Leita í fréttum mbl.is

Út úr hól, stend ég og kanna

Ég hef haft eina af þessum óvísindalegu „könnunum“ uppi á síðunni í talsverðan tíma, en þar er spurt hvaða stjórnarmynstur menn telji líklegast að verði ofan á að afloknum þingkosningum hinn 12. maí. Þegar 318 hafa svarað (slagar það ekki hátt í svörunina hjá Fréttablaðinu?) eru aðeins 7,2% trúuð á vinstristjórn, furðumargir (24,2%) eru trúaðir á að núverandi ríkisstjórn lifi kosningarnar af, en flestir (44%) telja Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkingu eiga samleið. Nú vantaði auðvitað inn í könnunina fleiri kosti á borð við vinstristjórn Samfylkingar og vinstrigrænna, sem sumir segja að geti verið í kortunum.

Ég verð hins vegar að játa, að ég er afar vantrúaður á að vinstriflokkarnir uppskeri nóg til þess að slíkt stjórnarsamstarf verði mögulegt. Og sannast sagna er ég einnig vantrúaður á áreiðanleika þessarar síðustu könnunar Fréttablaðsins. Aðallega vegna þess að samkvæmt henni var einhver veruleg sveifla í gangi meðal þjóðarinnar, sem allar aðrar kannanir misstu af, og engir þeir viðburðir í stjórnmálalífinu, sem skýrt gætu slíka sveiflu eða hughvörf. En hver veit, annað eins hefur gerst þó það sé afar fátítt. Það er því vissara að sjá 1-2 kannanir enn, áður en maður bollaleggur of mikið um það allt. En ég ætla að setja inn nýja „könnun“ hér til hliðar.

Annars eru pólitískar skoðanakannanir frekar ónákvæm vísindi hér á landi, úrtakið er ofast í minnsta lagi og svörun hefur dregist saman jafnt og þétt hin síðari ár. Við bætist að enginn skoðanakönnuður hér virðist ráða við það að búa til almennilegt úrtak. Það er nefnilega algengur misskilningur, að tilviljanakennt úrtak úr þjóðskrá endurspegli kjósendur með fullnægjandi hætti. Kosningaþátttaka hér á landi hefur að vísu verið í hærra lagi miðað við það, sem gengur og gerist í öðrum vestrænum lýðræðisríkjum, en samt engan veginn þannig að hefðbundin slembiúrtök virki. Það þarf einmitt að velja úrtakið, þannig að tilviljunin sé ekki að flækjast fyrir mönnum. Það þarf að endurspegla kynjahlutfall, tekjur, menntun, búsetu og jafnvel neysluvenjur og einnig kosningahegðun ef það á að geta sagt almennilega fyrir um niðurstöður kosninga. Lítið slembiúrtak hjá lítilli þjóð þar sem um 10-15% borgaranna neyta ekki kosningaréttar að staðaldri getur aldrei gefið annað en almennar og ónákvæmar vísbendingar.

Svo eru auðvitað ýmsar íslenskar sérviskur í kringum kannanirnar hérna. Við sjálfstæðismenn fáum einatt meira út þeim en raunin er í kosningum. Rétt eins og framsóknarmennirnir virðast alltaf getað sært upp mun meira fylgi en kannanirnar gefa til kynna. Frjálslyndir hafa líka verið lagnir við að draga kanínur úr höttum sínum á kosninganótt. Þess vegna spurði ég í þessari „könnun“ hvað menn teldu líklegt, fremur en hvað þeir vildu. Ég skrifaði aðeins um þetta á fyrri blogg fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum fyrir rúmum tveimur árum vegna þess að mér fannst umfjöllun um kannanir í fjölmiðlum vera harla grunnhyggnisleg:

  • Þegar tveir keppa að sama embætti og annar gegnir því fyrir er fráleitt að gera ráð fyrir að óákveðnir skiptist líkt og gerist meðal hinna, sem hafa tekið afstöðu. Ef mönnum hefur ekki dugað fjögurra ára forsetatíð til þess að gera upp hug sinn til George W. Bush er næsta víst að atkvæði þeirra falli öðrum í skaut... ef þeir á annað borð kjósa. Að því leyti er stuðningur við Kerry örugglega vanætlaður.
  • Kannanirnar byggjast flestar á úrtaki „líklegra kjósenda“. Samsetning slíkra úrtaka er á hinn bóginn afar erfið og sjálfsagt aldrei erfiðari en nú þegar nýskráning kjósenda er sú langmesta í sögunni. Mismunandi aðferðir við úrtaksgerðina skýra að miklu leyti verulegan mun á einstökum könnunum, sem gerðar eru samtímis á sömu svæðum.
  • Fólk segir ekki alltaf satt eða allt af létta í könnunum. Þetta sjá menn t.d. reglulega þegar fólk er spurt hvað það hafi kosið í síðustu kosningum og niðurstöðurnar benda ávallt og undantekningarlaust til þess að sigurvegarar kosninganna hafi sigrað með miklu meiri mun en raunin var. Á sama hátt hneigist margt fólk til þess að svara ekki eða segjast vera óákveðið ef það telur sig vera í minnihluta eða eiga undir högg að sækja á einhvern hátt. Þýski stjórnmálafræðingurinn dr. Elisabeth Noelle-Neumann reifaði þessa kenningu sína í bókinni Spiral of Silence. Til þess að sneiða hjá þessari hneigð mætti t.d. spyrja fólk um það hvor frambjóðandinn muni hafa sigur, burtséð frá eigin skoðunum, en rannsóknir dr. Noelle-Neumann benda til mikillar fylgni milli slíkra „spádóma“ og endanlegrar niðurstöðu.

Það er svo rétt að hafa í huga að þessar athugasemdir má vel heimfæra á íslenskar aðstæður. Í sömu röð:

  • Skoðanakannanir á landsvísu hafa takmarkað spágildi eftir því sem kjördæmakerfið er flóknara, ekki síst þegar mikill munur er á vægi atkvæða. Þetta sáu menn vel í þarsíðustu þingkosningum þegar frjálslyndir komust varla á blað í landskönnunum en afstaða Vestfirðinga var á allt annan veg en landsmanna í heild.
  • Þó að hér sé ekki tveggja flokka kerfi má alveg beita sömu reglu á ríkisstjórnir þegar kemur að óákveðnum. Þeir sem segjast óákveðnir í afstöðu sinni til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftir allan þennan tíma eru sjálfsagt aðeins óákveðnir í því hvern stjórnarandstöðuflokkinn þeir hyggist kjósa. Þessara áhrifa gætir sjálfsagt meira gagnvart forystuflokki ríkisstjórnar en öðrum.
  • Hér á landi tíðkast nær einvörðungu að nota slembiúrtak, sem oftast gefur nokkuð góða mynd af afstöðu til stjórnmálaflokka, m.a. vegna mikillar kosningaþátttöku. Hið sama þarf hins vegar ekki að vera upp á teningnum þegar könnuð er afstaða til einstakra mála nema menn hafi fyrir því að framreikna niðurstöðurnar að teknu tilliti til kyns, búsetu, menntunar og fleira. Þetta hefur verið gert í einhverjum mæli af stjórnmálaflokkunum, en mér vitanlega hafa skoðanakannanafyrirtækin alveg látið það eiga sig.
  • Kenning dr. Noelle-Neumann birtist sjálfsagt skýrast hér á landi þegar litið er á frammistöðu Framsóknarflokks í kosningum, sem jafnan er langt umfram það sem ætla mátti af skoðanakönnunum.

Ég held að flest af þessu eigi enn fyllilega við. En það er orðið afar brýnt að félags- og lýðfræðispekingar vorir leggist yfir vandann og reyni að finna betri leiðir til þess að mæla afstöðu almennings. Svörunin er að verða ömurleg (hugsanlega hefur verulegur vöxtur í gerð skoðanakannana grafið undan þeim, fólk nennir ekki að svara), og fjöldi óákveðinna hefur aldrei verið meiri. 

............................

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að með fyrirsögninni er ég ekki að taka undir þann ömurlega leirburð, sem illa upplýstir uppalendur hafa verið að halda að saklausum börnum og ímynda sér að þeir séu að „leiðrétta“ hið forna stef Jólasveinar ganga um gólf. En það eru jólasveinar víðar en í helli Grýlu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband