Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Leyniþjónusta femínista

Nýtt frumvarp til jafnréttislaga, sem rætt var í næstu færslu á undan, innifelur fleira í sér en afnám launaleyndar. Það er ekki allt gott. Sumt nánast illt og enn vafasamara en launaleyndarákvæðið. Þó frumvarpið sé í lengra lagi, 23 síður, gætu frelsisunnandi menn varið tíma sínum verr en að lesa það yfir og taka til andmæla.

Það þarf ekki að lesa lengi til þess að finna afar sérkennilegt ákvæði, sem ég skil eiginlega ekki í að hafi ekki vakið almenna úlfúð í samfélaginu. Kannski menn hafi verið of uppteknir af stjórnarskrárleikriti Framsóknarflokksins eða yfirliði félagsmálaráðherra. Í 4. grein þess má finna eftirfarandi:

Jafnréttisstofa getur krafið einstök fyrirtæki, opinberar stofnanir, félagasamtök og aðra þá sem upplýst geta um mál um allar upplýsingar og öll gögn sem nauðsynleg þykja vegna sérstakra verkefna stofunnar og athugunar hennar á einstökum málum. Skulu umbeðnar upplýsingar og gögn afhent Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests sem stofan veitir. Jafnréttistofu er heimilt að leggja dagsektir á þá aðila, sem ekki veita upplýsingar eða þau gögn sem krafist er, þar til úr hefur verið bætt

Valdheimildirnar í þessari klásúlu er óskiljanlega víðtækar og takmarkalausar. Samkvæmt henni er einfaldlega ekki unnt að áfrýja kröfum Jafnréttisstofu um upplýsingagjöf um hvaðeina, sem hana fýsir að vita. Eins og sjá má eru ekki heldur neinar hömlur á umfangi fyrirspurnanna og ekki er gert ráð fyrir neinni lýðræðislegri tilsjón með þessari gagnsöfnun, umfram almennt forræði félagsmálaráðherra.

Hér er gengið miklum mun lengra en nokkrum datt í hug að leggja til málanna þegar hugmyndir um greiningarstarfsemi lögreglu og þjóðaröryggi voru til umræðu. Hér er lagt er til að stofnun, sem gert er ráð fyrir að njóti óvenjumikils sjálfstæðis og sjálfdæmis, geti pínt hvern sem er til sagna að viðlögðum dagsektum og án nokkurra úrræða fórnarlambanna. Hvernig skyldi standa á því að enginn rekur upp gól nú?

Það má finna að mörgu öðru í frumvarpsdrögunum, sem engan veginn samræmist góðri lýðræðishefð eða reglum réttarríkisins. Ég nenni ekki að rekja fleira um það að sinni, en bendi á hreint ágæta bloggfærslu Viggós H. Viggósonar um málið. 


Ávextir launaleyndar

Menn eru talsvert að ræða nýtt jafnfréttisfrumvarp, sem Magnús Stefásson félagsmálaráðherra boðaði í Þjóðmenningarhúsi á dögunum að yrði lagt fram á nýju þingi í haust. Helst hafa menn staldrað við afnám launaleyndar, sem mælt er fyrir um í því. Hin viðteknu viðhorf, sem þessi tillaga byggir á, virðast vera þau, að „afnám launaleyndar [sé] líklega einhver árangursríkasta leiðin sem kostur er á til þess að leggja til atlögu við hina djúpstæðu meinsemd: Kynbundinn launamun.“ Eða svo sagðist Guðmundi mínum Steingrímssyni frá.

Ég dreg ekki í efa einlægan ásetning manna í þeim efnum, en mér finnst nokkuð á vanta, að menn hafi rökstutt að afnám launaleyndar sé árangursríkasta leiðin til þess. Sérhver íhlutun hins opinbera í frjálsa samninga er íþyngjandi og felur í sér dulinn kostnað, ómældan og mælanlegan. Ekki aðeins fyrir hlutaðeigandi heldur þjóðfélagið allt. Þá verð ég einnig að minnast á að mér finnst með ólíkindum – í ljósi þess hversu aðkallandi vandinn er sagður vera — hvað allar upplýsingar um meintan kynbundinn launamun hafa reynst vera óljósar og misvísandi; hinum ýmsu „rannsóknum“ ber fráleitt saman, framsetning á niðurstöðum hefur reynst vera villandi og allri gagnrýni nánast tekið sem guðlasti. Hvað þá að sýnt hafi verið fram á með óyggjandi hætti, að launamunurinn sé í raun og veru kynbundinn.

Áður en menn ausa úr skálum reiði sinnar um það í athugasemdunum vil ég benda mönnum á að kynna sér grein Helga Tómassonar, dósents við Háskóla Íslands, doktors í tölfræði og fyrrverandi starfsmanns kjararannsóknanefndar, sem birtist í vetrartölublaði Þjóðmála árið 2005. Greinin bar fyrirsögnina „Tölfræðigildrur og launamunur kynja“ og í henni leiddi dr. Helgi rök að því að ekki liggi fyrir upplýsingar, sem réttlæti staðhæfingar um kynbundinn launamun. Greinin hlaut furðulitla umræðu miðað við hversu glatt menn hafa rætt um kynbundinn launamun sem sjálfgefna staðreynd og þær alvarlegu ábendingar, sem dr. Helgi hafði fram að færa. Svona er þetta nú stundum á Íslandi þar sem unnt virðist að kveikja í þjóðfélaginu öllu með órökstuddum staðhæfingum, en þegar einhver leyfir sér að leggja orð í belg út frá staðreyndum máls, viðurkenndum vísindum og óyggjandi orsakasamhengi virðst þögnin grúfast yfir hann ef niðurstaðan er ekki í samræmi við hina viðteknu orðræðu rétttrúnaðar dagsins. Galíleó hvað?

Aftur að launaleyndinni: Afnám hennar með lögum er að mínu viti svo veigamikla íhlutun hins opinbera í samningsfrelsi borgaranna, að þar þurfa að koma mun afdráttarlausari og brýnni rök en þegar hafa verið lögð fram. Í því samhengi þarf að sýna fram á að launamunurinn sé í raun kynbundinn, en helgist ekki af öðrum aðstæðum. Þá þarf að sýna fram á að ekki sé unnt að ná sömu markmiðum með vægari aðgerðum hins opinbera eða öðrum hætti. Loks verður að sýna fram á það svo ekki verði um efast, að þessar aðgerðir séu í raun til þess fallnar að ná markmiðunum, en láta ekki nægja að greina frá því að einhver nefnd telji annað ósennilegt.

Nú er rétt að ítreka að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að launþegar verði skikkaðir til þess að láta laun sín uppi, heldur er fyrirboðið að atvinnurekendur geti gert „það að skilyrði fyrir ráðningu starfsmanns, að honum sé bannað að veita þriðja aðila upplýsingar um laun sín eða kjör“.

Afleiðingar ákvæðisins eru engan veginn ljósar, en þó held ég megi fullyrða að vinnuveitendur muni fremur veigra sér við að umbuna góðum starfsmönnum en áður. Eins hygg ég að menn hafi ekki hugleitt áhrifin á samkeppni fyrirtækja um starfsmenn, því ekkert í lögunum bannar atvinnurekendum að krefjast þess af umsækjendum að þeir veiti upplýsingar um kaup og kjör hjá fyrri vinnuveitanda og setji það sem skilyrði fyrir ráðningu. Finnst mönnum það frábær hugmynd? Enn eitt mætti tína til: Sumir sérfræðingar eru svo eftirsóttir og fágætir, að ráða verður þá framhjá launastrúktúr fyrirtækisins. Launin geta þannig orðið verulega hærri en hjá flestum yfirmönnum þeirra og önnur algeng viðmið á borð við starfsaldur, menntunarstig og því um líkt þurfa að fjúka út um gluggann. Slíkt væri varla hægt án áskilins trúnaðar.

Ein augljós afleiðing alls þessa er þó sú, að verktakasamningar munu aftur færast í vöxt. Er launþegum greiði gerður með því?

Í þessu tilviki, eins og flestum öðrum ráðagerðum, megum við ekki missa sjónar af mælanlegum staðreyndum um afleiðingarnar og tapa okkur í orðagjálfri um göfug markmið. Af þeim er ávallt nóg, en afleiðingarnar eru einatt á aðra og ófyrirséða lund. Jesús orðaði þetta fallegar í fjallræðunni: „Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá“ (Matt. 7:16).


Íslandsflokkurinn

Samfylkingarkonan Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir greinir frá því í bloggi sínum, að hinn nýi flokkur þríeykisins Jakobs Frímanns Magnússonar, Margrétar Sverrisdóttur og Ómars Ragnarssonar muni bera nafnið „Íslandsflokkurinn“. Ég er sammála henni um að það sé stórt nafn Hákot, en gott og vel, stefnumið flokksins munu að líkindum bera þess merki að flokksmenn beri hagsmuni lands ekki síður en lýðs sér fyrir brjósti.

Ég verð hins vegar að játa að ég er mjög forvitinn um það hvaða pól í hæðina hinn óstofnaði flokkur mun taka í málefnum útlendinga. Ég veit ekki annað en að Ómar sé afskaplega umburðarlyndur maður á flestum sviðum og Jobbi frændi er alþjóðahyggjumaður eins og góðum krata sæmir. En hver verða áhrif Margrétar Sverrisdóttur að því leyti? Þegar Frjálslyndi flokkurinn var við það að yfirgefa hana töluðu margir eins og hún hefði tekið vörnina gagnvart hinni xenófóbísku nýju flokksforystu. Því var hins vegar hreint ekki þannig farið eins og heyra mátti á framboðsræðu hennar á flokksþingi frjálslyndra:

Hvað málefni innflytjenda varðar, þá vil ég taka fastar á þeim málum en gert hefur verið hingað til. Það þarf að bregðast skjótt við til að leita lausna á þeim vanda sem óheft flæði vinnuafls hefur þegar skapað. Við megum hins vegar aldrei falla í þá gryfju að taka á málefnum innflytjenda af óbilgirni eða fordómum gagnvart ákveðnum hópum útlendinga.

Engum á að blandast hugur um að Margrét tók þarna undir þau sjónarmið, sem flokkurinn hafði kynnt í vetrarbyrjun. Eini fyrirvarinn, sem hún gerir um það, er að hún telur að ekki eigi að mismuna útlendingum innbyrðis. Með þessu var hún hugsanlega að sneiða sérstaklega að Jóni Magnússyni lögmanni, sem hafði öðru fremur hnykkt á þvi hvernig vofa íslamismans gengi ljósum logum um heimsbyggðina, en henni var sérdeilis í nöp við hann og liðsmenn hans úr Nýju afli, er rutt höfðu sér rúms innan Frjálslynda flokksins skömmu áður. Var framboðsræða hennar mestöll lögð undir aðfinnslur um Jón og lið hans.

En afstaða Margrétar til innflytjenda almennt var hins vegar augljós og í framboðsræðu sinni vék hún raunar sérstaklega að því að ekki væri um neinn málefnaágreining að ræða: „Ég vil nota tækifærið hér og vísa á bug kenningum um að ég hafi búið til einhvern málefnaágreining til þess eins að sækjast eftir valdastöðu innan flokksins.“ Svo ég bíð spenntur eftir málefnaskrá Íslandsflokksins og pólitísku erindi Margétar undir nýjum merkjum.

Mér virðist einsýnt að kjörorð hins nýja flokks verði „Íslandi allt!“; nema þeim lítist betur á „Ísland fyrir Íslendinga“. 


Addi við Austurvöll

Ríkisútvarpið var að flytja frétt um traust manna til íslenskra stjórnmálaleiðtoga og þá fyrst og fremst hvern menn vildu helst sjá leiða næstu ríkisstjórn. Geir H. Haarde bar höfuð og herðar yfir aðra að því leyti, en 42,4% nefndu hann sem besta lyklavörðinn í stjórnarráðinu. Rétt er að hafa í huga að megnið af svörunum barst áður en deila stjórnarflokkanna um stjórnarskrárbreytingu var leyst. 22% nefndu Steingrím J. Sigfússon, en 17,5% Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem er formaður Samfylkingarinnar. Svo nefnu 4,7% Jón Sigurðsson og aðeins 0,8% nefndu Guðjón Arnar Kristjánsson.

En það var ekki aðeins spurt um það hvern menn vildu helst sjá, því einnig var kannað hvernig menn teldu að leiðtogarnir myndu standa sig ef þeir kæmust til valda, burtséð frá heitustu óskum svarenda. 2/3 töldu að Geir myndi standa sig vel, en um fimmtjungur að hann myndi duga illa. 56,3% töldu að Skallagrímur myndi standa sig vel, en þriðjungur illa. 40% töldu að Ingibjörg Sólrún myndi plumma sig, en 47% að hún myndi standa sig illa. Athyglisvert er að bera það saman við sams konar könnun fyrir fjórum árum, en þá töldu heil 73% kjósenda að hún myndi standa sig vel á valdastóli, svo duglega hefur kvarnast úr. 28% töldu að Jón Sigurðsson myndi standa sig vel sem forsætisráðherra.

En svo kom rúsínan í pylsuenda fréttar RÚV:

Loks telja 13% að Guðjón Arnar myndi standa sig vel við Austurvöll, sjö af hverjum tíu kjósendum eru því ósammála.

Hmmm… Var ekki verið að spyrja um það hvort menn yrðu þolanlegir forsætisráðherrar? Í ljósi þess að Múrinn stendur við Lækjargötu langar mig að vita af hverju í dauðanum 13% ku hafa sagt að Addi væri ókei við Austurvöll. Finnst þeim ekki óhætt að hafa hann nær stjórnarráðinu en það? Eða var spurt þannig? Eða eiga útvarpsfréttamenn ef til vill að fara hægt í sakirnar í notkun myndmáls?

 


Vandamál Króniku

Í og með í framhaldi síðustu færslu: Sumir verið að spyrja mig hvað mér finnist um Krónikuna. Sjálfsagt vonast einhverjir til þess að ég hrauni yfir blaðið af því að ég hef látið í ljós tilteknar efasemdir um dómgreind ritstjórans við önnur tækifæri. En mér finnst það ástæðulaust og raunar ósanngjarnt að taka Krónikuna til kostanna út frá því hvernig fyrstu tölublöðin eru. Þó að þau hjónin, Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Valdimar Birgisson, hafi tekið sér drjúgan tíma til þess að undirbúa útgáfuna, á blaðið enn eftir að slípast og það er rétt að gefa því nokkrar vikur áður en menn fara að kveða upp mikla dóma.

Vandi Krónikunnar er þessa dagana sjálfsagt helstur sá að vikuritið stendur ekki fyllilega undir þeim væntingum, sem ritstjórinn kynti undir í aðdraganda útgáfunnar. Ég held hins vegar að flestir hafi gert sér grein fyrir að þar talaði Sigríður Dögg í nokkrum gleiðboga og það er mjótt á milli metnaðar og ofmetnaðar. Ef við leiðum það hjá okkur hvaða undrum og teiknum var lofað kemur ekki að sök þó ekki sé skúbb á hverri síðu (eða nokkurri síðu ef því er að skipta).

Hitt er verra, að mér finnst Krónikan ekki bæta nógu miklu við fjölmiðlaflóruna og ekki með nógu afgerandi hætti. Þar er eftir litlu að slægjast, sem ekki er að finna í öðrum miðlum. Þá er eins og Krónikan hafi ekki gert upp við sig hvort hún er fréttarit eða lífstílsblað með menningarlegu ívafi. En þetta má allt laga með tíð og tíma. Verst er að hann er yfirleitt af skornum skammti, því fjölmiðlar eru mjög viðkvæmir í rekstri og það þýðir ekkert að vera að vonast til þess að horfa á tekjujöfnun á árs- eða ársfjórðungsgrundvelli. Hjá vikuriti verður hver mánuður að vera innan marka. Febrúar og mars eru jafnan erfiðustu mánuðirnir í slíkri útgáfu.

Enn eitt, sem ég á kannski eftir að skrifa meira um í víðara samhengi því það á langt í frá við um Krónikuna eina. Almennt hef ég ekki heyrt annað en hrós um útlit Krónikunnar, sem Bergdís Sigurðardóttir annaðist af natni. Ég get ekki fyllilega tekið undir það hrós. Ekki svo að skilja, að mér finnist það slæmt, síður en svo. Mér finnst það einmitt afar vandað, stílhreint og afgerandi (þó það sé stundum soldið 90s).

Spurningin er fremur hvort það sé viðeigandi. Símaskráin er ekkert hönnunarlegt augnayndi, en hún er hárrétt hönnuð miðað við tilganginn. Sama má segja um auglýsingar Bónuss. Að því leyti finnst mér Krónikan nefnilega of vel hönnuð. Hönnunin gefur lesandanum vísbendingu um að þetta sé vikurit fyrir sama mengi og gúffar Wallpaper í sig með macchiato á Súfistanum. Fyrir vikið er ekki vottur af fréttafnyk af blaðinu, það skortir þá ákefð, mikilvægi og brodd, sem fréttum og fréttasíðum hæfir.


Krónísk vandamál Víkverja

Víkverji 3. mars 2007 Víkverji 25. febrúar 2007

Víkverji Morgunblaðsins beygði sig í duftið í gær (svo vitnað sé í annan gamlan Moggamann) til þess að biðjast afsökunar á skrifum sjálfs sín um tímaritið Krónikuna síðastliðinn sunnudag. Eða hvað? Menn þurfa ekki að vera neitt sérstaklega vel læsir til þess að átta sig á því að það er ekki sami Víkverji, sem hélt á penna síðastliðinn sunnudag og nú í laugardagsblaðinu.

Hitt er raunar enn merkilega hve langt Víkverji gærdagsins gengur í að úthúða nafna sínum frá síðasta sunnudegi, talar um dómgreindarbrest og að skrifin hafi ekki verið neitt minna en synd! Maður bíður bara spenntur eftir því að heilög ritstjóraþrenning Morgunblaðsins (sem öll skrifar zetu) leiði hjörð sína í iðrunargöngu.

Ég mundi nú ekki alveg hvað Víkverji hafði skrifað síðasta sunnudag, svo ég teygði mig í bunkann og gáði. Þar var ekkert að finna, sem kallaði á þessi afar sterku viðbrögð, hartnær viku síðar. Víkverji sagði þar að hann hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með Krónikuna og rökstuddi það lítillega, en vék svo fleiri orðum að framkomu ritstjórans í Kastljósi og þótti ekki mikið til koma. Þetta var nú bara svona almennt Víkverjatuð, sem maður getur verið sammála eða ósammála eftir atvikum, en ég held ekki að nokkum hafi dottið í hug, að þar með væri dómur yfir Króniku fallinn. Nema greinilega seinni Víkverjanum, þessum sem játaði syndirnar fyrir hönd hins og hét yfirbót. Hin ofsafengnu viðbrögð af svo ómerkilegu tilefni vekja nefnilega spurningar, sem maður getur tæpast leyft sér að vona að verði svarað af Víkverja í bráð.

.......................................

Ég rak hins vegar augun í annað, þessu sjálfsagt ekkert skylt, en mér finnst altjent vert að minnast á það. Fyrir ofan Víkverja má á hverjum degi lesa „orð dagsins“, vers úr Biblíunni, gott vegarnesti og jafnvel lykil að leyndardómum lífsins. Fyrir ofan fyrri Víkverjann var þetta:

En Jesús hrópaði: „Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig.“ (Jh. 12:44)

Og hinn seinni:

Því að ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, að eigi verði það kunnugt og komi í ljós. (Lk. 8:17)

Kannski snúast þessi óskiljanlegu flækjur Víkverja einmitt um trú einhvers á því hver hafi sent hvern og hitt, að ekkert verði að eilífu hulið (þó raunar sé nú ekki gefið að það standist).



Leitað langt yfir skammt

Já, það þykja athyglisverðar fréttir vestur í Bandaríkjunum þegar forstjóri stórfyrirtækis er verðlaunaður með aukagreiðslum þó hagnaðurinn hafi minnkað. Þetta eru engar smáupphæðir: 13,2 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvara um 883 milljónum króna. En þarf að leita svo langt eftir slíkum fréttum? Þess háttar tölur hafa líka sést hér á Íslandi, þó það sé sjaldgæft, og það hjá nokkuð minni fyrirtækjum en Motorola.

Í ljósi frétta af frekari taprekstri hjá 365 (áður Dagsbrún) væri kannski ómaksins vert fyrir fjölmiðla, nú eða hluthafa, að kynna sér kaupréttarsamninga og bónusa hjá æðstu stjórnendum. Það er þó ekki allt á sömu bókina lært. Sumir virðast hafa lent í því að draga hlutafjárverðið hraðar niður en svo að þeir næðu að innleysa hagnað. Það lítur ekki vel út í CV.


mbl.is Forstjórinn fékk milljónir í þóknun á meðan hagnaður minnkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánleysi framsóknar

Alveg hefur það verið ámátlegt að fylgjast með áhugaleikhópi framsóknarmanna reyna að tala sjálfa sig upp sem málsvara landvættanna á framhaldsflokksþingi flokks síns með miklum heitstrengingum um ríkisstjórnaslit verði ekki samþykkt stjórnarskrárbreyting um eignarhald náttúruauðlinda. Og hún þarf að ganga í gegn núna á eftir, að manni skilst.

Látum vera að ræða hvaða gildi slík stjórnarskrárgrein hefði ef hún væri lögfest um kaffileytið á morgun. Látum líka vera að ræða hvort hún væri skynsamleg, jafnvel þótt gildi hennar væri ótvírætt. En ef hún er svona bráðnauðsynleg, af hverju í ósköpunum nefndu framsóknarmenn hana ekki fyrr? Eða ætla þeir kannski að klína því klúðri á Jón Kristjánsson, formann stjórnarskrárnefndar, þingmann, fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi ritstjóra Tímans? Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, víkur að bakgrunni málsins í færslu sinni á föstudag, sem rétt er að benda fólki á.

Auðvitað er þetta helber og alger gervimennska hjá framsóknarmönnum. Þeir meina ekkert með þessu, eins og best sést á því að Siv Friðleifsdóttur var falið það hlutverk að ganga lengst í málinu og hóta stjórnarslitum ef ekki yrði farið að þessum lið stjórnarsáttmálans, einmitt núna — loks þegar þeir mundu eftir honum — þegar örstutt er til þingslita og kosningabaráttan að hefjast. Nú hefur grams í kvótakerfinu aldrei verið sérstakt áhugamál framsóknarmanna, alls ekki raunar, þannig að það er ekki nokkur angi þessa máls trúverðugur. Samt er það svo að helstu málsvarar flokksins og forystumenn hafa lagst á vagninn, þannig að maður verður að trúa því að þeir meini eitthvað með þessu. En hvað?

Ég held að þetta sé bara stælar, þeir séu að búa til skyndiágreining við Sjálfstæðisflokkinn til þess að geta betur haldið því fram, að þeir séu sínir eigi herrar. Örvar ofurbloggarans Össurar svíða.

Pólitísk klókindi þessa eru umdeilanleg. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn fari ekkert á taugum út af þessu og það er tómt mál að tala um að orðið verði við þessari síðbúnu „kröfu“ framsóknarmanna. Þá er úr vöndu að ráða. Þeir gætu reynt að leggja fram slíka tillögu í þinginu sjálfir og gætu sjálfsagt fengið stuðning stjórnarandstöðunnar við þann fleyg. En hverjir skyldu þá uppskera mögulegan ávinning þess í kosningum? Ekki framsóknarmenn. Þá gætu stjórnarslit einnig komið til greina, en þá frekar fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins. Hvaða afleiðingar hefði það? Væntanlega hinar sömu og ef fraamsóknarmenn slitu henni: Geir H. Haarde myndi ganga á fund forseta, segja honum tíðindin og bjóðast til að mynda minnihlutastjórn fram að kosningum. Ég hygg að slík stjórn yrði varin vantrausti af öðrum flokkum, sem kærðu sig ekki um frekari truflun á kosningunum en orðin væri og gætu um leið aflað sér trausts fyrir ábyrgðarfulla afastöðu. En um leið væri skrípaleikurinn öllum augljós, sérstaklega kjósendum. Ætli nokkur myndi tapa á þeirri afhjúpun nema framsóknarmenn?

Framsókn má ekki við neinu slíku, svo ég held að þeir leiki ekki gambítinn til enda. Um leið kemur í ljós hversu vanhugsaður hann var, það var aldrei neinn ávinningur mögulegur. Eftir mun standa að í huga almennings verður þetta klúður eini afrakstur flokksþingsins, en hitt sem eitthvert kjöt var í mun aldrei koma honum fyrir sjónir. Framsókn hefur ekki efni á ennþá fleiri glötuðum tækifærum. Flokknum lá á að kynna hvað hann hefði af mörkum að leggja til framtíðar, en ekki hvað hann kannski vildi sagt hafa í fortíð. Þetta dæmigerða lánleysi er ástæðan fyrir því að ég hygg að flokksforystunni geti ekki auðnast að laga flokkinn og ná fyrri tiltrú kjósenda. Það þarf nýja kynslóð til.


Klámhögg

Þessi klámkappræða í Silfri Egils fannst mér furðuleg og lýsandi um ruglið, sem vaðið hefur uppi í því samhengi. Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi vinstrigrænna og góðborgari samkvæmt eigin játningu, hljóp hratt yfir sögu og setti samasemmerki milli kláms, vændis, mansals og barnakláms, þó hún skipti raunar um skoðun nokkrum setningum síðar og notaði > og => jöfnum höndum í stað samasemmerkisins. Þetta taldi hún sjálfgefnar forsendur umræðunnar og vildi ekki ræða málin nema út frá því. Þess vegna vildi hún berjast gegn mansali með því að fara gegn hvers kyns klámi. Guðmundur Steingrímsson staldraði aðeins við þetta og spurði hvort ekki væri nær að fara beint fram gegn mansali ef það væri höfuðvandi þjóðarinnar. Sóley fannst það nú alls ekki og vildi Sieg an allen Fronten. Jájá. Það er þá sjálfsagt rétt að setja sömu snillingana til þeirra verka og gerðu Ísland eiturlyfjalaust árið 2000. Verður Ingibjörg Sólrún ekki komin á vinnumarkaðinn 13. maí?

Ég hjó líka eftir því að Sóley tönnlaðist á því að það þyrfti ekki að ræða þessi mál af því að klám væri ólöglegt á Íslandi. Punktur basta! En hver sá, sem hefur fyrir því að lesa hina fremur óljóst orðuðu grein hegningarlaga um klám, sér að þar er ekki gerð minnsta tilraun til þess að skilgreina óskapnaðinn. Á hinn bóginn má af refisheimildunum sjá, að tilhæfið þykir ekki ýkja alvarlegt nema börn komi við sögu. En hvernig er það, ef eitthvað er í lögum, er það þá bara þannig og ekki tækt til umræðu?! Samkvæmt því eiga vinstrigrænir ekkert upp á dekk með andstöðu sína við virkjanir og stóriðju, enda allt margsamþykkt á Alþingi.

Þegar umræðan fór að verða of erfið neitaði Sóley svo að ræða málið frekar, sagði það ekki eiga neitt erindi í umræðuþátt eins og Silfrið, það væri verkefni fyrir lögfræðinga, kynjafræðinga og félagsfræðinga. Það var og. En umfram allt ekki fyrir opnum tjöldum eða þannig að við ótíndur almúginn komi að málum.

Það var fleira ruglið í þessarri umræðu, sem verður kannski tilefni frekari skrifa hér. En ég skora á alla að horfa á þáttinn, því hann var mjög upplýsandi. Bara ekki um umræðuefnið.

« Fyrri síða

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband