Leita í fréttum mbl.is

Hræsni Fréttablaðsins

bladberinn

Fréttablaðið lætur mikið með 30.000 poka, sem það dreifir ókeypis á næstunni, en þeir eru sagðir sérstakar endurvinnslutöskur fyrir dagblöð. Með þessu vilja „aðstandendur Fréttablaðsins efla vitund um umhverfisvernd og nýtingu verðmæta“, en haft er eftir Jóni Kaldal, ritstjóra blaðsins, klökkum yfir eigin gæsku, að það sé „nánast skylda þeirra sem standa að útgáfu Fréttablaðsins að vera í fararbroddi þeirra sem hvetja til þess að dagblöð rati í endurvinnslu í stað þess að vera hent með öðru heimilissorpi.“

Er það já? Nú þegar hefur meirihluti landsmanna verulegt ómak af dreifingu fríblaða og ruslinu, sem þeim fylgja. En það er ekki nóg fyrir þessa herra, heldur vilja þeir auka ómakið af sínum völdum enn frekar, þannig að við berum draslið út í endurvinnslu fyrir þá. Framtak Fréttablaðsins má þó ekki síður rekja til umhyggju aðstandenda þess fyrir heilsu fórnarlambanna:

Göngutúrar með blaðberann, endurvinnslupoka Fréttablaðsins, geta bæði verið örstuttir í blaðatunnuna heima, eða lengri til heilsubótar í næsta grenndargám.

Já, þakka ykkur fyrir! Ég hef áður skrifað um blaðatunnuna en með henni býðst borgurum Reykjavíkur að borga 7.400 krónur á ári fyrir að sérflokka blöð. Er máske ekki vanþörf á, því eftir sem Fréttablaðið og Blaðið hafa aukið útbreiðslu sína hefur blaðasorpið margfaldast. Í fyrra var sagt að 30% af því sorpi sem fer í ruslatunnur heimila í Reykjavík séu dagblöð, tímarit og annar prentaður pappír. Borgarbúar henda þeim flestir með öðru sorpi og er blaðaruslið um þriðjungi umfangsmeira í heimilishaugnum en matarleifar. Pappírsmagnið, sem hent er af heimilum, jókst um 76% frá 2003-2007.

Það er óþolandi að eitthvert lið úti í bæ geti bakað samborgurum sínum ómak og kostnað með því að senda þeim drasl óumbeðið. Nær væri að leggja sérstakt sorpgjald á útgáfurnar og einfalt mál að mæla hvað hverjum ber að gjalda fyrir, því fríblöðin keppast við að miklast af útblásnum upplagstölum. Það er þá rétt að miða við þær og láta útgáfurnar borga allan sorphirðukostnað, sem hlýst af afurðum þeirra.

En það er einmitt málið á bak við sorppoka Fréttablaðsins: Þetta er aumkunarverð tilraun til þess að komast hjá því að borga gjald af því taginu og hælast af því um leið hvað þeim sé umhugað um umhverfið. Á annara kostnað. Hvílík hræsni!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Ég tek heilshugar undir með þér. Þessi fríblöð og allur ruslpósturinn er alveg yfirgengileg plága. Ég tel þetta brot á friðhelgi heimilisins sem þó á að vera tryggð í stjórnarskránni. Það glamrar í bréfalúgunni, blöðunum er einungis troðið í hana til hálfs og rokið og snjórinn á greiða leið inn. Ég bý einn með kettinum mínum og ég fullyrði að það eru nokkur kíló af þessari áþján sem ég verð losa mig við í viku hverri. Við skulum gera uppreisn gegn Fréttablaðinu, 24 stundum og öðru rusli.

Sigurður Sveinsson, 18.4.2008 kl. 11:29

2 Smámynd: B Ewing

Heyr heyr.  Vel mælt.  Ég er alfarið á móti því að hver sem er geti mokað rusli inn um mína bréfalúgu og ég hafi ekkert um það að segja.

B Ewing, 18.4.2008 kl. 14:04

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í blokkinni sem ég bý í, geta menn sett áletrun við pósthólf sitt þar sem þeir frábiðja sér fríblöðin. En ég get ekki tekið undir með þeim sem vilja fá það ástand að Mogginn sé það eina sem maður fái í hendur á morgnana.

Aðalatriðið er að dagblaðaframboðið sé ekki einsleitt. Á sama hátt og mér leist ekki vel á það á sínum tíma þegar bæði Mogginn og DV voru komin í hendur hægri aflanna líst mér heldur ekki á það ef Mogginn fer lengra niður í lestri en orðið er, jafnvel þótt 24 stundir séu í eigu hans.

Ef þetta heldur svona áfram er hugsanlegt að Morgunblaðið muni setja allt sitt traust á 24 stundir. En nú er samdráttur í aðsigi og aldrei að vita hvaða áhrif það hefur á auglýsendur, sem Fréttablaðið og 24 stundir eiga allt sitt undir.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2008 kl. 14:54

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Mikið er ég sammála þér Andrés - var með grein um þetta að bögglast í hausnum á mér, takk fyrir að taka af mér ómakið:)

Birgitta Jónsdóttir, 18.4.2008 kl. 16:48

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Heyr, heyr!

Greta Björg Úlfsdóttir, 22.4.2008 kl. 09:58

6 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Sem stendur er búnki fríblaða á dyramottunni minni sem ég hef ekki haft nennu á að taka upp og setja í pokann sem ég fer með í endurvinnsluna. Svona er nú ástandið á mínu heimili. Verð að drífa mig í að setja miða um að ég vilji ekki þessi blöð. Verst að ekki taka allir blaðberar mark á því. Oft fæ ég tvö eintök af hverju blaði, þeir virðast ekki gera sér grein fyrir að dyrnar mínar eru að lítilli, einsmanns íbúð.

Greta Björg Úlfsdóttir, 22.4.2008 kl. 10:02

7 identicon

Fréttablaðið ætti frekar að splæsa bláa blaðasorpstunnu á öll heimili.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 10:47

8 identicon

Sóðagangurinn af völdum þessara blaða er mikill og hefur vverið í mörg ár. Þetta liggur víða um í hrúgum og síðan fjúka um eins og jólatrén framm í júli. Annað er líka að blaðberarnir taka ekki mark á neinum merkingum og ástæðan er að þeir lesa ekki íslensku. Og svo troða þeir alltaf of mörgum blöðum inn um lúguna. Svo er einn þáttur þessa máls plasthringirnir sem blaðbera smeygja af pökkunum í heilu lagi og eru að fjúka um göturnar. Eitt sinn festist ég í slíkum hring og skall niður í götuna og afleiðingin; splúnkunýjar gallabuxur og rándýrar voru handónýtar.
Mér finnst þú koma með góða lausn á vandanum og ég tek heilshugar undir með þér. Takk fyrir.

Hörður Torfason (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband