Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Mannkynssagan í Silfrinu

Þegar nýi meirihlutinn var myndaður á dögunum náðu Samfylkingarmenn varla upp í nefið á sér af bræði og hneykslan yfir því hvernig meirihlutinn var myndaður. Það hefði nú verið eitthvað annað en þegar REI-listinn var myndaður. Hann hefði verið myndaður þegar Björn Ingi Hrafnsson hrökklaðist úr meirihlutasamstarfinu og Samfylkingin og hinir hefðu komið til bjargar, gert skyldu sína til þess að mynda meirihluta í borgarstjórn og blablabla. Sjálfstæðismenn hefðu á hinn bóginn farið með slægð og pukri á fund Ólafs F. Magnússonar með yirboð til þess eins að splundra meirihlutanum. Og blablabla.

Þá var eins og allir hefðu gleymt því hvernig Dagur B. Eggertsson og Björn Ingi lýstu myndun meirihlutans á Tjarnarbakkanum forðum daga. Þá kom skýrt fram að Björn Ingi hefði verið öldungis heill og heiðarlegur í samstarfinu og raunar á leið til fundar við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson vin sinn, þegar það barst símtal. Og frá hverjum? Jú, margnefndum Degi B. Eggertssyni! Hann hefði viljað ræða meirihlutasamstarf og úr því varð meðan Villi beið og beið. Ég minni bara á Ununarlagið vinsæla, sem finna má í spilaranum hér til hægri: Ljúgð’að mér.

En nú virðist Dagur aftur hafa skipt um skoðun sína á mannkynssögunni, því í Silfri Egils núna áðan talaði hann um frumkvæði sitt við myndun REI-listans. Hér er verðugt rannsóknarefni fyrr áhugamenn um samtímasögu. 


Silfrað um auðlindir og einokun

Það er merkilegt að hlusta á Dag B. Eggertsson ræða um skýrslu stýrihópsins í Silfri Egils, sem honum þykir afar merkileg heyrist manni. Ekki síst finnst honum sem það álit stýrihópsins að Orkuveitan eigi að vera í almenningseigu meitli í stein að allar auðlindir landsins eigi að vera þjóðnýttar. En þar ræðir um tvennt gerólíkt. Annars vegar er Orkuveitan, sem er einokunarfyrirtæki í eigu borgarbúa með skýr markmið um að hún skuli þjóna þeim. Það má því ekki nota einokunartekjur hennar í hvað sem er og miðað við reynsluna þykir ljóslega varhugavert að vera í samkrulli með einkafyrirtækjum í áhættusömum verkefnum.

Hitt atriðið verður væntanlega tekið til kostanna á Alþingi innan skamms og lýtur að eðli eignarréttarins, þeirrar heimspekilegu spurningar hvort auðlindir eigi að lúta sérstökum lögmálum í þeim efnum og hvort þjóðnýting sé endilega heppilegasta, réttlátasta eða skilvirkasta leiðin til ábyrgrar nýtingar þeirra. 

— — —

Nú nokkrum mínútum síðar ber hann sér svo á brjóst og segir að hann og Samfylkingin hafi verið á móti því að afhenda einkaaðilum fjármuni og á móti sameiningu REI og Geysi Green Energy! Hvað varð um allar yfirlýsingar hans um hvernig hann og Samfylkingin vildu græða milljarða, nei tugmilljarða króna í slíkum bissnessævintýrum? 


Silfurslegin umræða um borgina

Silfur Egils er í loftinu og málefni borgarstjórnar vitaskuld í brennidepli.Þar er margt mælt af mismiklu viti. Þannig heyri ég menn efast um að meirihlutinn standist ef Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson segir af sér. Af hverju ætti það að vera? Hafa enn eitthvað sérstakt fyrir sér að Sif Sigfúsdóttir muni ekki styðja meirihlutann? Nei, auðvitað er það ekki svo. Það er rétt að minna á að í samkomulagi meirihlutans kom ekkert fram um að hann tengdist persónu Vilhjálms sérstaklega og raunar athyglisvert að ákvæðið um borgarstjóraskiptin var fremur loðið, þannig að við því má augljóslega ýmsu hrófla.

Ég held einnig að það sé beinlínis rangt að sexmenningarnir geti ekki komið sér saman um oddvita ef Villi fer. Ætli vandinn sé ekki fremur sá að í þeirra hópi vill enginn ræða slíkt af fyrra bragði af ótta við að vera brigslað um hnífslag í bak Villa. Við munum umræðuna frá síðasta hausti. Þá ættu menn ekki að gleyma því heldur, að þrátt fyrir allt sem á undan er gengið er sexmenningunum hlýtt til Villa og vilja ekki gera honum dagana þungbærari en orðið er. Ég er efins um að honum sé nokkur greiði gerður með því að bíða og bíða eftir að hann taki af skarið, en það er annað mál.

Ég heyri það út um allan bæ meðal sjálfstæðismanna, að Hanna Birna Kristjánsdóttir sé augljós arftaki Villa og engin hreyfing um annað. Umræðan um Guðfinnu S. Bjarnadóttur sem utanaðkomandi borgarstjóra er svo gersamlega úr lausu lofti gripin, en kann að helgast af því að sögusagnir hafa verið uppi um að henni líki ekki stjórnmálin jafnvel og hún hafi vonast til og að hún hafi látið spyrjast út að hún væri ekki afhuga góðum atvinnutilboðum. Ég veit ekki hvað er hæft í þeim, en ætli hún hafi sérstakan áhuga á því að fara yfir í Ráðhúsið þar sem fyrirsjáanlegt er að hríðin verði öllu harðari.

En síðan kann fleira að spila inn í. Einhverjir kunna að vera því mótfallnir að einhver úr borgarstjórnarflokknum verði leiddur í borgarstjórastól, þeir hinir sömu hafa sjálfsagt hugmyndir um að leiða fram nýjan forystumann í næsta prófkjöri og vilja helst veikja stöðu borgarstjórnarflokksins sem mest fyrir það.


Aumkunarvert Alþingi

Drepið í hinum nýja öskubakka Alþingis.

Undanfarin ár hefur nokkuð verið rætt um að skilin milli hinna þriggja greina ríkisvaldsins séu orðin óljós. Sérstaklega þykir mönnum halla á Alþingi í því samhengi, það sé orðið lítið annað en afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins, sem sendi því frumvörp og fyrirmæli eftir þörfum.

Þetta sást glögglega nú í vikunni. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, þurfti ekki annað en að byrsta sig í pontunni um að ófært væri að leyfa reykingar í þar til gerði reykkompu í kjallara þinghússins og þá hleypur forsætisnefnd til eins og rakkar — kjölturakkar nánar til tekið — og flýtir sér að samþykkja allsherjar reykbann í þinginu.

Nú geta menn haft skoðanir á því hversu vel fari á því að Alþingi hafi slíkt reykafdrep á meðan það setur öðrum harða löggjöf um að þeim sé það bannað. Um það hefur hins vegar verið rætt síðan Helgi Seljan upplýsti um reykkompuna í Kastljósi RÚV fyrir allnokkrum mánuðum. Kráareigendur bentu síðan á þetta misræmi þegar þeim var nóg boðið og almenningur hefur látið í sér heyra um málið í auknum mæli. Ekkert af þessu hafði hins vegar minnstu áhrif á þingheim, í mesta lagi tautað um að einhvers staðar yrðu vondir að vera (sem Alþingi er vitaskuld glæsilegt dæmi um). En það þurfti ekki nema eina ræskingu úr ráðuneyti til þess að forsætisnefnd Alþingis hlypi til, móð og másandi, og færi að óskum yfirvaldsins.

Svo undrast stjórnmálamenn að virðing Alþingis fari þverrandi. Ætli það standi ekki í einhverju samhengi við sjálfsvirðinguna? 


mbl.is Bannað að reykja í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andleg eyðimerkurganga stjórnmálaflokka

Nýir tímar? Á traustum grunni?

Í forystugrein Morgunblaðsins í dag er fjallað talsvert um erindi íslenskra stjórnmálaflokka og hugmyndagerjun innan þeirra. Það er raunar gert í lengra máli en tilefni má teljast til, en af því að Styrmir hefur trassað það um helgina að setja ritstjórnarefnið inn á morgunbladid.blog.is leyfi ég mér að setja snilldina inn hér:

Hvar eru hugmyndirnar?
Pólitík byggist á hugmyndum. Ef hugmyndagrunnur stjórnmálaflokkanna er ekki í stöðugri endurnýjun kemur fljótt í ljós, að þeir hafa ekkert nýtt fram að færa. Þetta á við um alla íslenzku stjórnmálaflokkana eins og nú standa sakir.

Það kom mjög fljótt í ljós í sumar, að Samfylkingin kom ekki með neinar nýjar hugmyndir inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Núverandi ríkisstjórn fylgir í öllum meginatriðum sömu stefnu og fyrri ríkisstjórn. Það hafa engar nýjar hugmyndir komið fram í utanríkismálum, í umhverfismálum, í samgöngumálum, í iðnaðarmálum eða í viðskiptamálum eftir að Samfylkingin gerðist aðili að ríkisstjórn.

Það stendur engin hugmyndaleg endurnýjun yfir í Sjálfstæðisflokknum. Sú endurnýjun að þessu leyti, sem fram fór í Sjálfstæðisflokknum fyrir tveimur áratugum eða svo og mótaði stefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins á síðasta áratug síðustu aldar og fram á þessa öld, hefur runnið sitt skeið á enda. Það hefur ekkert nýtt komið í staðinn. Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn?

Framsóknarflokkurinn er í öngstræti og er ekki búinn að gera upp við sig hvers konar flokkur hann ætlar að verða. En það er að vísu orðið ljóst hvað Framsóknarflokkur Guðna Ágústssonar ætlar ekki að verða. Hann ætlar ekki að verða flokkur sem berst fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Vinstri grænir eru heldur ekki uppfullir af nýjum hugmyndum. Þeir eru ekki búnir að gera upp við sig hvort þeir ætla að vera vinstri eða grænir. Þessi togstreita er sennilega djúpstæðari innan flokksins en margir gera sér grein fyrir.

Frjálslyndir hafa frá upphafi byggt á ákveðinni pólitík í sjávarútvegsmálum og á því hefur engin breyting orðið. Þess vegna þurfa þeir ekki á hugmyndalegri endurnýjun að halda.

Þessi skortur á nýjum hugmyndum stendur öllum íslenzku stjórnmálaflokkunum fyrir þrifum. Þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og þess vegna er ekkert merkilegt að gerast á vettvangi stjórnmálanna.

Jafnvel þegar Sjálfstæðisflokkurinn fær loksins yfirráð yfir heilbrigðisráðuneytinu stendur á því að flokkurinn leggi fram nýjar hugmyndir í heilbrigðismálum. Það er vissulega eðlilegt að nýr flokkur, nýr ráðherra og nýir ráðgjafar fái tíma til að móta og leggja fram nýjar hugmyndir en tíminn er að renna út. Kom Sjálfstæðisflokkurinn ekki með neitt veganesti inn í heilbrigðisráðuneytið?

Flokkarnir þurfa allir að taka sig taki og hrista upp í hugmyndabönkum sínum. Annars verður stöðnun í þróun og uppbyggingu samfélags okkar.

Þetta er ekki slæm greining. Ég held að vísu að það sé ekki hægt að halda því fram um flokka í heild sinni, að þar megi engar ferskar hugmyndir finna. Vandinn er fremur sá að þeir hugmyndaríkustu eru ekki í forystu flokka sinna. Ennþá.

Sumir kunna að setja þessa gagnrýni Mogga á Sjálfstæðisflokkinn í samhengi við nótur, sem hann hefur verið að senda hinum og þessum í forystu flokksins og hefði einhverntíman þótt ganga heimsslitum næst að lesa á síðum Morgunblaðsins. Það má vera að því sé þannig farið, en ég held ekki. Eru þetta ekki alveg réttmætar áhyggjur, sem verið er að lýsa? Þegar ég gramsa í eigin skrifum undanfarin ár greini ég vel svipaðan þráð, að forysta flokksins virðist ekki hafa erindi hans á hreinu, umfram það að sjálfsagt fari best á því að hann sé við völd og almennar hugmyndir um að frelsið sé betra en nauðung.

Þetta verður fleirum yrkisefni og ég má til með að benda á færslu Dharma um þetta. Efni henni leynir sér ekki, því fyrirsögnin er Hugmyndafræðileg auðn Sjálfstæðisflokksins. Ég er að vísu ekki alveg sammála því að Sjálfstæðisflokkinn skorti hugmyndafræði. Umfram sjálfstæðisstefnuna skortir hann enga hugmyndafræði, enda eru slík kenningakerfi ávallt stórvarasöm. Hægriflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem frjálshyggjumenn og íhaldsmenn geta setið saman, byggist á lífsviðhorfi en ekki kenningakerfi. Það er hinu megin í hinu pólitíska litrófi sem menn byggja á kreddunni. Með ömurlegum afleiðingum eins og saga síðustu aldar var glöggt dæmi um.

Hitt held ég að sé rétt athugað hjá Dharma, að Sjálfstæðisflokkinn virðist skorta hugmyndir og það má vafalaust að miklu leyti rekja til þess að forysta hans hefur misst sjónar á þeim grunngildum, sem gerðu hann að því afli, sem hann hefur lengst af verið. Slík feilspor geta leitt menn í megnar og langvarandi ógöngur. Slíkar eyðimerkurgöngur geta tekið áratugi áður en menn rata til fyrirheitna landsins.

Án þess að ég skrifi undir allt, sem Dharma hefur fram að færa í þessu skrifi sínu, held ég að það sé skyldulesning allra borgaralega þenkjandi manna.


« Fyrri síða

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband