí 35-7% eftir allan vandræðaganginn. Svo vekur furðu að maður ársins, Svandís Svavarsdóttir (sem hefur haft sig mikið í frammi á opinberum vettvangi og átti fínan performans framan af í REI-málinu), skuli ekki fiska betur. Hún er komin aftur í kjörfylgið (rétt rúm 13%) eftir að hafa verið í 20% þegar REI-málið stóð sem hæst. Mig grunar að hún hafi gengisfellt sjálfa sig og flokkinn með því að hoppa beint upp í með Binga eftir allar heitstrengingarnar. Þegar hugsjónirnar eru til salgs vill yfirleitt enginn kaupa.

Ásakanir saksóknara brot á mannréttindum
Texanski saksóknarinn Mike Trent skrifaði athugasemd á blogg Öldu Köldu, þar sem hún fjallaði um málefni Arons Pálma Ágústssonar, sem var sem unglingur dæmdur til tíu ára varðhalds vegna kynferðisbrots gagnvart barni þar vestra. Taldi Trent fréttaflutning af málinu á Íslandi illa brenglaðan og vildi leiðrétta þann misskilning. Kvað hann Aron Pálma hafa átt skilið 40 ár fyrir brot sín, en þau hafi verið mun fleiri en ákært var vegna. Aron Pálmi hefur sagst ætla að sækja manninn til saka fyrir ummæli sín, en Björg Thorarensen, lagaprófessor, segir í samtali við Fréttablaðið að þau ummæli ekki myndu standast stjórnarskrá hér á landi eða mannréttindasáttmála Evrópu. Ég er ekki viss um réttmæti þess. Mætti saksóknari t.d. aldrei færa í tal einhver brot Steingríms Njálssonar ef rannsóknargögn hefðu spillst svo að ekki var unnt að gefa út ákæru? Eða ef hann teldi sýknu dómara fráleita? En fórnarlambið, mætti það tjá sig? Það gæti verið athyglisverð umræða.

Á hinn bóginn þykja mér ummæli Braga Guðbrandssonar, forstjóri Barnaverndarstofu, ekkert minna en einkennileg: „Svona gera menn í opinberum embættum ekki, og þykir mér sem hann gangi ekki heill til skógar,“ segir Bragi um Trent. Hvað má segja um þau ummæli? Að svona geri menn í opinberum embættum ekki og því vafamál að Bragi gangi heill til skógar? Ég hef engar forsendur til þess að meta réttmæti frásagnar Trents (eða geðheilbrigði hans og Braga), en hitt er annað mál að flest það, sem ég hef séð eftir Aroni Pálma haft eftir komuna til Íslands, finnst mér benda til þess að raunveruleikaskyn hans sé með öðrum hætti en gengur og gerist. Eins hefur mér þótt margir fullfljótir á sér að fordæma réttvísina í Texas. Þar var fyrir allmörgum árum ákveðið að feta þann veg, sem margir hafa mælst til þess að valinn verði hér á landi: að kynferðisbrot gegn börnum mættu engu þolgæði (zero tolerance) og að fyrir yrði refsað án afsláttarkjara. Ég hef ekki orðið var við að áköll um aukna refsigleði í þessum efnum hafi minnkað hér á landi, en þegar Íslendingur í útlöndum á í hlut virðast aðrar reglur eiga að gilda.

Ellefu þúsund manna varðlið stöðvi ofbeldi gegn börnum
Það eru samtökin Blátt áfram, sem vilja mennta liðlega 11.000 manns, aðallega opinbera starfsmenn, til þess að vera vakandi og til varnar gagnvart ofbeldi gegn börnum. Þetta er af góðum hug gert, en ég hef ákveðnar efasemdir. Blátt áfram fékk leyfi til þess að sýna „vakningarleikrit“ í skóla annarar dóttur minnar í haust, þar sem ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og vanræksla komu einkum við sögu. Það er skemmst frá að segja að það var allt í steik í yngri bekkjunum eftir ósköpin. Dóttir mín varð miður sín yfir illsku mannanna og uppfull af spurningum, sem átta ára börn eiga ekki að þurfa að velta fyrir sér. Það var þó ekkert hjá því sem önnur telpa gekk í gegnum, en sú hafði illu heilli orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hún hljóp í algeran baklás og upplifði allt ógeðið upp á nýtt fyrir framan skólasystkini sín, en fyrir slíkum viðbrögðum höfðu þessir snillingar ekki hugsað. Til þess að bæta gráu ofan á svart var tönnlast á flatneskjunni um að barnaníð væri „sálarmorð“ og hún, átta ára grey, spurði hinnar augljósu spurningar: „Er sálin í mér dáin?“

Ég hef líka efasemdir um þetta tiltekna átak. Mér hefur oft þótt nóg um hvernig hræðslan við barnaníð hefur gagntekið fjölda fólks og gert lífið ljótara með því að ala á tortryggni. Um það skrifaði ég kjallaragrein í Blaðið á sínum tíma, sem lesa má hér. Auðvitað ber okkur að halda vöku okkar og gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að bjarga börnum frá slíkri ógæfu. En það eru þekkt mörg ljót dæmi um hvernig slík árvekni getur breyst í martröð þegar fólk fer fram úr sér. Ég veit um dæmi þess hér á Íslandi að mál hafa ratað til barnaverndaryfirvalda af tilefnislausu og án þess að nokkur fótur væri fyrir, jafnvel þannig að afsanna mátti á frumstigi. En allt kom fyrir ekki, því enginn vildi bera ábyrgð á því að hafa ekki tilkynnt um eitthvað sem kannski gæti verið til í, en á hinn bóginn fylgir engin ábyrgð því að tilkynna um slíkan grun eða leggja fram tilhæfulausar eða beinlínis rangar ásakanir. Þær geta fylgt fólki út lífið og börnin eru flögguð í skýrslum alla skólagönguna.

Kerry styður Barack Obama
Er það gott eða grikkur?

Fær ekki styrk frá Mosfellsbæ
Mosfellssveitungurinn fyrrverandi, Hlynur Smári Sigurðsson, sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi í Brasilíu fyrir kókaínsmygl þangað (!) vorið 2006, er ekki hress með að ósk hans um fjárhagsstuðning frá Mosfellsbæ skuli hafa verið hafnað. Faðir hans er engu blíðari á manninn yfir þeim málalyktum. Hlynur situr í næturfangelsi, en frá sex á morgnana til tíu á kvöldin er hann frjáls ferða sinna. En það er höggormur í hverri Paradís og Hlynur Smári þar að afla sér viðurværis sjálfur. Svo auðvitað krefst hann dagpeninga frá hinu opinbera! Er ekki allt í lagi?

Elta ekki ólar við yfirlýsingar Árna
Embættisskipanir valda ávallt deilum, en hún er að komast í harla einkennilegan farveg þessi um skipun héraðsdómara við héraðsdóm Norðurlands og Austurlands. Menn geta deilt um ákvörðun Árna M. Mathiessen eins og þeir hafa lyst á, en mér þykir þessi matsnefnd Péturs Kr. Hafstein vera komin langt út fyrir hlutverk sitt og valdsvið. Sýnist raunar að hún sé að reyna að taka sér völd, sem er grafalvarlegt mál og nær að nefndin segði af sér vegna þess en að hún sé stefnandi fjölmiðlum niður í dómhús til þess að gefa yfirlýsingar um hvers vegna hún segir ekki af sér eins og áður hafði verið hótað. Þess í stað er ráðherrum hótað aleiðingum vegna embættisskipana í framtíðinni! Ég veit ekki hvort það teygist meira úr málinu, en hitt er annað mál (og skrýtið að enginn skuli hafa tekið það upp) að embættisskipunarsaga Péturs Kr. Hafsteins sjálfs er afar forvitnileg, sérstaklega í því ljósi sem hann hefur tendrað hvað ákafast að undanförnu.

Ásökunum um svik neitað
Mál Sögu Capital gegn Dögg Pálsdóttur er forvitnilegt svo ekki sé meira sagt, en hún og sonur hennar slógu 560 milljóna króna lán hjá fjárfestingarbankanum til þess að kaupa stofnfjárbréf í SPRON síðasta sumar. Eftir að hlutabréf í SPRON voru skráð á markað í vetrarbyrjun hafa þau kolfallið og eru nú aðeins um 42% af skráningargengi hinn 23. október 2007. Nú vill Dögg ekki borga vegna þess að Gunnar Þór Gíslason, stjórnarmaður í SPRON sem jafnframt á hagsmuna að gæta í Sögu Capital,hafi stundað siðlaus innherjaviðskipti með stofnfjárhluti sína. Kaupverð Daggar hafi miðast við 100 milljarða króna heildarverðmæti á SPRON en á þeim tíma hafi stjórn SPRON verið kunnugt um að verðmat Capacent á bankanum næmi 60 milljörðum. Gunnar Þór blæs á þetta og segir verðmat Capacent hreint ekki hafa farið leynt þó það hafi farið fram hjá Dögg. Eða eitthvað þannig.

Þetta mál á eftir að skýrast betur fyrir dómi, en mér finnst hér komið enn ein röksemdin fyrir eflingu Fjármálaeftirlitsins, hertri og tvímælalausri löggjöf um fjármálastofnanir og hlutafélög og endurmenntun dómara, svo þeir skilji um hvað þessi mál snúast.

Ekki á forræði bæjaryfirvalda
Það eru sumsé kjarnorkuvopn, sem ekki eru á forræði bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ. Er gott til þess að vita að bærinn er ekki kjarnorkuveldi, enda væri ljósanóttin þá vafalaust með öðrum brag. Bæjarráðið hafnaði sumsé erindi Samtaka hernaðarandstæðinga um að lýsa sveitarfélagið kjarnorkuvopnalaust. Þetta minnir á það þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og aðrir fulltrúar Kvennaframboðsins í borgarstjórn Reykjavíkur báru fram tillögu um það í lok Kalda stríðsins, að Reykjavík yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Davíð Oddsson, sem þá var borgarstjóri, tók tillögunni vel, en taldi þó að ekki bæri að flana að neinu. Hann myndi því styðja það, að Árbæjarhverfi yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði til reynslu. Gæfist það vel væri sjálfsagt að lýsa Reykjavík alla kjarnorkuvopnalaust svæði að reynslutímanum loknum. Af einhverjum ástæðum dagaði tillaga Kvennaframboðsins uppi.

Kjarnorka fær uppreisn æru
Það er í Bretlandi en ekki Reykjanebæ, sem þessi undur hafa gerst. Stjórnvöld hafa ákveðið að leggja áherslu á orkubeislun í kjarnorkuverum til þess að stemma stigu við útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá olíu- og kolaknúnum orkuverum. Umhverfisverndarsinnar vita ekki í hvorn sandalann þeir eiga að stíga.

Hart tekið á unglingadrykkju
Það þykir fréttaefni að lögreglan á Eskifirði hafi síðan í sumar framfylgt áfengislögunum, en þau eru að stofni til síðan 1928.

Skólastarf lagað að kennaraskorti
Hæstu einkunn, sem ég hef fengið um dagana, fékk ég árið sem ég var utanskóla í menntó. Hina næsthæstu fékk ég árið sem langa kennaraverkfallið var. Þannig að kannski ég sé haldinn ákveðnum fordómum. En þessi aðlögun skólastarfsins, sem fyrirsögnin vísar til, felst í að fækka kennslustundum og þykir nánast aðdáunarverð aðlögunarhæfni. En það er svo skrýtið að mitt í þessari kennaraeklu eru skólastofurnar stappfullar af aðstoðarkennurnum, ekki má á það minnast að stefnan um „skóla fyrir alla“ hafi kannski ekki tekist sem skyldi, einsetning skóla er órfrávíkjanleg kredda, og allra síst má minnast á að breyta þyrfti launakerfinu þannig að verðlauna mætti góða kennara, bæði til þess að halda í þá og grisja hina óhæfu jafnharðan frá. Þar ber hin pólitíska forysta kennara mikla ábyrgð.

Þarf að undirbúa opinberar framkvæmdir
Þetta er skoðun Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Villi veit hvað hann syngur. Til allrar óhamingju hefur þessi tíska ekki enn breiðst út hjá hinu opinbera.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sæll félagi og gleðilegt nýár

fróðlegt að fá þennan yfirgripsmikla pistil sem frelsar mig m.a. frá því að þurfa að fletta Fréttablaðinu í dag (sem stundum vill reyndar farast fyrir). Ekki verra að fá hann með skýringum, þó ég sé ekki endilega sammála þeim öllum og vildi gjarnan fá nánari skýringar um sumt en það má bíða með sama rökstuðningi og John Steinbeck staðhæfði að maður ætti aldrei að opna póstinn sinn: ef þar væri eitthvað sem virkilega kæmi manni við yrði maður fyrir því fyrr eða síðar hvort sem manni líkaði betur eða verr.

En: Meðan Mosfellssveit hét ennþá sveit vorum við Mosfellingar -- ekki Mosfellssveitungar. Eftir að við urðum -bær erum við áfram Mosfellingar. Plís!

Kv. í bæinn

Sigurður Hreiðar, 11.1.2008 kl. 10:49

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Las í Sirkusi, að Kjartan Gunnars hefði nefnt drenginn í höfuð sitt.

Svo var nú ekki.

Var þarna staddur þegar hann kvað sér hljóðs og byrjaðði tölu sína á því, að þverneita fyrir að hafa gert þetta, enda þekkir þú hann af öðru en vera sjálfhverfan.  Hann nefndi eftir frænda sínum, móðurbróður sínum Kjartani Jónssyni kaupmanni hér í bæ. 

Kjarrtan þessi var á dögum frá 1912 til 1991, með honum og systur hans Guðrúnu(móður Kjartans) var afar kært svo eftir var tekið.

Einnig var nokkur vinskapur milli þeirra nafnanna, þó nkkuð skildi í árum.

mbk

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 11.1.2008 kl. 12:21

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Góður að vanda ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 11.1.2008 kl. 14:54

4 Smámynd: Landfari

Hver er svo embættisskipunarsaga Péturs Kr. Hafsteins?

Landfari, 12.1.2008 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband