Leita í fréttum mbl.is

Strákar á móti stelpum?

Ég sé mér til ánægju að Kristján Jónsson, kollega minn og fyrrum samstarfsmaður á Mogga, er farinn að blogga. Það veit á gott, enda er hann einn ágætasti pistlahöfundur Morgunblaðsins.

En svo sé ég að hann ver í allnokkrum línum að styðja framboð Höllu Gunnarsdóttur til formanns Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Halla hefur unnið með Kristjáni á Mogganum og raunar skrifað pistla á sama stað og Kristján, þannig að hann þekkir hana og ekki undarlegt að hann snúist á sveif með henni. Hitt finnst mér þó einkennilegra, að ástæðan, sem hann nefnir fyrir stuðningnum er að með kjöri hennar yrði hrist „upp í viðteknum hugmyndum og kreddum um aldur og kynferði“ og eitthvað ámóta snakk um að þannig myndu „strákar með karlrembutilburði […] stöðugt verða minntir á að í fótbolta notar maður ekki tippið til að skora“. Já, var það? En hvaða líkamshluta er hann þá að gefa í skyn að Halla myndi nota til þess að stýra KSÍ af myndugleik?

Málið er auðvitað það að kynferði frambjóðendanna á ekki að skipta neinu máli í kjörinu, heldur hvað þeir hafa til málanna að leggja. Það sjónarmið hefur enda komið skýrt fram í málflutningi Höllu sjálfrar:

Örfáar neikvæðar raddir hafa heyrst og gagnrýnin er þá aðallega að ég sé ekki innmúruð í KSÍ eða að ég sé kona, og að konur eigi ekkert upp á dekk. Sumir virðast líka halda að ég sé að grínast og ég velti fyrir mér hvort aðrir frambjóðendur hafi verið spurðir hvort þeir séu að grínast. Mér finnst þessi málflutningur heldur ómerkilegur og vona að þessi kosningabaráttan muni snúast um málefni en ekki um kyn frambjóðanda. Með öðrum orðum er ég að bjóða mig fram þótt ég sé kona.

Halla hefur enda lagt fram skýra stefnu um áherslur sínar nái hún kjöri, sem í stuttu mál snýst um að fóstra barna- og unglingastarfið betur og að ljóst sé að formaður KSÍ er þjónn aðildarfélaganna en ekki yfirboðari. Á hinn bóginn vill hún draga úr þeirri áherslu, sem verið hefur á afreksfótboltamenn. Með öðrum orðum hefur hún efasemdir um að landsliðið eigi að vera alfa og ómega KSÍ.

Kannski einhver greini kynbundinn áherslumun frambjóðendanna, þar sem Halla er í hlutverki hinnar nærandi jarðmóður, sem ber ungviðið sér fyrir brjósti, en mótframbjóðendur hennar, þeir Geir Þorsteinsson og Jafet Ólafsson, þá væntanlega einhverjir testosteróngraddar, sem aðeins fýsir í sigra, blóð, svita og tár á vígvellinum fótboltavellinum. En ég er ekki í þeirra hópi, sem þannig líta á. Mér finnast frambjóðendurnir allir hafa sett fram fullgild sjónarmið, sem vert er að gaumgæfa og taka afstöðu til, öldungis óháð kynferði þeirra.

Sjálfur styð ég Geir Þorsteinsson, enda hefur hann yfirburðareynslu og þekkingu á þessum vettvangi. Hann er gamall bekkjarbróðir minn úr Hagaskóla og ég get borið um það að hann er mesti sómadrengur.

---------- 

Svo eru fleiri fletir á þessum framboðsmálum Höllu. Hún hefur til þessa bloggað með kommunum á Kaninku, en eins og hinn fjölfróði Stefán Pálsson rekur í bloggfærslu stendur Kaninku-klanið saman og heitir henni stuðningi sínum. Og bætir svo við enn einni bölbæninni um að Moggabloggið skuli farast. En það skrýtna er að Halla hefur tekið sér frí á Kaninku meðan á framboði hennar stendur og hefur opnað sérstakan framboðsvef. Hvar skyldi hann vera að finna? Jú, nema á Moggabloggnum, sem Stebbi hefur svo einstakan ímugust á!

Annað til: Halla er úr Aftureldingu. Ungmennafélagið í Mosfellssveit er ekki beinlínis í hópi stóru fótboltaklúbbanna, en er aldeilis að leggja þjóðinni til leiðtogaefnin þessa dagana. Fyrst Valdimar Leó Friðriksson og nú Höllu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Við skulum ekki gera lítið úr Aftureldingu andræés Sjálfur bý ég í MOsfellsbæ og með 3 börn í íþróttastarfi Aftureldingar og þar er fullt af fólki fyrir utan Valdimar, sem er reyndar gamall félagiúr stjórnmálafræðinni í Hí, og Höllu sem er löngu búin að yfirgefa Aftureldingu  Þó að grín hafi verið gert afMosfellsbæ í Áramótaskaupinu þá býr mikill kraftur í bænum og ekki síst í Ungmennafélaginu og þar er pólitíkin ekki aðalatriðið. Vil líka koma því að að yngri sonur minn varð t.d. KSÍ meistari í 6 flokki B liða siðatliðið sumar Áfram Afturelding!!

Guðmundur H. Bragason, 27.1.2007 kl. 02:55

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Ég vil alls ekki gera lítið úr starfi Aftureldingar, þekki það vel að þar er kraftmikið starf og áherslur Höllu ríma einkar vel við það.

Andrés Magnússon, 27.1.2007 kl. 03:03

3 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Þakka góð orð í garð Aftureldingar Andrés

Guðmundur H. Bragason, 27.1.2007 kl. 03:07

4 identicon

Mjög góð grein Andrés. Ég vissi ekki betur en að það væri skýrt í lögum og samþykktum íþrótahreyfingarinnar að íþróttir og pólítík ættu ekki samleið. Ég einnig tekið eftir því að Halla sagði alltaf í viðtölum kaffihúsahópurinn hennar hefði skorað á hana að fara fram sem segir allt. Framboðið er borið fram af öðrum en ekki af eigin sannfæringu. Því miður verður svo að segjast að Halla hefur ekkert starfað í neinni stjórn knattspyrnufélags og hefur einungis spilað takmarkað. Það er lágmarkskrafa að menn og konur hafi starfað í gegnum eðlilegan feril,þ.e.fyrst í stjórn félags og síðan í stjórn sambands o.s.frv.  Ég er þér innilega sammála með þessi komment um VLF sem hefur náð að starfa innan íþróttahreyfingarinnar á meðan hann hefur gengt pólitískum forystustörfum nokkuð sem á ekki að sjást. Ég er þér líka sammála um það að Geir er sómadrengur og hann hefur starfað og byggt upp KSÍ jafnt og þétt. Verkin tala. Það væri nær að þetta vinstralið hætti að míga upp í vindinn og fara með staðlausa stafi.

SPAKUR (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 12:29

5 Smámynd: Halla Gunnarsdóttir

Skemmtilegt að segja frá því að Valdimar var einmitt framkvæmdastjóri Aftureldingar þegar við í 3. fl. urðum Pæjumótsmeistarar. Og hann var enn framkvæmdastjóri þegar ég fór að þjálfa fyrir Aftureldingu. 

En gætti nokkuð kaldhæðni í orðum þínum um að Afturelding sé að leggja þjóðinni til leiðtogaefni?

Bestu kveðjur,

Halla 

Halla Gunnarsdóttir, 28.1.2007 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband