Leita í fréttum mbl.is

Fífl og fávitar

Ég sé að Guðmundur Magnússon vitnar í blogg Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra, um að „Bloggið [sé] skrifað af fíflum fyrir fávita,“ en Guðmundur segir Jónas vita hvað hann syngur á þessu sviði. Jónas heldur þessu þó ekki fram sisona, heldur kveðst hann vera að vitna í grein Joseph Rago, sem er fréttastjóri hjá Wall Street Journal. En Rago sagði það nú raunar ekki heldur, þó hann hafi takmarkað álit á gildi blogga.

Þessi orð — Written by fools to be read by imbeciles — eru auðvitað eldri, því það var rithöfundurinn Joseph Conrad, sem lét þau falla á sínum tíma um dagblöð. Rago sagði einungis að bloggar væru að mörgu leyti undir sömu sök seldir og dagblöð, en hann telur þá ekki leysa hina hefðbundnu fjölmiðla af hólmi, þó hann játi að þeir hafi gengisfallið mjög.

Vestanhafs hefur þessi deila staðið um nokkra hríð. Hefðbundnir fjölmiðlamenn, varðhundar fjórða valdsins, hafa margir horn í síðu blogga, telja þá óvandaða og ábyrgðarlausa. Bloggararnir segja á móti að fjölmiðlar séu þeim gramir fyrir að hafa komið upp um óvönduð vinnubrögð og hlutdrægni gömlu miðlanna og umfram allt óttist þeir áhrif blogganna í sömu mund og verulega dragi úr áhrifum hinna hefðbundnu miðla.

Af allt öðru tilefni skrifaði ég eftirfarandi fyrir liðlega tveimur árum:

Bloggar eru fjölmiðlar. Vefir eru fjölmiðlar. Vestanhafs hefur átt sér lærð umræða um blogga og hefðbundna fjölmiðla. Hinir hefðbundnu fjölmiðlar hafa haft fremur litið álit á bloggum og ámóta fjölmiðlum og bent á að þeir fylgi engum siðareglum, hafi enga hefð að byggja á, hlutleysi sé sjaldnast gætt og áreiðanleikinn sé afar lítill. Sú gagnrýni á vissulega við um marga blogga, en alls ekki alla og síst hina vinsælustu. Og það er kannski einmitt þess vegna, sem þeir eru vinsælir. En þessi gagnrýni hittir hina hefðbundnu fjölmiðla ekki síður fyrir. Virðulegir fjölmiðlar eins og New York Times hafa orðið uppvisir að ritstuldi og fréttafölsunum, hlutleysi hefðbundinna fjölmiðla er bara svona og svona (eins og menn hafa séð í kosningabaráttunni) og áreiðanleiki blogga rétt eins og annara fjölmiðla er áunninn og það þarf ekki mikið til þess að glata honum.

Bloggar hafa hins vegar margt umfram hefðbundna fjölmiðla. Blaðamenn við hefðbundna fjölmiðla verða að vera dílettantar: þeir þurfa að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar, en á sama tíma eru þeir sjaldnast sérfræðingar í neinu. Og þannig þarf það að vera. En það vill svo til að allir bloggarar eru sérfræðingar í einhverju. Megnið af því er frekar fánýtt flesta daga, smáfróðleikur um Simpsons, merkjafræði eða kúluritvélar. En svo fellur Dan Rather hjá CBS fyrir fölsunum af því hann vill trúa þeim og hvað þá? Hefðbundnu fjölmiðlarnir voru 4-7 daga að komast til botns í málinu og enginn lengur en CBS. Á hinn bóginn voru bloggarar og þátttakendur vefspjalla aðeins nokkrar klukkustundir að sjá í gegnum falsanirnar og færa rök fyrir ályktun sinni. Allt í einu varð kúluritvélanördinn annað og meira en náungi með sérkennilegt áhugamál.

Enn sem komið er hafa bloggar ekki velt upp mikið af nýjum fréttum (Mónikuskúbb Matt Drudge er helsta undantekningin), en á hinn bóginn eiga þeir glæsilegan feril við að koma auga á villur, rangfærslur og rugl í hefðbundnu fjölmiðlunum. Það er sagt að fjölmiðlar séu varðmenn lýðræðisins og með bloggunum er þá a.m.k. fundið svar við spurningunni „quis custodiet ipsos custodes?“

En fjölmiðlar þurfa ekki að skúbba stórtíðindum daglega til þess að réttlæta tilveru sína. Víkurfréttir eiga engu minna tilkall til þess að heita fjölmiðill en Morgunblaðið. Eða fréttabréf Myntsafnarafélagsins ef því er að skipta.

Tjáningarfrelsið er varið í stjórnarskrám og mannréttindasáttmálum til þess að veita vondum, röngum og óvinsælum skoðunum skjól. Af því að það eru þær sem þurfa á vernd að halda. Það er nefnilega einskis virði að láta tjáningarfrelsið aðeins ná til góðra, réttra og vinsælla skoðana. Og alveg eins og við eigum að standa dyggan vörð um það að koma megi hvers kyns skoðunum á framfæri, eigum við ekki að fara að flokka þær eftir því hver flytur þær: löggiltur fjölmiðill eða netverji á náttfötunum.

Það er rétt að taka fram að þessi færsla var skrifuð á sloppnum og svo skal áfram haldið inn í hjarta myrkursins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Náttúrlega grípur maður tækifærið þegar hægt er að gjamma á almannafæri!

Að sjálfsögðu eru bloggverjar ekkert verri álitsgjafar en Vilhjálmur Bjarnason eða Gylfi Magnússon. (Þeir eru báðir langhlauparar í Vesturbænum!)

Ef eitthvað er, þá skila bloggin inn breiðari álitsgjöf en gengur og gerist. Mér er sama þó að stundum komi inn víðátturugluð komment, það má læra á þessu öllu! Þó ekki væri annað en að skoða athugasemdirnar frá vitleysingunum og sjá hvað býr að baki. Það gæti verið eitthvað!!

Flosi Kristjánsson, 30.12.2006 kl. 14:06

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég held ... eða er alveg viss um það að ég er einn af þessum "blogg vitleysingum"  

En meiri hlutinn af öllum bloggurum hér á Mbl (Þá er ég ekki að tala um þá vinsælustu... finnst þeir vera frekar stífir) eru með sterkar skoðanir sem geta haft stór áhrif...

T.d. var það sænskur bloggari sem kom Sænska ráðherranum María Borelíus á fall .... Hmuhahahahaha ... Núna er ég hættur að bulla... bless

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.12.2006 kl. 14:57

3 Smámynd: TómasHa

Já, það er örugglega til nóg að blog vitleysingum.   Er ekki Jónas einn af þessum bloggurum :)

TómasHa, 30.12.2006 kl. 19:02

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Er ekki rökræðan komin i eindaga þegar menn nota svona orðbragð,það fynnst mer allavega,Þetta Fifll og Fáviti og Asni eru svona skitkast sem er bara barnaskapur ekki fullorðinna frettamanna

En það er margt gott sem Jonas segir samt!!!!!!!

Haraldur Haraldsson, 31.12.2006 kl. 17:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband