Leita í fréttum mbl.is

Sögufölsun Samfylkingar

REI-listinn

Ég var líkt og endranær á laugardagsmorgnum að hlusta á Vikulokin í Ríkisútvarpinu, þar sem Hallgrímur Thorsteinsson ræðir fréttir vikunnar við tilfallandi spekinga. Ég nenni nú ekki að fara í alla umræðuna þar, hún var upp og ofan eins og gengur. Borgarstjórnarmálin bárust vitaskuld í tal og sýndist sitt hverjum. Þá gerðist það enn einu sinni að fulltrúar Samfylkingarinnar, að þessu sinni borgarfulltrúinn Sigrún Elsa Smáradóttir og þingmaðurinn (og varaformaður Samfylkingarinnar) Ágúst Ólafur Ágústsson, héldu fram sígildri sögufölsun Samfylkingarinnar um meirihlutamyndanir í Reykjavík á þessu kjörtímabili.

Sögufölsunin felst í þeim fullyrðingum að núverandi meirihluti hafi á einhvern hátt verið myndaður með klækjum, prettum og óheilindum, ólíkt öðrum meirihlutum. Sem hliðarrök er jafnan tiltekið að Ólafur F. Magnússon hafi einhvernveginn minna umboð í borgarstjórn en aðrir, sem vitaskuld er firra: Hann er réttkjörinn og er ekki sá borgarfulltrúanna, sem fæst atkvæði hefur að baki sér. Eins að þessi meirihluti sé alveg sérstaklega veikur með aðeins eins manns meirihluta.

Ágúst Ólafur og Sigrún Elsa voru enn við þetta heygarðshornið og sagði að sjálfstæðismenn hefðu myndað núverandi meirihluta með því að „pikka út einn mann yfir í sinn hóp“ úr REI-listanum og að í því fælust sérstök óheilindi. Sigrún Elsa hélt svo áfram (og talaði líkt og hún hafi verið þátttakandi samstarfinu fyrir hönd framsóknarmanna) og sagði að Björn Ingi Hrafnsson hafi hins vegar hrökklast úr meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn vegna málefna einvörðungu og þannig hafi REI-listinn orðið til. Þarna liggur fölsunin.

Mönnum er hollt að rifja upp þeirra eigin orð, Björns Inga og Dags B. Eggertssonar, þegar þeir lýstu aðdraganda myndunar REI-listans á blaðamannafundi í beinni útsendingu af Tjarnarbakkanum við Iðnó. Þar kom ekkert fram um málefni, enda entust REI-listanum ekki 100 dagar til þess að berja saman málefnaskrá sína. En í máli Björns Inga kom fram að hann hafi verið heill í sínu samstarfi við sjálfstæðismenn, hann verið að reyna að ná málamiðlun um ágreining í borgarstjórnarflokknum og ekki átt von á öðru en að úr leystist. Þegar að símtal barst. Það var Dagur B. Eggertsson, sem vildi hitta hann og rauf þannig viðræðuferli þáverandi meirihlutaflokka.

Það var sumsé Dagur, sem átti frumkvæðið, og klækina, prettina og óheilindin má því rekja lóðbeint til Samfylkingarinnar. Efist menn um það geta þeir velt því fyrir sér að hann var áður búinn að „pikka út einn mann“ annan til þess að leggja drög að þessum klækjastjórnmálum. Hann hafði sumsé talað við fyrrnefndan Ólaf F. Magnússon, sem þá var í leyfi úr borgarstjórn, og tryggt sér stuðning hans við hinn nýja, ómyndaða meirihluta. Þessu lýsti Dagur sjálfur og talaði um að Ólafur væri í raun „guðfaðir“ nýja meirihlutans! Málefni hvað?

Ekki að það skipti öllu máli, þessar meirihlutamyndanir allar voru bara „politics as usual“. En það segir sitt um pólitísk heilindi Samfylkingarinnar í borgarstjórn að hún getur ekki sagt satt um nokkurn hlut í þessu samhengi, heldur getur hún ekki annað en að leggja á sig langa króka hvað eftir annað til þess að segja ósatt og halla réttu máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Skarpur og málefnalegur að vanda Andrés.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.6.2008 kl. 14:24

2 identicon

Þessi pistill ætti með réttu að heita Sögufölsun Andrésar Magnússonar.

Ég ætla að láta mér nægja að benda Andrési á að þessi "fölsun" sem hann lýsir og eignar Samfylkingunni er ekki bara skoðun hennar heldur einnig Vinstri Grænna, Framsóknarmanna (þ.m.t. Björns Inga, sem ætti að vita betur um  ástæður sínar en Andrés), helmingingurinn af framboðslista F-listans, auk c.a. helming kjósenda sjálfstæðisflokksins.

Það að kalla þetta sögufölsun Samfylkingar er því eitt og sér sögufölsun hjá Andrési.

Hvað varðar lýsingu hans á atburðum í vetur þá er þetta greinilega hans trú og það er ekki hægt að snúa því neitt við. 

Ég man bara eftir orðum núverandi oddvita sjálfstæðismanna sem sagði svo snilldarlega "Það hefði verið hægt að leysa þennan ágreining ef Björn Ingi hefði bara fallist á okkar skoðanir" - án þess reyndar að taka fram hvort það var skoðun dvergana 6 eða skoðun Vilhjálms og landsfundar Flokksins! 

Ég man líka eftir fýlusvipnum á andlitum 5 borgaarfulltrúa af 7 þegar nýi meirihlutinn var kynntur í janúar - fýlusvipur sem sýndi að það var jafn mikill áhugi á þessum meirihluta litla bró hjá þeim eins og hjá borgarbúum almennt - en samt ákváðu þau að fylgja sannri sjálfstæðisstefnu og kyngja honum...

Er þetta sögufölsun hjá mér eða mín trú á því sem gerðist í vetur?  Tja, ég ætla ekki að dæma um það sjálfur..

Steingrímur (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 20:06

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ég ætla ekkert að minnast á Óskar Bergsson og Höfða. Aðalmálið er þetta Sjálfstæðisflokkurinn er við völd og það er það sem skiptir Reykvíkinga mestu máli.

Óðinn Þórisson, 14.6.2008 kl. 21:11

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Gaman að svona fólki eins og Steingrími sem belgja sig upp í stóryrðum um menn og málefni en eru svo ekki nægir menn til að koma fram undir fullu nafni.

Hjörtur J. Guðmundsson, 14.6.2008 kl. 21:56

5 identicon

þú ert nú með beittari hnífunum í skúffunni Andrés. Sögufölsun eða ekki, þá er þetta nú allt á réttri leið:). Mér finnst Samfylkingin vera svona álíka hugtak og vefjagigt, svona samnefnari fyrir allt sem mögulega getur verið að en er í raun þvæla. 

Eftir það hvernig þetta fólk kom fram við Þórólf Árnason hérna um árið með því að standa ekki á bakvið hann. Það var skita í lagi.

No guts - no glory

sandkassi (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 01:34

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ágætis samantekt hjá þér Andrés. Þar sem ég þekki vel til málsins vil ég bæta einu við:

Það er alsendis fráleitt að halda því fram að Ólafur Friðrik hafi verð guðfaðir 100 daga meirihlutans. Ólafur var veikur á þessum tíma og átti ekki beina þátttöku að málinu.  Þegar ég spurði Ólaf út í samkomulagið sagði hann mér að hann hefði treyst Margréti en hún hefði ekki náð fram neinum málefnum og að því leyti gengið lengra en umboð hans leyfði. Margrét og vinir hennar í Samfylkingunni voru hins vegar ein um að matreiða þetta í fjölmiðla.

Sigurður Þórðarson, 15.6.2008 kl. 08:42

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Andrés...þú getur þvælt það sem þú vilt en allir sem vilja vita það vita að þú ert að reyna að drepa málinu á dreif... Fylgi flokks þíns í skoðanakönnunum... 27% sýnir svo ekki verður um villst hvaða álit kjósendur hafa á flokknum þínum og þeim útskýringum sem þú og aðrir þar eru að reyna að halda fram

Jón Ingi Cæsarsson, 15.6.2008 kl. 11:11

8 identicon

Gaman að svona fólki eins og Hirti sem tjá sig um hluti án þess að láta smáhluti eins og staðreyndir trufla sig. 

Ég hef nægilega oft "beigt mig upp í stóryrðum" á spjalli hans, yfirleitt sem Steingrímur Jónsson í fyrstu athugasemd og Steingrímur í þeim sem koma á eftir.  Hjörtur á því alveg að vita að hann fer rangt með þegar hann fer hörðum orðum um persónu mína.

Ef ég væri ekki nægur maður til að koma fram undir nafni eins og Hjörtur heldur fram þá hefði ég væntanlega kosið að nota nafn eins og "Hrófastur Ómögsson" eða kannski "Hjörtur K. Guðmundsson"

Og hvaða gífuryrði var ég að fara með?  Mögulega fyrir utan túlkun mína á fýlusvip fimmmenningana - var fór ég einhvers staðar með rangt mál?

Er það rangt að það eru fleiri en bara Samfylkingin sem hafa þessa sýn á atburði vetrarins?

Er það rangt að Hanna Birna hafi sagt að það hafi verið auðvelt að leysa ágreining innan þáverandi meirihluta ef Björn Ingi hefði bara fallist á sjónarmið "okkar"?  Það má þá bæta við að örstuttu seinna höfnuðu sjálfstæðismenn því að það hefði verið einhver ágreiningur í gangi!

Og er það rangt að sjónarmið sexmenningana hafi verið í andstöðu við samþykktir landsfundar sjálfstæðisflokksins um samstarf opinberra aðila og einkaaðila í orkuútrás?

Og svo að kaflanum Sögufölsun Sigurðar Þórðarsonar.  Ólafur F. Magnússon var kallaður guðfaðir tjarnarkvartettsins vegna þess að þáttaka hans að myndun hans var óbein.

Það væri síðan bara fyndið, ef það væri ekki svo sorglegt, hvernig sjálfstæðismenn hamra á því að annars vegar hafi ekki verið nein málefni á bakvið tjarnarkvartettinn og hins vegar að Ólafur F. hafi hætt í honum vegna þess að hann hafi ekki náð málefnum sínum fram!

Sérstaklega sorglegt, svo ég komi með gífuryrðin sem Hjörtur talaði um, þar sem sami flokkur skrifaði síðan undir plagg sem samanstóð annars vegar af atriðum sem allir flokkar voru sammála um og hins vegar atriðum sem voru í fullkominni andstöðu við stefnu flokksins!

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 12:27

9 identicon

Hvernig er það - ætlar enginn - þar með talinn enginn - að lyfta eina einasta orði gegn þeim orðum sem ég fer fram með hér að ofan?

Ekki einu sinni málshefjandi sem þó hefur áður mótmælt orðum mínum og dæmt þau sem rangtulkun af verstu gerð!

En nei - hér virðast hótanir um villutrú eða þaðanafverra fá að komast til til skila.

Og athugið þó:  Ég hef engan vegin reynt að tengja mig við samflokkinn - sá flokkur hefur margt til saka unnið í þessu máli-  Það hefur verið mitt eina takmark að benda á að Sjálfstæðiflokkurinn hefur rangt fyrir sér og ég kalla eftir ábyrgð hans.

En nei - hvorki Andrés né annar reynir að andmæla "gífuryrðum" mínum á annan hátt en að ég tali undir nafni.  Enginn hefur á nokkurn hátt reynt að rengja það sem ég hef sagt!

Hvernig getur maður túlkað þögn manna öðru vísi en að menn skammist sín fyrir flokk sinn - skammist sín meira en nýr forsvarsmaður getur lagað.

Eða hefur sá aðili lítið annað sýnt en að hún getur slegið í bjöllu þegar á þarf að halda!

Eða voru menn bara að biða eftir gífuryrðum? 

Þau eru þá komin hér að beiðni!!!

Steingrímur jónsson (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband