Leita í fréttum mbl.is

Fátæktin

Fátæktarskýrslan svonefnda hefur valdið nokkru uppnámi. Sjálfum brá mér mest í brún að lesa stríðsletursfyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í gær: „Markmiðið á að vera útrýming fátækra barna“ en svo las ég hana aftur og áttaði mig á að mér hafði missýnst, þar stóð „Markmiðið á að vera útrýming fátæktar barna“, sem er aðeins annar handleggur. En svo sá ég á bloggnum hjá Helga Hjörvar, hinum skelegga þingmanni Samfylkingarinnar, að honum er slík útrýming ekki fjarri skapi:

Við getum fækkað fátækum börnum á Íslandi um a.m.k. 2000. [Til þess eigi …] að beita pólitískri forgangsröðun í sköttum og bótum þannig að hún þjóni frekar því markmiði að fækka fátækum börnum…

Að hótfyndninni slepptri er vert að vekja athygli á því að þessi fátæktarmæling byggist ekki á kjörum fólks heldur hlutfallslegum kjörum þeirra miðað við meðaltalið. Það er sumsé innbyggt í mælinguna að neðstu prósentin eru skilgreind fátæk óháð efnalegri stöðu. Þannig að fátæktin verður aldrei upprætt meðan það er viðmiðunin, alveg sama hvað börnin fá að bíta og brenna.

Það er afar sennilegt að á Íslandi finnist börn, sem búa við fátækt af ýmis konar völdum, og auðvitað ber okkur að gæta þeirra bræðra okkar og systra. En þessi umræða er auðvitað á fullkomnum villigötum ef það er innbyggt í kerfið að engu skipti hvernig búið er að fólki svo lengi sem einhver finnst, sem kann að hafa það betra. Er þá nokkuð annað ráð en að núllstilla ártalið og taka upp kommúnisma að kambódískri fyrirmynd? Jafna allt við jörðu?

Morgunblaðið tók þetta upp í forystugrein í gær og réði sér ekki fyrir vandlætingu og hneykslan. Ráðin voru augljós, það er glás til af peningum í landinu og nóg að endurútdeila þeim aðeins betur. Það er eins og maður hafi heyrt slíkar hugmyndir áður. Helst var nefnt að hækkun barnabóta gæti ráðið bug á þessum vanda. Dettur einhverjum heilvita manni í hug að einhverjar slíkar kerfisbætur á línuna séu besta leiðin til þess að vinda ofan af þessum illa skilgreinda vanda? Væri ekki nær að finna þau börn, sem búa við raunverulega fátækt og reyna að leysa vanda þeirra hvers og eins, því auðvitað eru aðstæðurnar jafnmismunandi og börnin, sem í hlut eiga.

----------

Annað þessu tengt: Ég hjó eftir því í umræðu um fátæktarskýrsluna, að sérstaklega var nefnt til dæmis um vandann, að til væru börn, sem gengu í notuðum fötum og sum tækju leikföng í arf frá öðrum. Litla fjölskyldan hér á hamingjuheimilinu við Ingólfsstræti býr engan veginn við fátækt þó við séum stundum blönk eins og gengur, en samt gengur heimasætan oft í fötum, sem hún hefur fengið af öðrum, og elstu leikföngin hennar eru síðan úr seinna stríði, þó auðvitað eigi hún líka glæný glitklæði og Slutz-brúður í bland. Okkur er engin minnkunn í því og stóðum raunar í þeirri trú að nýtni væri dyggð á Íslandi. Hér getur lesandinn svo farið með möntru að eigin vali um neysluæði nútímaþjóðfélags hraða og spennu og hugleitt spádóma um veltu jólaverslunarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sæll Andrés,

mér finnst þessi pistill þinn ekki sérlega góður. Byrjar á frekar slöppum og ósmekklegum brandara um "útrýmingu fátækra barna" og svo kemur rullan "það verða alltaf einhverjir fátækir, það er innbyggt í kerfið". Dálítið hártog um aðferðir og skilgreiningar. Aðalatriðið finnst mér hinsvegar vera að fátækt er að aukast þrátt fyrir alla velmegunina. Það á ekki að gera lítið úr því að fólk er fátækt (og þá er ég ekki að meina miðað við einhverja aðra) og það er hlutur sem við ættum að ganga í breyta. Auðvitað er ekki hægt að "útrýma" fátækt miðað við allar skilgreiningar en þegar misskipting eykst hröðum skrefum meðal annars vegna skattaafsláttar til hátekjumanna og fjármagnseigenda á meðan álögur á sjúka og aldraða aukast (komugjöld hækka og verðbólgan étur upp lífeyri, verðlagið er á hraðri uppleið) þá er eitthvað að. Og það sem er að er stefna þessarar ríkisstjórnar. Mín börn eru ekki fátæk en samt eru tekjur fjölskyldunnar ekki háar. Ég skammast mín ekki fyrir það að ganga í fötum sem eru notuð og af öðrum. Það er frekar spurning um viðhorf. En það er staðreynd að sumir í þessu velferðarsamfélagi okkar hafa það mjög skítt og eru í raum fátækir. Ég vil biðja þig að gera ekki lítið úr því. Og að lokum þetta: tal þitt Andrés um kommúnisma að kambódískri fyrirmynd er frekar þreytt.

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 12.12.2006 kl. 14:35

2 identicon

Þarna ert þú að rugla saman meðatlati og miðgildi. Í þessari skýrslu er notuð regla OECD, sem gengur út á að skilgreina fátækt þannig að þeir, sem hafi lægri tekjur en miðgildi (ekki meðaltal) tekna í viðkomandi landi teljist fátækir. Er ekki lágmark að fara rétt með staðreyndir þegar svona gerin er skrifuð.

 

Þegar um tekjudreifingu er að ræða er yfirleitt mikill munur á meðaltali og miðgildi tekna. Það er vegna þess að mjög tekjuháir einstaklingar toga meðaltalið upp en hreyfa ekki við miðgildinu. Og einmitt vegna þess að miðgildið er ónæmt fyrir tekjuhækkunum hjá öllum þeim, sem eru með tekjur ofan miðgildisins þá er ekki um fasta hlutfallslega skilgreiningu að ræða eins og þú talar um í þessari grein. Það er því einfaldlega röng fullyrðing. Það, sem þarf til að fækka fátækum samkvæmt þessari skilgreiningu er aðeins að jafna tekjudreifingu þeirra, sem teljast til neðri helmings tekjudreifingarinnar.

 

Þetta er líka ástæðan fyrir því að miðgildið er notað. Það er einfalslega tekjur þeirrar fjölskyldu, sem er í miðjunni hvað varðar tekjudreifingu í landinu. Því er helmingur fjölskyldna í landinu með hærri tekjur en hún og helmingur með lægri tekjur en hún. Þessi tala gefur því góða mynd af þeim tekjum, sem gengur og gerist í viðkomandi þjóðfélagi.

 

Það er vissulega hægt að skilgreina fátækt þannig að menn skilgreini hvað telst til nauðsynjavara og reikni út hvað þær kosti fyrir hverja fjöslyldugerð fyrir sig og skilgreini síðan þá fjölskyldu fátæka, sem hefur ekki nettótekjur til að kaupa þær vörur. Það er þó sá hængur á að þegar þjóðfélag verður ríkara þá er tilhneyging til að skilgreina fleiri vörur, sem nauðslyjavörur en áður var.

 

Hvort er eðlilegra að skilgreina fátækt þannig að aðeins þeir, sem ekki hafa nægar tekjur til að komast af teljist fátækir eða að þeir teljist fátækir, sem ekki geta tekið þátt í þjóðfélaginu með sama hætti og almennt gerist meðal annarra þjóðfélagsþegna? Skilgreining OECD miðast við seinna viðmiðið.

 

Tökum dæmi um barn tekjulágra forledra. Vegna lágra tekna forledra getur barnið ekki

 

tekið þátt í íþrótta og tómstundastarfi.

farið í skólaferðalög með skólafélögum sínum.

farið með félögum sínum í bíó.

farið á barnaleikrit.

farið í fjölskyldu- og húsdýragarðin.

farið yfir höfuð eitthvað með félögum sínum ef það kostar peninga.

 

Þetta teldist varla til fátæktar utan vesturlanda en í einu ríkasta þjóðfélagi heinsins er allt annað upp á teningnum. Ert þú sammála því að þetta barn búi við fátækt?

 

Ef við svo bætum við þetta eftiröldu.

 

Barnið á sjaldnast almennileg kuldaföt fyrir köldustu daga vetrarins.

Barnið þarf iðulega að vera í allt of stórum fötum eða of litlum fötum vegna þess að ekki er til peningur til að endurnýja þau reglulega og því þarf að kaupa þau allt of stór og láta þau endast þangað til barnið kemst ekki lengur í þau.

Barnið þarf iðulega að vera í allt of stórum eða of litlum skóm af sömu ástæðu.

Stundum þurfa foreldrarnir að tilkynna barnið veikt í skólanum meðan verið er að þvo föt barnsins vegna þess að ekki er til nóg að fötum til skiptanna.

 

Enn erum við að tala um hluti, sem varla telst til fátæktar víðast utan vesturlanda. Ert þú sammála um að þetta barn búi við fátækt?

Sigurður M. Grétarsson (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 17:11

3 identicon

Mæli með því að þú lítir í rit frá fræðimönnum á borð við Hörpu Njálsdóttir og Stefáni Ólafssyni. Þar er ígrundað vel og vandlega hvernig við eigum að nálgast fátæktina og hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár.
Oft er nefnilega talað um hagvöxt og hækkun launa, t.a.m. aldraðra en svo sést þegar betur er að gáð að aðrir þjóðfélagshópar hafa auðvitað hækkað margfalt meira en þessir hópar. Þannig eykst bilið á milli þeirra sem eiga mest og þeirra sem eiga minnst.

Og börnin, það eru væntanlega til einfaldari lausnir en að elta hvert og eitt barn uppi og gefa þeim x summu sem er ákveðin af einhverjum embættismanni sem ætti að sjá um þessa sérmeðferð. Staðreyndin er sú að hlutfallslega eru t.d. börn einstæðra foreldra, bæði karla og kvenna verr stödd en annarra og er ýmis slík tölfræði sem leiðir í ljós hvaða hópar þetta eru. Út frá því má svo skoða hvaða aðgerðir eru skynsamlegar. (T.d. að minnka útgjöld vegna leikskóla og grunnskóla osfrv...) Í stað þess að ætla sér að stofna heila stofnun/ráðuneyti/batterí til að skoða hvert eitt og einasta mál þeirra sem gætu mögulega talist fátækir. Þó svo að það væri auðvitað stórsniðugt væri tilgangurinn sá að ætla sér að fjölga ráðherrastólum og/eða öðrum störfum í hinni opinberu stjórnsýslu.

Guðni Rúnar Gíslason (IP-tala skráð) 12.12.2006 kl. 21:27

4 Smámynd: Andrés Magnússon

Ég er náttúrlega bara úr máladeild, þannig að ég hef sjálfsagt gert mig sekan um að umgangast hugtök á borð við miðgildi og meðaltal af nægilegri nákvæmni. En líkt og kom fram í kynningu skýrslunnar er aðferðafræði OECD á þann veg að fátæktarmörkin miðast við ráðstöfunartekjur heimilanna, eða 50% af miðtekjum, en það eru þær tekjur þar sem jafnmargir eru með hærri tekjur og lægri. Þetta þýðir að ávallt mælast einhverjir fátækir, sama hversu vel tekst til um þjóðfélagsþróunina. Fjöldi barna sem teljast undir fátæktarmörkum sveiflast því nokkuð í samræmi við þróun fátæktarmarkanna. Þannig voru fátæktarmörkin nær 50% hærri að raunvirði árið 2004 en 10 árum áður. Segir það okkur ekki eitthvað?

Ég nenni ekki að taka umræðu um meinta fræðimennsku Stefáns Ólafssonar, það er of stutt til jóla og ég á mörgu óloknu fyrir hátíðar. En mér finnst þó eftirtektarvert að nálgunin hjá honum, líkt og þeim sem gera ofanaskráðar athugasemdir, er sú sama og beitt hefur verið án árangurs í velferðarríkjum Vesturlanda áratugum saman: sumsé að uppræta megi fátæktina með því að endurútdeila gæðunum eftir hinni eða þessarri reiknireglu hinna vísustu manna. Ég hygg að farsælast reynist að uppræta fátækt með því að auðvelda fólki að auðgast og það verður ekki gert með því að kerfisbinda stétt og stöðu, flækja skattkerfið og hækka bætur á línuna.

En þar sem sannarlega er neyð til staðar er sjálfsagt að koma fólki til aðstoðar og það er best að gera með klæðskerasniðnum hætti. Ekki aðeins vegna þess að þannig verður hinum ólíku þörfum einstaklinganna best sinnt, heldur líka vegna þess að í 300.000 manna þjóðfélagi er ekkert unnið með því að reyna að skilgreina einhverja hópa, sem síðan verði að sinna sem slíkum. Til þess þarf ekki að stofna nein ný embætti eða stofnanir, þær eru til fyrir.

Mér sýnast þessir herrar hafa einna mestar áhyggjur og svefnleysi af því að einhverjum kunni að vegna vel meðan öðrum vegnar síður. Og víst er um það, að stundum finnst manni lífið ósanngjarnt. En hafi menn raunverulegan vilja til þess að stemma stigu við einhverjum vanda hlýtur að mega einangra hann í von um að finna auðveldustu lausnina. Að mínu viti hlýtur umræða um fátækt og upprætingu hennar að eiga að snúast um nákvæmlega það, en ekki bara sem einhverja hliðarafurð á leið til fyrirmyndarríkisins, þar sem allir skulu vera jafnir eða jafnaðir ella.

Andrés Magnússon, 12.12.2006 kl. 22:47

5 Smámynd: Hlynur Hallsson

Sæll aftur herra Andrés,

ég bjóst nú við því að þú gætir verið ögn málefnalegri og fullyrðingunni: "Mér sýnast þessir herrar hafa einna mestar áhyggjur og svefnleysi af því að einhverjum kunni að vegna vel meðan öðrum vegnar síður..." vísa ég til föðurhúsanna. Ég hef ekki áhyggjur af því að eihverjum gangi vel, þvert á móti samgleðst ég með þeim ef til þessarar velgengni er unnið á heðarlegan hátt. Klæðskerasniðnar lausnir eru fínar! Eigum við ekki bara að einbeita okkur að þeim saman í stað þess að neita að viðurkenna vandamálið, sem er fátækt á Íslandi?

Hlynur Hallsson, 12.12.2006 kl. 22:55

6 identicon

Ég er sammála þér varðandi þessa fæatækarumræðu.  Auðvitað er fátækt til en mér fanns afar furðulegt að heyra  einhvern atvinnuhjálpara taka það sem dæmi að "sum börn fá meir að segja notuð leikföng...".  Mér finnst dyggðugt að nota leikföng í nokkrar kynslóðir.  HItt er bölvað ekkisen bruðl.

teitur atlason (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 07:46

7 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Að mínu mati er nauðsynlegt að ræða ástand samfélagsins hvað þetta varðar og get ég fallist á að nauðsynlegt er að nota mælikvarða á fátæktina sem hægt er að fallast á að teljist eðlilegt. Í samfélagi eins og okkar hlýtur að teljast eðlilegt að mælikvarðinn miðist við einhverja lágmarksframfærslu til að geta tekið þátt í samfélaginu á eðlilegan hátt eins og tíðkast hér á landi og getur maður því fallist á skilgreiningu OECD sem nefnd er hér að ofan. 

Hvernig væri að fá í stjórnarráðið nýtt fólk sem leggur áherslu á að í okkar velferðarríki fyrirfinnist engin fátkækt whatsoever?! Hvernig væri að byrja á því að hækka lögleg lágmarkslaun þannig að öllum í landinu séu greidd sæmandi laun fyrir störf sín? Einnig væri hægt að hækka skattleysismörkin eða persónuafsláttinn.

Andrea J. Ólafsdóttir, 13.12.2006 kl. 14:48

8 identicon

Fátæktarumræðan hefur tilhneygingu til að vera meira og minna út í hött sem er meðal annars vegna þess hverjir leiða hana.

Hitt langar mig hins vegar til að leiðrétta að ávallt verði einhverjir fátækir sé notaður framangreindur mælikvarði.  Þetta verður best útskýrt með dæmi.  Í þjóðfélagi 1 eru 5 einstaklingar og eru tekjur þeirra 80,100,150,10000 og 11000 silfurpeningar.  Í þjóðfélagi 2 eru einnig 5 einstaklingar og eru tekjur þeirra 70,100,150,160 og 170 silfurpeningar.  Í báðum tilvikum er miðgildið 150.  Í þjóðfélagi 1 er einginn undir 50% af því (75) og því skv. skilgreiningu enginn fátækur.  En í þjóðfélagi 2 er sá sem fær 70 silfurpeninga fátækur. 


Að öðru leyti er ég þér frekar sammála en málgagni íslenskra sósíalista.

Þorsteinn Arnalds (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 18:07

9 identicon

Mig langa að framlengja aðeins dæmið hans Þorsteins hér að ofan. Í þjóðfélagi 1 er enginn fátækur en ef tekjur í þjóðfélagi 2 eru 100, 200, 250, 1000 og 5000 kemur í ljós að sá sem hefur 100 er fátækur (250/2>100). Hann hefur þó mikið meira en sá sem er ekki fátækur með 70 í þjóðfélagi 1. Það er engan veginn hægt að nota þessa skilgreiningu til að ræða þetta.

Það verður að finna núllpunkt sem fólk getur hafið umræðuna á og byggt svo á því,  t.d.  skilgreina lágmarks þarfir sem við viljum að allir búi við í þjóðfélaginu.

Víðir G (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband