Leita í fréttum mbl.is

Vistaskipti

Mér var bent á að Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna í höfuðstaðnum, hefði verið að velta því fyrir sér hvað við tæki hjá mér þegar ég lýk störfum á Blaðinu nú um áramótin. Með fylgdi svo mikið hrós um störf mín á ritvellinum. Ég er ekki laus við hégóma og þykir lofið gott, ekki síst frá manni eins og Birni Inga, sem sjálfur hefur verið blaðamaður um langt skeið þrátt fyrir ungan aldur, en er jafnframt stjórnmálamaður og hefur örugglega ekki alltaf verið ánægður með það, sem ég skrifa.

En Bingi spyr hvað ég ætli að taka mér fyrir hendur. Það er sjálfsagt að svara því, en ég réði mig til Viðskiptablaðsins skömmu fyrir jól, um svipað leyti og útgefandi Blaðsins var að vísa ritstjóranum fyrrverandi á dyr. Þar hef ég störf um miðjan næsta mánuð og hlakka talsvert til.

Sérstaklega gleðst ég þó yfir því að geta gengið í vinnuna héðan úr Ingólfsstrætinu, en öll þessi ferðalög í sveitina, þar sem Blaðið og Morgunblaðið eru til húsa, voru farin að verða heldur þreytandi. Ég skil enda ekki til hvers verið var að flytja ritstjórnirnar nánast út á land. Það er ekkert sem kallar á að ritstjórnin sé í námunda við prentsmiðjuna og bærinn er fullur af ágætu skrifstofuhúsnæði.

Eitt meginhlutverk blaða er að vera eins konar skilvinda hins margþætta veruleika, sem fleyta rjómann ofan af fyrir lesendur sína, þannig að þeir geti glöggvað sig á hinu mikilvægasta og merkilegasta á sem skemmstum tíma. En til þess að fjölmiðlar geti sinnt því hlutverki sínu þurfa þeir að vera í hringiðunni og hana er ekki að finna uppi við Rauðavatn. Ég fann það á sjálfum mér og veit að svo er um flesta þar í efra, að þegar maður er einu sinni kominn upp eftir telur maður eftir sér að skjótast niður í bæ í viðtöl eða aðra eftirgrennslan. Síminn er vissulega mikilvægasta atvinnutæki blaðamanna, en hann nær ekki að rjúfa einangrunina á Hádegismóum með fullnægjandi hætti. Hvernig eiga blaðamenn að geta upplýst lesendur sína um það, sem efst er á baugi, ef þeir eru sjálfir í hálfgildingseinangrun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Atli Fannar Bjarkason

Gangi þér vel niðrí bæ Andrés! Nú hlýtur Viðskiptablaðið að stofna hljómsveit, þú og Örn mættir á svæðið og fyrir eru allavega tveir gítarleikarar... svo er ónefndur bassaleikari einnig á leiðinni yfir, hvern ætliði að fá á trommurnar?

Atli Fannar Bjarkason, 26.12.2006 kl. 18:56

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Trommuleikarahallærið hefur löngum staðið blaðamannaböndum fyrir þrifum. Ég óttast að sú sé einnig raunin niðri í slippi þar sem Viðskiptablaðið á varnarþing sitt. Þar fyrir utan hljóma þó taktföst hamarshögg skipasmíðameistara, sem sjálfsagt má yrkja gott teknómetal við og raunar einkar viðeigandi að Viðskiptablaðið syngi sinn söng við undirleik atvinnulífsins. En sjálfsagt er stéttin ekki algerlega laus við trommuleikara, því mig rámar í að Árni Þórarinsson sé liðtækur í bumbubarning, þannig að Morgunblaðið gæti sjálfsagt skotið öðrum miðlum ref fyrir rass á þeim vettvangi. Ásgeir Sverrisson er vitaskuld einn magnaðasti gítarforingi landsins, Árni Jörgensen er valinkunnur rythmagítarleikari, Karl Blöndal er afbragðspíanisti og Sveinn Guðjónsson er sjálfkjörinn á Hammondið, en ég man ekki í svip eftir bassaleikara þar á bænum; hann hlýtur að finnast.

Andrés Magnússon, 26.12.2006 kl. 20:06

3 identicon

Ég hlakka til að heyra tillögur Andrésar að nafni bandsins en í fljótu bragði held ég að Kings of Metal komi vel greina. Þá til heiðurs þeirrar stéttar sem starfar í nágrenni við varnarþing Viðskiptablaðsins. Því miður er búið að sóa nafngiftinni Beitiskipið Albert Guðmundsson á annað.

 Lítið mál er að þjálfa trommara upp í svona band en eins og allir vita þurfa trommarar í rokkbandi aðeins að hafa getu til þess að telja upp að fjórum.

Kv,

Örn 

Örn (IP-tala skráð) 26.12.2006 kl. 21:34

4 identicon

Gangi þér sem allra best á nýja staðnum.

Róbert Trausti Árnason

Róbert Trausti (IP-tala skráð) 26.12.2006 kl. 21:53

5 identicon

Tek undir árnaðaróskir um velgengni í nýju starfi og á nýju ári. Hef lengi fylgst með skrifum þínum og skemmt mér yfir mörgu þó að ég sé ekki alltaf sammála!  Kær kveðja, Hreinn Loftsson.

Hreinn Loftsson (IP-tala skráð) 26.12.2006 kl. 22:06

6 Smámynd: Atli Fannar Bjarkason

Já góður punktur, Örn, með trommarann. Allir vita að þeir eru deyjandi stétt. Þið fáið ykkur bara trommuheila.

Ég sting upp á nafninu Slippurinn, varla til harðara nafn fyrir metalsveit...

Atli Fannar Bjarkason, 26.12.2006 kl. 23:56

7 identicon

Ég held að ég sé komið með nafnið: Andrés og Hrúðukarlarnir. Steinliggur!

 Kv,

Örn 

Örn (IP-tala skráð) 27.12.2006 kl. 13:51

8 Smámynd: Le Toti

Hljómsveitina ætti að sjálfsögðu að nefna Tónlistarlegan ágreining.

Le Toti, 27.12.2006 kl. 15:11

9 Smámynd: Halldór Baldursson

Til hamingju með að vera kominn á VB. Ég hef alltaf kunnað illa við tilhugsunina um þig að vafra um úthverfi Reykjavíkur. Og þar sem ég krota í bæði Blaðið og VB nýt ég áfram þess heiðurs að starfa með þér. Ekki það að ég mæti nokkurn tímann í vinnuna...sendi bara fælana úr Skipasundinu.

Halldór Baldursson, 29.12.2006 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband