Leita í fréttum mbl.is

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins

Þá er Geir H. Haarde búinn að kynna ráðherralista sinn og hann er lýsandi fyrir Geir, þar er að öllu farið með gát og engar byltingar boðaðar. Ráðherrarnir eru sex og valinn maður í hverju rúmi.

Eigi að síður má gera athugasemdir við samsetninguna á listanum, þó ekki sé unnt að finna að verjum ráðherra fyrir sig. Ég hygg að snöggasti bletturinn á listanum felist í kynjasamsetningunni. Líkt og í þingflokki Samfylkingarinnar er um þriðjungur þingmanna konur, en samt er ekki nema einn ráðherra flokksins kvenkyns. Einn sjötti. Það þykir mér nokkuð á skjön við þær jafnréttisáherslur, sem gætt hefur í auknum mæli í málflutningi flokksins að undanförnu. Sérstaklega sker það í augu í samanburði við Samfylkinguna með sína jöfnu kynjaskiptingu í ráðherrastólum.

En það má líka finna að því hversu misjöfn dreifing er á ráðherrum eftir kjördæmum. Í raun er Einar K. Guðfinnsson eini landsbyggðaráðherrann, þó Árni M. Mathiesen sitji á þingi fyrir Suðurkjördæmi; það er eiginlega ekki hægt að verða hafnfirskari en Mathiesenar. En á móti má auðvitað nefna að Guðlaugur Þór Þórðarson er Borgnesingur að uppruna og var eitt sinn varaþingmaður fyrir Vesturland.

Það þarf ekki að fjölyrða um hæfileika Geirs H. Haarde sem forsætisráðherra, en ég skal játa að ég varð eilítið hissa að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, skyldi kjósa að vera um kyrrt í menntamálaráðuneytinu. Hún hefur vaxið mjög sem stjórnmálamaður upp á síðkastið og vann glæsilegan sigur í kjördæmi sínu. Því hefði ég haldið að hún kysi eitthvað annað en kyrrstöðu í ráðherrastóli. Nú er hætta á að menntamálin eignist hana í stað þess að hún tileinki sér fleiri málaflokka. En menntamálaráðuneytið er auðvitað valdamikið og hún telur sig líkast til eiga mikilvægum verkefnum þar ólokið.

Markaðurinn fagnar því vafalaust að Árni M. Mathiesen skuli áfram vera fjármálaráðherra; hann kann fáu betra en stöðugleika og Árni hefur til að bera þá nauðsynlegu gætni og kostgæfni, sem embættið krefst. Eins er ég sérstaklega ánægður með að Einar K. Guðfinnson skuli áfram vera sjávarútvegsráðherra og fá landbúnaðarráðuneytið að auki. Hann hefur að mínu viti verið afar farsæll í embætti og bryddað upp á nýjungum í ráðuneytinu. Hann er líka frjálslyndur maður, þannig að það má vonast til þess að honum verði ágengt í landbúnaðarráðuneytinu. En ég skal játa að ég hefði ekki sýtt ef Samfylkingin hefði tekið við landbúnaðarráðuneytinu, hún eru sannast sagna mun líklegri til þess að koma landbúnaðinum úr forneskjunni en Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég er einstaklega ánægður með að Björn Bjarnason skuli vera dómsmálaráðherra áfram. Ekki aðeins vegna þess að hann er einstaklega duglegur og skeleggur ráðherra, heldur eiginlega ekki síður vegna þess að með skipun hans sýnir forsætisráðherra að hann lætur hið nýja auðvald ekki skelfa sig.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarna landsfundi samþykkt ályktanir um að flokkurinn þurfi að taka heilbrigðismálin að sér. Þar bíða mörg knýjandi verkefni, en hið stærsta er allsherjar kerfisbreyting þeirra, því við það verður ekki lengur unað við árlega krísu í heilbrigðisgeiranum, þar sem peningar eru ávallt upp urnir sama hve mikið fé er látið til hans renna. En jafnvel þó menn einhendi sér ekki í slíkan slag er heilbrigðisráðuneytið afar erfitt, eins og best sést á því að sjúkraþjálfinn Siv Friðleifsdóttir náði ekki einu sinni tökum á ráðuneyti sínu, hvað þá heilbrigðiskerfinu á þessu rúmlega ári sínu þar á bæ. Sagan bendir til þess að starfinn sé í besta falli vanþakklátur, þennig að þetta er mikil áskorun fyrir Gulla að ganga beint í þetta erfiða ráðuneyti. En hann er vanur að taka sjensa á sínum pólitíska ferli og lengst af verið sigursæll. Af sama leiðir að hann er bardagamaður og það veitir sjálfsagt ekki af því í þessu ráðuneyti. Það er mikils krafist af honum en það er líka til mikils að vinna.

Ég heyri í kringum mig að sumir eru óánægðir með að Bjarni Benediktsson skuli ekki hafa orðið ráðherra. Ég get tekið undir það. Alveg eins og ég hefði kosið að sjá Illuga Gunnarsson fara beint í ráðherrastól og að ráðherraliðið hefði betur endurspeglað hina öru endurnýjun þingflokksins í undanförnum tvennum kosningum. En ég hef líka heyrt hinu fleygt, að Bjarni kunni að vera kvaddur í ráðherraliðið síðar á kjörtímabilinu. Ég vona að það gangi eftir, því annars óttast ég að hann ákveði að snúa sér alfarið að fyrirtækjarekstri og það er illt ef stjórnmálalífinu helst ekki á mönnum af hans kalíberi.


mbl.is Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já en svona er þetta. Ég hélt að Bjarni kæmi í stað Árna. Það hefði verið great!

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 22:47

2 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Allt eins og talað útúr mínum munni.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 22.5.2007 kl. 22:58

3 identicon

Sæll Andrés!

Já, þú segir það. Ég fæ hins vegar ekki orða bundist og lýsi því yfir að þetta með að Bíbí sé þarna inni er hneyksli. Ekkert minna. Að Jói í Bónus hafi með auglýsingu sinni neytt Geir til að hafa hann áfram í dómsmálaráðuneyti (þar sem Bíbí hefur sannarlega misnotað vald sitt), er svo  banalt, svo mikil hundalógík, að maður veit ekki einu sinni hvar ætti að byrja á að hrekja þá vitleysu. Röksemdin "lætur ekki hið nýja auðvald skelfa sig" grundvallast náttúrlega á fyrirlitningu Andrésar og Sjálfstæðisflokksins á kjósendum. Að þeir hafi hlaupið eins og hænsn eftir eins og einni auglýsingu en ekki tekið sjálfstæða ákvörðun um að nýta lýðræðisleg réttindi sín og lýsa yfir vanþóknun á embættisfærslum Björns með útstrikunum. Meira að segja svo geggjuð skýring hefur heyrst frá vini þínum Óla Teiti að menn úr öðrum flokkum hafi lagt lykkju á leið sína og kosið Sjálfstæðisflokkinn til að geta strikað Bíbí út! Hahahaha... er mark á slíkum bullurum takandi? Og Bíbí segir 80% kjósenda hafa tekið þá ákvörðun að strika sig ekki út! Hvaða mótsagnakennda vitleysa er þetta? En það hefur svo sem enginn farið flatt á því að vanmeta greind almennings. Allra síst Sjálfstæðisflokkurinn. 

Annars hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn hrós fyrir að hlaupa ekki á eftir þessu dellumakaríi sem kynjakvótinn er. Sá sem gerir ráðherraskipan Samfylkingar hina furðulegustu.

Kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 23:26

4 identicon

Það er auðvelt að væla en erfitt að skæla.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 00:42

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Loksins einhver sem skrifar af viti hér í kvöld (fyrir utan sjálfan mig auðvitað). Ég viðurkenni að ég hefði viljað sjá fleiri konur frá Sjálfstæðiflokknum í ráðherrastóli. Þá er mér auðvitað hugsað til dr. Guðfinnu Bjarndóttur og Ástu Möller. Hefði Geir hrókerað aðeins til hefði Guðfinna orðið frábær menntamálaráðherra og Ásta frábær heilbrigðisráðherra. En formaðurinn ræður ferðinni í okkar flokki og það er vel svo. Kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 23.5.2007 kl. 00:42

6 Smámynd: Hafrún Kristjánsdóttir

Er ekki Siv sjúkraþjálfari?

Hafrún Kristjánsdóttir, 23.5.2007 kl. 00:55

7 Smámynd: Andrés Magnússon

Jakob vill kannski útskýra það fyrir oss fávísum hvernig Björn hafi sannanlega misnotað vald sitt?

Eða hvernig hann telur lýðræðinu vel þjónað með því að auka atkvæðarétt þeirra, sem strika út af lista á kostnað hinna, sem það gera ekki. Nýju kosningalögin eru meingölluð því þau mæla beinlínis fyrir um það að vilji 10% kjósenda tiltekins flokks geti haft afgerandi áhrif á lista án þess að hin 90% fái neitt að gert eða að vilji þeirra til þess að hafa listann óbreyttan sé í neinu metinn.

Þeir Baugsmenn, Jóhannes Jónsson og Hreinn Loftsson, hafa viljað eigna sér þessar útstrikanir. Verðum við ekki að taka þá á orðinu?

---------

Og auðvitað er Siv Björg Juhlin Friðleifsdóttir sjúkraþjálfari en ekki hjúkrunarfræðingur. Þakka ábendinguna og laga það. 

Andrés Magnússon, 23.5.2007 kl. 01:21

8 identicon

Ég tek undir það að Björn Bjarnason hefur vissulega unnið sér inn að halda embætti sínu. Hann er einn duglegasti ráðherrann í hópnum, og samkvæmur sjálfum sér. Hann hefur aldrei beitt sér gegn Baugsfeðgum, heldur fjallað um málaferlin eins og eðlilegt er. Ég held að Möllerynjan sé betur geymd utan Heilbrigðisráðuneytisráðherrastóls, rétt eins og Siv Juhlin. Möller er betur geymd í forsæti heilbrigðisnefndar Alþingis þar sem hún getur verið til góðs ráðuneytis með öðrum þingmönnum.

Siggi (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 01:56

9 identicon

Andrés Andrésus! Hvernig í ósköpunum þú færð það út að lýðræðinu sé best þjónað með því að troða Bíbí í ríkisstjórn enn og aftur er mér óskiljanlegt. En ekki er að spyrja að hollustunni sem á eftir að fara með þig og fleiri ... ég veit ekki hvert. Skoðum þetta nánar. Í 1. – 3. sæti fékk Björn 4500 atkvæði í prófkjöri. Þetta voru atkvæði bæði úr suður og norðurkjördæmi. Ef við gerum ráð fyrir að atkvæðin hafi skipst jafnt á milli kjördæma þá er það 2250 atkvæði. Útskrikanir voru 2500 sem eru fleiri en atkvæðin sem hann fékk í sínu kjördæmi – Reykjavík suður. Það þýðir, Andrés minn, að Bíbí frændi er 250 atkvæði í mínus. Hann skuldar. Samt situr hann á sínum rassi enn í ríkisstjórn vegna einhvers tilbúins lunta. Varðandi það að Bíbí hafi misnotað vald sitt ... já, það er ágætt að skáka í skjóli gúbbífiskaminnis kjósenda. Hann hefur fótum troðið allt sem eðlilegt er í stöðuveitingum, hyglað sínum á kostnað annarra og hvatt og att embættismönnum sínum leynt og ljóst út á foraðið með mjög svo óviðeigandi skrifum sínum sé tekið tillit til stöðu hans. Piff. Kær kveðja,Jakob

Jakob (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 10:22

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þorgerður Katrín er flottur menntamálaráðherra og mín vegna og annara (er ekki íhald) er það hið besta mál að hún skuli vera þar áfram.  En gott fólk kommon! Nú var lag að taka konur í ráðherraliðið en ekkert gerðist.  Ein kona af sex. Dö,dö,dö.  Ekki gott.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.5.2007 kl. 11:55

11 Smámynd: Gísli Hjálmar

Ég get tekið undir margar þessar vangaveltur þínar um ráðherraval Geirs H.

Ég er gegnheill (frjálslyndur) jafnaðarmaður en mér fannst það góður leikur hjá Geir H. að láta ekki einhvern Jóhannes útí bæ (Akureyri, Reykjavík eða lystisnekkja) vera að hafa áhrif á lýðræðið með þessum hætti - vægast sagt: ómerkilegt!

En, það vantar eitthvað uppá jafnræðið þarna hjá ykkur á Sjallabænum ...

Gísli Hjálmar , 23.5.2007 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband