Leita í fréttum mbl.is

Skinhelgi Svandísar

Hneykslan Svandísar Svavarsdóttur vegna málefna REI er stórmerkileg. Sérstaklega ef hún er borin saman við orðræðu hennar um REI fyrir og eftir meirihlutaslitin í haust.

Meðan Svandís var í minnihluta átti hún varla til nógu sterk orð til þess að lýsa ástandinu, sem hún sagði brýnt að bæta úr með afgerandi aðgerðum, ekki seinna en strax. Daginn eftir að hún komst í meirihluta var hins vegar mikilvægast að „róa umræðuna“ og síðan var bara haldið áfram í rólegheitum á þeirri braut, sem hún hafði ákafast varað við. Og þrátt fyrir hina gagnmerku skýrslu stýrihópsins (sem flestir verða mærðarlegir í framan við það eitt að nefna nú, en flestir játuðu á sínum tíma að væri óttalegur bastrður) fyrirhugaði Svandís & co. að dæla nokkrum milljörðum til viðbótar úr OR í REI. Hún minnist aldrei á það.

En nú er Svandís full heilagrar reiði á ný og lætur dæluna ganga. Sú skinhelgi er farin að minna á leikræna tilburði Steingríms J. Sigfússonar, sem margir hrífast að öðru hverju. En þeir geta fæstir hugsað sér að kjósa hann þegar til kastanna kemur. Mér sýnist Svandís vera að festast í sömu rullu.

— — —

Maður skilur hins vegar ekki af hverju henni sárnar svona núna. Eru hugmyndir um að njörva niður hlutverk REI og stöðva frekari áhættufjárfestingu virkilega henni á móti skapi? Hafa þá fleiri snúist í afstöðu sinni en Svandís kemur auga á. 

Þarna er kannski fundinn helsti Akkilesarhæll Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs: Hún veit upp á hár hverju hún er á móti (nánast öllu), en á afar erfitt með að finna nokkurn skapaðan hlut, sem hún er með. Það skýrir sjálfsagt líka hversu erfiðlega henni hefur gengið að komast í meirihluta- eða stjórnarsamstarf. 


mbl.is Ekki boðlegt borgarbúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert J. Eiríksson

Vel og satt mælt.

Er sérstaklega ánægður með neðsta hlutann "á móti öllu en finnur ekkert til að vera með"

Kv EJE

Eggert J. Eiríksson, 18.4.2008 kl. 20:32

2 identicon

Svona öfugt á við Þorgerði Katrínu, sem þolir engar mótbárur? Betra er þó að vera þver heldur en "skver"! Já-menn fá hvort eð er engu ágengt í þessu lífi - hafa aldrei gert, munu aldrei gera...

En, að aðalatriðinu: REI var stofnað fyrir almannafé (þýðing; á kostnað skattgreiðenda). Því fyrirbæri má slútta jafnauðveldlega og til var stofnað.

Spurningin er einfaldlega hvort Sjálfstæðismenn eru menn til að segja "Nei, nei, ekki REI...!"

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 01:03

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Baldur hefur lög að mæla. VG er e.t.v. áttavillt á-mót-hreyfing, en Sjálfstæðismenn þurfa á móti að standa fastir á sínu og grípa til aðgerða - frelsa skattgreiðendur frá áhættufjárfestingum og ríkiseigu á fyrirtækjum sem eiga heima annaðhvort hvergi eða af einkaaðilum.

Reykjavíkur-sápuóperan við sveitastjórnarstjórnarskipti sinnum tveir sýnir og sannar að einkavæðingar og skattalækkanir geta aldrei átt sér stað nógu hratt. Að frelsa lausn þrælsins í nafni "undirbúnings á frelsi hans" er engin afsökun fyrir lausn hans. Þrællinn á einfaldlega að verða frjáls - núna!

Geir Ágústsson, 19.4.2008 kl. 01:54

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þið sjálfstæðismenn, eruð greinilega dauðhræddir við Svandísi Svavarsdóttur. 

Þórir Kjartansson, 19.4.2008 kl. 11:48

5 Smámynd: Andrés Magnússon

Ég vona að menn virði það við mig þó ég tjái mig ekki mikið um fyrirætlanir borgarstjórnarmeirihlutans í málefnum REI, þau mál eru í mikilli deiglu og ég verð eiginlega að gefa stjórnarformanninum, bróður mínum, tilfinningalegt svigrúm í þeim efnum. REI er enda aðeins lítill angi af Orkuveitu Reykjavíkur, þó á tímabili hafi verið gargantúískar hugmyndir um annað.

Sú tillaga, sem nú liggur á borðinu, er í samræmi við þau sjónarmið að REI skuli vera að fullu í eigu almennings og að þar eigi ekki að hætta frekari fjármunum almennings í áhættusamar fjárfestingar úti í heimi. Það er ekki vandalaust að fullnægja þeim skilyrðum báðum í einu, hvað þá öðrum þeim markmiðum, sem stýrihópurinn frægi náði saman um í vetur.

Tillagan miðar að því að fá verðmat á einstök verkefni REI, væntanlega í því augnamiði að losa þau frá fyrirtækinu, svo það geti einbeitt sér að ráðgjöf og þannig nýtt þá sérþekkingu, sem OR hefur byggt upp á umliðnum áratugum.

Sem slík er tillagan góðra gjalda verð, en mér þykir þó meira vert um þau fyrirheit, sem í henni felast um Orkuveitu Reykjavíkur. Sumsé að Orkuveitan eigi að halda sig við leistann sinn. Að þetta einokunarfyrirtæki eigi að halda sig við það að afla og dreifa orku til eigenda sinna og hugsanlega nágranna þeirra, ef þeir biðja fallega. Að það eigi ekki að reyna að breyta sér í áhættufjárfestingasjóð á heimsvísu á kostnað fanginna viðskiptavina sinna, sem svo skemmtilega vill til að eru flestir eigendur hennar um leið og óbeinir ábyrgðarmenn ef illa fer. Að það eigi ekki standa í fasteignaspekúlasjónum, byggingu sumarbústaðahverfa, rækjueldi eða allri þeirri dómadagsvitleysu, sem Guðmundur Þóroddsson og Alfreð Þorsteinsson fengu að véla um óáreittir árum saman.

Þetta má allt fjúka. Og á allt að fjúka. Hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur er aðeins það að afla og veita orku, eins og nafn hennar gefur svo glögglega til kynna. Og hún á að halda sig við eigið þjónustusvæði í þeim efnum.

Andrés Magnússon, 19.4.2008 kl. 12:06

6 Smámynd: Jóhann Frímann Traustason

Hae ,ég er lengi búinn að vera að leita að sönnum "sjálfstæðismanni" og mig langaði að spyrja hann,ykkur er svo tíðrætt um frelsi í hverju erum við svona ófrjáls á Íslandi í dag ? Árið 2008 hvað telur þú brýnast að breyta í átt til meira frelsis .? Kv .Jóhann

Jóhann Frímann Traustason, 19.4.2008 kl. 12:43

7 identicon

Vel mælt.  Þú mættir líka alveg velta upp þeirri spurningu af hverju Svandís sendi OR reikninginn fyrir málaferlum þeim sem hún, sem persóna, fór út í gegn OR.

Jú, Svandís fór í mál við OR vegna eigendafundarins í haust, og ekki gerði hún það sem kjörinn fulltrúi eða sem fulltrúi meirihlutans.  Svo kom auðvitað á daginn að hún var með handónýtt mál í höndunum (sem gilti þá auðvitað einu, hún var komin í meirihluta og upptekin við að "róa umræðuna"), og hún fékk reikninginn frá lögmanni sínum.  Hvað gerði einstaklingurinn, og þá borgarfulltrúinn í meirihluta, Svandís Svavarsdóttir?  Jú, hún sendi reikninginn áfram á OR og lét Orkuveituna borga lögfræðireikning sinn, sem hún sjálf stofnaði til í málaferlum sínum við OR!

Spilling?  Segi nú kannski ekki mikið til um það, en eitt er víst, hin háheilaga Svandís Svavarsdóttir hefði froðufellt af bræði ef einhver Sjálfstæðismaður hefði verið uppvís að viðlíka.

Annars held ég að við ættum að taka sem minnst mark á Svandísi, hún hefur sýnt það og sannað að hún er engu skárri en þær pólitísku tyggjóklessur sem prýða gangstétt borgarmálanna og tilheyra þeim flokki sem ég hef hingað til kosið. 

Heimfæra má þennan gusugang í Svandísi yfir á landsmálin og spyrja sig af hverju í ósköpunum ríkisstjórn D og S, sem virðist standa vörð um óheyrileg ríkisútgjöld og fullkomna vangetu í öllum málum, skuli stanslaust fá í kringum 70% fylgi í könnunum.  Jú, af því að fólk veit að ríkisstjórnin er vanmáttug og getulaus, en guð minn góður, hún þarf að versna óendanlega mikið áður en valmöguleikarnir verða ákjósanlegir.  Ögmundur Jónasson sem fjármálaráðherra? 

Þjóðin þarf að ganga endanlega af göflunum til að treysta þessu vinstrapakki fyrir stjórntaumum landsins.  Í borginni, hins vegar, eru hinir vitstola fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í akkorðsvinnu við að úthýsa Sjálfstæðisflokknum úr borgarmálum í heila kynslóð.

Góðar stundir

Dharma (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 16:16

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, Dharma. Er ekki hin glæsta staða útrásarbankanna ásamt notalegustu stýrivöxtum í heimi og verðbólgunni indælu á uppleið ekki allt saman ykkur sjálfstæðismönnum að þakka?

Hefur ykkur farið fram í reikningi síðan OECD skýrslan um skattlagningu á láglaunafólk birtist í fjármálaráðuneytinu?

Mér finnst kominn tími til að kanna hvort unnt sé að finna heimskari fjármálamenn en íslenska frjálshyggjudindla.

(Ég er að meina fólk með kosningarétt og kjörgengi.)

Árni Gunnarsson, 19.4.2008 kl. 22:20

9 identicon

Já, hér sannast hið fornkveðna, að ber er hver að baki, nema sér bróður eigi... og mannlegt en ekki stórmannlegt, að draga athyglina frá klúðri í eigin ranni, hefna þess í héraði, sem tapaðist á þingi, breiða út niðrandi ummæli um nafngreinda einstaklinga, væna alla aðra um skinhelgi og hræsni, sem sagt ata aðra auri í von um að festist, og kalla það blaðamennsku, í blindri barnatrú að enginn sjái glundroðann í eigin ranni, bragð er að þá Björn Bjarnason finnur, svo glundroðakenningar allra tíma hafa nú rækilega sannast á Sjálfstæðisflokknum, og augljóst hverju barni hvar hræsnin og skinhelgin á raunverulega heima...

Jón Guðmundsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 19:40

10 Smámynd: Andrés Magnússon

Jón Guðmundsson segir mig breiða út niðrandi ummæli um Svandísi Svavarsdóttur. Með hvaða hætti? Er meinið ekki einmitt það að hún niðraði sjálfa sig? Ég gerði ekki annað en að vekja athygli á hringdansi hennar í umræðunni um REI. Nema náttúrlega Jón telji það niðrandi að bera hana saman við Steingrím J. Sigfússon, en það var nú ekki þannig hugsað af minni hálfu.

Andrés Magnússon, 21.4.2008 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband