Leita í fréttum mbl.is

Blogg og auglýsingar

Nei, ég hætti ekki að blogga af fýlu í garð auglýsingarinnar hér til hægri. Ég hef bara verið frekar pennalatur að undanförnu, með kveflurðu og haft í ýmsu öðru að snúast.

Ég vildi hins vegar nota tækifærið og þakka fyrir mig. Morgunblaðið hefur boðið mér og öðrum lysthöfum þessa frábæru, ókeypis þjónustu í tvö ár. Netdeild Morgunblaðsins hefur tekið athugasemdum frá mér vel og jafnvel hnikað einhverju til þegar ástæða hefur þótt til. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að þeir beri eitthvað úr býtum í staðinn og tekjur af auglýsingasölu finnast mér vel geta fallið þar undir. Morgunblaðið leggur til rammann, bakendann, lénið, megnið af tilvísunum, o.s.frv. Þar á bænum lifa menn ekki á loftinu frekar en aðrir.

Hitt er annað mál, að hugsanlega ætti Moggi að bjóða bloggurum einhverskonar tekjuskiptingu. Bloggmaskínur eins og Stebbi Fr. eru með ríflega 2.000 manns í áskrift hjá sér daglega. Ég hygg að Morgunblaðið græði meira á honum en hann á því. Kannski upphæðirnar séu þó smávægilegri en svo að það svari kostnaði að standa í slíku bókhaldi.

Síðan lít ég auðvitað á það sem sérstakan heiður að auglýsendur taki þessa örmiðla okkar hér á Moggabloggi nægilega alvarlega til þess að vilja auglýsa og um leið borga fyrir þá þjónustu sem ég þigg.

En er ekki ritstjórnarlegu sjálfstæði mínu ógnað með þessu? Tæpast. Ég hef fengist við blaðamennsku í liðlega 21 ár og það hefur aldrei plagað mig þó hitt eða þetta sé auglýst á sömu síðu. En hvað ef auglýsingin væri ekki fyrir símkerfi heldur pólitísk? Myndi ég una því ef Samfylkingin keypti auglýsingu hér við hliðina á? Ójá, því meira hrós gæti maður varla fengið en ef pólitískir andstæðingar sæju sérstaka ástæðu til þess að andæfa manni með þeim hætti.

 

....................

P.S. Sé mér til vonbrigða að bloggkerfið tekur ekki gríska stafrófið vandræðalaust. Mætti líklega laga Unicode-stuðninginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband