Leita í fréttum mbl.is

Seg mér hverjir vinir þínir eru...

Ég les í sunnudagsblaði Morgunblaðsins að Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sé í opinberri heimsókn til Sádí-Arabíu ásamt fríðu föruneyti þeirra Rannveigar Guðmundsdóttur, Arnbjargar Sveinsdóttur, Kolbrúnar Halldórsdóttur og Belindu Theriault, sem er forstöðumaður ferðaskrifstofu Alþingis.

Nú verð ég að játa að ég skil ekki hvaða erindi forseti Alþingis getur mögulega átt til Sádí-Arabíu, þetta miðaldaríki er einveldi, það á sér ekkert þing og raunar eru allir stjórnmálaflokkar bannaðir. Þar er hins vegar svokallað ráðgjafarþing, þar sem sitja 90 valda- og umboðslausir „þingmenn“, sem allir eru skipaðir af konungi! Það er í boði forseta þessa ráðgjafaþings, sem Sólveig og hofróður hennar, fara um 1200 ár aftur í tímann.

Í tilkynningu frá Alþingi kemur fram að sádí-arabíska ráðgjafarþingið hafi fengið inngöngu í Alþjóðaþingmannasambandið árið 2003 og vinni „nú að því að auka samskipti sín við þjóðþing annarra ríkja.“ Já, var það? Nú eru ekki ný sannindi að Alþjóðaþingmannasambandið sé ekki sérlega vant að virðingu sinni, en hvað á það að þýða að Alþingi Íslands sé með þessum hætti að veita viðurkenningu sína á því, að þetta svonefnda ráðgjafaþing sé á einhvern hátt jafnoki lýðræðislega kjörinna þjóðþinga? Með þessu er Alþingi að lítillækka sjálft sig á sama hátt og þegar fjöldamorðinginn Li Peng kom til Íslands í boði forseta Alþingis á þeirri forsendu að þeir væru jafningjar.

Þetta endalausa daður og flaður upp um gervilýðræðisstofnanir ógeðslegustu einræðisríkja heims er óþolandi. Lýðveldið Ísland og Alþingi eru að gengisfella sjálf sig með því að leita eftir samneyti við blóði drifnar harðstjórnir, en um leið er verið að niðurlægja fórnarlömb þeirra með því að segja að þau skipti engu máli. Umræða um þau myndu enda varpa skugga á skálaræðurnar.

En það verður ekki skálað í öðru en ávaxtasafa í Riyadh. Í ljósi þess hvernig sendinefndin er skipuð má ætla að forseti ráðgjafarþingsins mæli fyrir minni kvenna. En hvað skyldi Sólveig og hirðmeyjarnar vilja ræða í Sádí-Arabíu? Jú, „í heimsókninni verða rædd samskipti menningarheima, þjóðfélagsþróun í Sádi-Arabíu og málefni kvenna“. Flytji þær mál sitt af einlægni mega þær teljast heppnar að sleppa heim með opinbera hýðingu. En ætli það séu nokkrar líkur á einlægni í þessari heimsókn? Varla, því eftir að hafa fjallað um allt þetta ætlar sendinefndin nefnilega að brydda upp á einu umræðuefni enn: framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Og þá fer maður að átta sig betur á því til hvers refirnir eru skornir. Og þjófarnir handhöggnir. Og fórnarlömb nauðgana grýtt. Mikið hlýtur það að verða gaman fyrir Íslendinga að eiga fulltrúa í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sem um leið annast hagsmunagæslu fyrir konungsfjölskylduna í Riyadh.


mbl.is Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Sádi-Arabíu 7.-11. janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það fá fáir að heimsækja þetta lokaða ríki, sem veitir þó ekki af gests auganu. Kannski það sé að hluta pælingin með þessari heimsókn, og skipan hópsins. Þarna fara bara konur, þannig að gestgjafarnir hafa engan möguleika annan en að tala við þær og taka á móti þeim, án milliliðar í jakkafötum. Er þetta ekki bara áhugaverð leið til að reyna á "jafnréttisþolrifin" í Sádunum, og góðra gjalda verð?

Svanhildur (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 13:22

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Stundum held ég sé talað verr um Saúdí-Arabíu en það land verðskuldar. Vissulega veður valdaættin í milljörðum dollara og lífernið á stundum hneykslanlegt, og vitaskuld er erfitt að tala um þjóðþing, þegar ekki einn einasti þingmaður er kosinn af þjóðinni; þar hefurðu algerlega rétt fyrir þér, og þakka þér fyrir hressilegan pistil. Já, það var þó skárra hjá okkur á 19. öldinni, þegar við vorum með konungkjörna þingmenn, að samt var meiri hluti þingheims kosinn af (nógu efnuðu karl-)þjóðinni. En hvort stjórn Saúdanna sé "blóði drifin harðstjórn," veit ég ekki, fyrir utan þá staðreynd, að réttarkerfið er samkvæmt hinum harðskeyttu sjaríalögum múslima. Hvort kenna beri Saúdum um það eða wahhabítismanum eða bara ríkjandi andrúmslofti í þessum heimshluta, þar sem hann hefur ekki náð að sekúlaríserast (eins og í Egyptalandi og Tyrklandi og víðar), skal ég ekkert um segja. En upplýst stjórn ætti vissulega að færa þessi mál í lag. Mætti Sólveig mín og Belinda, frjálslyndar eins og þær eru, gjarnan minna á mannréttindi kvenna og annarra bágt staddra í heimsókn sinni, engu síður en Vigdís að verja meybörnin nýfæddu, þegar hún heimsótti Peking-ráðstefnuna um árið. -- En kannski er þessi hikstandi málsvörn mín einfaldlega angi af rómantík kringum tímabil Arabíu-Lawrence, þar sem jafnvel Ibn Saud fekk smápart af viðurkenningunni, og alls óviðeigandi á 21. öld. Þó hafa landsmenn þarna fengið mörgu ágengt með efnalegum framförum, veit ég, og landið losnað við ýmsa vitleysuna sem nágrannalöndin hafa gengið í gegnum, oft með óheyrilegu blóðbaði. Það betra hlutskipti Saúdí-Araba hugnast mér vel.

Jón Valur Jensson, 8.1.2007 kl. 15:00

3 identicon

Tek ofan fyrir Andrési.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 15:13

4 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Það er vart annað hægt en að vera sammála þessum pistli

Guðmundur Gunnarsson, 8.1.2007 kl. 19:30

5 Smámynd: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir

Furðuleg ráðstöfun en finn samt eitthvað háð gert að Arabaríkjnum að senda eingöngu konur í heimsókina og segi bara "gott á þá"

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, 8.1.2007 kl. 21:04

6 Smámynd: Forvitna blaðakonan

...og ég skal segja þér hver þú ert.  Lærði þetta ung ef ég ætti mér út það að vera í slagtogi með misjöfnum sauðum. Mamma ræddi þetta eitt sinn við mig og lét út úr sér þessa fleygu setningu; sem ég nota bene beit ekki hvaðan er komin. Hef þá gleymt því. Þú mannst það kannski Andrés?

Saudi Arabía er heillandi land; "one og the kind" í veröldinni, Ég dvaldi þar nokkru sinnum á árunum 1978 -1984; nánast á hverju hausti um tveggja mánaða skeið. Mig dreymir alltaf að fara þangað aftur og vera um skeið. En ég mæli ekki með sádunum; þeir eru óhemju leiðinlgir; það er að segja karlkynið. Koma fram af miklum hroka við alla í skjóli peningavaldsins. Samferðarfólki mínu tókst nú að smygla inn aumingja með wiský sem gerði mikla lukku og skiptist á milli fimm manns; einn sopi á kjaft. Þess á milli var okkur boðið í svakaleg brennivínspartý hjá einhverjum prinsana sem áttu nóg að drekka; og enginn amaðaist við þeim drykkjusamkundum þar sem allt flaut. Það er enginn samur maður eftir dvöl í Arabaríkjunum, einkum Norður Jemen og Saudi Arabíu. Hef lofað mér að heimsækja þessi lönd áður en yfir líkur.

Forvitna blaðakonan, 10.1.2007 kl. 05:49

7 Smámynd: Forvitna blaðakonan

Eitt í viðbót; eru öngvar konur í tenglasafni þínu? Er það tilviljun, konur leiðinlegar eða hrein og klár karlremba?

Forvitna blaðakonan, 10.1.2007 kl. 05:52

8 identicon

Hvar eru mörkin, hvenær verður viðmælandi okkar ,,okkur ekki sæmandi" og hver erum við að geta sagt: ,,Við erum betri"?

Það er alger rökleysa að halda því fram að þó einhver sýni mér gestrisni og þó ég sýni einhverjum virðingu með því að koma fram við hann sem jafningja þá samþykki ég þar með gjörðir og skoðanir viðkomandi.

Og ég er sannfærður um það að í hverju þingmannaliði, hvaða þjóðar sem það er og á hvaða forsendum sem það er kosið, er að finna einstaklinga sem sinna málum fólksins í landinu af heilum hug. Og þó að það sé ekki nema þeirra vegna er samtal leið sem á að velja, ekki einangrun.

www.pb.annall.is (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 11:28

9 identicon

Orð í tíma töluð.Sjálfhverfar þingkonur á sjálfshátíð í sandauðn Arabíu.Bendi þér á viðtal við egypska rithöfundinn Alaa Al Aswany og umsögn hans um sádana og þátt þeirra í fjármögnun sefasýkisöfnuða sem stunda manndráp og áróður þeirra fyrir útbreiðslu súnni strangtrúnaðar.

rtá (IP-tala skráð) 14.1.2007 kl. 13:09

10 Smámynd: Reynir Hugason

VInur minn kenndi í skóla í Saudi Arabíu um tíma og sagði ekki fagrar sögur af jafrétti kynjanna þar.

Konan hans varð að ganga í skósíðum kufli með blæju fyrir andlitinu, hún átti að ganga í humátt á eftir honm og þegar hann fór inn á veitingahús til að fá sér að borða þá varð hún að sitja úti á bekk og fékk matinn sinn á bakka þangað. Hún mátti ekki keyra bílinn þeirra og ekki fara ein út eða tala við ókunnuga.

Þokkalegt líf það.

Reynir Hugason, 17.1.2007 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband