Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Dagbækur Matthíasar á Netið

Matthías Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur aldrei verið maður einhamur. Hann bar alla tíð tvær kápur á öxlum, því auk þess að vera einstæður ritstjóri er hann skáld. Og honum tókst rækja þessar tvær helstu kallanir sínar án þess að vanrækja aðra. Auk alls hins.

Hann hætti störfum á Morgunblaðinu um aldamótin og gerði það fremur hljóðlega, en Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hefur haft þá stefnu að skikka menn á eftirlaun. Ég er ekki viss um að það hafi verið skynsamlegt í öllum tilvikum, þó Matti hafi kannski verið hvíldinni feginn. Ég hitti Matthías um daginn og hann var eins og alltaf: eilítið annars hugar að manni fannst þar til hann hvessti á mig sjónirnar og gaf sig allan að mér. Það var ekki að heyra að hann væri hættur í blaðamennsku. Mér þótti vænt um þegar hann sagðist lesa mig reglulega og hefði gaman af. „Þú ert góður í að leiða fram önnur sjónarmið en þessi almæltu,“ sagði hann. „Svolítið á móti.“ Það var vel og fallega mælt, en um leið kurteislegar en sumir hefðu gert.

Ég þarf varla að orðlengja það, að ég ber mikla og djúpstæða virðingu fyrir Matthíasi, sem mér finnst einn merkilegasti blaðamaður, sem Ísland hefur alið. Ef ekki sá merkilegasti. Þess vegna gladdi það mig afar mikið að uppgötva að Matthías hefur opnað vef, sem vitskuld er að finna á www.matthias.is. Þar er að meðal annars að finna valda texta úr verkum hans, ljóð, heilu bækurnar á .pdf-sniði og fleira. Greinilegt er að enn er verið að vinna efni inn á vefinn, því þar er gert ráð fyrir sjónvarpsviðtölum og ýmsu öðru. Og Matthías ætlar ljóslega að blogga líka, þó hann kalli það dagbók fremur en blogg.

Mestur veigur er þó sjálfsagt í því, að Matthías birtir gamlar dagbækur sínar á vefnum. Þar er fjölmargt hnýsilegt fyrir áhuga menn um sagnfræði og stjórnmál og jafnvel nokkur síðbúin skúbb! Nú þegar er þar að finna dagbókabrot frá 1955-1969 — þegar Kalda stríðið stóð sem hæst — og svo aftur frá 2001 og 2002. Þetta er tóm snilld allt saman, en ég get ekki neitað því að ég hlakka ekki síður til þess að lesa dagbækurnar, sem vantar þarna á milli. Ég þykist líka vita að það vanti inn í sum árin.

En ég hef nóg að gera við að lesa hitt næstu daga. Frásögnin ilmar af Íslandssögunni og Matthías þekkti alla, sem þekktu alla. Það er skáldið sem oftast heldur á penna og það gerir lesninguna áhrifaríkari, en um leið má treysta því að aukaatriðin eru ekki að þvælast fyrir manni eins og oft gerist í dagbókum. Ef eitthvert smáatriði er tiltekið má reiða sig á að það skiptir máli.

Það er undursamlegt að lesa um hvernig vinátta hans og Bjarna Benediktssonar kviknar og þroskast (Matthías er efins fyrst), maður skynjar harminn þegar Steini Steinarri elnar krabbinn, það er upplýsandi að lesa hvers Þórbergur Þórðarson bað Guð án árangurs eða hvernig Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseti skildi ekki að þjóðin skyldi ekki öll elska hann. Eða þegar Ragnar Jónsson í Smára reiðist Matthíasi og ber saman gyðingdóm þeirra beggja! Hvernig hann kemur í heimsókn til Jóns Leifs, sem tekur á móti honum á silkisloppi og býður honum te. Matthíasi finnst hann vera að tala við Wagner og skrifar svo:

Fólk hlær að tónverkunum hans og hatar STEF.

Það er að vísu ósanngjarnt en hann er of fyrirferðarmikill fyrir okkar litla samfélag.

Hann nær sér á strik dauður

Er það ekki satt og vel skrifað í apríl 1959?

Þarna er að finna urmul af sögum, sumum sem lýsa bakgrunni sögulegra atburða, en einnig öðrum sem lýsa fyrst og fremst mannlegu eðli. Síðan er Svarti-Péturinn Sigurður A. Magnússon að sniglast þarna árum saman. Ég vil ekki lýsa efninu eða efnistökunum frekar. Menn verða að lesa þetta sjálfir. Og þá meina ég að þeir verði.

Þetta er allt gott hjá Matthíasi. Hið eina, sem ég get sagt að vanti, er meira af svo góðu. Ég vil meira!

----------- 

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að stíga mín fyrstu spor í blaðamennsku á Morgunblaðinu undir ritstjórn þeirra Matthíasar og Styrmis Gunnarssonar. Ég þekkti þá vitaskuld fyrir, báðir foreldrar mínir, þau Magnús heitinn Þórðarson og Áslaug Ragnars, höfðu unnið á blaðinu um margra ára skeið, þannig að segja má, að ég hafi bundist Morgunblaðinu fjölskylduböndum. Það var einmitt í Morgunblaðshöllinni að Aðalstræti 6, sem þau kynntust! Á milli þeirra og Matthíasar og Styrmis var margháttuð vinátta og tryggð, sem ég hlaut að nokkru í arf og auðnaðist að ávaxta nokkuð sjálfur.

Áhrifavald þeirra Matthíasar og Styrmis var að sönnu mikið þegar þeir kusu að beita sér, en umfram allt höfðu þeir gífurleg áhrif á íslensk fjölmiðlun. Bæði á okkur, sem unnið hafa með þeim, en einnig á hina fjölmiðlana, sem þurftu að keppa við þann jötunn, sem Morgunblaðið var og er. Það hlýtur þannig að vera fremur aumt fyrir Fréttablaðið að vera ekki enn í neinum námunda við skriðþunga Morgunblaðsins í fréttaskrifum eða skoðunum, þrátt fyrir að hafa fyrir löngu stungið Moggann af í útbreiðslu og auglýsingasölu, sem um leið hefur þrengt verulega að honum. Og það er ekkert sem bendir til þess að Fréttablaðið geti keppt við Morgunblaðið í gæðum. Eða að það langi til þess.

 


Bræðrabönd og þjóðhollusta

Fyrri færsla um svipmót kratanna fékk mig til þess að hugsa aðeins lengra um tengsl hinna alþjóðasinnuðu jafnaðarmanna. Sumsé hvort þau geti verið nánari en þjóðhollustan ætti að leyfa.

Ég verð að játa að mér hefur alltaf þótt alþjóðahyggjan hjá krötunum eilítið hlægileg og stundum skuggaleg. Það er bara hlægilegt þegar Samfylkingarmenn og vinstrigrænir (kratar og kommar) fara að reyna að eigna sér einhverja kosningasigra meintra bræðra- eða systraflokka úti í heimi og telja það þá jafnan til marks um eigið ágæti í íslenskri pólitík. En merkilegt nokk vill aldrei nokkur maður taka alþjóðlega ósigra á vinstrivængnum til sín.

Hitt finnst mér skuggalegra, þegar erlendir stjórnmálaflokkar reyna að hafa bein áhrif á kosningar hér heima. Sú saga er löng og merkileg og hefur talsvert verið rakin í fræðasamfélaginu og í alþýðegri útgáfu á bókum, sem jafnan hafa selst ágætlega. Varðaði kommana og Rússagullið er mest að græða á Kommúnistahreyfinginunni á Íslandi 1921-1934, bók Þórs Whitehead frá 1979, Liðsmönnum Moskvu, bók Árna Snævarrs og Vals Ingimundarsonar frá 1992, og Moskvulínunni, bók Arnórs Hannibalssonar frá 2000. Sama ár kom út Kæru félagar eftir Jón Ólafsson, sem einnig er fróðleg.

Spartverjarnir, kommúnistar, sósíalistar, allaballar eða hvað þeir kölluðu sig þann áratuginn voru þó engan veginn einir um að njóta „aðstoðar“ alþjóðasambanda eða þiggja línuna að utan, þó þeirra starfi hafi ávallt verið landráðakenndari. Í eldgamla daga voru kratarnir ekki að fela sambandið við félagana í Kaupmannahöfn, þó þeir hafi að vísu fljótt áttað sig á því að best væri að hafa sem fæst orð um fjárstuðninginn. Ég held að það sé rétt hjá mér að sagnfræðingurinn Þorleifur Friðriksson sé einn um að hafa rannsakað þau mál að einhverju marki, en doktrsritgerð hans við háskólann í Lundi fjallaði einmitt um tengsl norrænna sósíaldemókrata við íslenska verkalýðshreyfingu frá 1916-1956, en hún og Alþýðuflokkurinn voru greinar af sama meiði á þeim tíma. Ritgerðin bar undirfyrirsögnina „Alþjóðahyggja eða íhlutun?“ en Íslendingar þekkja efni hennar sjálfsagt best af bók hans, Gullnu flugunni, sem út kom 1987.

Eitt helsta leiðarhnoð jafnaðarstefnunnar er alþjóðahyggjan og því fannst góðum krötum ekkert að því að viðhalda afar nánu sambandi við skoðanasystkin í öðrum löndum og þá aðallega á Norðurlöndum. Því má ekki heldur gleyma að pan-skandínavisminn var mörgum ofarlega í huga á þessum árum og langt eftir síðustu öld.

En það hlýtur að hafa reynt á þessa herra í Alþýðuflokknum eftir að Sambandslögin runnu út árið 1943 og krafan um tafarlaust sjálfstæði Íslands varð æ háværari. Þá tóku forystumenn í Alþýðuflokknum við línunni frá bræðraflokknum í Kaupmannahöfn (fyrir milligöngu bræðraflokksins í Stokkhólmi) og lögðust gegn því að Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði. Þeir kölluðu sig lögskilnaðarmenn og höfðuðu einkum til þess að Íslendingar ættu ekki að gera slíkt meðan Danmörk væri hernumin; það lýsti litlu drenglyndi.

Lögskilnaðarmenn lögðu það meira að segja á sig að gleyma því að árið 1942 hafði Alþýðuflokkurinn staðið að tillögu um sjálfstæði Íslands ásamt öllum flokkum öðrum, enda hafði hann samþykkt fjölmargar ályktanir þar að lútandi. Enn erfiðara hefur sjálfsagt verið fyrir þá að gleyma því að vorið 1943 lagði flokkurinn það til, að lýðveldi yrði þegar stofnað hinn 17. júní það ár. En það tókst og um haustið 1943 var því öllu gleymt og Alþýðublaðinu var kúvent til þess að berjast af alefli gegn því að Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði. Sama blaði of hafði stært sig af því skömmu áður, að Alþýðuflokkurinn hafi helst viljað stofna lýðveldi 1941! Erfiðast hlýtur þó að hafa verið að líta hjá því að helstu forystumenn flokksins og ráðherrar hans, þeir Stefán Jóhann Stefánsson, formaður, og Haraldur Guðmundsson, báðir hinir mætustu menn, höfðu báðir undirritað tillögu stjórnarskrárnefndar um lýðveldisstofnun hinn 17. júní 1944. Framganga Alþýðublaðsins í þessu máli var líkast til mesta niðurlæging þess annars ágæta blaðs og hreint með ólíkindum hvernig forysta Alþýðuflokksins lét allt í einu og reyndi að spilla órofa samstöðu þjóðarinnar um sjálfstæðismálið.

Eitt er þó fyndið — svona eftir á að hyggja — í því. Alþýðublaðið gagnrýndi mjög samstöðu allra annarra stjórnmálaflokka í málinu, því hvað sjálfstæðið varðaði komst ekki hnífurinn á milli Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og kommúnista. Var grín gert að þeim ólíklegu bólfélögum og hvað skyldi nú Alþýðublaðið hafa kallað þá einu nafni? Nema Samfylkinguna!!

Sjálfstæðissinnar, sem í þessu máli voru nefndir hraðskilnaðarmenn, bentu á hinn bóginn á það að þegar árið 1918 hefði verið gert ráð fyrir að sambandslögin rynnu út árið 1943, öllum hafi verið ljóst hvert næsta skref yrði og Íslendingar raunar marggreint Dönum frá því, löngu áður en ófriðarskýin hrönnuðust upp yfir meginlandinu. Íslendingar hefðu tekið við nær öllum sínum málefnum við fullveldið, en þurft að taka við hinum fáu, sem Danir önnuðust, við hernám ríkjanna beggja hinn 9. og 10. maí 1940. Í því samhengi var vitaskuld og bent á það, að sambandslagasamningurinn hefði fallið úr gildi vegna vanefnda Dana á honum, en þeir áttu að annast landvarnir Íslands.

Sjónarmið lögskilnaðarmanna hlutu auðvitað engan hljómgrunn á Íslandi, eins og þeir hafa líkast til gert sér grein fyrir frá upphafi. En þeir létu sig hafa það að fylgja línunni að utan. Var það merkilegri breytni en hjá íslenskum kommúnistum, sem hóruðust eftir því sem dólgurinn í Kreml fyrirskipaði?

------- 

Það hefur minna borið á þessu undanfarna áratugi, enda ekki jafnmikið í húfi. En það er þó vert að minna á samstarf stjórnmálaflokka á vettvangi fjöl- eða yfirþjóðlegra þinga. Þar er einmitt mest eining og flokksagi hjá jafnaðarmönnum allra landa, hvort heldur er litið til Evrópuþingsins eða Norðurlandaráðs. Það er því alveg í lagi að spyrja hvort viðeigandi sé hjá Samfylkingunni að flytja inn þær Monu Sahlin frá Svíþjóð og Helle Thorning-Schmidt frá Danmörku, ljóslega í því skyni að hafa áhrif á kosningar til íslenska þjóðþingsins.

Ég fyrir mína parta kann ekki við slíka alþjóðahyggju og finnast þessi afskipti norræna jafnaðarmanna af íslenskum innanríkismálum og hinu viðkvæma gangverki lýðræðisins ólíðandi.

Einhverjir kunna jafnframt að spyrja hvort það hafi verið helber tilviljun að Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs og leiðtoga jafnaðarmanna þar í landi hafi ekki verið boðið með þeim stöllum, en hugsanlega hefur það skipt máli, að hann er við stjórnvölinn í ríki utan Evrópusambandsins og hafði nýlega sagt að innganga Noregs í það væri óhugsandi í fyrirsjánlegri framtíð. Er hann þó mikill Evrópusinni. Illugi Gunnarsson minntist á þetta í nýlegri grein í Fréttablaðinu, en ég man ekki eftir að aðrir hafi tæpt á þessu máli.

Líkast til svara einhverjir þessu á þann veg, að allt í lagi sé að fá góða gesti að garði og ekki um frekleg afskipti þeirra Monu og Helle af íslenskum innanríkismálum að ræða. En hvað er viðkvæmara í þeim efnum en kosningar? Taka má annað dæmi: Ætli það hefði ekki heyrst hljóð úr horni ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði boðið Margréti Thatcher að koma til þess að stappa stálinu í sitt fólk mánuði fyrir kosningarnar 1987, þegar Albert Guðmundsson gerði harðasta hríð að flokknum?

...............

Myndin að ofan sýnir Magnús Hafliðason, bónda á Hrauni í Grindavík, með bjarghring af Hans Hedtoft, sem rak á fjörur hans í október 1959. Níu mánuðum áður hafði skipið siglt á ísjaka og sokkið suður af Hvarfi í jómfrúarferðinni 31. janúar 1958, en 95 fórust. Þessi mynd Ólafs K. Magnússonar heitins, míns gamla samstarfsmanns, vakti mikla athygli í Danmörku, enda birtist hún yfir þvera forsíðu Berlingske Tidende og víðar. Ég hef hana hér vegna þess að skipið hét eftir leiðtoga danskra jafnaðarmanna, Hans Hedtoft, sem lést í blóma lífsins árið 1955. Hann var aðalhvatamaður þess að Íslendingar létu vera að lýsa yfir sjálfstæði, en þjóðin hafnaði þeim tilmælum þó alþjóðasinnarnir létu til leiðast.


Svipmót kratanna

Sá góði krati, Kjartan Valgarðsson, bloggar alla leið frá Lourenço Marques í Mozambique. Í nýlegri færslu vekur hann athygli á því að sænskir kratar undir forystu Monu Sahlin hafi fengið gamalt prófkjörsslagorð sitt lánað í áróðri flokksins. Kjartan reyndi fyrir sér í síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar undir kjörorðunum „Allir með!“, en Svíarnir hafa snarað því yfir í „Alla ska med.“

En ég tek eftir því á síðunni hjá Kjartani, að hann er með skjámynd af vef sinna sænsku kollega til þess að rökstyðja mál sitt. Útlitið minnti mig á eitthvað, svo ég brá mér á vef sænskra sósíaldemókrata og grunurinn var staðfestur. Útlitið hjá þeim hefur verið tekið hrátt upp hjá Samfylkingunni hér heima. Hún hefur meira að segja látið sig hafa það að nota sama letur, Century Expanded, sem hingað til hefur nær einvörðungu verið notað á Íslandi af Morgunblaðinu og er fyrir löngu orðið samgróið útliti þess.

Kannski maður ætti að glugga í stefnumálin og athuga hvort Samfylkingin hafi tekið línuna frá sínum sænska bræðraflokki í fleiru en útlitinu. 


Hattar, herrar og perrar

Um kvöldmatarleytið lenti ég í skemmtilegri umræðu á Café Victor um framgöngu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra, í eldsvoðanum við Lækjartorg í gær. Nafn fyrrverandi kollega hans, Rudy Giuliani, bar á góma, en mönnum fannst Villi hafa verið aðeins of hazarderaður miðað við tilefnið. Sérstaklega var gerð athugasemd við múnderinguna, en Villi var í samfestingi með hjálm og gleraugu.

Auðvitað hefði Villi ekki getað verið að þvælast um aðgerðasvæði slökkviliðsins í jakkafötunum, en stjórnmálamenn taka alltaf áhættu þegar þeir fara í búninga. Þannig reyndi aumingja Mike Dukakis að herða á karlmennskuímynd sinni í kosningabaráttunni 1988 með því að græja myndatöku af sér í skriðdreka með hjálm og allt. Sú mynd (sjá að ofan) gerði endanlega út af við drauma hans, því þorra fólks fannst þetta aðeins hlægileg sýndarmennska.

Það þarf þó ekki sýndarmennsku til þess að menn fari flatt á röngum höfuðfötum. Kanadíski stjórnmálamaðurinn Gilles Duceppe, sem einnig má sjá hér að ofan, heimsótti matvælaverksmiðju í kosningabaráttu árið 1997 og setti upp hárnet eins og lög gera ráð fyrir. Og það var tekin mynd af manni fólksins, eins og til var ætlast. Allt eftir bókinni sumsé. En myndin kostaði Duceppe kosninguna.

Þetta þarf þó ekki að fara svona. Íslenska þjóðin kímdi þegar hún sá Davíð Oddsson í frystihúsagalla og Guðni Ágústsson hefur sést í ámóta herklæðum, en þeir eru sjálfsagt báðir nógu skrýtnir fyrir til þess að þola slíkt. Davíð gerði meira að segja grín að því sjálfur, enda ríkur kostur í fari hans að taka sjálfan sig hæfilega alvarlega þó hann tæki störf sín og embætti mjög alvarlega. Í kosningabaráttunni 1991 fór hann til dæmis vestur á firði og var vitaskuld leiddur inn í tandurhreint hátæknifrystihús og þurfti því að fara í hlífðarföt og höfuðprýðina varð hann að hylja með hárneti. Þegar hann gekk hjá nokkrum innfæddum slordrottningum heyrði hann eina þeirra segja við þá næstu: „Hún er örugglega pólsk, þessi nýja!“

Ég held að það séu góð ráð að gefa pólitíkusum, að þeir eigi að sneiða hjá öllu búningablæti. Umfram allt eiga þeir að forðast hatta, því þeir eru helst til þess fallnir að gera stjórnmálamenn fígúrulega og þeir mega sjaldnast við miklu í þeim efnum.

Þetta kann þó að breytast ef höfuðföt komast í almenna tísku á ný. Sú kynslóð, sem vandist á að bera Stüssy-húfur, kann að hafa greitt götuna, en maður sér eilítið meira af höttum nú en fyrr. En stjórnmálamenn verða örugglega hinir síðustu, sem geta leyft sér að bera hatta athugasemdalaust.

Sem er út af fyrir sig merkilegt þegar haft er í huga að orðið „herra“, sem er sama orð og „harri“ (konungur), þýðir upphaflega hattur eða „maðurinn með hattinn“. Tignin fylgdi höfuðfatinu, hvort sem um ræddi hjálm eða krúnu. Nú á dögum er nánast óþekkt að kjörnir leiðtogar sjáist öðru vísi en berhöfðaðir. Ætli Helmut Schmidt hafi ekki verið sá síðasti, en hann gekk oft með kaskeiti til þess að undirstrika Hamborgar-uppruna sinn.

Talandi um herra les ég hjá Denna, að lærð deila sé um það í Vestmannaeyjum hvort Árni Johnsen hafi rætt um starfsmenn Vegagerðarinnar sem perra eða herra! Árni hefur séð sig knúinn til þess að svara þessum ásökunum Ómars Garðarssonar, ritstjóra Frétta, sem ég skil nú ekki alveg hvernig eru til komnar. Jafnvel þó Ómar kunni að vera heyrnasljór eða Árni hljóðvilltur má ljóst vera að meiningar um siðferði starfsmanna Vegagerðarinnar í einkalífinu geta ekki komið málinu við.

Hitt er svo athyglisvert, að íslenskan er sjálfsagt eina málið í víðri veröld þar sem menn ávarpa aðra eða tala um þá sem herra til þess að niðra þá.


Meira um hugmyndaauðgi þingmanna og ráðstöfun skattfjár

Í athugasemd við næstu færslu á undan segir Þröstur Þórsson hdl.:

2. mgr. 30. gr. þingskaparlaga hljóðar svo

"Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð."

Fjasið um að ekki sé fjallað um kostnað af frumvörpum á því ekki rétt á sér.  Þetta eiga menn að vita sem fylgjast með þingstörfum.

Þeir, sem fylgjast með þingstörfum, vita að það gerist nær aldrei að nefndaráliti fylgi slík kostnaðaráætlun, hvað sem kveðið er á um í þingsköpum. Hins vegar fylgja stjórnarfrumvörpum jafnan umsagnir frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Komi upp efi í nefndinni um áreiðanleika þeirra er unnt að geta hans, en ég man ekki dæmi þess og fylgist þó sjálfsagt nánar með þinginu en nokkrum manni er hollt.

Í þessu samhengi má líka minna á að samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999, er kveðið á um það í 3. gr. að „Þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í […] mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga.“ Þessu er aldrei sinnt að fyrra bragði, en sumar þingnefndir hafi stundum gengið eftir því með misjöfnum árangri.

Það gildir þó einu hvort fjárlagaskrifstofan hnoði saman kostnaðaráætlun í umsögn sinni, því slíkar áætlanir eru langt í frá nákvæmar í umsögnunum og raunar alræmdar fyrir ónákvæmni. Ömurlegasta dæmið er líkast til fæðingarorlofsruglið, sem þverpólitísk samstaða náðist um á þingi árið 2000. (Í hvert sinn sem slík samstaða næst á þingi er nánast öruggt að þar sé á ferðinni samsæri gegn kjósendum og/eða skattborgurum.) Með gildistöku laganna átti kostnaður ríkissjóðs við fæðingarorlof að aukast um 1,5 milljarða króna á ári, samkvæmt áætlun fremstu spekinga fjármálaráðuneytis Geirs H. Haarde. Kostnaðaraukningin varð hins vegar  4,2 milljarðar króna!

Um flest stjórnarfrumvörp er hins vegar látið nægja að segja að kostnaðurinn sé óverulegur, innan fjárheimilda viðkomandi ráðuneyta eða þess háttar. En ætli það safnist nú ekki saman þegar saman kemur? Ætli það þurfi ekki einhver að borga á endanum?

Það er fullt tilefni til þess að kostnaðaráætlanir séu ýtarlegri en nú tíðkast og fylgi öllum frumvörpum. Um leið ætti að geta þess hvaða kostnaður hlýst af frumvörpum fyrir aðra en ríkissjóð, því jafnótrúlega og sumum þingmönnum kann að virðast það, þá hafa velflest frumvörpin afleiðingar þó þeir finni ekki fyrir þeim.

Enn frekar er þó ástæða til þess, þegar tiltekin málefni eru borin undir kjósendur beint, að þeim sé gerð grein fyrir kostnaðinum, sem af kann að hljótast. Beinum sem óbeinum. Annars getum við allt eins kosið okkur brauð og leika alla daga.

Hér er ég enn kominn að kunnuglegu stefi í athugasemdum mínum á þessum stað. Sumsé, að það dugi ekki að horfa bláeygur og brosmildur á uppgefin markmið fyrir tilteknum fyrirætlunum og líta á markmiðin sem rök fyrir áætlanagerðinni. Það eru þau ekki, fremur en að tilgangur helgi hvaða meðöl sem er. Menn þurfa að líta á afleiðingarnar fyrir hverri ráðagerð; spyrja hvort líklegt sé að markmiðin náist með þeim ráðum, spyrja hvort unnt sé að ná þeim með öðrum, einfaldari og kostnaðarminni aðgerðum, spyrja hverjar aðrar afleiðingar kunni að verða, hvort komast megi hjá þeim eða vinda ofan ef allt fer á versta veg.

Það er ekki út í bláinn að slá slíka varnagla, því menn mættu hafa hugfast að ein umdeildasta löggjöf lýðveldisins, kvótalögin, hafði allt aðrar og víðtækari afleiðingar en að var stefnt. Það spáði enginn fyrir um þær, en þær voru þó fyrirsjáanlegar. Héðan af verður ekki undið ofan af þeim hvað sem öllum stjórnarskrárbreytingartillögum líður.

Það hafa ekki ómerkari foringjar en Jesús Kristur og Karl Marx hamrað á því að stefna eða athafnir skuli ekki dæmd af markmiðum viðkomandi heldur afleiðingum. Maðurinn er breyskur og sér ekki alla hluti fyrir. En hann getur reynt að glöggva sig á mögulegum afleiðingum gjörða sinna og umfram allt gætt þess að ganga eins skammt fram í hverju máli og unnt er, þó ekki væri nema til þess að lágmarka mögulegan skaða. Þetta á vitaskuld ekki síst við þegar um ræðir ákvarðanir, sem snerta aðra, og alveg sérstaklega þegar til umræðu eru ákvarðanir, sem teknar eru fyrir aðra og á þeirra kostnað.

Af nútímamönnum hafa sjálfsagt fáir skrifað skýrar um þetta en bandaríski heimspekingurinn og hagfræðingurinn Thomas Sowell, þó Karl Popper hafi ekki fjallað af minni skynsemi um svipuð efni. Bók Sowells Knowledge and Decisions ætti þannig að vera skyldulesning öllum þeim, sem svo mikið sem gætu hugsað sér að fara á þing. Upphaf hennar slær tóninn: „Hugmyndir eru hvarvetna, en þekking er fágæt.“ Sowell heldur því fram að þekking sé ekki ókeypis gæði og að hún — eða skortur á henni — hafi mælanlegan kostnað í för með sér. Markaðshagkerfið (og markaðurinn er ekkert annað en þekkingarkerfi) hagnýti þekkingu með beinni og betri hætti en önnur. Gott og vel, þetta er ekki ýkja umdeilt nú orðið. En það er margvíslegur vandi á ferð, sem margir telja að markaðshagkerfið leysi ekki með viðunandi hætti og stjórnmálamenn hafa jafnan ráð undir rifi hverju til þess að leysa hann allan. Gott ef þeir finna ekki vanda í félagi við „fagaðila“ þar sem enginn vissi að neitt væri að áður! Sowell rekur hvernig sú greining er oft á tíðum röng eða á misskilningi byggð (hér mætti skrifa langt mál um opin kerfi og lokuð), en ver þó meira máli í að sýna hvernig „lausnirna“ skapa einatt meiri vanda en fyrir var. Ekki síst vegna þess að í stjórnmálum skiptir oft meira máli hver tekur ákvarðanirnar en hvað er ákveðið. En nóg um það, það er engin leið að gera grein fyrir þessu meistaraverki Sowells í stuttu máli, hvað þá að mér auðnist að skrifa jafnskýrt og fyrirhafnarlaust og hann.


Í upphafi skyldi endinn skoða

Ég var að glugga í blöðin frá í morgun, svona til þess að sópa upp það, sem ég skildi eftir í morgun. Þá rak ég augun í grein eftir Mörð Árnason. Við eigum ýmislegt saman að sælda, þó sjálfsagt verðum við trauðla sammála í pólitík. Frekar en feður okkar, sem voru miklir vinir þrátt fyrir djúpstæðan pólitískan ágreining og það í Kalda stríðinu. En við Mörður getum alltaf verið sammála um KR, oft (en ekki alltaf) um íslenskt mál og það hefur jafnvel komið fyrir að við getum deilt skoðun á stöku þjóðþrifamáli. Og svo á hann það til að vera skemmtilegur.

Grein Marðar fjallaði um jafnréttisfrumvarpið svo nefnda, sem Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, boðaði að yrði lagt fram á næsta þingi. Í greininni (sem enn er ekki að finna á vefsetri Marðar, en birtist þar vafalaust innan skamms) var hann að skamma stjórnarþingmenn og þá sérstaklega flokkssystkin mín á þingi fyrir að hafa komið í veg fyrir að frumvarpið hefði verið lagt fram fyrir þinglok. Rakti svo einhverjar kenningar um það allt saman.

Mörður lét þó ekki þar við sitja, heldur taldi hann upp nokkrar greinar frumvarpsdraganna, sem honum fundust alveg sérstaklega frábærar. Ég fjallaði aðeins um drögin þegar þau voru kynnt, en þau þóttu mér alveg einstaklega galin í veigamiklum atriðum, vanhugsuð og hættuleg.

Hinn ágæti 7. þingmaður Suður-Reykjavíkur minnti mig hins vegar á að þar var að finna miklu meiri dellu, en ég komst yfir að gagnrýna á sínum tíma. Eins og að öllum vinnustöðum með fleiri en 25 starfsmenn beri að gera reglulegar jafnréttisáætlanir. Líkt og sjá má á myndinni að ofan er starfsmaður Gúmmívinnustofunnar í Skipholti næsta ráðvilltur svona gersamlega jafnréttisáætlunarlaus. En úr því vill Mörður bæta með reglulegum hætti. Það kallar væntanlega á nýja og ferska eftirlitsskrifstofu hins opinbera til þess að ganga úr skugga um að hin 807 fyrirtæki landsins, sem hafa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði, skili inn reglulegum jafnréttisáætlunum, að eitthvað sé í þær varið, að þær séu í samræmi við anda og orð laganna, að starfsmönnum séu kynntar þær með viðunandi hætti og fyrirtækin uppfylli önnur þar að lútandi ákvæði þessara íþyngjandi laga.

En ég hnaut um annað í grein Marðar, sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Sumsé ákvæði frumvarpsdraganna um að með sérhverju „stjórnarfrumvarpi sem ráðherra leggur fram á Alþingi skal fylgja umsögn þar sem efni frumvarpsins er metið með tilliti til jafnréttissjónarmiða.“ Með öðrum orðum er lagt til að ekkert stjórnarfrumvarp sé tækt til meðferðar á Alþingi án þess að það hafi fyrst fengið jafnréttisvottun.

Lötum þingmönnum finnst kannski gott að hafa slíkar vottanir við höndina og hundinginn ég efast ekki um að innan ekki of margra ára verði ótal vottorð önnur áskilin með frumvörpum: umsögn út frá mögulegum umhverfisáhrifum, lýðheilsusjónarmiðum, menningaráhrifum og alls kyns öðrum mögulegum og ómögulegum áhyggjustöðlum dagsins. Nú eru fæst lög samin á löggjafarþinginu en draumurinn felst sjálfsagt í því að þingheimur þurfi ekki að taka afstöðu til neins nema vottorða skriffinnanna. Hinna sömu og skrifuðu þau.

Það er hins vegar svo merkilegt, að það er sjaldnast kynnt í umræðu um frumvörp hvað þau kunni að kosta. Væri ekki nær að kveða á um það að ekkert frumvarp megi leggja fram án þess að reiknaður hafi verið út kostnaðurinn sem af því hlýst; bæði fyrir ríkissjóð og einstaka skattborgara, en ekki síður þá sem bera þurfa kostnað er hlýst af ákvæðum laganna? Ætli þingmenn myndu ekki hugsa sig betur um og vér kjósendur gefa þeim betur auga?

Mér dettur líka í hug, að nýafstaðnar kosningar í Hafnarfirði hefðu farið á annan veg ef kjósendum hefði verið gerð grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum þeirra kosta, sem í boði voru.

Eins og ég hef oft minnt á hér sem annars staðar eru markmið — göfug sem jarðbundin — ekki gild röksemd fyrir lagasetningu eða stjórnarstefnu ein og sér. Það eru afleiðingarnar, sem máli skipta. Að því mætti oftar gæta við löggjöfina. Rétt eins og frumvarpsdrögin að jafnréttislögum verða ekki frábær fyrir það eitt að vera kennd við jafnrétti.


Glóir gull í Glitni

Talsverð spenna er í fjármálaheiminum vegna yfirvofandi eigendabreytinga í Glitni. Raunar hafa furðumiklar fréttir lekið út vegna þeirra þreifinga, sem eðli máls samkvæmt mega ekki fara hátt. Morgunblaðið hefur greint frá þessum málum öðru hverju og Ríkisútvarpið keyrði duglega á málið í dag. Ég hafði pata af því um kvöldmatarleytið í gær að búið væri að handsala samninginn í grundvallaratriðum og átti því eins von á að Moggi myndi klára málið í morgun, en það gerðist nú ekki. Og fréttir RÚV voru frekar ómarkvissar þó þær endurspegluðu ágætlega hviksögur og vangaveltur þær, sem gegu manna á milli í dag. Þannig bjuggust menn allt eins við því að tilkynning yrði gefin út í Kauphöllinni — fyrirgefið, Nordic Exchange Iceland heitir það víst nú orðið — viðskipti stöðvuð og allt það. Í stað þess hafa menn ákveðið að geyma sér það og nota páskahelgina til þess að klára „dílinn“. Gleðilega páska! 

Mínar heimildir — svo ég noti orðfæri Agnesar — herma að rætt sé um að Wernersbörn og Engeyingar selji 18% þegar í stað, en haldi 8% eftir í ár. Jafnframt að meiri beinharðir peningar séu í spilunum en jafnan hefur tíðkast í hrossakaupum af þessu tagi undanfarin ár, en eins og kunnugt er hafa menn oftast notað tækifæri til þess að skiptast á hlutabréfum við svona tækifæri og heppilega hækkað matið á þeim í leiðinni.

Stóri vandinn er sá, að yfirtökuskylda myndast í bankanum um leið og þriðjungur hluta hans er kominn á eina hendi. Þeir félagar Hannes Smárason og Jón Ásgeir Jóhannesson teljast skyldir aðilar í þessu samhengi, enda margvísleg eignavensl þar á millum. Ég er ekki trúaður á að þeir hafi áhuga á að eignast allan bankann. Eða að þeir eigi fyrir því. Því má heita ljóst að þeir þurfa að fá einhvern með sér til þess að klára málið. Það verður athyglisvert að fylgjast með þvi hver það verður, sem telst nægjanlega tryggur en um leið nægjanlega óskyldur þeim félögum til þess að mega vera memm.

Svo verður framhaldið ekki síður fróðlegt. Vitað er að Jón Ásgeir hefur lengi dreymt um að eiga banka, en það er ekki víst að Hannes sé jafnáfjáður um það. Hvernig sem því er farið eru ótal kenningar á lofti, en flestar gera þær ráð fyrir að bankinn breytist verulega eða renni jafnvel í heilu lagi í annan. Í því samhengi er oftast rætt um Kaupþing og víst er um það að þar á bænum mega menn vel við því að bæta innlánahlutann. Rætt hefur verið um að selja mætti viðskiptabankahluta Glitnis hæstbjóðanda og halda eftir fjárfestingabankahlutanum. Sjáum til.  Og sjáum líka til hvar Wernersbörn og Engeyingar setja fé sitt á beit. Athyglisverðir tímar.


Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband