Leita í fréttum mbl.is

Lífsleikni í MK

Ég les hjá Birni Bjarnasyni að hann hefur verið að fá fyrirspurnir frá Kópavogi, nokkuð á misskilningi byggðar:

Greinilegt er, að lífsleiknikennari í Menntaskólanum í Kópavogi hefur bent nemendum sínum á að senda mér tölvuspurningar um refsingar og þyngd þeirra. Þetta sannar mér enn, hve nauðsynlegt er, að kenna nemendum, að dómarar ákveða þyngd refsinga en ekki dómsmálaráðherra. Alþingi ákveður refsirammann með lögum en dómarar, hve mikið af honum er nýtt hverju sinni.

Áhyggjur Björns, fyrrverandi menntamálaráðherra, eru skiljanlegar, því ekki verður annað af færslu hans skilið en að menntaskólakennari í lífsleikni átti sig ekki á undirstöðuatriðum í stjórnskipulagi landsins. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort ábendingar kennarans um fjöldafyrirspurnir til dómsmálaráðherra séu í einhverjum öðrum tilgangi en einungis til uppfræðslu nemendanna.

En ég hjó eiginlega eftir öðru. Lífsleikni í menntaskóla?! Hér ræðir um fólk á barmi þess að vera fullorðið og það er verið að kenna því lífsleikni. Nasasjón sú, sem ég hef af þeirri námsgrein í grunnskólum, varð ekki til þess að efla tiltrú mína á menntakerfinu, námskrárgerð eða virðingu pedagóga fyrir tíma skjólstæðinga sinna.

Ég hef hins vegar ekki nennt að fetta fingur út í það, því það er ekkert nýtt að grunnskólar séu öðrum þræði dagvistarstofnanir. Þannig var það líka þegar ég var að slæpast þar fyrir 30 árum eða svo. En þurfi fólk að læra lífsleikni í menntaskóla leyfi ég mér að draga í efa að það sé nægilega vel undirbúið til þess að eiga erindi í menntaskóla. Sem aftur leiðir til spurninga um hvort það sé endilega hið eina rétta hlutverk íslenska menntakerfisins að gera stúdenta úr öllum, sama hvað það kostar. Sama hvaða „fræði“ eru lögð til grundvallar eða ekki. En það er nú efni í aðra færslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglivert að þú gagnrýnir lífsleiknina í mennta og grunnskólum.  Ég held aftur á móti að hún gagnist nemendum oft á tíðum meira og betur heldur en ýmislegt annað sem er kennt.  Undir hatti lífsleikni rúmast allt á milli himins og jarðar t.d. umburðarlyndi, vinátta, raunveruleiki (ekki veitir af á tímum tölvuleikja), umræður um huglæg efni s.s. ást og hatur, trú, o.fl. o.fl.  Þetta er ekki beint kennsla heldur gagnlegar og gagnrýnar umræður sem fær nemendur til að sjá fleiri en eina hlið á málunum og e.t.v. auka víðsýni sína og efla sjálfa sig sem einstaklinga í þjóðfélagi þar sem þarf að umgangast alls kyns fólk.

Sigurður (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 10:59

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Pistill þinn er löðrandi í íhaldsemi og forneskju Andrés minn. Að það þurfi ekki að fræða 16-20 ára krakka um lífsleikni! Þetta eru nánast óvitar Andrés þótt við höfum ekki viðurkennt það á sama tíma. Græðgissamfélagið er t.d. að sökkva þessu fólki í skuldafen og það gleypir við öllu - og veitir ekki af lífsleikni.

Ekkert skil ég í því að BB geti verið pirraður yfir því að fá spurningar um refsingar og þyngd þeirra. Er hann ekki þingmaður auk þess að vera ráðherra dómsmála? Hann ber auðvitað ekki ábyrgð á túlkun dómstóla á lögunum sem hann hefur sett, en líklega hefir lífsleiknikennarinn vitað sem var; að dómararnir sjálfir tjá sig seint og illa um túlkanir sínar (nema Jón Steinar). Getur verið að BB sjái einhverja Rússa-Grýlu hér á ferð? Einhver Komma-andskoti í Kópavogi að heilaþvo ungviðið?

Ég dáist að frumkvæði kennarans í Kópavogi. Fá ungviðið til að spyrja krítískra spurninga. Og þið BB talið eins og sá möguleiki sé ekki fyrir hendi að ungviðið hafi LÍKA sent bréf til dómaranna. Þið sjáið bara plott gegn BB! Ef BB getur sett lög og sett reglugerðir, tjáð sig um dómaframkvæmd á Alþingi, svarað fyrirspurnum á Alþingi um dómaframkvæmd, þá getur hann svarað komma-ungviðinu úr Kópavogi. Ekki satt Andrés?

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.9.2007 kl. 13:03

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Mér sýnist þvert á móti að í kennslu í lífsleikni felist lítið annað en innræting á pólitískum rétttrúnaði. Ég get vel tekið undir það sjónarmið að ungt fólk þurfi nú sem fyrr á leiðsögn að halda í lífinu, en er efins um að skólakerfið sé réttur vettvangur til þess umfram þetta mikilvægasta, sem fólk lærir í leikskólum. Eins hygg ég að Friðrik Þór hafi talsvert til síns máls um skuldafenið, þó ég reki það ekki til „græðgissamfélagsins“. En breytt hugarfar til fjármagns er verðugt umhugsunarefni. Ungt fólk á vori lífsins lítur á greiðan aðgang að lánsfé nánast eins og mannréttindi og hikar ekki við að taka fyrstu skrefin út úr foreldrahúsum verulega skuldsett og án nokkurs sparnaðar. Það minnir óþægilega á afstöðu verðbólgukynslóðanna, þó á allt öðrum forsendum sé. Þar hafa viðskiptabankarnir ekki farið fram af nægilegri ábyrgð og þeir kunna að þurfa að súpa af því seyðið, þó sjálfsagt verði sá drukkur öðrum bitrari og fyrr. En í tilvitnuðum upplýsingum um lífsleiknisáfangann í MK er ekki gefinn ávæningur um leiðbeiningar í þeim efnum. Eða að fólki sé kennt svo mikið sem að útfylla skattskýrsluna sína.

Friðrik Þór gefur sér að við Björn Bjarnason sjáum „bara plott gegn BB“, en þá er hann nú ekki að lesa skrif mín af nægilegri kostgæfni eða les of mikið milli línanna, sem þá segir meira um hans áhyggjur en mínar.

Björn Bjarnason getur svarað fyrirspurnum um alls kyns hluti, en ef honum er ætlað að svara öllum þeim spurningum, sem menntaskólakennarar landsins í lífsleikni ekki nenna að svara eða vita ekki svörin við, þá er ég hræddur um að hann gerði ekki mikið annað. Sem er sjálfsagt það sem Friðrik Þór helst kysi!

Andrés Magnússon, 29.9.2007 kl. 16:00

4 identicon

Sem grunnskólakennara sem hef þurft að kenna lífsleikni tek ég undir allt sem Andrés segir um þá námsgrein. Það er fáránlegt að taka allt sem snýr að lífsleikni og búa til sérstaka námsgrein í kringum það. Lífsleikni felst í öllu sem við gerum.

Daníel (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 16:21

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Hárrétt kæri Andrés, Björn - OG AÐRIR RÁÐHERRAR - mættu gjarnan fá sem mest af upplýstum og krítískum spurningum frá Jóni og Gunnu og heitir það aðhald upplýstra kjósenda/þegna með kjörnum pólitíkusum með tímabundið fulltrúavald.

Eins mikið yndi og BB hefur af því að tjá sig á netheimum og mikinn tíma til þess þá virðist það ekki ríma að það sé álag og áþján að svara bréfum frá Jóni og Gunnu sem honum berast. Hugsunin er sú að Jón og Gunna í skólanum í Kópavogi fari út í samfélagið með vitund um að Jón og Gunna hafi skyldur og réttindi og þeirra á meðal að mynda sér pólitíska skoðun og skrifa ráðherrum, þingmönnum og dómurum (sbr. þrískiptinguna) bréf, hringja, tjá sig á fundum og fleira, og langi til þess, jafnvel þótt eitthvað skemmtilegt sé í sjónvarpinu eða útsala í Húsasmiðjunni.

Það síðasta sem ráðherra á að kvarta yfir er að kjósendur sendi honum bréf! Það allra síðasta goddamnit. Sérstaklega þegar fjölmiðlar eru frekar slappir að spyrja spurninganna.

Já, Andrés, orðið "græðgissamfélag" er nokkuð gildishlaðið. Ég er auðvitað að tala um þessa últra neyslu- og efnishyggju sem þú veist að er ríkjandi, með öllum sínum kostum og göllum. Einn af göllunum er minnkandi stjórnmálavitund almennings. Þegar útskrift úr MK er lokið verður það kraftaverk að hin útskrifuðu Jón og Gunna hafi nokkra löngun til að skrifa BB. Hann getur huggað sig við það og bloggað um eitthvað annað.

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.9.2007 kl. 17:04

6 Smámynd: Andrés Magnússon

Eins og Friðrik Þór þekkir mætavel sem fjölmiðlamaður (og ég hygg að þúsundir kjósenda geri líka), þá er enginn ráðherra hér á landi og jafnvel á byggðu bóli, sem jafngreiður aðgangur er að, einmitt um tölvupóst. Öfugt við nær alla kollega sína les hann póstinn reglulega OG svarar honum.

Ég las það ekki út úr þessari færslu Björns að hann væri að barma sér yfir bréfasendingum. En gegnir ekki öðru máli þegar einhverjir aðilar, einstakir kennarar eða aðrir, skipuleggja fjöldasendingar, því hvað er það annað en saxbauti? Og hvað í ósköpunum eiga nemendurnir að læra í lífsleikni við slíka iðju, sem aukin heldur virðist byggð á ókunnugleika kennarans á efninu, leti og/eða öðrum hvötum?

Andrés Magnússon, 29.9.2007 kl. 20:28

7 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já, Andrés, BB er duglegur að svara tölvupóstum. Það verður ekki tekið frá honum. Honum virðist líka finnast það ólíkt þægilegra en að hafa lifandi fyrirspyrjanda fyrir framan sig. En það er annað mál.

En málið er orðið ljóst. BB er góður. Kennarinn er fífl og sennilega Kommi. Og krakkarnir þurfa ekkert á lífsleiknikennslu að halda.

Saxbauti! Dj.... gott meistari Andrés. Ertu búinn að lesa pistilinn minn um miðborgina á lillo.blog ? Ég hvet miðbæjarrottu eins og þig að tjá þig þar!

Friðrik Þór Guðmundsson, 29.9.2007 kl. 22:41

8 identicon

Ekki hef ég lagt það í vana minn að svara bloggfærslum hinna fjölmörgu netverja og hvað þá ef ég þekki ekki einu sinni manneskjuna sem skrifar. En við lestur eftirfarandi dóma Andrésar Magnússonar um lífsleiknikennslu féll mér allur ketill í eld og ég sé mig knúna til svara. „Lífsleikni í menntaskóla?! Hér ræðir um fólk á barmi þess að vera fullorðið og það er verið að kenna því lífsleikni... þurfi fólk að læra lífsleikni í menntaskóla leyfi ég mér að draga í efa að það sé nægilega vel undirbúið til þess að eiga erindi í menntaskóla. „ Hér hef ég þrjár athugasemdir. Í fyrsta lagi; veit Andrés út á hvað lífsleiknikennsla í framhaldsskólum gengur, og að eins og heitið gefur til kynna, þá rúmast nokkuð mismunandi viðfangsefni innan greinarinnar? Í öðru lagi hljómar þetta eins og tilsvar 7 ára dóttur minnar þegar hún sagðist ekki þurfa að æfa fótbolta því eftir að hafa æft hann í heilt ár væri hún búin að læra hann. Ég er 43 ára lífsleiknikennari og ég er EKKI búin að læra lífsleikni í eitt skipti fyrir öll í þeim skilningi að það sé á nokkurn hátt sambærilegt við að kunna öll leikskólalögin. Það að velta fyrir sér verðmætum og gildum í lífinu og æskilegri forgangsröð þeirra bæði hjá manni sjálfum og samfélaginu í heild, tel ég hvorki fyrir neðan virðingu fullorðins fólks né heldur, svo vitnað sé í orðalag Andrésar, „vanþörf“ á.  Því, og þetta er þriðja athugasemdin, hvað ÞARF maður að læra í menntaskóla (teljist maður nógu vel undirbúinn) og hvað ekki?  Það fer eftir því hvert markmiðið með námi og menntun er. ÞARF einhver að læra stærðfræði, heimspeki eða ljóða-gerð/lestur ef hann ætlar hvort eð er að verða læknir eða lögfræðingur?  Það viðhorf Andrésar sem þarna kemur fram virðist hvíla á ótrúlega þröngu sjónarhorni á lífsleikni sem námsgrein annars vegar (í mínum huga álíka fáránlegt og „ þarf maðurinn enn að vera að æfa fótbolta, hálf-fullorðinn og kominn í meistaraflokk? Hann er greinilega ekki nógu vel undirbúinn eftir allar æfingarnar í yngri flokkum...“) og markmiðinu með menntun hinsvegar. Veit Andrés eitthvað göfugra markmið með menntun en að skerpa á forsendum mannlegs þroska og lífshamingju? Eiga þeir ungu einstaklingar sem standa höllum fæti hvað það varðar ekki erindi í menntaskóla?Bryndís Valsdóttir lífsleiknikennari í F.Á.

Bryndís Valsdóttir (IP-tala skráð) 29.9.2007 kl. 23:39

9 Smámynd: Andrés Magnússon

Ég vísa í tengilinn að ofan, þar sem fræðast má um lífsleiknikennslu í MK. Megnið af því lærir fólk af lífinu sjálfu, ekki á skólabekk, vegna þess að það þarf að draga lærdóma af eigin reynslu og annarra.

Dæmi Bryndísar missa marks. Menntaskólar eiga að veita almenna, haldgóða menntun; nauðsynlegan grunn fyrir háskólanám. Hún spyr hvort einhver þurfi að lesa stærðfræði, heimspeki eða ljóð til þess að verða læknir eða lögfræðingur. Menn þurfa raunar talsverða stærðfræðikunnáttu til þess að verða læknar og lögfræðingar þurfa að kunna vaxtareikning ef vel á að vera. Báðum þessum stéttum er gert að lesa heimspeki og siðfræði. En hvorug þarf að lesa ljóð umfram það að vera með á nótunum í þjóðmenningunni. Væri upprennandi læknum og lögfræðingum þjóðarinnar hollt að lesa ljóð og skrifa? Vafalaust (og í báðum stéttum er urmull af ljóðelskum mönnum). En hið sama mætti segja um dans, söng, myndlist og handavinnu. Eða forngrísku, hernaðarlist, mælskulist og golf.

Tími er hins vegar takmörkuðustu gæði lífsins og þess vegna reynum við ekki að búa til sanna renaissance-menn úr öllum. Að láta hálffullorðið fólk (og rígfullorðið ef Bryndís réði) vera að fást við lesa sér til um almenna mannasiði, hvernig taka eigi ábyrga afstöðu til fíkniefna og hvernig eigi að vera ábyrgur neytandi (þó ekki fíkniefnaneytandi) á álíka mikið erindi til stúdentsprófs og að leika, læra og lita. Líklegast engum óhollt, en það á ekki erindi í framhaldsnám. Sé lífsleikni nauðsynleg námsgrein í skólum (sem ég er afar efins um) á hún ljóslega erindi við öll börn landsins og ætti því heima í grunnskóla.

En hvað með fótboltamanninn; hættir hann að æfa? Nei, ekki fremur en við hættum að hugsa um samlagningu eftir lífsins hinsta stærðfræðipróf. En það er á hans ábyrgð að stæla sig og þroska. Miðað við fyrrgreinda lýsingu á lífsleikni er þar að verulegu leyti fjallað um álitaefni, jafnvel siðferðisspurningar, sem menn þurfa og eiga að komast að eigin niðurstöðu um.

Mér finnst þetta bauk vera vott um vaxandi infantíliseringu þjóðlífsins. Til hæginda fyrir meðferðaraðila var lögræðisaldur hækkaður í 18 ár og það er ekki langt síðan ég þurfti að hlusta á æpandi manneskju útskýra fyrir mér að víst væri 21 árs gamall maður barn. Ríkisvaldið umgengst fullorðið fólk í síauknum mæli eins og fávís börn og það færist sífellt í vöxt að foreldrar sitji uppi með „börnin“ fram eftir öllum aldri. Þetta er ekki séríslensk þróun. Bendi á athyglisverða bók Diane West, The Death of the Grown-up, sem fjallar um þau mál frá bandarísku sjónarhorni, en hún telur raunar að heilkennið varði hinn vestræna heim allan. 

Andrés Magnússon, 30.9.2007 kl. 02:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband