Leita í fréttum mbl.is

Einn kostur, ekkert val

Meðan allt lék í lyndi

Ég hélt eitt augnablik að það væri varaformannskjör í uppsiglingu í Sjálfstæðisflokknum, því af orðum, sem höfð voru eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í norska vinstriblaðinu Klassekampen varð ekki séð að hún hefði áhuga á að leita endurkjörs.

Jeg tror ikke Island har noe valg etter den knekken vår valuta har fått.

Nú hefur Þorgerður Katrín sagt að þarna sé ekki rétt eftir henni haft, hún hafi aðeins sagt að aðildarviðræður væru nauðsynlegar. Það má vera að það sé eina leiðin til þess að komast að því hvaða kostir væru í boði, þó ég haldi nú að það sé nógsamlega skjalfest hvernig því öllu er farið. Fyrirfram hef ég efasemdir um það þegar atburðarásir eru settar af stað, því þeir sem það gera hafa yfirleitt meiningar um hvert þær skuli leiða. Tala nú ekki um þegar hafist er handa við að kanna í þaula aðeins einn kost eins og þennan, en aðrir látnir liggja milli hluta. 

Þjóðráð og afarkostir
Svona almennt og yfirleitt lýsir það vitaskuld ráðleysi að sjá engan kost nema einan, en þegar því er þannig farið er ljóst að menn telja sig þess ekki umkomna að hafa nokkur áhrif á atburðarásina. Þegar ráðamenn eru komnir í þá stöðu að vera fórnarlömb atburðarásar en ekki forystumenn er augljóst að þeir þurfa að rýma til fyrir öðrum, sem vilja leiða fremur en láta leiðast.

Ekki síst á það við í máli sem þessu, sem varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Flokksforysta Sjálfstæðisflokksins virðist hafa farið að tilmælum (eða hótunum) Samfylkingarinnar og ætlast til þess að sjálfstæðismenn — landsfundarfulltrúar altjent — geri Evrópumálin upp við sig fyrir janúarlok. Gott og vel, til er ég. En hvernig væri þá að þingmenn flokksins gæfu upp sína afstöðu, af eða á? Það er varla til of mikils mælst. Reynist þeim það ofviða ættu þeir að snúa sér að einhverju öðru en stjórnmálastarfi.

Vandi Evrópusinnanna í Sjálfstæðisflokknum er hins vegar sá að gefi þeir sig upp eru þeir í raun að snúa baki við sjálfstæðisstefnunni. Það stendur í nafninu hvert er grundvallarerindi Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum. En þeir geta þá gengið til liðs við nýfrjálshyggjumennina í Samfylkingunni, sem er snöggtum eðlilegra en að við, þessir klassísku frjálshyggjumenn sem kjósum sjálfstæðið, göngum til liðs við vinstrigræna, eins og Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins stakk upp á af alkunnri gamansemi í viðtali við Fréttablaðið um helgina.

Nauðhyggjan
Það þarf ekki að rekja vandann, sem Íslendingar standa frammi fyrir. Kostirnir eru ekki margir og fæstir góðir. En er þá ástæða til þess að fækka þeim frekar? Veigamikil álitamál eru ítrekað reifuð á þann hátt að aðeins séu tveir kostir í boði og virðist einu gilda hvort málshefjendur eru stjórnarliðar, í stjórnarandstöðu eða hinir margrómuðu hlutlausu fræðimenn. Í Evrópumálunum láta nú sumir eins og það sé ekki einu sinni kostur lengur að standa fyrir utan ESB. Hin sögulega nauðsyn sé öll á eina leið.

Nauðhyggjan hefur leikið þjóðina nógu grátt undanfarnar vikur, þar sem menn hafa tekið erfiðar ákvarðanir á skömmum tíma og án þess að leita umræðu um þær. Icesave-samningarnir svokölluðu eru hræðilegt dæmi um það. Eftir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna um að þeir myndu ekki láta kúga sig fór óvænt að bera á tíðindum um að samkomulag væri að nást og svo var það kynnt sem meiri háttar sigur, þegar orðalagið „skilyrðislaus uppgjöf“ hefði átt betur við. Þar var enn tönnlast á því að ekki hefði verið um nema einn kost að ræða. Eitthvað var umlað um „þjóðréttarlegar skuldbindingar“ án þess þó að nokkur hefði fyrir því að útskýra hvenær fullveldisafsalið til útibúa Landsbankans erlendis hafi átt að hafa farið fram. Undir síðustu helgi samþykkti þingið svo þingsályktun um að ríkisstjórninni yrði barasta falið að semja um þetta allt saman. Væntanlega af því að henni hefur farnast svo vel því sviði að undanförnu.

Máske er ekki öll nótt úti í því samhengi, en ekki er maður bjartsýnn. Enn sem fyrr varpar hver ábyrgðinni yfir á annan, þannig að allt útlit er fyrir að Íslendingar klúðri því að sækja rétt sinn á hendur breska ríkinu vegna árásar þess á íslenska bankakerfið. Árásar sem síðan var fylgt eftir með afarkostum Evrópusambandsins, sem fylkti sér að baki óþokkanum Gordon Brown til þess að kúga Íslendinga. Vanræki ríkisstjórnin eða stofnanir, sem starfa á ábyrgð hennar, að grípa til varna og sóknar í þessu máli er aukast vandræði stjórnarinnar enn, en ekki hálft eins og vandræði þjóðarinnar, sem mun sitja uppi með óbærilegar skuldir löngu eftir að þessi ríkisstjórn verður farin frá og ráðherrar hennar orðnir sendiherrar í Brussel, Strassborg, Lúxemborg, Frankfurt og Haag.

Uppgjöfin gagnvart þessum fantabrögðum óvinaþjóða okkar í Evrópu er ömurleg. En hálfu verra er að horfa upp á þau viðbrögð að þá sé eina ráðið að gangast undir okið að öllu leyti og ganga ofsækjendum okkar á hönd. Mér finnst það raunar ganga landráðum næst.

 


mbl.is Ekkert annað hægt en sækja um aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Til hvers er að setja upp evrópunefnd ef það er að eins einn valkostur?

Samfylkingin er búin að setja úrslitakosti og  Sjálfstæðisflokkurinn er ákveðinn í að halda samstarfinu áfram. Þá er þetta gegnsæ markleysa. 

Sigurður Þórðarson, 15.12.2008 kl. 16:12

2 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Er endilega víst að rangt sé eftir Þorgerði haft þó hún segi það nú?

http://www.magnusthor.is/default.asp?sid_id=23965&tId=2&fre_id=80725&meira=1&Tre_Rod=006|&qsr

Magnús Þór Hafsteinsson, 15.12.2008 kl. 17:12

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Tja, nú veit maður ekki, Magnús minn. Það liggur við að maður fyllist örvinglan yfir því hvernig komið er fyrir erlendum kollegum okkar. Það er eins og þeir get ekki haft neitt rétt eftir nokkrum íslenskum stjórnmálamanni.

Andrés Magnússon, 15.12.2008 kl. 17:20

4 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Alf Skjelseth er mjög reyndur blaðamaður. Hann vísar því alfarið á bug að hann hafi haft rangt eftir Þorgerði Katrínu og segist hafa segulbandsupptöku máli sínu til stuðnings. Ég trúi því að hann eigi upptöku af viðtalinu. Hann hljóðrita að minnsta kosti þegar  hann tók viðtal við mig daginn áður en hann hitti ÞKG.

Magnús Þór Hafsteinsson, 15.12.2008 kl. 17:42

5 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Við hljótum að geta fengið birta hljóðritunina af þessu viðtali við Þorgerði Katrínu. Sjálf hlýtur hún að taka því fagnandi því misskilningurinn er alvarlegur.

Páll Vilhjálmsson, 15.12.2008 kl. 18:23

6 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Það er bara að hafa samband við norska blaðamanninn Alf Skjelseth og biðja um afrit af hljóðupptökunni. Það kemur mér á óvart ef hann hefur misskilið svo herfilega því hann virkaði þannig á mig að hann væri búinn að setja sig inn í málin. Eigum við ekki að treysta á að íslenskir fréttahaukar skaffi upptökuna? Eða hvað?

alfs@klassekampen.no

Magnús Þór Hafsteinsson, 15.12.2008 kl. 19:47

7 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Netfang Alf Skjeseth er hér fyrir ofan.

Magnús Þór Hafsteinsson, 15.12.2008 kl. 19:48

8 identicon

Gott hjá þér Magnús, nú þurfa íslenskir frétta-blaðamenn að sýna úr hverju þeir eru gerðir.

Ragnhildur (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 21:05

9 identicon

Lítum á hvað segir í lögum um landráð:

X. kafli. Landráð.
86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.

Það er líklega rétt hjá þér, Andrés, þetta lið er á hálum ís. 

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 21:18

10 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Tær snilld Andrés, eins og svo oft úr þínum penna (lyklaborði) :)

Ég sendi nú einmitt skeyti á Alf í dag og spurði um það hvort þetta væri rétt. Hann hefur ekki svarað enn. En eins og Páll segir þá hlýtur Þorgerður að fagna því ef upptaka er til af viðtalinu svo sýna megi fram á að hún hafi alls ekki sagt þetta - eða sagt það.

Hjörtur J. Guðmundsson, 15.12.2008 kl. 21:45

11 identicon

Andrés segir hér að ofan: "Vandi Evrópusinnanna í Sjálfstæðisflokknum er hins vegar sá að gefi þeir sig upp eru þeir í raun að snúa baki við sjálfstæðisstefnunni. Það stendur í nafninu hvert er grundvallarerindi Sjálfstæðisflokksins í stjórnmálum."

Þetta finnst mér harla einfölduð mynd af sjálfstæði. Gætuð þið þá skýrt út fyrir mér hvernig innganga í Evrópska efnahagsvæðið (í tíð ríkisstjórnar DO) var ekki að snúa baki við sjálfstæðisstefnunni. Með þeirri inngöngu undirgöngumst við ógrynni laga sem eru samþykkt algerlega án okkar þáttöku meðan að að við inngöngu í ESB myndum við fá aðild að slíkri ákvarðanatöku. Hvar liggur þessi fína lína um að snúa baki við sjálfstæðisstefnunni? Liggur hún kannski í því að sjálfstæðisflokkurinn má ekki snúa baki við skoðunum DO eða eru einhver haldbær sjálfstæðisrök sem eiga við núna en ekki þegar sjálfstæðismenn studdu inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið.

Samkvæmt þessari einfölduðu mynd sumra sjálfstæðismanna af sjálfstæðishugtakinu þá eru flestar þjóðir Evrópu ófrjáls ríki og hafa raunar gefið upp frelsi sitt frjálsri hendi. Það er að sjálfsögðu rök með og á móti inngöngu í ESB en í guðanna bænum lyftum þessu upp á örlítið hærra plan en að segja ósköp einfaldlega að nafnið "sjálfstæðis"flokkur þýði nei við ESB.

Magnús Karl Magnússon (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 23:10

12 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Hjörtur segist hafa sent Skjelseth skeyti í dag en ekki fengið svar enn að minnsta kosti. Hér fyrir neðan er svar Skjelseth til mín klukkan 15:00 í dag eftir að ég hafði greint honum frá því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins vildi ekki kannast við það sem eftir henni var haft. Eins og sjá má vísar hann þessu mjög ákveðið á bug og skrifar sjálfur upp orðrétt það sem hann hefur á bandi:

Hei igjen. Intervjuet er ikke sitatsjekket, noe hun heller ikke ba om. Men jeg har ikke tillagt henne noe hun ikke sier. Som dere ser av hele teksten, er det flere forbehold om hindringer som må overvinnes, forhandlingsresultat, folkeavstemning osv. Forbeholdene er kanskje ikke med i den versjonen som er referert på Island.

På spørsmål om hvordan hun selv ser på EU-spørsmålet svarer hun ifølge lydbåndet ordrett slik:

- Hvor står du selv i EU-spørsmålet, når vi snakker sammen akkurat nå?
- Akkurat nå vil jeg se en løsning av pengepolitikken. Og jeg ser i dag ikke en løsning uten EU.

Dette er i intervjuet gjengitt slik: "Jeg ser ikke en løsning på våre pengepolitiske problemer utenfor EU"

Tidligere i artikkelen er hennes standpunkt sammenfattet slik: "Jeg tror ikke Island har noe valg [i forhold til EU] etter den knekken vår valuta har fått". Det mener jeg har full dekning i sitatet ovenfor, og at det ikke er snakk om feilsitering.

Gidder du oversette linjene under til norsk, selv om jeg tror jeg skjønner det meste.

mvh Alf S

Magnús Þór Hafsteinsson, 16.12.2008 kl. 00:00

13 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Sælir strákar,
hafið þið velt fyrir ykkur AF HVERJU Þorgerður Katrín hefur sagt "eina leiðin"?  Ég er ennþá að velta fyrir mér þessum sinnaskiptum í Sjálfstæðisflokknum frá þingmönnum og ráðherrum sem hafa fyrir skemmstu verið alfarið á móti ESB aðild.  Mér finnst því stóra spurningin sem þarf að svara hér:  um hvað var samið við ESB í sambandi við Icesave?  Er eitthvað varðandi þá samninga sem við vitum ekki?  Er búið að semja um eitthvað sem við vitum ekki?

Mér fannst Pétur Blöndal einmitt gefa í skyn í morgunþætti Bylgjunnar ekki fyrir svo löngu að hann grunaði slíkt.  Raunar hvatti hann fjölmiðlamenn til að spyrja þessara spurninga en ég hef ekki heyrt bofs um þetta. 

Alla vega eru þetta áhugaverðar pælingar í ljósi furðulegra sinnaskipta án útskýringa.  Líka sú staðreynd að einhliða upptaka gjaldmiðils virðist ekki vera í skoðun þar sem áformað er ennþá að breyta Seðlabanka/FME/bankaeftirlit!!!

Vilborg G. Hansen, 16.12.2008 kl. 07:58

14 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég er í nokkrar vikur búinn að bjóða þingmönnum kynningu á því fyrirkomulagi peningamála sem nefnist Myntráð. Sumir hafa sýnt nokkurn lit, en ekki Þorgerður Katrín. Ef menn leyfa sér að segja, að engin lausn sé tiltæk nema ESB-aðild, þá fara þeir með harðsoðnar lygar.

Ef menn vilja í alvöru taka upp stöðugan gjaldmiðil og öðlast þar með litla verðbólgu, lága vexti, stöðva eignarýrnun og afnema vísitölutryggingu, ættu menn að leggja við eyrun þegar Myntráð er nefnt.

Með Myntráði höldum við áfram innlendum gjaldmiðli, en bak-tryggjum hann með US Dollar. Þetta fyrirkomulag er það sama og var við lýði um allan heim, á stöðugleikatímabilinu 1944 - 1971, enda var þá US Dollar bak-trygging gjaldmiðlanna, sem á sama hátt hafði gull sem bak-tryggingu.

Fulltrúar frá 44 löndum bandamanna úr heimsstyrjöldinni komu sé saman um þetta kerfi, sem reyndist svo frábærlega vel. Samningurinn er kenndur við Bretton Woods, ef menn hafa áhuga á að kynna sér málið. Richard Nixon tókst að eyðileggja þetta kerfi, eins og svo margt annað. Samt eru fjölmörg lönd sem notfæra sér þetta fyrirkomulag, sem á sér nær 200 ára sögu.

Höfum í huga að reynslan af myntráðum er 100% góð. Engin myntráð hafa lent í gjaldþurrð, eða klúðrast af öðrum tæknilegum völdum. Berum það saman við sögu seðlabankanna. Myntráð hafa víða verið lögð niður en það er ávallt vegna ásælni stjórnmálamanna og oft að kröfu IMF, ekki af tæknilegum ástæðum.

Þetta er fyrirkomulag sem ekki getur brugðist og sem kostar mjög lítið (10 starfsmenn), auk þess að hægt er að taka það í notkun Strax (á 60 dögum). Það er algjör misskilningur sem sumir halda fram, að efnahagslegt jafnvægi þurfi að vera til staðar við upptöku Myntráðs. Við eigum að taka það upp Strax og stöðva þannig gengissveiflur, verðbólgu, eignarýrnun og vísitölutryggingu.

Íslendskan Dollar Strax með Myntráði Íslands og USD sem grunn-mynt !

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.12.2008 kl. 10:11

15 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Magnús:

Ég fékk í morgun svar frá Alf þar sem hann staðfestir að ummæli Þorgerðar séu rétt eftir höfð og að hann hafi þau á bandi. Hann tók þó skýrt fram að hann vilji alls ekki blanda sér í einhverjar pólitískar deilur hér á landi um Evrópumál, en það valdi honum vissulega miklum vonbrigðum ef Þorgerður vill ekki kannast við ummæli sín og ef verið er að kasta rýrð á starfsheiður hans sem blaðamanns.

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.12.2008 kl. 11:50

16 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Vilborg:

Þetta er mjög áhugaverður punktur!

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.12.2008 kl. 11:51

17 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Magnús Karl:

Við aðild að Evrópusambandinu fengi Ísland vægi innan þess sem færi eftir íbúafjölda landsins. Það vægi, og þar með möguleikar á áhrifum innan sambandsins og þar með á okkar eigin mál sem flest yrðu þá undir stjórn þess að meira eða minna leyti, yrði innan við 1%. Er það sjálfstæði? Er það að ráða sínum málum sjálf?

Það er talað um að aðildarríki Evrópusambandsins deili fullveldi sínu. Er það jöfn deiling þegar ríkin sitja ekki við sama borð heldur miðað við íbúafjölda? Værum við þá líka að deila fullveldi okkar með stofnunum sambandsins sem eru flestar sjálfstæðar gagnvart aðildarríkjunum, stjórnað af ókjörnum embættismönnum, en hafa gríðarleg völd á sinni könnu sem eitt sinn var stór hluti af fullveldi ríkjanna?

Ef Ísland gengi í Evrópusambandið yrði landinu eftirleiðis stjórnað af flestum öðrum en okkur eða okkar fulltrúum. Hvað ætlaðir þú að gera ef þér líkaði ekki einhver ákvörðun sem t.d. tekin væri af framkvæmdastjórn sambandsins? Fara að mótmæla fyrir framan skrifstofur framkvæmdastjórnarinnar í Brussel? Það er a.m.k. ljóst að þú hefðir enga lýðræðislega leið aðra til þess að hafa áhrif á málin ef af aðild Íslands yrði. Þú kysir ekki þá sem þá stjórnuðu landinu. Í flestum tilfellum kysi þá reyndar enginn.

---

Það hafa alltaf verið deilur um EES-samninginn og fullveldið. Það er þó grundvallarmunur og um leið mikill munur á þessu tvennu.

1) EES-samningurinn er takmarkaður við innri markaðinn. Það er Evrópusambandsaðild ekki. Það eru fáir málaflokkar innan aðildarríkjanna í dag sem heyra ekki undir yfistjórn Evrópusambandsins að meira eða minna leyti. Og þeir fækkar sífellt.

2) Til þess að lagagerð frá Evrópusambandinu taki gildi á Íslandi í gegnum EES-samninginn (Ísland hefur möguleika á að hafa mikil áhrif á það hvaða lagagerðir falli undir samninginn) þurfa íslenzk stjórnvöld að innleiða hana. Lagagerðir Evrópusambandsins taka hins vegar gildi sjálfkrafa í aðildarríkjum sambandsins. Fyrir vikið er litið svo á að hver lagagerð Evrópusambandsins sem tekin er upp hér á landi í gegnum EES-samninginn sé sérstakur þjóðréttarsamningur.

3) Íslendingar geta sagt EES-samningnum upp einhliða hvenær sem er án samþykkis Evrópusambandsins. Eins og staðan er í dag er hins vegar ekkert í sáttmálum eða löggjöf sambandsins sem heimila aðildarríkjum þess að yfirgefa það. Það er m.ö.o. ekki hægt nema þá með sérstöku samþykki Evrópusambandsins sem væri þar með algerlega háð geðþótta þess.

Það að nota EES-samninginn sem rök fyrir því að ganga eigi í Evrópusambandið er þannig augljóslega miklu fremur rök fyrir því að segja EES-samningnum upp.

Hjörtur J. Guðmundsson, 16.12.2008 kl. 12:12

19 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Förum við bara ekki í það, að rétta kúrsinn aftur.

Mið og Veturbær eða Vestur og Miðbær, svona eftir smekk, er hið gamla Óðal Íhaldsins, þó svo að nú hafi nokkuð fækkað að tiltölu slíkum eðal borgurum í 101 Rvík.

Sjáumst á Landsfundi en þangaðtil.

Megir þú njóta kyrrðar og rósemi hugans í birtu Ljóssins Eilífa sem er kennimark Sannleikans í Mannheimum.

Minnumst Einars okkar Odds, þar fór óljúgfróður maður með afbrigðum.

Njóttu Sólstaða og hækkandi ljóss og Sannleika.

Miðbæjaríhaldið

Er stundum afar hornhvass en þó ætíð hornréttur eftir getu.

Bjarni Kjartansson, 16.12.2008 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband