Leita í fréttum mbl.is

Vandinn við Villa

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, núverandi oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.

Nú berast af því fregnir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hyggist leita eftir því að verða áfram oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna í Reykjavík og taka þá við embætti borgarstjóra að ári. Með því vilji hann freista þess að standa af sér storma undanfarinna vikna og ná fyrra trausti Reykvíkinga. Hvað hæft er í þessu er óvíst. Fréttablaðið segir að Vilhjálmur hafi verið mjög tvístígandi í þessum efnum undanfarna daga og hafi raunar verið búinn að ákveða það að sækjast ekki eftir borgarstjóraembættinu. 

Margir stuðningsmenn Vilhjálms hafa hins vegar lagt hart að honum um að halda sínu striki og segja uppgjöf af hans hálfu nánast viðurkenningu á að hann hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Einkum mun fjölskylda Vilhjálms halda þessu sjónarmiði á lofti, en jafnframt hefur Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra staðið fast á því að Vilhjálmur megi ekki segja af sér. Ég sé að hinn innvígði en útmúraði Friðjón R. Friðjónsson telur í bloggi sínum á Eyjunni að hann hafi riðið baggamuninn í þeim efnum og kann honum engar þakkir fyrir. Þeir Vilhjálmur og Guðlaugur Þór hafa verið í gagnkvæmu stuðningsbandalagi í prófkjörum, þar sem hvor hefur eindregið beint því til stuðningsmanna sinna að kjósa hinn og má segja að það bandalag hafi verið lykillinn að prófkjörssigrum beggja.

Mér skilst að aðeins eitt sé á hreinu: Vilhjálmur hafi ekki viljað segja opinberlega af eða á fyrr en eftir helgi því honum hafi mislíkað mjög sá frestur sem Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi sett honum í Silfri Egils um liðna helgi. Þá sagði Geir að Vilhjálmur hefði aðeins umþóttunartíma út vikuna. Geir hefur eindregið gefið til kynna að hann vilji að Hanna Birna Kristjánsdóttir taki við oddvitastöðunni og til marks um það höfðu menn samhljóma ummæli Borgars Þórs Einarssonar stjúpsonar Geirs og Þórlinds Kjartanssonar, formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, í liðinni viku, en þeir eru í innsta hring Geirs og telja menn ómögulegt að þeir fóstbræður hafi báðir sagt í sama mund að beinast lægi við að Hanna Birna tæki við forystunni í borgarstjórnarflokknum án samráðs við Geir.

Vilhjálmur er sagður taka þá afstöðu Geirs nærri sér, því hann hafi ævinlega stutt Geir af heilindum og talið að það væri gagnkvæmt. Vinir Villa benda á að Geir hafi stutt hann í síðasta borgarstjórnarprófkjöri Sjálfstæðisflokksins, meðal annars til þess að stöðva framgöngu Gísla Marteins Baldurssonar, sem flestir litu á sem frambjóðanda Davíðsæskunnar. Er rifjað upp að aðalræðumaðurinn við opnun kosningaskrifstofu Vilhjálms um árið hafi einmitt verið Inga Jóna Þórðardóttir svo ekkert færi nú milli mála. Geir gat trauðla gert upp á milli Vilhjálms og Gísla Marteins opinberlega, enda nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þverrandi stuðningur, ný vandamál
Nú segir Vísir þá frétt að hvorki Geir né Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vilji að Vilhjálmur haldi áfram sem oddviti. Heimildirnar eru ekki tilgreindar, en mér þykir afar sennilegt að þetta sé rétt. Að minnsta kosti er það í nokkru samræmi við það, sem heyrst hefur úr þeim áttum að undanförnu. Þau eru sögð ætla að hitta Vilhjálm á fundi síðar í dag til þess að telja hann af þessari fyrirætlan sinni. Sjáum nú til hvernig það fer, en það hlýtur að vera fróðlegt að fylgjast með því á næstunni hvort að þessi ágreiningur Guðlaugs Þórs og Geirs hefur einhver eftirmál. Til þessa hefur ekki komist hnífurinn á milli þeirra.

Þó Vilhjálmur hafi legið undir feldi í tvær vikur (þegar Ljósvetningagoðanum dugðu þrjár nætur) er ég mjög efins um að Vilhjálmur meti stöðu sína rétt. Eða að hann átti sig á vandanum — þessi langi tími bendir til þess að markmið hans hafi verið eigin lausn en ekki Sjálfstæðisflokksins. Ég skil vel að hann vilji endurheimta pólitíska æru sína, en vandinn er sá að til þess hefur hann þröngan kost. Ef nokkurn. Í stjórnmálum er nefnilega aðeins ein leið til slíks og hún felst í því að bera mál sín undir kjósendur. Þeir einir geta reist menn við. Vilhjálmur hefur þegar sagt að hann hyggist ekki bjóða sig fram í næstu kosningum. Því er von að menn spyrji til hvers leikurinn sé gerður; pólitísk uppreisn hans getur ekki falist í því að sitja sem fastast í skjóli hálfvolgra og kreistingslegra stuðningsyfirlýsinga annara borgarfulltrúa.

Menn geta þá líka velt fyrir sér framhaldinu. Vilhjálmur þyrfti þá að taka upp þráðinn, þar sem frá var horfið fyrir tveimur vikum, og svara því hvernig lá í svörum hans um samráð við borgarlögmann í REI-málinu. Það mun reynast snúið og þegar í stað rífa ofan af sárinu. Við bætist að Umboðsmaður Alþingis er loks að taka REI-málið fyrir og ekki verður það léttara fyrir Vilhjálm, hvorki út á við né í borgarstjórnarflokkinum. Sjálfsagt eru svo enn fleiri fletir á REI-málinu, sem eiga eftir að koma í ljós, aðallega hvað varðar aðdraganda þess. Ekki styttast svipugöngin við það. Þegar svo við bætast alvarlegar ásakanir um spillingu eins og lagðar eru fram á hendur Vilhjálmi í Vísi í dag blasir við alger skelfing.

Eins má ljóst vera að minnihlutinn í borgarstjórn mun ekki láta sitt eftir liggja í aðsúg að Vilhjálmi og borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna öllum. Þar í eru veruleg efni og ekki síður skiptir hitt máli að hann myndi tala máli mjög margra borgarbúa ef marka má skoðanakannanir, orðið á götunni og þá hárskera og leigubílstjóra, sem ég hef ráðfært mig við.

Langdregið pólitískt sjálfsmorð
Ég óttast því að úr gæti orðið eitt langdregnasta pólitíska sjálfsmorð í manna minnum, Death of a thousand cuts, eins og það heitir á ensku. Þegar að kæmi að borgarstjóraskiptum næði það sjálfsagt nýjum hæðum og við tæki ömurlegur aðdragandi sveitarstjórnakosninga. Sú passía myndi ekki varða Villa einan, Sjálfstæðisflokkurinn allur myndi fyrir gjalda, bæði hér í borginni og á landsvísu, enda hefur flokksforystan fengið æ meiri gagnrýni upp á síðkastið fyrir að vera ekki vandanum vaxin.

Henni er auðvitað vandi á höndum, rétt eins og borgarstjórnarflokknum, því heitstrengingar um stuðning við Vilhjálm er erfitt að taka til baka. Þar hefur líka hver keppt við annan í fullyrðingum um að ákvörðunin sé alfarið í höndum Vilhjálms. Vegna þess hversu vandasöm hún sé, ekki síst fyrir Vilhjálm, þurfi að veita honum tilfinningalegt svigrúm til þess arna.

Sú kenning er hrein firra og er einmitt rót vandans. Það er hreint ekki í valdi og vilja Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar eins hvort hann verður borgarstjóri í Reykjavík. Borgarstjórinn er ráðinn af borgarfulltrúum og það eru því þeir, sem ráða þessu. Rétt eins og það eru borgarfulltrúar sjálfstæðismanna, sem velja sér oddvita úr sínum röðum. Oddvitinn situr í þeirra friði, rétt eins og borgarstjórinn. Mistök Vilhjálms í REI-málinu voru einmitt þau að hann taldi sig á einhvern hátt geta skipað borgarfulltrúunum fyrir verkum, en gleymdi að því var öfugt farið: Hann sat í umboði þeirra. Fyrir vikið missti hann borgarstjórastólinn.

Borgarstjórnarflokkurinn taki af skarið
Þó að borgarfulltrúar sjálfstæðismanna, að ógleymdum formanni og varaformanni flokksins, trúi því ennþá, vilji trúa því eða þykist trúa því, að allt sé þetta á forræði Vilhjálms, er gallinn er sá að því trúir enginn annar. Alls enginn.

Taki Vilhjálmur ekki af skarið blasir við að einhver annar verður að gera það. Fyrst og fremst liggur vandinn fyrir dyrum borgarstjórnarflokksins og þar ætti að leysa hann. Væri þá ekki eðlilegast að Hanna Birna Kristjánsdóttir sýndi forystuhæfileika sína með afgerandi hætti og hyggi á hnútinn? Hún er máske rög við það, annars vegar af tillitssemi við Vilhjálm og hins vegar kann hún að óttast að menn reki það til eigin metnaðar. Það eru ástæðulausar áhyggjur. Vilhjálmi hefur nú þegar verið sýnd ýtrasta tillitssemi. Á hinn bóginn er fyllilega tímabært að sjálfstæðismönnum, kjósendum Sjálfstæðisflokksins, borgurum Reykjavíkur og Íslendingum öllum sé sýnd sú tillitsemi að láta stjórn höfuðborgarinnar ekki reka lengur á reiðanum. Hvað hitt varðar þá er margsannað að Reykvíkingar kæra sig ekki um metnaðarlausa borgarstjóra.

Láti borgarstjórnarflokkurinn það vera að taka af skarið, hættir málið að snúast um traust og trúverðugleika Vilhjálms. Þá fer það að snúast um traust og trúverðugleika borgarstjórnarflokksins alls og í framhaldinu Sjálfstæðisflokksins. Þó ég sé bara úr máladeild er það reikningsdæmi ekki flókið. En úrlausn þess er brýn. Leysi Vilhjálmur það ekki í dag eða á morgun þarf borgarstjórnarflokkurinn að gera það á mánudag. Geri hann það ekki hefur hann lagt eigin trúverðugleika og flokks síns að veði með Vilhjálmi. Þá ætti hann að hafa hugfast að það er enginn einn maður stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já takk, ég sé ástæðu að þakka ítarlegt og hreinskilna samantekt.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 14:42

2 identicon

...átti að vera ítarlega og hreinskilna samantekt.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 14:42

3 Smámynd: Hagbarður

Greiningin hjá þér er mjög trúverðug. Prýðileg samantekt.

Hagbarður, 23.2.2008 kl. 15:51

4 identicon

Guðlaugur ætlar sér að halda óróanum og óánægjunni gangandi til þess að sjálfstæðismenn vilji refsa veikri forystu.

Þá liggur Þorgerður vel við höggi.

THK (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 16:01

5 identicon

Sagði Gunnar Thorsoddsen ekki eitt sinn að það ætti að vera í skipulagsreglum flokksins að ef formaður flokksins gengur fram af flokksmönnum þá eigi varaformaður að víkja? 

Petur (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 16:30

6 Smámynd: Steinn Hafliðason

Þakka þér fyrir frábæra úttekt. Villi á ekki eftir að fá nokkurn frið sem borgarstjóri og ef Villi heldur áfram á flokkurinn eftir að tapa trúverðugleika sem hann hefur reyndar gert nú þegar.

Steinn Hafliðason, 23.2.2008 kl. 17:16

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

íltí ebni en góður pistill

Brjánn Guðjónsson, 23.2.2008 kl. 17:37

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Frábær pistill Andrés - góð samantekt. Gaman að lesa. Þetta er heiðarlegt og gott mat á stöðunni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.2.2008 kl. 17:54

9 Smámynd: Óskar Arnórsson

já..mikið vit þarna í þessari grein. Það er engu við þetta bætandi..

Óskar Arnórsson, 23.2.2008 kl. 18:51

10 Smámynd: corvus corax

Afar fróðleg og skemmtileg samantekt atarna. Menn hafa af því áhyggjur að ráðleysi Vilhjálms sé farið að skaða Geir og sjálfgræðgisflokkinn allan, megi Vilhjálmur vera ráðlaus sem allra lengst og skaða Geir og sjálfgræðgisflokk Davíðs sem allra mest. Húrra fyrir Villa!

corvus corax, 23.2.2008 kl. 18:59

11 identicon

Afbragðs greinargerð. Orð í tíma töluð. Tek undir orð þín um að Hanna Birna verði að höggva á hnútinn, sem og borgarstjórnarflokkurinn. Ömurlegt að verða vitni að þessu langvinna pólitíska dauðastríði Vilhjálms. Hann þarf á póiltíkskri líknandi meðferð að halda, fjarri forystustörfum.

Einar Örn Einarsson (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 19:29

12 Smámynd: Taxi Driver

Frábærlega skrifað og þrautpælt. Vona að flokkurinn skaðist sem mest af þessu. Takk!!

Taxi Driver, 23.2.2008 kl. 19:39

13 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þarna skrifar maður sem þekkir umræðuefnið flestum öðrum betur. Þetta eru miklir örlagatímar í pólitík og nú er áríðandi að Villi standi sig og láti ekki hrekja sig frá glæstum endaspretti á glæstum póltískum ferli.

Áfram Vilhjálmur Þórmundur!

Árni Gunnarsson, 23.2.2008 kl. 20:25

14 Smámynd: Auðun Gíslason

Þetta slær nú öllu við!  Frábær pistill!  Hvílíkur glundroði!  Tek undir með Árna.  Áfram Vilhjálmur Þórmundur!

Auðun Gíslason, 23.2.2008 kl. 22:39

15 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Ég fæ ekki annað séð en kjósi Vilhjálmur að halda áfram muni það stórskaða flokkinn í Reykjavík eins og þú bendir á. Og Vilhjálmur mun taka Gísla Martein með sér í fallinu.

Ég er því sammála þér að úr verður pólitískt sjálfsmorð.

(Einhver skrifaði í vikunni í þessu sambandi "pólitískt blóð" og fékk bágt fyrir. Ætli þú og ég verðum ekki kjöldregnir fyrir að nota pólitískt sjálfsmorð sem hlýtur að vera verra orð).

Sigurður Haukur Gíslason, 23.2.2008 kl. 22:42

16 identicon

Orð í tíma töluð og gæti ég ekki verið meira sammála þér Andrés. Núverandi ástand er óþolandi á allan hátt.

Taki Vilhjálmur ákvörðun um að sitja sem fastast og ætla sér borgarstjórastólinn þá verður það mjög afdrifarík ákvörðun sem á eftir að skaða sjálfstæðisflokkinn til langs tíma.

Sem sjálfstæðismaður til margra ára þá er ég orðlaus yfir því ástandi sem Vilhjálmur hefur skapað með þessari þráhyggju sinni ,að halda að allt lagist af sjálfu sér. Hann sýnir þá að hann hefur ekki þá pólítísku visku né jarðsamband við kjósendur Sjálfstæðisflokksins ef hann heldur sínu striki eins og ekkert sé.

Slíkan borgarstjóra þurfum við sjálfstæðismenn og reykvíkingar EKKI.

BOSS (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 23:03

17 identicon

Nú reynir á pólitískt hugrekki og myndugleik Hönnu Birnu að taka af skarið.

BOSS (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 23:21

18 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Ef til vill tekst mönnum að hrekja Vilhjálm brott úr flokknum yfir í Frjálslynda flokkinn, hver veit  !

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 24.2.2008 kl. 02:53

19 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Einkavinavæðingin og allsskonar spilling hlýtur að verða Villa til falls, ef ekki honum þá sjálfstæðisflokknum í borginni.  Allt þetta mál er frekar ótrúverðugt

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.2.2008 kl. 03:06

20 Smámynd: Snorri Bergz

Ég hef áður sagt að Villi eigi að fara í annan flokk, þar sem hann á betur heima, skoðanalega séð. Hann og Bingi gætu þar leikið sér saman eins og í gamla daga.

Snorri Bergz, 24.2.2008 kl. 07:41

21 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Forystan er ráðvillt, en verra er að hún kom sér sjálf í klandrið.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 24.2.2008 kl. 10:09

22 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Frábær greining á Villamálinu.  Skil ekki hvaða bull er í félögum hans um að hann ráði því hvort hann haldi áfram sem borgarstjóri eður ei. Sá á kvölina sem á völina, alla hina langar í djobbið engin þorir eða er nógu hreinskilin til að viðurkenna það. Kjósa heldur að jarma hjáróma í einum kór að þeir lýsi fullum stuðning við Villa.

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 24.2.2008 kl. 11:02

23 identicon

Það er nú svo að allur almenningur er kominn með upp í kok af þessum innanbúðarmálum sjálfstæðisflokksins, og þess vegna varla að maður nenni að lesa þetta eða frekari greiningar á því fólki/þeim flokki. Álíka áhugavert og ef nágranninn ætlar að fá sér nýjan bíl/nýjan Villis. Vesalings fólk!

Hermann (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 12:07

24 identicon

Góð greining.    Það er ömurlegt að þurfa að horfa uppá flokkinn gefa andstæðingum sínum ókeypis skotvopn út kjörtímabilið.  Og hvað svo ? Ég óttast að flokkurinn sé búin að vera í borginni og nái sér ekki á strik í næstu kosningum.  Hér er ekki verið að hafa flokkshagsmuni að leiðarljósi. Algjört metnaðarleysi hjá forystunni til að klára málið með sæmd, en stinga höfðinu í sandinn í staðinn. Ég vona að Villi komi ekki í viðtöl í kvöld - nenni ekki að hlusta á sama sönginn um að hann sé búin að vinna svo vel í 25 ár hjá borginni.  

Helga (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 14:18

25 Smámynd: Calvín

Hárrétt stöðumat hjá þér Andrés. Yfirlýsing borgarstjórnarflokksins staðfestir að borgarstjórnarflokknum er ekki lengur treystandi í heild - ekki bara Vilhjálmi.

Calvín, 24.2.2008 kl. 14:30

26 identicon

Rétt hjá Calvin. engum borgarstjórnarflokkunum er lengur treystandi. Þeir eyða svo tímanum í baktal og að berjast innbyrðis og hver við annan. ég kaus þá til að vera verkstjórar í borgarmálum, en ekki að níða hvern annan niður í tali og skrifum.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 25.2.2008 kl. 13:18

27 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Af borgarskömm er bitinn haus,
bara eins og gengur.
Villi er ekki vandalaus
og virðist því sitja lengur.

Brjánn Guðjónsson, 25.2.2008 kl. 17:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband