Leita í fréttum mbl.is

Hvíti snákurinn kemur

 Whitesnake

Ég er búinn að vera aðdáandi Whitesnake í 28 ár, æ síðan þeir Jon Lord og Ian Paice gengu til liðs við David Coverdale, sinn gamla félaga úr Deep Purple. Þeir gengu síðar sinn veg, en hápunkti náði bandið líkast til árið 1987 þegar gítarsnillingurinn John Sykes (Thin Lizzy) hjálpaði Coverdale til við að búa til sándið, sem aflaði þeim þeirra vinsælda, sem hljómsveitin lifir enn á. Ég hef fyrir löngu misst sjónar á tíðum mannabreytingunum, enda á Coverdale sveitina rekur og ræður menn eftir þörfum. Núna er hann með gítarleikarana Doug Aldrich (spilaði um hríð með Dio) og Reb Beach (Winger og Dokken), þannig að ég gerði ráð fyrir nóg af rifjárnsgítartilþrifum í bland við hársprey í Laugardalshöllinni, þaðan sem ég var að koma.

Mér kom hins vegar skemmtilega á óvart að bandið hljómaði talsvert nær nútímanum en ég hafði búist við, en án þess að skemma gömlu lögin. Jú, Coverdale er farinn að eldast eilítið, en það kemur ekki að sök nema þegar hann er að reyna að syngja á því háa céi, sem hann tamdi sér 1987-1993. En gamla, góða djúpa blúsröddin er þarna ennþá og þannig naut hann sín best. Það kom vel í ljós snemma á tónleikunum þegar hann tók Fool for Your Lovin' sem var fyrsti alvöru smellurinn með gamla Whitesnake. Seinna komu fleiri gamlir standardar eins og Ain't Gonna Cry No More, Love Ain't No Stranger og Ain't No Love in the Heart of the City. Einnig hljómuðu nokkur ný lög og ljóst að bandið er enn undir áhrifum frá Zeppelin. Mest bar þó á metsölulögunum af plötunni Whitesnake (1987), lögum á borð við Is This Love, Here I Go Again, Crying in the Rain, Still of the Night og Give Me All Your Love. Undir lokin kom Whitesnake svo á óvart með því að taka gamla Deep Purple lagið Burn, með smá viðkomu í Stormbringer. Síðast kom Coverdale einn fram á sviðið og söng Soldier of Fortune einn og óstuddur. Tær snilld.

Tónleikarnir voru miklu skemmtilegri en ég eiginlega þorði að vona. Bandið var þétt, hafði gaman af þessu og stemmningin í salnum var fyrirtak. Íslendingar geta verið kaldir áheyrendur, en Coverdale — sjómaður sem hann er — átti ekki í vandræðum með að stjórna salnum til dáða.

Ég sá Whitesnake tvisvar á níunda áratugnum í London, og síðan fyrir 18 árum, fyrst á Donington og svo í Reiðhöllinni ef ég man rétt. Skrýtnir tónleikar. Coverdale ekki í miklu stuði en gítarleikararnir Steve Vai og Adrian Vandenberg héldu tónleikunum uppi. Ég missti því miður af seinni tónleikunum þá helgina, því kvöldið eftir var Coverdale lagstur með hálsbólgu og Pétur heitinn W. Kristjánsson gerðist staðgengill hans. Það hefði ég viljað sjá. Fyrir þá tónleika tók ég símaviðtal við Coverdale fyrir Morgunblaðið, sem var einkar ánægjulegt; hann er herramaður og með hærri greindarvísitölu en gengur og gerist í þungarokkinu.

Set af þessu tilefni inn Whitesnake-lagið Crying in the Rain af plötunni 1987, þó fyrri útgáfa á Saints & Sinners hafi einnig verið ágæt. Læt einnig fylgja Soldier of Fortune með Deep Purple, sem Coverdale syngur af innlifun og Ritchie Blackmore leikur á kassagítar af ekki minni tilfinningu. Á þau má hlýða í tónlistarspilaranum efst til hægri hér á síðunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Jamm. Ég hefði viljað vera á þessum tónleikum.  Sá þá í reiðhöllinni á sínum tíma. Það voru flottir tónleikar.  Voru margir í gærkvöldi ?

Skákfélagið Goðinn, 11.6.2008 kl. 10:35

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Já, það var stórfín mæting. Ég held að sætin hafi verið nánast uppseld og þéttur pakki á gólfinu án þess að þar væri þröng. Aldursdreifingin var meiri en ég bjóst við og stemmningin þægileg. Sumir sötruðu bjór en enginn til vandræða.

Andrés Magnússon, 11.6.2008 kl. 13:16

3 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Ég heyrði skemmtilega sögu um daginn. Hún er um sænsku hljómsveitina Covered Call. En það er band frá sænsku smálöndunum sem er að spila glisrokk. Þeir eiga víst ágætis "fan base" í Svíþjóð, en hafa þó ekki enn gefið út plötu.

Trommarinn í þessar sveit hefur verið gýrugur í Sænska fjármálabransanum. Hann hefur verið að vinna fyrir hin ýmsu fjármálafyrirtæki og má geta þess að það linkur á Glitni á heimasíðu coveredcall.se. 

Það vill svo til að þessi ágæti trommari komst í stjórn hjá útgáfufyrirtæki, sem hann sá um fjármögnunina á. Hann gerði að sjálfsögðu þá kröfu að útgáfufyrirtækið myndi gefa út plötu með covered call (nafnið kemur úr hlutabréfa heiminum). Og ekki nóg með það þá fór hann fram á að uppáhaldssöngvarinn hans yrði keyptur til að syngja inn á nokkur lög.

Það varð úr að David Coverdale  söng nokkur lög inn á þessa plötu sem er í útgáfu hríðunum. Ekki nóg með þá hafa víst þessir gaurar verið að túra eitthvað með Whitesnake. 

Það má heyra eitthvað af þessum lögum á http://www.myspace.com/coveredcall  

Ingi Björn Sigurðsson, 11.6.2008 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband