Leita í fréttum mbl.is

Morgunblaðið í heljargreipum

Þeir, sem efast um gildi samkeppninnar, þurfa ekki annað en að líta á Morgunblaðið  og sjá hina umfangsmiklu endurnýjun, sem blaðið hefur gengið í gegnum eftir að eigendurnir áttuðu sig loksins á því að Fréttablaðið veitti Mogga ekki aðeins samkeppni, heldur var á góðri leið með að ganga af blaðinu dauðu. Mönnum líst misvel á breytingarnar eins og gengur, en þó mörgum þyki Morgunblaðið íhaldssamt hygg ég að lesendurnir séu jafnvel enn íhaldssamari. Á blaðið að minnsta kosti.

Ég er almennt á því að vel hafi tekist til með þessar breytingar, sem enn sér ekki fyrir endann á. Dagblöð eiga enda að vera eins og seigfljótandi massi, sem tekur sífelldum breytingum, en þó þannig að lesendurnir þekki það og skilji. Blaðið er á margan hátt fersklegra og snarplegra en áður og mér finnast Moggamenn vera að nálgast nokkuð gott jafnvægi í blaðinu, þar sem á vegast harðar fréttir og dægurmál, skoðanir og dægradvöl.

Þetta hefur tekist án þess að lesandanum finnist gamli, góði Mogginn hafa horfið úr lífi sínu, en þó merkja allir hvílík umbylting hefur orðið á blaðinu. Ég skal þó játa að mér finnst hin nýja baksíða ekki alveg vera að gera sig, það mátti alveg breyta henni, en það er eins og vinir mínir á Morgunblaðinu hafi ekki lagt í að stíga skrefið til fulls, þannig að hún er hvorki fugl né fiskur. Það verður áreiðanlega lagað. Mér finnst blaðið sneisafullt af efni, þó auðvitað sé það misáhugavert, en mér sýnist að auglýsingahlutfallið sé að jafnaði um 40%. Áskrifendur fá því alveg peninganna virði.

Það er samt eitthvað að uppbyggingu blaðsins ennþá. Það er hinn lifandi dauði miðhluti blaðsins: ásinn, sem allt annað virðist verða að snúast um. Nei, ég er ekki að tala um forystugreinar blaðsins og miðopnuna, heldur minningagreinarnar.

Í blaði, sem hefur þurft að draga verulega úr síðufjölda, er óskiljanlegt hvað þessi lík í lestinni (ég stóðst ekki mátið) fá mikið rými, lesendum og blaðinu sjálfu til truflunar. Það má nánast segja að minningasíðurnar haldi Morgunblaðinu í gíslingu.

Nú veit ég sem gamall Moggamaður að það er ekki hlaupið að því að breyta þessu. Minningargreinarnar eru hluti af því, sem blaðið er í hugum manna, innan blaðs sem utan. Með birtingu þeirra er verið að veita íslensku samfélagi eftirsótta þjónustu, því þó þorri lesenda blaðsins fletti sjálfsagt hratt yfir eða í gegnum minningasíðurnar, lendum við öll illu heilli í því að þurfa að leita til blaðsins vegna erinda við þær. Á Íslandi er maður eiginlega ekki dáinn fyrr en nánum hafa verið gerð skil á þeim síðum. Morgunblaðið hefur að vísu ýmsar takmarkanir á lengd greina, en á móti eru menn farnir að mæla stærð bautasteina hinna látnu í fjölda greina. Um leið og þjóðinni fjölgar eykst um leið aðsóknin í þessar síður blaðsins hægt og bítandi. Svo má ekki gleyma hinu, að Morgunblaðið hefur tekjur af þessum síðum, á þeim er nefnilega líka auglýst. Svo blaðinu er vandi á höndum.

Ég hygg að það verði að umbylta þessum síðum, helst þannig að eftir sitji ekki nema eins og ein opna helguð hinum horfnu. Dánarauglýsingarnar þurfa sitt rými áfram, en aðsendar minningargreinar verða einfaldlega að víkja af síðum blaðsins. Hins vegar gæti blaðið áfram veitt þeim viðtöku og búið um á vef sínum, þar sem unnt er að tryggja betra aðgengi allra langt fram eftir eilífð. Morgunblaðið gæti áfram birt stutt æviágrip þeirra, sem bornir eru til grafar þann daginn, og síðan gæti blaðið jafnframt — líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis — birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði. Í bresku stórblöðunum er þessi háttur hafður á og greinarnar eru jafnan svo vel skrifaðar að þær eru hið ágætasta lesefni. Sjálfur glugga ég reglulega í þær, enda fær maður þar oft nasasjón af merkisfólki, sem maður hefur oft ekki einu sinni vitað að væri til. Þar er líka kærkominn spegill af mannseðlinu, sem fjölmiðlar ná yfirleitt illa um að fjalla með öðrum hætti.

Finnist mönnum nályktin af slíkri opnu of megn mætti láta annað efni fljóta með: Árnað heilla, Afmælisbörn dagsins og dálk, sem heitið gæti Áfangar, þar sem greina mætti frá útskriftum, ráðningum og öðru slíku er varðar líshlaup manna.

Við eigum að auðsýna látnum og lífi þeirra virðingu; eftirlifendum nærgætni, huggun og hlýju; um leið og við eigum að reyna að draga lærdóma af æviskeiði þeirra, ekki aðeins hvað hina látnu varðar heldur sjálf okkur. Með breytingu, eins og rakin var að ofan, má gera það án þess að leggja fimmtung af efnissíðum blaðsins undir græna torfu.

Vilji Morgunblaðið lifa þarf það að leggja áherslu á að lofsyngja lífið fremur en liðna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hinir látnu halda lífi í Mogga.

Eins dauði annars brauð.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.3.2007 kl. 19:33

2 identicon

Þarna gerir þú reikningsmistök "æskunnar" Andrés. Margir eru áskrifendur að Mogganum einungis vegna minningargreinanna. Þessi breyting getur tæplega orðið fyrr en að 15-20 árum liðnum þ.e. þegar allir "potential" áskrifendur blaðsins eru orðnir tölvulæsir/tengdir.

Lana Kolbrún Eddudóttir (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 21:22

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

guð gefi dánum ró en hinum líkin sem lifa, sagði kerlingin.

Pétur Gunnarsson, 18.3.2007 kl. 21:56

4 identicon

Það er ekki aðeins skarpskyggni þín og greindarleg skrif um málefni líðandi stundar, heldur einnig frábær tök þín á rituðu máli sem setja þig í sérflokk meðal þeirra "bloggara" sem ég hef eyrnamerkt á heimasíðu minni og fylgist reglulega með. Ég býst við að ég mæli fyrir munn fjölmargra lesenda þinna þegar ég þakka þér hér með fyrir innlegg þitt í þjóðmálaumræðuna og hvet þig til frekari skrifa.

Óttar Felix Hauksson, Birkihlíð 12, Reykjavík.

Óttar Felix Hauksson (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 22:42

5 Smámynd: Gylfi Þór Gíslason

Ég tek undir með þér að það eru stórgóðar breytingar á Mogganum núna. En ég er ósamála þér með minningagreinarnar. Sjálfur kaupi ég Morgunblaðið og kíki ávallt á minngagreinarnar og kaupi blaðið vegna þeirra, ég veit að það eru svo um marga sem ég þekki. Ég tel að minningagreinarnar haldi að vissu leiti lífi í Morgunblaðinu.

Gylfi Þór Gíslason, 18.3.2007 kl. 23:46

6 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Minningagreinar er ekki skynsamlegt að afnema. Mætti reyna með markvissum hætti að hafa þær mun styttri. Það er þessi langloka í minningargreinum sem er mjög ólæsileg Sé ekki annað en hægt væri að setja takamörkun fyrir hvern og einn sem skrifar eins og aðrar greinar.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 19.3.2007 kl. 05:46

7 identicon

Þetta er náttúrulega grundvallarmiskilningur, eins og aðrir hafa bent á hér í athugasemdum, vegna þess að þetta er eitt af þeim fáu trompum sem Mogginn hefur. Mogginn hefur hins vegar spilað frá sér öllum sínum bestu trompum svo að það kæmi ekki á óvart ef Moggamenn myndu einnig kasta þessu af hendi. Það er greinilegt að nýjir sem gamlir Moggamenn eru illa að sér í samkeppni. Þeir ættu kannski að læra að spila kana:o)

Eitt enn. Það er sorglegt viðhorf þitt um að það ætti einungis að eyða plássi í "merkilegt fólk" en það kemur ekki á óvart þar sem þú ert kannski "nútímablaðamaður" sem hefur Spears og Hilton sem helstu áhugamál. Það væri óskandi að þú tækir aðra afstöðu, sem er: fólk er merkilegt. Það væri verðugra viðhorf fyrir svo reyndan blaðamann sem þú ert.

Eythor (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 10:28

8 identicon

"..síðan gæti blaðið jafnframt — líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis — birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði."

Fínar pælingar. En deyr svona mikið af merkilegu fólki á hverjum degi? Ég veit ekki....

Gunni Valþ (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 10:49

9 identicon

Minningargreinarnar eru vanmetin heimild. Auðvitað misgóðar, en engu að síður sterk heimild um samtíðarfólk. Ef flett er upp í Íslendingabók, þá má þar víða finna ummæli/mannlýsingar um fólk sem var uppi fyrr á öldum. Merkileg heimild, ekki aðeins um að ræða nafn.
Sama á við um minningargreinar. Þær eru í stuttu máli ævisaga einstaklinga. Sem allir eru merkilegir. Hver á sinn hátt.
Mér þætti fyrst vera orðið súrt ef birta ætti aðeins minningargreinar um það sem þú kallar merkilegt fólk. Fyrst þá væri farið að draga í dilka. 
Skil ekki hver ætti að hafa það vandasama hlutverk að ákveða hver fengi um sig skrifað..
Fjöldi minningargreina um fólk fer ekki eftir menntun eða þjóðfélagsstöðu, heldur eftir arfleifð sem fólk skilur eftir sig. Þannig geta minningargreinar orðið margar þótt um sé að ræða gamlan alþýðumann.
Minningargreinr eru ómetanleg söguheimild sem alls ekki mega missa sín. Ég er og hef alltaf verið dyggur áskrifandi Morgunblaðsins.
Ef minningargreinarnar hyrfu, þá fyrst hyrfi Mogginn....og ég sem áskrifandi.

Eyþór Eðvarðsson (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 12:04

10 Smámynd: Andrés Magnússon

Einu sinni var mér sagt frá rosknum manni, sem lét bera Morgunblaðið til sín í rúmið á morgnana. Það var ekki fyrr en hann hafði fullvissað sig um að sín væri ekki getið á þessum síðum blaðsins, sem hann nennti að fara á fætur og klæða sig.

Mér finnst auðvitað gott að vera borin æskuglöp á brýn, en varla getur Moggi beðið eftir því að gamla fólkið deyi áður en lagt er í breytingar á þessum síðum. Þær eru nauðsynlegar.

Nú vil ég ekki afleggja aðsendar minningargreinar per se, heldur finna þeim annan og eðlilegri farveg, sumsé á Netinu. Þá getur hver skrifað svo langt sem hann lystir. Séu menn almennilegir pennar á annað borð er allt í lagi þó þeir skrifi langlokur ef efni standa til. En við svo búið má ekki standa. Blaðið siglir krappan sjó þessi misserin og hefur rifað öll segl. Nema þetta eina stóra segl, sem gerir skipið valtara og þyngslalegra.

Mér finnst ekkert sorglegt við að horfast í augu við þá staðreynd að fólk er mismerkilegt og slík uppgjör eru fullkomlega við hæfi að leiðarlokum. Það er engin ástæða til þess að reyna að gera öllum mönnum sömu skil eða halda fast í þá ímyndun að þegar upp er staðið séu allir jafnir. Við fæðumst með næsta jöfn tækifæri en ævisaga hvers og eins er einmitt frásögn af því hvernig honum tókst að nýta þau. Það er afar misjafnt. Og er ástæða til þess að reyna að jafna um menn, einmitt þegar stóri jafnaðarmaðurinn, sláttumaðurinn slyngi, er einmitt nýbúinn að gera þá hnífjafna?

En fólk getur verið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Peningasöfnun liðþjálfa í Hjálpræðishernum getur þannig reynst þyngri á metunum í þessu samhengi en auðsöfnun moldríks verðbréfagosa. Eða góður barnakennari merkari en menntamálaráðherra. Jafnvel Paris Hilton (sé hún dauðleg) gæti uppskorið minningargrein, ekki endilega vegna framlags hennar til mannsandans heldur kannski fremur vegna þess sem frægð hennar segir okkur um mannseðlið.

Þetta snýst nefnilega um ritstjórn. Á minningasíðum blaðsins, sem eru um 20% efnissíðna blaðsins, er engin ritstjórn að lengdarmörkum undanskildum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef þessi háttur yrði hafður á myndi Morgunblaðið ekki leggja minni metnað í það en annað efni þess, sem lagt er í daglegan dóm lesenda.

...................... 

Áhyggjur Gunna vinar míns af því að ekki deyi nógu mikið af merkilegu fólki á Íslandi má taka undir (eitthvað er nú bogið við þessa setningu), en það veltur þá á efnistökunum, hvaða kríteríu menn nota og svo er það nú svo, þegar grannt er skoðað, að flestir hafa sér til ágætis nokkuð. Í hallæri mætti auðvitað notast við erlend mikilmenni, en ég efa að þess þyrfti.

Óttari Felix þakka ég hlý orð í minn garð og fullvissa hann um að þau eru mér hvatning á þessum vettvangi.

Andrés Magnússon, 19.3.2007 kl. 12:16

11 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst þetta góð tillaga, ég hætti að kaupa moggann að hluta til vegna allra minningargreinanna, fannst þær vera of stór hluti blaðsins og svo augl. en lítið um lesefni, þarf að fara að kíkja á þetta aftur og skoða breytingarnar og gá hvernig mér líkar þetta núna.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.3.2007 kl. 14:20

12 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Það þarf ekki að breita því sem gott er.

Hlynur Jón Michelsen, 20.3.2007 kl. 09:34

13 identicon

Svei mér þá, nú held ég við siglum sama sjóinn, Andrés. "Þetta snýst nefnilega um ritstjórn" er nákvæmlega það sem ég á við. Þú átt náttúrulega að bjóða í verkið, vegna þess að ritstjóri sem skilur að fólk er merkilegt og hvernig á að draga hið merkilega fram, sem getur réttilega verið út frá gjörólíkum sjónarhornum, getur gert merkilega hluti. Þetta hefur náttúrulega ekkert með jafnaðarmennsku að gera, svo að við afgreiðum slíkt bull og útúrsnúning. Þetta snýst um góða blaðamennsku og ritstjórn. Ég held að þú, með "fólk er merkilegt" að leiðarljósi, getir gert veikasta hlekk Moggans, að þínu mati, að þeim sterkasta. Þín bráðskemmtilega saga af kallinum í leit að eigin minningargrein í Mogganum er náttúrulega miklu skemmtilegra, ef ekki merkilegra, en vinkona þín Hilton eða langar minningargreinar um einhver 'matreidd' merkilegheit. Ég sé nú að minningargreinarnar eru vaxandi hluti Moggans, og er það vel, þegar minning verður menning.

Eythor (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 10:01

14 Smámynd: Tryggvi H.

Sérlega tímabær umræða. Áður en Morgunblaðið tekur skrefið til fulls og hættir að birta þessi ósköp af 1. persónu syrgjenda-minningum má huga að markvissari styttingu greina, eða einfaldlega sérblöðum. Sérblöðum sem mætti þá ritstýra smekklega.

Stenst ekki mátið og “paste’a” eftirfarandi “ruslpóst”:

 

"Hann giftist eftirlifandi eiginkonu sinni og átu þau tvö börn".

"Gönguferðin þeirra varð styttri en menn vonuðu. Banvænn sjúkdómur
beið hennar bak við stein og sló hana fljótt til jarðar".

"Hún hafði það sterka skapgerð að smá rigningarsuddi setti hana ekki
úr jafnvægi".

"Hann var sannur Íslendingur og dó á 17. júní".

"Þrátt fyrir góða greind gekk hún aldrei í kvenfélag".

"Það er löngu vitað mál að bestu og skemmtilegustu vinina eignast
maður í lúðrasveitum".

"Hann skrapp úr vinnunni til að fara í þrekpróf hjá Hjartavernd, en
kom þaðan liðið lík".

"Ég bið þann sem lífið gaf að hugga, styrkja og bæta aðstandendum skaðann".

"Tók hann fráfall konu sinnar mjög nærri sér vegna barnanna".

"þar voru m.a. María Rögnvaldsdóttir og Guðrún Sigurðardóttir frá
Folafæti. Enda þótt María væri þá hálfslæm í fæti lék hún við hvern
sinni fingur".

"Helga lést þennan dag kl 16. Helga hafði ætlað að eyða deginum í annað".

"Í dag kveðjum við kæran samstarfsmann og félaga. Hann tók sér tveggja
daga frí til að kveðja þennan heim".

"Og má segja að hún setti ekki svo skál af tvíbökum á borð að ekki
stafaði af því mýkt og listfengi".

"Orð þessi eru skrifuð til að bera Sveini (líkinu) kveðju og þakkir
frá tengdafólki hans og ekki síður frá tengdamóður hans þótt nú
nálgist 20.árið frá fráfalli hennar".

"Hún bjó manni sínum gott heimili og ól honum 9 hraust börn, þar af
tvö á sjómannadaginn".

"Ágústa giftist ekki og eignaðist ekki börn í venjulegum skilningi þess orðs".

"Á þessum fjölbreytta lífstíl sínum kynntist Guðjón mörgum mönnum af
ýmsum þjóðernum, þ.á.m. Indjánum og Kínverjum. Hann lærði tungumál
þeirra að minna eða meira leyti, einkum ensku og norðurlandamálin".

"Persónulega, góði vinur, þakka ég og konan mín þér fyrir innileg
samskipti á umliðnum árum. Guð varðveiti þig. Vertu sæll, ég kem
bráðum..."

"Bréf barst að heiman, það færði mér fréttina: Tóti frændi er dáinn.
Það hlýtur að hafa verið gott að vera kind í fjárhúsunum hans Tóta
frænda."

"Drottinn minn gefðu dánum ró og hinum líkin sem lifa."

"Nú á morgun, þegar Júlíus tekur tösku sína fulla af góðum fyrirbænum
og þakklæti og hefur sig til flugs af brautinni, rísum við
samstarfsmenn úr sætum og veifum til hans og þökkum
samverustundirnar."

"Þeir sem guðirnir elska deyja ungir. Þessi orð koma mér í huga þegar
ég minnist afa. Hann var 93 ára þegar hann lést."

 

 

Tryggvi H., 25.3.2007 kl. 00:39

15 identicon

nei... ekki fjarlægja minningargreinarnar... þær eru bara eitthvað svo þjóðlegar og einstakar.. jafnvel svolítið "kósí".. svona eins og gamla gufan. Þekkist varla annars staðar í heiminum... sýnir einnig hvað við erum lítil þjóð og náin.. en það mætti kannski alveg takmarka fjöldan og lengd við hvern horfin einstakling. Ég myndi einnig vilja sjá síðu með innsendum afmælisóskum og nýfæddum. Svona eins og er í blöðunum í Noregi.. VG og Dagbladet. Rosa "kósí" líka

Björg F (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 00:09

16 identicon

alls ekki fjarlæga minningargreinarnar það er akveg bannað! .... en góða helgi bloggvinur

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2007 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband