Leita í fréttum mbl.is

Meira um minningagreinar

Fyrir hálfu ári, upp á dag, skrifaði ég athugasemd hér á blogginn um það hvernig Morgunblaðið væri í heljargreipum minningagreina, þær tækju of mikið rými, klyfu blaðið í herðar niður og hindruðu eðlilegar breytingar á því. Ég gerði mér vitaskuld grein fyrir því, að þær væru hluti af því, sem gerði MorgunblaðiðMogganum okkar, og hluti af því, sem gerir Ísland að Íslandi. En samt taldi ég að þessu þyrfti að breyta með einhverjum hætti og nefndi sitthvað um það, sem gera mætti til þess:

Morgunblaðið gæti áfram birt stutt æviágrip þeirra, sem bornir eru til grafar þann daginn, og síðan gæti blaðið jafnframt — líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis — birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði. Í bresku stórblöðunum er þessi háttur hafður á og greinarnar eru jafnan svo vel skrifaðar að þær eru hið ágætasta lesefni. Sjálfur glugga ég reglulega í þær, enda fær maður þar oft nasasjón af merkisfólki, sem maður hefur oft ekki einu sinni vitað að væri til. Þar er líka kærkominn spegill af mannseðlinu, sem fjölmiðlar ná yfirleitt illa um að fjalla með öðrum hætti. 

Viðtökur lesenda minna við þessum hugmyndum voru almennt vinsamlegar, þó einhverjir hefðu áhyggjur af því að blaðið færi að stunda mannajöfnuð með þessum hætti, að draga hina horfnu í dilka merkismanna og annarra. Ég benti hins vegar á, að þó við vildum allt til vinna til þess að fólk væri jafnrétthátt í lífinu, mætti vel viðurkenna það, að fólk hefði misjafnlega unnið úr sjálfu sér og tækifærum lífsins og að slík uppgjör væru fullkomlega við hæfi að leiðarlokum. Engin ástæða væri til þess að reyna að jafna um menn, einmitt þegar stóri jafnaðarmaðurinn, sláttumaðurinn slyngi, væri nýbúinn að gera þá hnífjafna.

En fólk getur verið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Peningasöfnun liðþjálfa í Hjálpræðishernum getur þannig reynst þyngri á metunum í þessu samhengi en auðsöfnun moldríks verðbréfagosa. Eða góður barnakennari merkari en menntamálaráðherra. Jafnvel Paris Hilton (sé hún dauðleg) gæti uppskorið minningargrein, ekki endilega vegna framlags hennar til mannsandans heldur kannski fremur vegna þess sem frægð hennar segir okkur um mannseðlið.

Nú sýnist mér að Morgunblaðið sé að feta einhverja braut í líkingu við þá, sem ég nefndi. Upp á síðkastið hefur blaðið fengið ýmsa vel ritfæra menn eða eigin blaðamenn til þess að skrifa minningargreinar um valda menn á miðopnu blaðsins, en meiri heiður getur Morgunblaðið ekki sýnt mönnum. Og það eru ekki aðeins menningarpáfar, stjórnmálamenn eða aðrir fínimenn, sem hljóta þann sess; í gær skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson fallega og persónulega grein, sem samt átti erindi við lesendur alla, um Ásgeir Elíasson, fótboltaþjálfara, sem varð bráðkvaddur í liðinni viku.

Nú vona ég aðeins að blaðið haldi áfram á þessari leið, birti áfram dánarauglýsingar og æviágrip, líkt og birt eru nú þegar í upphafi minningagreina, en taki afganginn inn á Netið með loforði um að þar verði ævarandi bautasteinn. Það er ekki dýrt og verður æ ódýrara. Hið eina, sem ég sé að gæti verið verra í því samhengi, er að í ljósi þeirra kynslóða, sem hverfa næstu áratugi, er viðbúið að afreksmennirnir þyki fleiri karlkyns en kvenkyns. Það má treysta því að tölfræðifemínistarnir haldi því til haga. En í millitíðinni geta þeir kannski talið dálksentimetrana eins og þeir birtast um náina núna og kyngreint þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Minningargreinar sem eru í formi sendibréfa til hinna látnu finnst mér óviðeigandi , ég veit ekki til þess að morgunblaðið hafi einhvert sérsamband við almættið.

Afsökunarbréf til til dæmis afa sem ég hefði nú heimsótt oftar ef ég hefði vitað........ Af hverju leggur fólk ekki þessu persónulegu bréf í kistu þeirra látnu þá er það alla vegana búið að skrifa sig frá "sektinni". Margar minningargreinar finnst mér "hræsni". Ef lesandinn þekkti þann sem skrifað er um ,kannast hann jafnvel ekkert við hann í minningargreininni.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 18.9.2007 kl. 10:25

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Minningargrein er oft góð sjálfslýsing.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.9.2007 kl. 11:34

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Lengi vel var það nú þannig að nokkuð strangar reglur giltu um minningagreinar Morgunblaðsins, m.a. var bannað að skrifa hinum látna sendibréf. Það var haft eftir ritstjóra blaðsins — nú man ég ekki hver það var, finnst Matti eða Eykon líklegastir — að þó útbreiðsla Morgunblaðsins væri að sönnu mikil gæti blaðið ekki ábyrgst að slík bréf kæmu fyrir augu viðtakenda. Allra síst ef þeir hefðu endað í neðra!

En þessum reglum var flestum aflétt illu heilli og því sitjum við uppi með afar misjafnar kveðjur. Flestar eru þær þó vel innan marka og svei mér ef mér finnst fólk ekki vera pennafærara nú heldur en fyrir nokkrum árum. Án þess að ég hafi nokkuð fyrir mér grunar mig að þar kunni netútbreiðslan að valda talsverðu. Fólk er farið að skrifa sendibréf aftur eftir að sú list hafði nánast lagst af. Og þó sumir bloggar séu varla skrifaðir af meira listfengi en SMS slípast flest fólk samt við að skrifa þá, áttar sig á því hverju er ábótavant og reynir að bæta úr. Ekki síst lærir það að hugsa af meiri ögun þegar það þarf að binda hugsanir sínar í ritað mál og leggur þær í dóm annarra.

Minningagreinar eru skrifaðar í ýmsu skyni og bera þess vitni. Einhverjar eru lítið annað en lífshlaup, sumar eru eiginleg minningabrot, aðrar innileg kveðjuorð, og enn aðrar skrifaðar eftirlifendum til hugarhægðar.  Hinar bestu gera þetta allt í senn. Ég minnist þess ekki að hafa lesið nokkra minningagrein, þar sem verið var að hræsna. Stundum finnst manni eilítið skrýtið þegar rakinn andstæðingur kveður annan og lætur eins og þeirra hafi lítið farið á millum nema gott eitt (nil nisi de mortuis bonum). En þær eru þá að vonum fremur stuttar, jafnvel stuttaralegar, en þó enn megi lesa kergjukeim milli línanna eða þykjast vita af henni, eru slíkar kveðjur kannski fyrst og fremst virðingarvottur. Menn þurfa nefnilega að virða það fólk, sem þeir eiga í höggi við. Það má ekki síður þekkja menn af óvinum sínum en vinum.

En jafnvel þó okkur finnist tilteknar minningagreinar skrýtnar, lélegar, væmnar eða banal, þá þurfum við að auðsýna þeim umburðarlyndi, rétt eins og við sýnum syrgjendunum nærgætni. Þær eru jafnan skrifaðar í tilfinningalegu uppnámi, flestar af óvönum pennum og það hefur mikið að segja í knöppu máli. Ég veit það sjálfur, að það eru fá ef nokkur skrif erfiðari, því á einhvern hátt er maður að skrifa í eilífðina.

Andrés Magnússon, 18.9.2007 kl. 11:45

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Margt má að minningargeinum finna enda er það gert. En þessi hugmynd að Morgunblaðsmenn velji þá "merkismenn" sem skrifa skuli um minningargrein finnst mér slæm. Betra væri bara að láta þá æviágripið duga. Eins og kerfið er núna er nefnilega skrifað um ósköp venjulegt fólk, ekki aðeins þá sem aldrei hafa unnið nein "afrek" heldur líka um fólk sem aldrei hefur notið sín, jafnvel "ógæfufólk". Minningargreinarnar vitna um væntumþykju venjulegs fólks um venjulegt fólk - og líka óvenjulegt auðvitað og frægt - og það er þeirra mesti sjarmi þrátt fyrir alla vankantana. Mannlífið snýst ekki bara um afreksfólk heldur allt fólk. Það kemur fram  í minningargreinum Moggans og óvíða annars staðar opinberlega. Sömuleiðis skrifar fólk minningargerinar sem að öðru leyti er ekki að skrifa. Allt er þetta nokkur verðmæti í sjálfu sér. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.9.2007 kl. 12:46

5 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Svo er það spurninginn, hver dæmir afrek mannsins?

Hverjum ber virðing eftirlifenda?

Ég pant ekki standa í slíkum palladómum.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 18.9.2007 kl. 13:24

6 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Hjartanlega sammála.  Þetta minningargreinaflóð er komið út í algjöra vitleysu.  Dánarfregnir og útfararauglýsingar eru í lagi auk stutts æviágrips.  Aðrar minningargreinar eru betur komnar á netið og séu þar öllum aðgengilegar. 

Ritstjórn getur síðan heiðrað minningu einstakra manna með birtingu greinar eftir valin höfund.

Sveinn Ingi Lýðsson, 18.9.2007 kl. 14:44

7 Smámynd: lipurtá

Ég held að minningagreinarnar séu það sem selur Morgunblaðið.

lipurtá, 18.9.2007 kl. 14:50

8 Smámynd: Ragnar Gunnarsson

Minningargreinarnar eru merki um séríslenska menningu. Þær gegna eflaust miklu hlutverki í sorgarferlinu en sjálfsögðu taka þær oft á tíðum mikið pláss. Og trúlega eru margir áskrifendur Moggans eldri borgarar sem lesa greinarnar um ættingja sína og vini. Minningargreinarnar eru einnig mikilvæg tenging fólks úti á landi og í útlöndum. Á nýjum tímum ætti netið að nýtast betur í þetta nema þær upplýsingar gætu frekar týnst þó efast megi um sagnfræðilegt gildi ýmislegs sem þar birtist. 

Einnig þarf samhliða breytingum hugsanlega að vinna að breytingum á útförinni sjálfri, þar sem nánir ættingjar og vinir geta tekið til máls - enda er aðal „markhópur“ minningaorða þar væntanlega saman kominn. Það þarf þó að vera innan strangra tímamarka.

Ragnar Gunnarsson, 18.9.2007 kl. 18:22

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég þekki fólk sem segist ekki þora annað en að kaupa Moggann svo það missi ekki af hverjir deyja. 

Ásdís Sigurðardóttir, 18.9.2007 kl. 20:09

10 Smámynd: Andrés Magnússon

Það er hægur vandi að týna út þá, sem merkilegir teljast. Allir fjölmiðlar ástunda það við lifandi dag hvern og ætli þeim yrði skotaskuld úr því að draga hina dánu í dilka?

Sjálfur les ég reglulega minningagreinar Daily Telegraph, sem er útbreiddasta alvörublað Bretlands, en það heldur úti minningasíðu í líkingu við það, sem ég hef nefnt. Þar á bænum eru ekki neitt afskaplega stífar reglur um hverja er skrifað, aðallega fólk sem hefur skarað fram úr á einhvern hátt, en þar fær einnig náð fólk, sem e.t.v. hefur ekki markað djúp spor en var óvenjulegt á einhvern hátt, átti sögu að baki, sem draga má lærdóm af, o.s.frv.

En það er misskilningur að minningargreinar Morgunblaðsins séu séríslenskt menningarfyrirbæri. Þær eru velþekktar í öllum próvinsublöðum heimsins. Þau berast hins vegar til allrar hamingju lítið milli landa, þannig ekki verða allir þeirra varir.

Mér finnst ágæt athugasemd Ragnars Gunnarssonar um að vinir eða ættingjar eigi að fá að mæla minningarorð í jarðarförinni. Það má reyndar alveg — ég hef tvisvar verið viðstaddur slíkar útfarir — en menn eru mjög fastheldnir á siði og venjur í jarðarförum, sem vera ber. Þær hafa samt verið að breytast ögn undanfarna áratugi, þó aðallega taki það nú til tónlistarflutnings. Auðveldasta leiðin til þess að koma slíkri breytingu í kring er að skilja eftir fyrirmæli um tilhögunina.

Andrés Magnússon, 18.9.2007 kl. 20:32

11 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Góð

Einar Örn Einarsson, 18.9.2007 kl. 23:10

12 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég tek undir með Lipurtá, Ásdísi og fleirum. Ég veit um fólk sem kaupir Moggann bara til að fylgjast með dauðsföllunum og minningargreinunum. Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að dauðinn selji. Lífið gerir það líka.

Haukur Nikulásson, 18.9.2007 kl. 23:10

13 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Eitthvað var ég að misbjóða tækninni þarna. Vildi hafa sagt, góð umræða. Er sammála þeim sem lítast ekki á það að morgunblaðsmenn fari birta greinar um útvalda. Slíkt gengur hjá milljónaþjóðum, en fyrir smáþjóð sem okkar gruna ég að það ýti undir óánægju og sárindi, og undirstriki líka það sem er að gerast hér í samfélaginu, að bilið á milli stétta breikkar.

Persónulega þykir mér vænt um það að Mogginn sinnir þessu, það er stór ástæða fyrir mínum lausakaupum á blaðinu að þar get ég lesið um fólk sem ég kannast við. Sá lestur er ekki með gleraugum gagnrýninnar, heldur er það einhver nostalgísk tilfinning sem ræður þar.

Þegar Sverrir sá um minningargreinar í Mbl. voru sendibréf til hins látna ekki birt. Ekki heldur greinar sem voru í ávörpunarstíl. Því miður breyttist það. Vitanlega má setja strangari reglur um þetta. Æviágripin sömuleiðis voru áhugaverð. Sjálfsagt kemur að því að þetta verði að skera niður, með stækkandi samfélagi og æ stærri kynslóðum sem safnast til feðranna.

Það að breyta útfaraforminu er efni í aðra umræðu. Í kaþólsku kirkjunni er sungin sálumessa og haldið í þá hefð. Íslenska þjóðkirkjan hefur líka form fyrir sínar útfarir sem er ákveðið guðsþjónustuform, en ekki eiginleg messa þar sem ekki fer fram altarisganga.

Eftir að hafa starfað í þeim "bransanum" árum saman og komið að þúsundum útfara á ferlinum, þá hef ég oft orðið hugsi eftir sumar athafnirnar, sem hafa minnt meira á kabarettsýningar, en helgiathafnir. Spurning hvort fólk eigi ekki að geta valið um það að hafa hreinlega minningarathafnir sem lúta veraldlegu formi, eða kirkjulegar athafnir sem lúta helgisiðum viðkomandi trúfélags. Því stendur fólk ekki upp í þessum undarlegu erfidrykkjum, hvar fólk kemur saman, rífur í sig kræsingar, og bíður í ofvæni eftir aðstandendum til að geta tekið í spaðann og rokið á braut. Má ekki nota þær samkomur til þess að standa upp og mæla í minningu þess sem kvaddi.

Allavega hafi Mbl. þökk fyrir að sinna minningu þeirra látnu og gefa fólki tækifæri á að koma kveðjuorðum á framfæri.

Einar Örn Einarsson, 18.9.2007 kl. 23:35

14 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Mér hafa þótt minningargreinarnar og umræðan í mbl. gefa því lýðræðislegri svip en öðrum dagblöðum. Umræðan er nú að færast yfir á netið smátt og smátt og vera kann að svo gerist einnig með minningargreinar -þær eru farnar að birtast hér á blogginu. Og þegar við erum öll farin að tala ensku þá hverfa þær áreiðanlega úr blaðinu! En ég er hjartanlega sammála Sigurði Þór um að mbl. sjálft eigi ekki að velja einhverja merkismenn til að skrifa um. Ríkjandi skoðunum um hverjir eru merkisfólk er fullnægt með krossaflóðinu frá Bessastöðum.

María Kristjánsdóttir, 19.9.2007 kl. 07:48

15 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Minningargreinar Morgunblaðsins eru  merkur menningarþáttur  en  auðvitað misgóð heimild  um samtímann.Allt hefur þetta samt  farið úr böndunum.Stundum sjást  t.d.  margar greinar í nafni barnabarna ,þar sem  einn og  sami penni er að verki. Þetta er kannski skiljanlegt. Morgunblaðið er að reyna að bregðast við þessu greinaflóði. Það er hlutverk  ritstjórnar að  stýra þessu. Síðurými eru takmörk sett.

Sennilega er það nokkuð  stór hópur sem  eingöngu kaupir  Morgunblaðið minningargreinanna vegna.Það væri áhugavert að kanna það. Kannski hefur Morgunblaðið þegar gert það.

Það er skemmtileg tilbreyting að   upplifa  vitræna og áhugaverða  umræðu á  blogginu. Þökk fyrir það.

Eiður Svanberg Guðnason, 19.9.2007 kl. 08:12

16 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Ung stúlka sem hafði fetað hinar dimmri brautir þjóðvegarins fékk hluta af opnu Morgunblaðsins eftir að hún lést af ofskammti eiturlyfja á sjúkrahúsi. Við megum ekki gleyma henni. 

Engu að síður gleymdi ég að halda dáksentimetrunum til haga. Það gerist ekki aftur. 

erlahlyns.blogspot.com, 21.9.2007 kl. 00:36

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég ætlaði að fara að skammast yfir því að ekki mættu vera minningargreinar í Mogganum, en auðvitað er þetta best geymt á netinu, óþarfi að eyða tonnum af pappír í þetta. Fyrri athugasemd þín Andrés er mjög góð...nennti ekki að lesa meira... frekar en sumar minningagreinar

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2007 kl. 00:40

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

...og Mogginn ætti að hafa sérstakan dálk, öllum opinn með minningargreinum. Væri menningarlegt atriði hjá blaðinu

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.9.2007 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband