Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Fífl og fávitar

Ég sé að Guðmundur Magnússon vitnar í blogg Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra, um að „Bloggið [sé] skrifað af fíflum fyrir fávita,“ en Guðmundur segir Jónas vita hvað hann syngur á þessu sviði. Jónas heldur þessu þó ekki fram sisona, heldur kveðst hann vera að vitna í grein Joseph Rago, sem er fréttastjóri hjá Wall Street Journal. En Rago sagði það nú raunar ekki heldur, þó hann hafi takmarkað álit á gildi blogga.

Þessi orð — Written by fools to be read by imbeciles — eru auðvitað eldri, því það var rithöfundurinn Joseph Conrad, sem lét þau falla á sínum tíma um dagblöð. Rago sagði einungis að bloggar væru að mörgu leyti undir sömu sök seldir og dagblöð, en hann telur þá ekki leysa hina hefðbundnu fjölmiðla af hólmi, þó hann játi að þeir hafi gengisfallið mjög.

Vestanhafs hefur þessi deila staðið um nokkra hríð. Hefðbundnir fjölmiðlamenn, varðhundar fjórða valdsins, hafa margir horn í síðu blogga, telja þá óvandaða og ábyrgðarlausa. Bloggararnir segja á móti að fjölmiðlar séu þeim gramir fyrir að hafa komið upp um óvönduð vinnubrögð og hlutdrægni gömlu miðlanna og umfram allt óttist þeir áhrif blogganna í sömu mund og verulega dragi úr áhrifum hinna hefðbundnu miðla.

Af allt öðru tilefni skrifaði ég eftirfarandi fyrir liðlega tveimur árum:

Bloggar eru fjölmiðlar. Vefir eru fjölmiðlar. Vestanhafs hefur átt sér lærð umræða um blogga og hefðbundna fjölmiðla. Hinir hefðbundnu fjölmiðlar hafa haft fremur litið álit á bloggum og ámóta fjölmiðlum og bent á að þeir fylgi engum siðareglum, hafi enga hefð að byggja á, hlutleysi sé sjaldnast gætt og áreiðanleikinn sé afar lítill. Sú gagnrýni á vissulega við um marga blogga, en alls ekki alla og síst hina vinsælustu. Og það er kannski einmitt þess vegna, sem þeir eru vinsælir. En þessi gagnrýni hittir hina hefðbundnu fjölmiðla ekki síður fyrir. Virðulegir fjölmiðlar eins og New York Times hafa orðið uppvisir að ritstuldi og fréttafölsunum, hlutleysi hefðbundinna fjölmiðla er bara svona og svona (eins og menn hafa séð í kosningabaráttunni) og áreiðanleiki blogga rétt eins og annara fjölmiðla er áunninn og það þarf ekki mikið til þess að glata honum.

Bloggar hafa hins vegar margt umfram hefðbundna fjölmiðla. Blaðamenn við hefðbundna fjölmiðla verða að vera dílettantar: þeir þurfa að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar, en á sama tíma eru þeir sjaldnast sérfræðingar í neinu. Og þannig þarf það að vera. En það vill svo til að allir bloggarar eru sérfræðingar í einhverju. Megnið af því er frekar fánýtt flesta daga, smáfróðleikur um Simpsons, merkjafræði eða kúluritvélar. En svo fellur Dan Rather hjá CBS fyrir fölsunum af því hann vill trúa þeim og hvað þá? Hefðbundnu fjölmiðlarnir voru 4-7 daga að komast til botns í málinu og enginn lengur en CBS. Á hinn bóginn voru bloggarar og þátttakendur vefspjalla aðeins nokkrar klukkustundir að sjá í gegnum falsanirnar og færa rök fyrir ályktun sinni. Allt í einu varð kúluritvélanördinn annað og meira en náungi með sérkennilegt áhugamál.

Enn sem komið er hafa bloggar ekki velt upp mikið af nýjum fréttum (Mónikuskúbb Matt Drudge er helsta undantekningin), en á hinn bóginn eiga þeir glæsilegan feril við að koma auga á villur, rangfærslur og rugl í hefðbundnu fjölmiðlunum. Það er sagt að fjölmiðlar séu varðmenn lýðræðisins og með bloggunum er þá a.m.k. fundið svar við spurningunni „quis custodiet ipsos custodes?“

En fjölmiðlar þurfa ekki að skúbba stórtíðindum daglega til þess að réttlæta tilveru sína. Víkurfréttir eiga engu minna tilkall til þess að heita fjölmiðill en Morgunblaðið. Eða fréttabréf Myntsafnarafélagsins ef því er að skipta.

Tjáningarfrelsið er varið í stjórnarskrám og mannréttindasáttmálum til þess að veita vondum, röngum og óvinsælum skoðunum skjól. Af því að það eru þær sem þurfa á vernd að halda. Það er nefnilega einskis virði að láta tjáningarfrelsið aðeins ná til góðra, réttra og vinsælla skoðana. Og alveg eins og við eigum að standa dyggan vörð um það að koma megi hvers kyns skoðunum á framfæri, eigum við ekki að fara að flokka þær eftir því hver flytur þær: löggiltur fjölmiðill eða netverji á náttfötunum.

Það er rétt að taka fram að þessi færsla var skrifuð á sloppnum og svo skal áfram haldið inn í hjarta myrkursins. 


Vistaskipti

Mér var bent á að Björn Ingi Hrafnsson, oddviti framsóknarmanna í höfuðstaðnum, hefði verið að velta því fyrir sér hvað við tæki hjá mér þegar ég lýk störfum á Blaðinu nú um áramótin. Með fylgdi svo mikið hrós um störf mín á ritvellinum. Ég er ekki laus við hégóma og þykir lofið gott, ekki síst frá manni eins og Birni Inga, sem sjálfur hefur verið blaðamaður um langt skeið þrátt fyrir ungan aldur, en er jafnframt stjórnmálamaður og hefur örugglega ekki alltaf verið ánægður með það, sem ég skrifa.

En Bingi spyr hvað ég ætli að taka mér fyrir hendur. Það er sjálfsagt að svara því, en ég réði mig til Viðskiptablaðsins skömmu fyrir jól, um svipað leyti og útgefandi Blaðsins var að vísa ritstjóranum fyrrverandi á dyr. Þar hef ég störf um miðjan næsta mánuð og hlakka talsvert til.

Sérstaklega gleðst ég þó yfir því að geta gengið í vinnuna héðan úr Ingólfsstrætinu, en öll þessi ferðalög í sveitina, þar sem Blaðið og Morgunblaðið eru til húsa, voru farin að verða heldur þreytandi. Ég skil enda ekki til hvers verið var að flytja ritstjórnirnar nánast út á land. Það er ekkert sem kallar á að ritstjórnin sé í námunda við prentsmiðjuna og bærinn er fullur af ágætu skrifstofuhúsnæði.

Eitt meginhlutverk blaða er að vera eins konar skilvinda hins margþætta veruleika, sem fleyta rjómann ofan af fyrir lesendur sína, þannig að þeir geti glöggvað sig á hinu mikilvægasta og merkilegasta á sem skemmstum tíma. En til þess að fjölmiðlar geti sinnt því hlutverki sínu þurfa þeir að vera í hringiðunni og hana er ekki að finna uppi við Rauðavatn. Ég fann það á sjálfum mér og veit að svo er um flesta þar í efra, að þegar maður er einu sinni kominn upp eftir telur maður eftir sér að skjótast niður í bæ í viðtöl eða aðra eftirgrennslan. Síminn er vissulega mikilvægasta atvinnutæki blaðamanna, en hann nær ekki að rjúfa einangrunina á Hádegismóum með fullnægjandi hætti. Hvernig eiga blaðamenn að geta upplýst lesendur sína um það, sem efst er á baugi, ef þeir eru sjálfir í hálfgildingseinangrun?


Gleðileg jól!

Ég óska öllum vinum og velunnurum — að lesendum þessarar síðu ógleymdum — gleðilegra jóla!

Bloggfærslur verða með minna móti yfir hátíðarnar, en eitthverjar þó.  


Flotinn stækkar

Ríkisstjórnin hefur gengið frá smíði nýs varðskips, en það verður smíðað í Chile og verður um fjögur þúsund brúttótonn að stærð, þrefalt burðarmeira en þau varðskip sem fyrir eru. Fullbúið kostar skipið tæpa 3 milljarða og gert er ráð fyrir að það verði afhent á miðju ári 2009. Sem gamall gæslumaður fagna ég þessu langþráða framtaki og veitir ekki af, enda liðlega þrír áratugir síðan nýju varðskipi var síðast hleypt af stokkunum.

En hvað á nýja varðskipið að heita? Það eru öll bestu nöfnin frátekin, Óðinn, Ægir og Týr. Ekki er þó ósennilegt að hið nýja skip verði nefnt Þór, enda rík hefð fyrir því hjá gæslunni. Svo kæmi vitaskuld til greina að nefna það Njörð. 

Góður vinur minn vill á hinn bóginn taka upp nýja nafnahefð hjá Landhelgisgæslunni og stingur upp á að nýja skipið verði nefnt Beitiskipið Albert Guðmundsson. Hann vill þó ekki segja mér hvort nefna eigi skipin eftir mikilmennum íslenskrar stjórnmálasögu eða íslenskum fótboltahetjum. Flugmóðurskipið Davíð Oddsson klingir óneitanlega nokkuð vel í eyrum og spítalaskipið Siv Friðleifsdóttir sömuleiðis. Ekki síður á það þó við um orrustuskipið Eið Smára Gudjohnsen eða tundurspillinn Brynjar Björn Gunnarsson.


Vöxtur og viðgangur Blaðsins

Senn líður að því að ég ljúki störfum mínum á Blaðinu, en þar hef ég starfað frá því að því var hrundið úr vör hinn 6. maí 2005. Það eru rétt liðlega eitt og hálft ár, en mér finnst stundum að það hafi verið lengri tími, enda skemmtilegt og viðburðaríkt að stofna nýtt blað. Það spratt vitaskuld ekki fullskapað úr höfði Seifs eða Sigurðar G. Guðjónssonar, þó ég leyfi mér að halda því fram að Siggi hafi að mörgu leyti haft gleggri hugmynd en flestir um eðli og karakter Blaðsins, en hitt er svo annað mál hvernig gekk að koma því til þess þroska. Það hefur beinlínis gengið á ýmsu í því.

Mér er engin launung í því að stærstu skrefin í því voru stigin á fyrstu vikum ritstjórnartíðar Sigurjóns M. Egilssonar. Hann vissi vel hvert hann vildi færa Blaðið, bæði hvað varðaði uppbyggingu, efnistök og fréttastefnu. Ekki svo að skilja að það hafi allt verið frábært, um sumt má deila eins og gengur. Þá ætti ekki að líta hjá hlut Janusar Sigurjónssonar, ritstjórnarfulltrúa (og sonar Sigurjóns), sem kom langþráðum skikki á útlit Blaðsins. Í því samhengi þarf að taka fram að Janus er ekki aðeins með snjallari síðuhönnuðum, því nálgun hans er „journalistísk“. Ég veit ekkert um það hvort Janus kann að skrifa, en hann veit upp á hár um hvað blöð snúast. Að því leyti er ég ekki frá því að meiri fengur hafi verið í Janusi fyrir Blaðið en karli föður hans. Með fullri virðingu og allt það.

Ég minnist á þetta eftir að hafa lesið bloggfærslu sme þar sem hann gerir lítið úr fyrstu forystugrein Trausta Hafliðasonar, hins nýja ritstjóra Blaðsins, sem varð það á að segja að Blaðið hefði mjög sótt í sig veðrið frá stofnun þess.

Frá fyrsta degi og þar til um mitt sumar var lestur Blaðsins lítill, mældist innan við þriðjung, hafði nánast ekkert breyst frá fyrsta útgáfudegi. Lesturinn var alltof lítill og á hverjum degi hentu þúsundir Íslendinga Blaðinu ólesnu. Um miðjan júlí urðu miklar breytingar, nánast nýr fölmiðill með sama nafni hóf göngu sína. Lesturinn tók kipp, aukningin mældist í tugum prósenta. Önnur eins breyting á lestri dagblaða var óþekkt.

Þarna er Sigurjón vitaskuld að vísa til hins gífurlega lestrarkipps Blaðsins, eftir að hann settist þar í ritstjórastólinn, og er ekkert afar fínlega að ýta undir þá söguskýringu, að þar hafi persónulegt framlag hans sem kraftaverkamanns í blaðamennsku skipt öllu.

Sem fyrr segir vil ég ekki gera lítið úr hlut Sigurjóns í þessum öra vexti Blaðsins á markaði, en það kom fleira til og að mínu viti veigameira. Þar munaði örugglega mestu um að Árvakur tók að sér dreifingu Blaðsins, sem um leið tryggði að það bærist lesendum fyrir klukkan sjö á morgnana. Áður hafði það verið að detta inn um lúguna með póstinum milli kl. 10.00 og 14.00, þannig að flestir lesendur sáu það ekki fyrr en á kvöldin og þeir, sem nenntu að lesa það þá, lásu fréttir, sem verulega var farið að slá í, enda var efninu skilað í prentsmiðju um sólarhring áður en það kom lesendum fyrir augu. Þetta viðurkenndi Sigurjón enda óbeint, því þegar í ljós kom öllu hægari sigling á Blaðinu í síðustu lestrarkönnun en hinni næstu á undan, kenndi hann slakari dreifingu Árvakurs um, en ekki efnistökum.

Hitt skipti líka verulegu máli, að þegar Sigurjón kom inn á Blaðið fékk hann fullt athafnafrelsi, gat ráðið menn og rekið eftir þörfum og lagt meira í útgáfuna að öllu leyti. Þetta skiptir máli, því fyrirrennari hans, Ásgeir Sverrisson, var í algerri fjárhagslegri spennitreyju, mátti ekki einu sinni reka fólk, hvað þá ráða, sakir afar þröngrar fjárhagsstöðu Blaðsins og ritstjórnarvald hans var af þeim sökum verulega takmarkað. Sigurjón þurfti engar slíkar hömlur að þola og skömmu eftir ráðningu hans var hlutafé Árs og dags, útgáfufélags Blaðsins, aukið um 200 milljónir króna.

Ég held að Sigurjón hefði þurft að vera alveg sérstaklega ömurlegur ritstjóri ef lestur Blaðsins — hvaða blaðs sem er raunar — hefði ekki aukist verulega við það eitt að fá 200 milljóna króna innspýtingu, frjálsar hendur í starfsmannavali og morgundreifingu á einu bretti.


Kengúrur í Kompási

Það er með hálfum huga, sem maður setur á blað vangaveltur um Kompás-þáttinn alræmda. Málið er allt svo subbulegt, að maður þarf eiginlega að þvo sér um hendurnar á eftir. En stundum þarf maður að bretta upp á ermarnar og gramsa í ógeðinu.

Ég held að Kompás-mönnum hafi orðið á allnokkur mistök við gerð þessa þáttar:

  • Í fyrsta lagi voru þeir að fjalla um tvö nánast óskyld mál: annars vegar meinta breytni forstöðumanns meðferðarheimilis í garð skjólstæðinga sinna og hins vegar fjárreiður stofnunarinnar. Það þvældi málin að reyna að tvinna þau saman í einn þátt.
  • Í öðru lagi rýrði það gildi heimilda Kompáss, að þrátt fyrir að heimildamennirnir væru sagðir 20 talsins reyndist ekki einn einasti þeirra reiðubúinn að koma fram undir nafni. Ég á bágt með að trúa því að þeir hafi allir haft knýjandi ástæðu til nafnleyndar, þó hún sé þeim vafalaust öllum þægilegri.
  • Í þriðja lagi hef ég efasemdir um að sanngirni hafi verið gætt við forstöðumanninn þegar málið var borið undir hann. Það kom raunar ekki skýrt fram, en viðtalið við hann hafði á sér allan brag „fréttar úr launsátri“. Það var tekið við hann bókstaflega á milli húsa, og ljóst var að maðurinn hafði afar lítið ráðrúm til þess að kynna sér ávirðingarnar á hendur honum. Spurningarnar voru svo sumar hverjar beinlínis til þess fallnar að leiða viðmælandann í gildru eða dylgja um eitt og annað.
  • Í fjórða lagi þurfti forstöðumaðurinn að grípa til þeirra varna að greina frá samlífi sínu og eiginkonu sinnar. Viðtalið var að öðru leyti klippt til, en þetta myndskeið látið fylgja með þó það ætti nánast ekkert erindi nema við gægjuhneigt fólk.
  • Í fimmta lagi fór notkun á frumheimildum langt út fyrir það, sem til þurfti, og gerði þáttinn sjálfan pornógrafískan.
  • Í sjötta lagi var engan veginn heimfært í hverju ætluð brot mannsins ættu að liggja, hvort þau vörðuðu við lög eða hvort hann væri aðeins ósiðvandur. Í því samhengi var hins vegar nokkuð gert úr trúarlegu inntaki meðferðarstarfsins og gefið í skyn að forstöðumaðurinn væri hræsnari.

Höfuðvandinn í þessu máli er þó að mínu viti sá, að þarna er fjölmiðill að taka sér fyrir hendur að vera allt í senn: rannsakari, saksóknari, dómari og böðull. Setjum sem svo, að málið allt sé úr lausu lofti gripið og forstöðumaðurinn geti með óyggjandi hætti sýnt fram á sakleysi sitt og samsæri illviljaðs fólks gegn sér, sem Kompás-menn hafi fallið fyrir í góðri trú. Gæti hann með einhverju móti náð að hreinsa nafn sitt með fullnægjandi hætti? Eða undið ofan af þeim sársauka, sem málið hefur valdið fjölskyldu hans og vinum?

Til þess er réttarkerfið, að mál séu rannsökuð af hófsemi og sanngirni, þannig að réttlætinu verði fullnægt. Einmitt til þess að við búum ekki við dómstól götunnar, þar sem múgurinn hrapar á augabragði að ofsafenginni niðurstöðu. Raunar heyrist mér á flestum, sem ég hef rætt við, að þeim þyki Kompás hafa farið allt of geyst fram, þannig að e.t.v. má vænta meiri mildi af dómstóli götunnar en dómstóli þessa fjölmiðils.

En setjum á hinn bóginn sem svo, að allt sé þetta satt og rétt. Hvað þá? Engum blöðum er um það að fletta að þá væri um einkar alvarlegt athæfi að ræða. Þá hefur forstöðumaðurinn notfært sér trúnaðartraust skjólstæðinga sinna, sem eðli máls samkvæmt eru veikir fyrir, en þar fyrir utan felast meðferðarúrræði einatt í því að brjóta manneskjuna niður áður en farið er að byggja hana upp að nýju. Kynferðis- eða tilfinningasamband meðferðarfulltrúa og sjúklings er jafnóeðlilegt og á milli læknis og sjúklings, sálusorgara og sóknarbarns eða kennara og nemanda. Þar á milli er ekki það jafnræði, sem nauðsynlegt er í slíku sambandi fólks og hættan á misneytingu yfirboðarans veruleg. Þess vegna hafa menn enda fyrirboðið slíkt með lögum, þó í reyndinni séu þau mun oftar sniðgengin en hitt.

Allt um það, þá er málið grafalvarlegt ef rétt reynist og þá gildir einu hvers eðlis kynferðissamneytið var. En þá á það líka að ganga sína leið í réttarkerfinu til þess að ganga úr skugga um hvað hæft er í ásökunum, þannig að réttlætið nái fram að ganga og allir — bæði þeir sem bera fram sakirnar og þeir sem sökum eru bornir — njóti sanngirni og réttlætis. Það gerist ekki með kengúruréttarhöldum og aftöku í sjónvarpi.


Bannsettar tölur og staðreyndir

Umræðan um fátækt á Íslandi hélt áfram í Silfri Egils núna áðan. Þar var áfram deilt um viðmið fátæktar, en mér fannst samt furðulegast að heyra Kristrúnu Heimisdóttur (sem meðal annars er frambjóðandi hjá Samfylkingunni, í framtíðarhópi Samfylkingarinnar til forna, félagi í Viðbragðshóp Þjóðarhreyfingarinnar og lögfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins) æpa það á Illuga Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins in spe, að sjálfstæðismenn væru alltaf að rugla umræðuna með tölum og staðreyndum.

Hvílíkir kveinstafir í opinberri umræðu! En ef menn vilja ekki tölur og staðreyndir, þá hvað? Á að slá því sisona föstu, að hér sé landlæg fátækt og grípa bara til einhverra aðgerða í von um að þær hitti hina fátæku fyrir og bæti hag þeirra?

Nei, ætli það sé ekki affarasælla að menn komi sér saman um grundvallarhugtök og staðreyndir málsins áður en þeir takast á um hvort grípa þurfi til aðgerða og þá hverra. Hér á hamingjuheimilinu rífumst við hjónin t.d. ekki um það allt í einu hvort það vanti mjólk og hversu mikla mjólk þurfi þá að kaupa og hvar eigi að finna peninga fyrir henni og hver eigi að fara út í Þingholt að kaupa hana. Við gáum í ísskápinn og síðan þarf stundum að ræða hvort kaupa eigi tvo potta eða sex, svona eftir því hvort von er á gestum, hvar í vikunni við erum stödd o.s.frv.

Á sama hátt held ég að það sé augljóst, að menn verði að geta sett vandann niður fyrir sér, bæði hvað varðar eðli og umfang, með mælanlegum hætti. Þá fyrst er hægt að ræða skynsamlegar aðgerður til þess að ráða bót á honum og í framhaldinu er þá hægt að mæla árangurinn, ef svo ólíklega skyldi fara að það vefðist fyrir mönnum í fyrstu atrennu að útrýma fátækt.

Til þess þurfa menn að koma sér upp mælikvörðum, þó Kristrúnu kunni að finnast slíkt leiðinlegt. Það segir sig t.d. sjálft að það er eitthvað bogið við OECD-mælikvarðann í fátæktarskýrslu forsætisráðherra ef heimflutningur einhverra af hinum ofboðslega ríku útrásarvíkingum okkar erlendis einn og sér verður til þess að auka meinta fátækt hér, eins og Hjálmar Árnason benti á í sama þætti.

En Kristrúnu varðaði ekkert um það, heldur fannst henni mestu skipta að núa Illuga því um nasir að Davíð Oddsson, fyrrverandi yfirmaður hans, hefði sagt hitt og þetta í umræðu um fátækt á árum áður. En sagðist henni rétt frá? Óekkí. Fyrst minntist hún á orð Davíðs um styrkþega Mæðrastyrksnefndar og síðan að hann hefði efast um það á fundi í Valhöll að Harpa Njáls væri til. En henni láðist að geta samhengisins. Sumsé að Davíð hefði ekki viljað nota lengd biðraðarinnar hjá Mæðrastyrksnefnd sem óyggjandi mælikvarða á fátækt í landinu. Ætli Kristrún sé á öndverðum meiði við hann um það?

Enn síður ferst henni það vel að minnast á Hörpu Njáls, sem dags daglega gegnir raunar nafninu Harpa Njálsdóttir. Davíð var nefnilega að benda á það að bók hennar um fátækt hefði verið ákaflega hampað af fólki, sem hefði viljað slá pólitískar keilur með því en láðst að lesa hana. Þegar menn hefðu svo farið að gera það, hefði í ljós komið að meirihluti R-listans í Reykjavík hefði ekki borið minnstu sökina á bágum kjörum þeirra, sem höllustum fæti stóðu. Um leið hættu kyndilberar vinstriaflanna að tala um hana og hið merkilega var, að fjölmiðlar hættu um leið að tala við hana. Líkt og hún væri ekki til. Var nema von þó spurt væri hvort hún væri til? En það er víst ekki hægt að kenna húmorslausu fólki að skilja húmor.

Allt um það þá hugsa ég að það eigi enn eftir að teygjast á fátæktarumræðunni, þó ekki væri nema vegna viljaleysis vinstrimanna til þess að komast að niðurstöðu um eðli hennar og umfang. Það hentar enda orðræðu þeirra best að láta leiðindi eins og tölur og staðreyndir ekki vefjast fyrir sér, sérstaklega ef þá má þvæla um málið án nokkurrar niðurstöðu fram til 12. maí. En þá geta menn líka áttað sig á því af hversu mikilli umhyggju sú vandlæting er látin í ljós. 


Borgarar hins stafræna lýðveldis

Ég hlýt að leyfa mér að fagna því að hafa verið valinn „maður ársins“ af Time Magazine. Sem bloggari er ég einn af „borgurum hins stafræna lýðveldis“ og nafnskírteinið raunar með afskaplega lágri raðtölu. Um þessar mundir er ég búinn að vera um 18 ár á netinu, en það er nú rétt að taka fram að á þeim tíma var það mun minna og með allt öðrum brag en nú gerist. Engan veginn samanburðarhæft. Það var í raun ekki fyrr en Tim Berners-Lee fann upp vefinn, sem núverandi mynd fer að komast á það. Honum ber að syngja lof og dýrð, því ég hygg að með uppfinningu sinni (sem hann reyndi ekki auðgast á heldur tók þvert á móti þá stefnu frá byrjun að gefa heiminum opinn staðal) hafi hann fært mannkyn þéttar saman en öðrum hefur tekist og er þó mikið eftir enn, því útbreiðsla netsins er enn afar mismunandi eftir þjóðerni, stétt og stöðu.

En á slíkum hamingjudegi er auðvitað verra að komast ekki á netið með góðu móti nema hér innan landsteinanna. Því Cantat er bilaður. Það er algerlega óþolandi, þó auðvitað verði að geta þess, að slíkar bilanir hafa orðið æ fátíðari upp á síðkastið. En bilunin sýnir hversu snar þáttur sá strengur er orðinn í lífi manna, enda benda ótal rannsóknir til þess að Íslendingar hafi um langt skeið verið í fremstu röð í netvæðingu.

Menn hafa verið að ræða umbyltingu samgönguáaætlunar að undanförnu. Það eru vitaskuld tæpast mannslíf í húfi þó netsamband við útlönd leggist niður, en þó veit maður ekki, er ekki heilbrigðiskerfið að verða æ háðara netsamskiptum? Það má því velta því fyrir sér hvort það sé ekki að verða tímabært að tvöfalda þá stofnæð til og frá landinu. 


mbl.is Tímaritið Time velur „borgara stafræna lýðveldisins“ mann ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókeypis menn

Þegar ég var í Menntaskólanum var ein bekkjarsystir mín með límmiða á töskunni, sem á stóð „Free Afghanistan“, sem þá var hernumið af Sovétríkjunum. Þó við værum auðvitað sammála henni, stóðumst við samt sem áður ekki mátið að gantast með slagorðið og héldum því fram að þessi væna vinkona okkar væri að auglýsa ókeypis hass, en í þá daga þótti svartur afgan bera af í þeim efnum. 1-2 kynslóðum áður hafði Abbie Hoffmann slegið um sig með svipuðum brandara: „America is the land of the free. Free means you don't pay.“

Í Morgunblaðinu í morgun má lesa forystugrein undir fyrirsögninni „Frjálsir menn“. Þar er mikið látið með „hversu mikilvægt það samkomulag er, sem stjórnmálaflokkarnir hafa gert sín í milli um fjármögnun á starfsemi flokkanna í framtíðinni.“ Svo er haldið áfram og rætt um hvernig samfélagið hafi breyst og að ástæða sé til þess að verja stjórnmálamenn fyrir áhrifum frá auðmanna. „Margir þeirra, sem veita stuðning, gera kröfu um endurgjald,“ segir í leiðaranum, en svo er það ekki rökstutt nánar. Morgunblaðið hefur a.m.k. ekki flutt fregnir af slíku.

Stjórnmálaflokkarnir eru frjálsir af áhrifum þeirra, sem hingað til hafa fjármagnað starfsemi flokkanna að verulegu leyti. Stjórnmálamennirnir sömuleiðis. Sú breyting, sem er að verða, skapar alveg nýjar víddir í stjórnmálastarfseminni.

Það var og. Auðvitað er Morgunblaðið ánægt með þetta, því með þessum ólögum eru fjölmiðlum færð ný völd á silfurfati og stjórnmálamenn munu eiga mikið undir því að miðlarnir hampi þeim. En það verða ótal nýjar víddir í stjórnmálastarfseminni, eins og leiðarahöfundur  tiltekur. Á undanförnum árum hefur það til dæmis færst mjög í vöxt, að verkalýðsfélög og hagsmunasamtök beiti sér fyrir kosningar. Ég spái því að slíkt muni aukast um allan helming. Eins þykir mér líklegt að til verði ný fyrirbæri, sem við höfum að mestu leyti sloppið við, sem eru lobbýistar og meðfram þeim, það sem á ensku hefur verið nefnt Political Action Groups, sem eru ekkert annað peningamyllur fyrir stjórnmálamenn.

Gerir lýðræðisfyrirkomulag okkar ráð fyrir einhverri slíkri starfsemi? Það verður þá væntanlega næst að binda allt slíkt í lög, fram og til baka, en þá er stutt í allsherjarríkisvæðingu allrar lýðræðislegrar umræðu. Sárasaklaus áhugamannafélög — svo fremur sem þau eiga einhvern snertiflöt við stjórnmál — verða gerð nánast óstarfhæf vegna krafna um framlagða reikninga og gegnsæi við Ríkisendurskoðun. Verður það til þess að bæta lýðræðið?

Nú er rétt að halda því til haga að þó að stjórnmálaflokkarnir hafi til þessa haft óbeina löghelgun, þá hafa þeir ekki verið neitt annað en frjáls félagasamtök til þessa. En nú eru þeir orðnir annað og meira, en um leið eitthvað minna og ómerkilegra. Hver er trúverðugleiki stjórnmálaflokkanna sem stjórnmálaafla — sprottnum af þjóðinni fyrir þjóðina — þegar þeir eru nánast lögfestir og reknir fyrir illa fengið fé, skattfé. Tala nú ekki um þegar tálmanir eru svo lagðar fyrir aðra, sem leyfa sér að hafa skoðanir á þjóðmálum og afla þeim fylgis.

Með þessum aðgerðum, sem Morgunblaðið styður svo heilshugar, er verið að stofnanavæða lýðræðið og fjarlægja það frá lýðnum. Eins og teknókraatíið væri ekki orðið alveg nógu mikið fyrir. Allir stjórnmálamenn verða að vera atvinnustjórnmálamenn og helst aðeins á snærum þeirra flokka, sem vildi svo til að áttu menn á þingi á því herrans ári 2006. Um leið er miðstjórnarvald flokksskrifstofanna og flokksforystunnar aukið til muna. Af hverju var skrefið þá ekki bara stigið til fulls og komið á hefðbundu aðalskerfi?

Því það er auðvitað kjarni vandans, að þarna er útdeilt fjármunum og völdum án ábyrgðar. Þingheimur þarf ekkert að hafa fyrir hlutunum lengur og einskis að gæta heldur. Einu gildir hvaða óþverra flokkarnir bera á borð fyrir kjósendur, hversu heimskulega þeir fara að ráði sínu eða hvernig þeir sólunda þessu illa fengna fé. Þeir verða nefnilega áfram í áskrift að ókeypis peningum. Sem þeir ákváðu að gefa sjálfum sér.

Það eru ekki frjálsir menn, heldur ókeypis menn. Sams konar framferði á öðrum vettvangi myndi hins vegar leiða til þess að þeir yrðu sjálfsagt sviptir frelsi sínu um skeið. Árni Johnsen hvað?


Óvinir lýðræðisins

Nýlega samþykkti Alþingi lög um fjármögnun stjórnmálastarfsemi, en hún hefur um allnokkurt skeið verið mörgum mikill þyrnir í augum sakir þess að hún hefur ekki verið opinber umfram það, sem flokkarnir hafa sjálfir kosið. Nú brá svo við að á Alþingi myndaðist þverpólitísk samstaða um kosningasvindl allra flokka, sem ég tel ekkert minna en samsæri gegn sjálfu lýðræðinu.

Þetta eru stór orð og rétt að rökstyðja þau nánar. Í skjóli þess að verulegar hömlur voru settar á möguleika stjórnmálaflokka til þess að afla sér fjár og kvaðir um upplýsingu slíkrar fjársöfnunar, ákváðu flokkarnir nefnilega að skakka leikinn sér í hag og stórauka fjárstuðning við stjórnmálaflokkana. Þetta er ekkert annað en grímulaus tilraun til þess að festa í sessi núverandi flokkakerfi um leið og nýjum framboðum er gert afar erfitt fyrir. Þau þurfa nefnilega að hlíta öllum hömlunum en fá ekki fjárstuðning frá hinu opinbera.

Að vísu er fram tekið að flokkar, sem fá meira en 2,5% atkvæða á landsvísu — þó þeir nái ekki manni á þing — skuli fá fjárstuðning líkt og gömlu flokkarnir í samræmi við atkvæðamagn. En jafnvel þar er maðkur í mysunni, því tekið er fram að styrkurinn skuli ákveðinn á fjárlögum hverju sinni, og gömlu flokkunum því í lófa lagið að svelta nýju framboðin í 1-2 ár ef þeim sýnist svo.
Þetta heitir, að það sé vitlaust gefið.

Stjórnarskrárbrot
En þetta rangt á fleiri vegu. Sem skattborgari get ég út af fyrir sig fallist á að réttkjörnir þingmenn fái almennilegan aðbúnað á þingi, þingfararkaup, sérfræðiaðstoð og ámóta. En ég get ekki fallist á það að skattfé mitt sé notað til þess að greiða fyrir málflutning þeirra stjórnmálaflokka utan þings, sem fara þvert á sannfæringu mína. Eða nokkurra stjórnmálaflokka. Verður ekki annað séð en að hér sé á ferðinni brot á stjórnarskrárákvæðum um félagafrelsi og miðað við dómafordæmi vestanhafs væri það einnig brot á stjórnarskrárákvæðum um tjáningarfrelsi. Þarna er nefnilega verið að skikka mig til þess að standa straum af stjórnmálaskoðunum annarra. Um leið er lýðræðið sjálft skekkt.

En hverjar verða afleiðingarnar af þessum ólögum takist ekki að hrinda þeim fyrir dómstólum? Jú núverandi flokkakerfi og hlutföll á þingi verða fest í sessi um ókomna framtíð. En um leið munum við sjálfsagt horfa upp á nýja stétt „lobbýista“ og margeflda þrýstihópa, sem ekki eru bundir af lögunum og geta því tekið til við stjórnmálabaráttuna óheft. Telja menn að það verði lýðræðinu til framdráttar? Og síðan munu auðmenn vitaskuld eiga greiðari leið en áður á þing. Þeir þurfa ekki að leita stuðnings eins eða neins eða gera grein fyrir fjáraustri sínum.

Hverja á að strika út?
Rétt er að taka fram að þrír þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, sjálfstæðismennirnir Birgir Ármannsson, Einar Oddur Kristjánsson og Sigurður Kári Kristjánsson. Hafi þeir þökk fyrir. En svo voru óvinir lýðræðisins og þeir voru miklu fleiri. Að neðan eru nöfn þeirra og er kjósendum bent á að geyma listann til þess að muna hverja þarf að strika út næst:

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni M. Mathiesen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Drífa Hjartardóttir, Geir H. Haarde, Guðjón Ólafur Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Helgi Hjörvar, Hjálmar Árnason, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Katrín Júlíusdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Magnús Stefánsson, Mörður Árnason, Pétur H. Blöndal, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sæunn Stefánsdóttir, Valdimar L. Friðriksson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórarinn E. Sveinsson, Þórdís Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

-------------

Að stofni til er þessi færsla viðhorfsgrein, sem birtist í Blaðinu hinn 16. desember 2006.

Leiðrétting
Mér urðu á þau óskiljanlegu og leiðu mistök að skrifa í Blaðinu að Pétur H. Blöndal hefði setið hjá í atkvæðagreiðslunni, sem vitaskuld stangaðist á við veru hans á lista yfir óvini lýðræðisins á þingi. Pétur greiddi sumsé atkvæði með ólögum þessum. Á hinn bóginn láðist mér að nefna að Einar Oddur Kristjánsson, einn besti vinur skattgreiðenda á Alþingi, hefði setið hjá. Það leiðréttist hér með og hlutaðeigandi, jafnt sem lesendur beðnir velvirðingar.


Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband