Leita í fréttum mbl.is

Glóir gull í Glitni

Talsverð spenna er í fjármálaheiminum vegna yfirvofandi eigendabreytinga í Glitni. Raunar hafa furðumiklar fréttir lekið út vegna þeirra þreifinga, sem eðli máls samkvæmt mega ekki fara hátt. Morgunblaðið hefur greint frá þessum málum öðru hverju og Ríkisútvarpið keyrði duglega á málið í dag. Ég hafði pata af því um kvöldmatarleytið í gær að búið væri að handsala samninginn í grundvallaratriðum og átti því eins von á að Moggi myndi klára málið í morgun, en það gerðist nú ekki. Og fréttir RÚV voru frekar ómarkvissar þó þær endurspegluðu ágætlega hviksögur og vangaveltur þær, sem gegu manna á milli í dag. Þannig bjuggust menn allt eins við því að tilkynning yrði gefin út í Kauphöllinni — fyrirgefið, Nordic Exchange Iceland heitir það víst nú orðið — viðskipti stöðvuð og allt það. Í stað þess hafa menn ákveðið að geyma sér það og nota páskahelgina til þess að klára „dílinn“. Gleðilega páska! 

Mínar heimildir — svo ég noti orðfæri Agnesar — herma að rætt sé um að Wernersbörn og Engeyingar selji 18% þegar í stað, en haldi 8% eftir í ár. Jafnframt að meiri beinharðir peningar séu í spilunum en jafnan hefur tíðkast í hrossakaupum af þessu tagi undanfarin ár, en eins og kunnugt er hafa menn oftast notað tækifæri til þess að skiptast á hlutabréfum við svona tækifæri og heppilega hækkað matið á þeim í leiðinni.

Stóri vandinn er sá, að yfirtökuskylda myndast í bankanum um leið og þriðjungur hluta hans er kominn á eina hendi. Þeir félagar Hannes Smárason og Jón Ásgeir Jóhannesson teljast skyldir aðilar í þessu samhengi, enda margvísleg eignavensl þar á millum. Ég er ekki trúaður á að þeir hafi áhuga á að eignast allan bankann. Eða að þeir eigi fyrir því. Því má heita ljóst að þeir þurfa að fá einhvern með sér til þess að klára málið. Það verður athyglisvert að fylgjast með þvi hver það verður, sem telst nægjanlega tryggur en um leið nægjanlega óskyldur þeim félögum til þess að mega vera memm.

Svo verður framhaldið ekki síður fróðlegt. Vitað er að Jón Ásgeir hefur lengi dreymt um að eiga banka, en það er ekki víst að Hannes sé jafnáfjáður um það. Hvernig sem því er farið eru ótal kenningar á lofti, en flestar gera þær ráð fyrir að bankinn breytist verulega eða renni jafnvel í heilu lagi í annan. Í því samhengi er oftast rætt um Kaupþing og víst er um það að þar á bænum mega menn vel við því að bæta innlánahlutann. Rætt hefur verið um að selja mætti viðskiptabankahluta Glitnis hæstbjóðanda og halda eftir fjárfestingabankahlutanum. Sjáum til.  Og sjáum líka til hvar Wernersbörn og Engeyingar setja fé sitt á beit. Athyglisverðir tímar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Ég hef í sjálfu sér ekki neinu við að bæta varðandi það sem þú skrifar um Glitni. Það sem mér fannst athyglivert að sjá er skráin yfir bækurnar á náttborðinu þínu og átta mig á að smekkur þinn er að verulegu leyti líkur mínum. Ég leyfi mér að benda þér á nokkrar til viðbótar ef þú hefur ekki þegar lesið þær en þær eru Crimes against logic eftir Jamie Whyte. While Europe slept eftir Bruce Bawner og The Tipping Point eftir Malcolm Gladwell. Ég reikna með að þú hafir lesið Freakonomics. Ég varð fyrir vonbrigðum með bókina Infidel. Fyrirgefðu þetta þar sem það kemur efninu ekki sérlega við. Því miður lesa þeir sem eru í stjórnmálum og fjölmiðlum allt of lítið.

Jón Magnússon, 4.4.2007 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband