Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Kyrr kjör

Í dag eru 76 dagar til kosninga. Dómsdagur nálgast.

Ég vék að skoðanakönnun Fréttablaðsins um daginn, sem mér fannst satt best að segja eilítið einkennileg. Hún var talsvert úr takti við aðrar skoðanakannanir, sem verið höfðu að birtast, og það án þess að nokkur þau tíðindi hefðu verið á vettvangi stjórnmálanna, sem skýrt gætu slíka skyndisveiflu. En nú hefur verið birt skoðanakönnun, sem Gallup gerði fyrir Náttúrverndarsamtök Íslands fyrrihlutann í febrúar. Látum niðurstöður hinnar eiginlegu könnunar liggja milli hluta hér, en það var krossspurt um afstöðu til stjórnmálaflokka. Raunar voru heimturnar í afstöðunni til stjórnmálaflokka bara svona og svona, af 742 svarendum komu aðeins skýr svör frá 512 manns. Um 31% vildu sumsé ekki taka afstöðu. Og af þeim, sem tóki afstöðu kváðust átta manns eða 1,08% ætla að kjósa annað en í boði er, en 6,06% ætluðu ekki að kjósa eða skila auðu.

Hér að ofan gefur hins vegar að líta skýringarmynd, sem sýnir afstöðu þeirra sem ætla að kjósa einhvern af núverandi flokkum í þessari Gallup-könnun. Eins og sjá má er þar allt með kyrrum kjörum. Þó úrtakið sé ekki stórt og heimturnar ekki miklar finnast mér niðurstöðurnar sennilegri en hjá Fréttablaðinu á dögunum. Sumsé engin stórtíðindi. Þó er athyglisvert að stjórnarmeirihlutinn rétt lafir.

Minnug þess að Sjálfstæðisflokkurinn uppsker jafnan minna úr kosningum en könnunum eru þar þó ýmis áhyggjuefni fyrir okkur á hægrikantinum, en sjáum til. Hins vegar blasir við að Samfylkingin á enn langt í land með að rétta úr kútnum og Vinstrigrænir eru enn fast við hlið þeirra, þó þeir virðist vera að síga eilítið aftur úr aftur. Stóra spurningin er kannski sú hvort frjálslyndir séu aftur að festast í þessu hefðbundna fylgi sínu. Má vera, enda hafa þeir ekki haldið útlendingamálunum til streitu, en það kunna þeir að gera er nær dregur kosningum. Svo má einnig minna á reynsluna frá nágrannalöndum okkar, að þar hefur gengið mjög illa að festa hönd á fylgi flokka, sem gera út á útlendingaandúð, en fylgið hefur svo skilað sér í kosningum, oft með mjög óvæntum hætti. Svo sýnist mér einnig, að ekki sé öll nótt úti enn hjá framsóknarmönnum, þeir eru að halda í sitt grunnfylgi og mig grunar að þeir eigi fremur eftir að hækka sig á næstu vikum. 

Auðvitað geta komið fram önnur framboð, en ég er sannast sagna vantrúaður á það. Bæði er að gömlu flokkarnir hafa með óþverraskap og óheiðarleika sett gaddavír í stað vébanda utan um Alþingi þannig að afar erfitt er fyrir ný framboð að keppa við þá, en síðan er hitt að mér sýnist að þau skilyrði, sem Ómar Ragnarsson hefur nefnt fyrir framboði, gera það ekki líklegt að þaðan komi framboð. Hann vildi sumsé sjá betur hvernig líklegt væri að kosningarnar færu og vill ekki verða til þess að „grænir frambjóðendur“ hinna flokkanna detti út. Eins og staðan er væri slíkt framboð einmitt líklegast til þess að skáka slíkum frambjóðendum gömlu flokkanna.


mbl.is Steingrímur: Bullandi stemning fyrir því að fella ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi sjálfstraust

Ég sá í það í Blaðinu í morgun að Atli Ísleifsson skrifar þar heilsíðulangt „fréttaljós“ um fyrirhugaða Ólympíuleika í Peking. Hún birtist undir fyrirsögninni „Framkvæmdir sem bera merki um vaxandi sjálfstraust þjóðar“ og með fylgir mynd af stórfenglegum framkvæmdum við íþróttamannvirki. Nú mætti svo sem spyrja hvaða þjóðar, því í Kína búa fimm aðalþjóðir (Han, Manchu, Mongólar, Hui og Tíbetar) auk á sjötta tugs þjóðabrota, en sumar þessara þjóða búa við ólöglegt hernám og þjóðerniskúgun, en valdaræningjarnir í Peking miða allt við yfirburði Han-þjóðarinnar líkt og Rússar gerðu í Sovétríkjunum sálugu.

En grein Atla var skrifuð með einstaklega jákvæðum brag, svo jákvæðum raunar að hann gæti reynt að selja þýðingu hennar til Xinhua. Og fyrirsögnin ein vekur athygli, því hún minnir um margt á fyrirsagnir um aðra Ólympíuleika á fjórða áratug síðustu aldar, en myndin að ofan er einmitt þaðan. Og eins og það dæmi sannaði er „vaxandi sjálfstraust þjóða“ heiminum ekki alltaf til blessunar. Sívaxandi hernaðarbrölt harðstjórnarinnar í Peking er ekki til þess fallið að sefa slíkar áhyggjur.

Kínverjar hafa að undanförnu hert á mannréttindabrotastefnu sinni, hugsanlega með það fyrir augum að geta slakað á klónni er nær dregur leikunum. Vel má vera að þeir reynist hinir glæsilegustu, en menn ættu að hafa hugfast að slíkar skrautsýningar alræðisríkja hafa einatt allt annan tilgang en að fóstra heilbrigðar sálir í hraustum líkömum. 


Sjálfstæði þingmanna og flokksagi

Ég sé að sveiflukóngurinn Hjörtur J. Guðmundsson er að atast í Sigurlín Margréti Sigurðardóttur fyrir að segja sig ekki frá varaþingmennsku fyrst hún er gengin úr Frjálslynda flokknum. Þar er hann að vísa til hástigsorðræðu frjálslyndra þegar Gunnar Örlygsson sagði sig úr flokknum hér um árið. Minnir Hjörtur á orð Sigurlínar af því tilefni:

Hin almenna skoðun mín er að svona eiga menn ekki að gera. Nái sannfæring þeirra ekki að samræmast þeirri stefnu sem þeir voru kosnir á þing fyrir, eiga þeir einfaldlega að segja af sér og bíða eftir næstu umferð í nýjum flokki þar sem sannfæring þeirra sameinast stefnu þess flokks sem þeir hafa valið sér.

Auðvitað er það tóm hræsni hjá frjálslyndum — hvort sem þeir eru enn í náð flokksforystunnar eða ekki, utan flokks eða innan — að fagna hreppaflutningi stjórnmálaleiðtoga eins og Kristins Halldórs Gunnarssonar og Valdimars Leós Friðrikssonar á meðan ylvolgar fordæmingar þeirra á ákvörðun Gunnars Örlygssonar standa óhaggaðar. Þær kalla máske á uppgjör við fortíðina?

En ég veit ekki hvað á að vera nudda þeim mikið upp úr þessu, blessuðum, vegna þess að þetta raus þeirra um Gunnar var nákvæmlega það: raus, byggt á misskilningi, vanþekkingu og grunnhyggni.

Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að skipan mála á Alþingi — elstu stofnunar stjórnskipunar okkar — hefur orðið til fyrir þróun og aðlögun en ekki eftir að vísir landsfeður settust niður og ákváðu rökrétta og fullkomna tilhögun, sem skilyrt var í stjórnarskrá. Þingið er eldra þingflokkum og þingflokkarnir eru eldri stjórnmálaflokkum.

Eftir endurreisn Alþingis 1843-1845 var þorri þingmanna kjörinn (þó kosningaréttur væri langt í frá almennur) en þeir buðu sig fram í eigin nafni og engir flokkar að störfum. Þeir fengu kjörbréf í hendur, sem var stílað á þeirra nafn. En auðvitað gerðist það fljótlega að flokkadrættir urðu á þingi; menn bundust samtökum um tiltekin þingmál, hópuðust eftir grundvallarafstöðu til lífsins og fylktu sér um helstu skörunga. Þannig urðu innan tíðar til óformlegir þingflokkar, afar lausir í reipunum að vísu (mikið ráp yfir ganginn og hurðaskellir voru ekki ótíðir). Er leið að heimastjórn urðu þeir mun sýnilegri og opinberari, en þeir voru óformleg bandalög á þingi og þingmönnum var í sjálfsvald sett hvar eða hvort þeir skipuðu sér í því samhengi.

Eftir að kosningaréttur varð almennur árið 1915 (það voru ekki aðeins konur, sem þá fengu loks kosningarétt) hófst hins vegar atburðarás, sem leiddi til núverandi flokkakerfis, en bæði Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur voru stofnaðir 1916. Í þessu samhengi er einkar fróðlegt að lesa eitt höfuðrit Max Weber, Stjórnmál sem starfi, sem kom út 1919, en þar lýsir hann einmitt og segir næsta nákvæmlega fyrir um þróun vestrænna flokkakerfa allt til okkar dags og Ísland hefur ekki skorið sig úr í neinum aðalatriðum hvað hana varðar.

Þrátt fyrir að hér væri komið á kjördæmum með fleiri en einum þingmanni og listakosningum, sem sættu sérstökum lögum og reglum (og hafa tekið hinum ýmsu breytingum í rás tímans), breyttist hitt aldrei, að það voru þingmennirnir, sem tóku kjöri. Raunar er það stutt sérstöku stjórnarskrárákvæði, 48. greininni, sem hljóðar svo:

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Raunar hefur þess misskilnings stundum gætt að þingmenn verði að vera einstaklega sannfærðir um þau þingmál, sem þeir greiða atkvæði um, en þetta ákvæði snýst engan veginn um neitt slíkt, heldur hitt, að tryggja það að ekki sé unnt að skuldbinda þingmenn til þess að haga atkvæðum sínum með tilteknum hætti. Þannig eru landsfundarsaamþykktir einungis ábendingar til þingmanna en ekki fyrirskipanir, frambjóðendur þurfa ekki að koma sér upp hugmyndafræði eða kenningakerfi, sem þeir þurfa þá að kynna og hlíta, og einu gildir hvað stjórn BSRB samþykkir, Ögmundur Jónasson á það aðeins við sjálfan sig hvernig hann greiðir atkvæði innan vébanda þingsins.

(Í framhjáhlaupi: Hitt er svo annað mál, að stjórnmál snúast um eilífar málamiðlanir og þingmenn geta þannig stutt mál, sem þeir hafa e.t.v. efasemdir um út af fyrir sig, en telja miklu varða að komist í gegn af öðrum ástæðum, t.d. til þess að halda stjórnarsamstarf í heiðri, nú eða þegar verið er að semja um mál, eins og alsiða er í þinginu. Sumum kann að finnast það bera vott um ístöðuleysi og málaliðveislu, en tilgangur hins frjálslynda fulltrúalýðræðiskerfis er ekki síst að tryggja öfgaleysi, sviptingalausa siglingu þjóðarskútunnar og tillitssemi við sem flest sjónarmið. Samningar á þingi eru betur til þess fallnir en ýtrasta beiting meirihlutavalds.)

Hugmyndir um að þingmenn eigi fyrr að segja sig af þingi en úr flokkum ganga þvert á allar hugsjónir um sjálfstæði þeirra, frelsi til þess að hlýða sannfæringu sinni og persónulega ábyrgð gagnvart kjósendum. Um leið eru þær vegvísir að enn harðari flokksaga og ógrundvölluðu valdi flokksforystu eða flokksskrifstofu eftir atvikum. Þróunin undandfarin ár hefur raunar verið mjög í þá átt og það án opinberrar umræðu eða breytingar á stjórnskipunarlögum í þá veru. Að mínu viti er það mikil óheillaþróun, sem hefur grafið undan völdum þingsins og komið ójafnvægi á þrískiptingu ríkisvaldsins, þar sem mörk og mótvægi (checks and balances) greinanna þriggja eru lýðræðinu bráðnauðsynleg.

En þessar hugmyndir eru annarlegar á fleiri vegu. Þær ganga nefnilega út frá því að þingmenn séu ekki hugsandi menn heldur hópsálir, þeir séu einungis atkvæðahandlangarar flokkanna, að flokkarnir eigi sér eina og augljósa stefnu í öllum málum sem fyrir þingið geta borið og svo framvegis. Haldi menn að heimurinn virki þannig og að lýðræðinu sé best þjónað á þann hátt þurfum við enga þingmenn, heldur aðeins atkvæðaþjarka. Í þeirri staðleysu þurfa engir þingmenn að koma til Alþingis, gott tölvuforrit gæti séð um að afgreiða frumvörp ráðuneytanna í takt við yfirlýsta stefnu flokkanna og atkvæðastyrk þeirra.

Við erum hins vegar fólk af holdi og blóði og fyrir þingið koma mál, sem eru flóknari en svo að unnt sé að reikna út hvernig þau „ættu“ að fara. Önnur snúast ekki síður um tilfinningar en rökhugsun. Fyrst og fremst þar þingið þó að geta brugðist við nýjum og óvæntum viðfangsefnum og þá dugir engin stefnuskrá til, heldur þurfa kjósendur að geta reitt sig á að þeirra eigin hyggjuvit og brjóstvit hafi valið réttu fulltrúa þjóðarinnar, sem hafa nægilega skynsemi, réttsýni, heiðarleika, umhyggju og einurð til þess að ráða fram úr vandanum landi og þjóð til heilla.

Það verður ekki gert með því að skylda þingmenn — þó þeir heiti Valdimar Leó eða Kristinn Halldór — til þess að fylgja flokkslínunni í blindni. Við skulum ekki gleyma að hún er líka frá breyskum mönnum komin.


Meira um skoðanakannanir

Ég las það í Fréttablaðinu frá síðasta miðvikudegi að fjórir af hverjum fimm, sem svöruðu könnuðum blaðsins, ætla að fara utan í sumar. Þetta er sama úrtakið og Samfylkingin uppskar 27,9% fylgi hjá og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núverandi formaður Samfylkingarinnar, naut fyllsta trausts 12,1% svarenda. En 80,3% ætla úr landi. Er samhengi þarna á milli?

Út úr hól, stend ég og kanna

Ég hef haft eina af þessum óvísindalegu „könnunum“ uppi á síðunni í talsverðan tíma, en þar er spurt hvaða stjórnarmynstur menn telji líklegast að verði ofan á að afloknum þingkosningum hinn 12. maí. Þegar 318 hafa svarað (slagar það ekki hátt í svörunina hjá Fréttablaðinu?) eru aðeins 7,2% trúuð á vinstristjórn, furðumargir (24,2%) eru trúaðir á að núverandi ríkisstjórn lifi kosningarnar af, en flestir (44%) telja Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkingu eiga samleið. Nú vantaði auðvitað inn í könnunina fleiri kosti á borð við vinstristjórn Samfylkingar og vinstrigrænna, sem sumir segja að geti verið í kortunum.

Ég verð hins vegar að játa, að ég er afar vantrúaður á að vinstriflokkarnir uppskeri nóg til þess að slíkt stjórnarsamstarf verði mögulegt. Og sannast sagna er ég einnig vantrúaður á áreiðanleika þessarar síðustu könnunar Fréttablaðsins. Aðallega vegna þess að samkvæmt henni var einhver veruleg sveifla í gangi meðal þjóðarinnar, sem allar aðrar kannanir misstu af, og engir þeir viðburðir í stjórnmálalífinu, sem skýrt gætu slíka sveiflu eða hughvörf. En hver veit, annað eins hefur gerst þó það sé afar fátítt. Það er því vissara að sjá 1-2 kannanir enn, áður en maður bollaleggur of mikið um það allt. En ég ætla að setja inn nýja „könnun“ hér til hliðar.

Annars eru pólitískar skoðanakannanir frekar ónákvæm vísindi hér á landi, úrtakið er ofast í minnsta lagi og svörun hefur dregist saman jafnt og þétt hin síðari ár. Við bætist að enginn skoðanakönnuður hér virðist ráða við það að búa til almennilegt úrtak. Það er nefnilega algengur misskilningur, að tilviljanakennt úrtak úr þjóðskrá endurspegli kjósendur með fullnægjandi hætti. Kosningaþátttaka hér á landi hefur að vísu verið í hærra lagi miðað við það, sem gengur og gerist í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum, en samt engan veginn þannig að hefðbundin slembiúrtök virki. Það þarf einmitt að velja úrtakið, þannig að tilviljunin sé ekki að flækjast fyrir mönnum. Það þarf að endurspegla kynjahlutfall, tekjur, menntun, búsetu og jafnvel neysluvenjur og einnig kosningahegðun ef það á að geta sagt almennilega fyrir um niðurstöður kosninga. Lítið slembiúrtak hjá lítilli þjóð þar sem um 10-15% borgaranna neyta ekki kosningaréttar að staðaldri getur aldrei gefið annað en almennar og ónákvæmar vísbendingar.

Svo eru auðvitað ýmsar íslenskar sérviskur í kringum kannanirnar hérna. Við sjálfstæðismenn fáum einatt meira út þeim en raunin er í kosningum. Rétt eins og framsóknarmennirnir virðast alltaf getað sært upp mun meira fylgi en kannanirnar gefa til kynna. Frjálslyndir hafa líka verið lagnir við að draga kanínur úr höttum sínum á kosninganótt. Þess vegna spurði ég í þessari „könnun“ hvað menn teldu líklegt, fremur en hvað þeir vildu. Ég skrifaði aðeins um þetta á fyrri blogg fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum fyrir rúmum tveimur árum vegna þess að mér fannst umfjöllun um kannanir í fjölmiðlum vera harla grunnhyggnisleg:

  • Þegar tveir keppa að sama embætti og annar gegnir því fyrir er fráleitt að gera ráð fyrir að óákveðnir skiptist líkt og gerist meðal hinna, sem hafa tekið afstöðu. Ef mönnum hefur ekki dugað fjögurra ára forsetatíð til þess að gera upp hug sinn til George W. Bush er næsta víst að atkvæði þeirra falli öðrum í skaut... ef þeir á annað borð kjósa. Að því leyti er stuðningur við Kerry örugglega vanætlaður.
  • Kannanirnar byggjast flestar á úrtaki „líklegra kjósenda“. Samsetning slíkra úrtaka er á hinn bóginn afar erfið og sjálfsagt aldrei erfiðari en nú þegar nýskráning kjósenda er sú langmesta í sögunni. Mismunandi aðferðir við úrtaksgerðina skýra að miklu leyti verulegan mun á einstökum könnunum, sem gerðar eru samtímis á sömu svæðum.
  • Fólk segir ekki alltaf satt eða allt af létta í könnunum. Þetta sjá menn t.d. reglulega þegar fólk er spurt hvað það hafi kosið í síðustu kosningum og niðurstöðurnar benda ávallt og undantekningarlaust til þess að sigurvegarar kosninganna hafi sigrað með miklu meiri mun en raunin var. Á sama hátt hneigist margt fólk til þess að svara ekki eða segjast vera óákveðið ef það telur sig vera í minnihluta eða eiga undir högg að sækja á einhvern hátt. Þýski stjórnmálafræðingurinn dr. Elisabeth Noelle-Neumann reifaði þessa kenningu sína í bókinni Spiral of Silence. Til þess að sneiða hjá þessari hneigð mætti t.d. spyrja fólk um það hvor frambjóðandinn muni hafa sigur, burtséð frá eigin skoðunum, en rannsóknir dr. Noelle-Neumann benda til mikillar fylgni milli slíkra „spádóma“ og endanlegrar niðurstöðu.

Það er svo rétt að hafa í huga að þessar athugasemdir má vel heimfæra á íslenskar aðstæður. Í sömu röð:

  • Skoðanakannanir á landsvísu hafa takmarkað spágildi eftir því sem kjördæmakerfið er flóknara, ekki síst þegar mikill munur er á vægi atkvæða. Þetta sáu menn vel í þarsíðustu þingkosningum þegar frjálslyndir komust varla á blað í landskönnunum en afstaða Vestfirðinga var á allt annan veg en landsmanna í heild.
  • Þó að hér sé ekki tveggja flokka kerfi má alveg beita sömu reglu á ríkisstjórnir þegar kemur að óákveðnum. Þeir sem segjast óákveðnir í afstöðu sinni til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir allan þennan tíma eru sjálfsagt aðeins óákveðnir í því hvern stjórnarandstöðuflokkinn þeir hyggist kjósa. Þessara áhrifa gætir sjálfsagt meira gagnvart forystuflokki ríkisstjórnar en öðrum.
  • Hér á landi tíðkast nær einvörðungu að nota slembiúrtak, sem oftast gefur nokkuð góða mynd af afstöðu til stjórnmálaflokka, m.a. vegna mikillar kosningaþátttöku. Hið sama þarf hins vegar ekki að vera upp á teningnum þegar könnuð er afstaða til einstakra mála nema menn hafi fyrir því að framreikna niðurstöðurnar að teknu tilliti til kyns, búsetu, menntunar og fleira. Þetta hefur verið gert í einhverjum mæli af stjórnmálaflokkunum, en mér vitanlega hafa skoðanakannanafyrirtækin alveg látið það eiga sig.
  • Kenning dr. Noelle-Neumann birtist sjálfsagt skýrast hér á landi þegar litið er á frammistöðu Framsóknarflokks í kosningum, sem jafnan er langt umfram það sem ætla mátti af skoðanakönnunum.

Ég held að flest af þessu eigi enn fyllilega við. En það er orðið afar brýnt að félags- og lýðfræðispekingar vorir leggist yfir vandann og reyni að finna betri leiðir til þess að mæla afstöðu almennings. Svörunin er að verða ömurleg (hugsanlega hefur verulegur vöxtur í gerð skoðanakannana grafið undan þeim, fólk nennir ekki að svara), og fjöldi óákveðinna hefur aldrei verið meiri. 

............................

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að með fyrirsögninni er ég ekki að taka undir þann ömurlega leirburð, sem illa upplýstir uppalendur hafa verið að halda að saklausum börnum og ímynda sér að þeir séu að „leiðrétta“ hið forna stef Jólasveinar ganga um gólf. En það eru jólasveinar víðar en í helli Grýlu.


Stóra letrið hjá Sjóvá

Ég get ekki kvartað undan viðskiptum mínum við Sjóvá í gegnum tíðina. Þvert á móti hefur mér þótt þjónustan þar til fyrirmyndar. Þessa dagana stendur yfir auglýsingaherferð hjá fyrirtækinu, þar sem það gumar af því að hafa endurgreitt liðlega 20.000 tjónlausum félögum í Stofni um 320 milljónir króna. Gott og vel. Hér á hamingjuheimilinu fögnuðum við þessari endurgreiðslu með því að skála í rauðvíni.

En auglýsingaherferðin fékk mig til þess að hugsa. Í henni er þekkilegur ungur leikari í aðalhlutverki og hann þykist vera að lesa upp nöfn allra félaga í Stofni úr gríðarmiklum skjalabunkum til þess að gratúrlera þá. Í blaðaauglýsingum furðar hann sig svo á því hvað það skuli vera til margir Magnúsar. Já já.

Sjálfur staldraði ég hins vegar við skjalabunkana miklu. Mér sýnist að hann sé með um 3.000 síður af nöfnum til þess að lesa upp. Það þýðir að það séu tæplega sjö nöfn á síðu. Er það ekki — án þess að ég ætli að eyða orðum í of há iðgjöld, samráð eða annað slíkt — frekar léleg nýting á skógum heimsins? Eða er letrið svona stórt? Vanalega kvarta menn fremur undan smáa letrinu hjá tryggingafélögum.

En bara svo það sé á hreinu, þá myndi þessi listi yfir tjónlausa félaga í Stofni rúmast á rétt ríflega 400 síðum ef prentað væri út með 12pt letri og aðeins eitt nafn í línu, sem þá er aðeins um 25% nýting á síðunni. Það er um það bil sá síðufjöldi og leikarinn er með í hægri höndinni. Sem út af fyrir sig er alveg saga til næsta bæjar, sem yrkja má um í auglýsingum. En til hvers að ýkja?


Nokkrir góðir dagar

Ég fékk fyrirspurn um það í athugasemdakerfinu frá Hlyni vini mínum hvort ég væri hættur að blogga. Stutta svarið við því er nei.

En ég tók mér nokkurra daga hlé frá blogginu vegna anna í vinnu. Við á Viðskiptablaðinu höfum verið að breyta því í dagblað, sem er aðeins meira en að segja það. Eftir allnokkrar svefnlausar nætur kom blaðið út og bara ágætlega lukkað, þó við eigum auðvitað enn mikið verk fyrir höndum. Þumalfingursreglan er sú, að frá fyrsta útgáfudegi eftir gagngerar breytingar taki um þrjár vikur að koma þeim skikki á blað, sem vera ber. Svo er þetta auðvitað dagleg barátta enda eðli dagblaða að þróast dag frá degi. En ég ætla að hlífa lesendum við tæknilegu stagli. (Það væri þá nær að maður stofnaði sérstakan blogg um tölvur og tækni.)

Á meðan þessu stóð hafði ég lítinn tíma til þess að fylgjast með fréttum, hvað þá að skrifa um þær. Nú ætti aðeins meiri tími að gefast til slíkrar iðju, en ekki miklu meiri, svona fyrsta kastið. En ég er a.m.k. farinn að lesa blöðin aftur af viðeigandi kostgæfni, þannig að maður hefur nægan efnivið


Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband