Leita í fréttum mbl.is

Tapið útskýrt fyrirfram

Ég er enn að reyna að átta mig á því hvað hún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var að fara í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju um fyrri helgi. Ræðan var nú engan veginn sérlega snjöll; mestan part svona stikkorð hripuð niður í flýti. En en eitt var það, sem ég trúi ekki að formaðurinn hafi skrifað og sagt án þess að velta vel og vandlega fyrir sér:

Samfylkingin er sex ára og vandi hennar er að þrátt fyrir tilvistarkreppu og slælega frammistöðu ríkisstjórnarflokkanna hefur okkur ekki tekist að nýta þau sóknarfæri sem gefist hafa. Það segja skoðanakannanir okkur. […] Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum – ekki ennþá, ekki hingað til. Of margt fólk sem vill og ætti að kjósa okkur – allur meginþorri Íslendinga sem hafa sömu lífssýn, áhyggjur og verkefni og við – hefur ekki treyst þingflokknum fyrir landsstjórninni.

Já, var það þannig, sem í þessu lá? En nú horfir allt til betri vegar telur hinn lánlausi formaður:

Nú verður á þessu breyting. En af hverju núna? Jú, vegna þess að Samfylkingin er tilbúin, frambjóðendur eru tilbúnir og ég er tilbúin.

 

Endurtekið efni

Það var mikið að hún varð tilbúin. En hvað var hún þá að rugla í okkur kjósendum fyrir þingkosningarnar 2003? Það er rétt að rifja það upp að í þeirri kosningabaráttu var öll áhersla lögð á það í áróðri Samfylkingarinnar, að tækifærið væri þá eða aldrei. Sögulegt tækifæri til þess að velja loksins og í fyrsta sinn konu til þess að verða forsætisráðherra (sem benti raunar til þess að Samfylkingin hefði gleymt því að Margréti Frímannsdóttur hafði verið teflt fram á nákvæmlega sömu forsendum fjórum árum fyrr). Og þetta einstæða tækifæri í mannkynssögunni fælist einmitt í þessum tiltekna endurlausnara, Ingibjörgu S. Gísladóttur. Á annað var varla minnst í þeirri baráttu, hvorki stefnumál né aðra frambjóðendur. Rifjum aðeins upp:

Við vitum að við getum gert gott samfélag betra á næstu árum. Öll sjáum við fjölmörg tækifæri til framfara. Samfylkingin teflir fram þrautreyndum frambjóðendum um land allt sem eru reiðubúnir til þess að takast á við þau verkefni af miklum heilindum.

Þetta skrifaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í ávarpi sínu til kjósenda, sem birt var í dagblöðum ásamt forsetamynd af forsætisráðherraefninu hinn 9. maí 2003, daginn fyrir kjördag. Hinir „þrautreyndu frambjóðendur“ eru sumsé uppistaðan í þessum þingflokki, sem að hennar sögn hefur verið helsti vandi Samfylkingarinnar undanfarin ár, ef marka má flokksformanninn í Keflavíkurræðunni á dögunum. Helsti vandinn altso þar til nýskeð, þegar þingmennirnir virðast hafa orðið alveg frábærir aftur, því miðað við niðurstöður prófkjöra Samfylkingarinnar mun þingflokkurinn mun nánast vera óbreyttur eftir kosningar næsta vor (þó mig gruni að það kunni að fækka í honum). Er engu líkara en að þeir hafi undirgengist guðdómlega ummyndun við það að fá sakramentið hjá Sollu þarna undir kirkjuveggnum í Keflavík. Undur mikil og teikn.

Svo hélt kraftaverkakonan áfram:

Ég er reiðubúin til að leiða það starf fái Samfylkingin til þess brautargengi. Tækifæri til nýrrar sóknar er núna. Nýtum það.

Þetta sagði hún sumsé í fyrrnefndu ávarpi fyrir kosningarnar 2003. Ég veit ekki hvort hún meinti það bara ekki alveg nógu mikið þá, en núna sko… núna meinar hún það sko af fullri alvöru. Hún er tilbúin. Í alvöru.

Og svo menn ímyndi sér nú ekki að Ingibjörgu Sólrúnu skorti í alvöru í þessum efnum er rétt að rifja upp orð hennar í viðtali við Morgunblaðið hinn 19. maí 2002, þegar hún kvaðst verða borgarstjóri næstu fjögur ár nema hún hrykki upp af. „Ég er ekki á leið í þingframboð að ári ef það er spurningin sem undir liggur“ bætti hún við svo ekkert færi milli mála. Viku síðar áréttaði hún í viðtali við Ríkisútvarpið: „Já ég fullyrði algerlega að ég er ekki að fara í þingframboð að ári. Það er alveg ljóst.“ Á þessu hamraði hún svo eftir kosningarnar 2002 þegar hún var spurð hvort til mála kæmi að hún færi í þingframboð þrátt fyrir allt: „Ég bauð mig fram til að vera í fjögur ár. Mér finnst ég skuldbundin mjög mörgu fólki í því sambandi.“ Hennar orð standa. Eða hún segir þau að minnsta kosti oft. Jafnvel kosningabaráttu eftir kosningabaráttu.

 

Vanhugsuð orð

Þó ég sé viss um að fyrrnefnd orð í Keflavíkurræðunni hafi verið þaulhugsuð hjá formanni Samfylkingarinnar er ég ekki frá því að þau hafi samt verið vanhugsuð. Er hugsunin svona neyðarlega grautarleg, er formaðurinn haldinn svona alvarlegum ranghugmyndum eða er Ingibjörg Sólrún í svona mikilli afneitun? Svo mikilli að ekki dugar minna en heill stjórnmálaflokkur til þess að „kóa“ með henni?

Ég hallast að þessu síðastnefnda. Það þarf nefnilega að leggja á sig sérstaka króka til þess að komast að því að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi verið dragbítur flokksins. Það þarf ekki annað en að líta á skoðanakannanir til þess að átta sig á því hvernig sólókosningabarátta Ingibjargar Sólrúnar reytti fylgið úr rúmum 40% niður í 31% eða hvernig það fór í frjálst fall eftir að hún tók við formennskunni, úr 33%  niður í 25% þar sem það er nú. Miðað við síðustu þingkosningar lætur nærri að þriðji hver kjósandi Samfylkingarinnar hafi snúið við flokknum baki! Engin teikn eru á lofti um að það kunni að blása byrlegar á þeim 150 dögum, sem nú eru til kosninga. Við skulum ekki einu sinni minnast á skoðanakannanir, sem mæla traust á einstökum stjórnmálamönnum. 

En það má líka taka formanninn úr jöfnunni og líta á þingflokkinn út af fyrir sig. Hefur hann staðið sig svo slælega að ætla megi að kjósendur hafi sérstaka vantrú á honum umfram flokkinn sem heild, að ekki sé minnst á forystuna? Þvert á móti — ef sanngirni er gætt — getur hann státað af nokkrum afrekum sem stærsti þingflokkur stjórnarandstöðunnar. Efst á blaði hlýtur að vera brotthvarf forystumanna beggja stjórnarflokkanna á kjörtímabilinu, svo má nefna örlög fjölmiðlalaganna, og á eftir koma í halarófu alls kyns áherslumál stjórnarinnar, sem þingflokkur Samfylkingarinnar átti mikinn þátt í að stöðva. Lög um Ríkisútvarpið eru augljóst og sígrænt dæmi, en það má líka rifja það upp að meira að segja Vatnalagafrumvarpið komst ekki yfir tálma stjórnarandstöðunnar og vissi þó varla nokkur maður um hvað það snerist.

Getur einhver nefnt dæmi um mál, þar sem Ingibjörg Sólrún tók forystu á þingi og hafði ríkisstjórnina undir? Bara eitt?

 

Forystulaus flokkur…

Nei, því er alls ekki þannig farið. Ástæðan liggur í augum uppi: Ingibjörg Sólrún er einfaldlega ekki sá forystumaður, sem margir hugðu. Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur, sagði í viðtali við Fréttablaðið eftir ógöngur Samfylkingarinnar í sveitarstjórnakosningum síðastliðið sumar (voru þær líka þingflokknum að kenna?), að Ingibjörg Sólrún nyti sín betur sem leiðtogi í stjórn en stjórnarandstöðu. Það má vera, en þá er hún ekki sá leiðtogi sem Samfylkingin þarf, þó ekki væri nema vegna hins augljósa: Samfylkingin er í stjórnarandstöðu. Stjórnmálaleiðtogar — líkt og fyrirliðar í fótbolta — þurfa bæði að kunna sókn og vörn. Þegar allir leikir tapast undir þeirra stjórn er lausnin ljós.

 

…flýtur að feigðarósi

En þó allir sjái hvert stefnir er ekkert hægt að gera. Samfylkingunni er ómögulegt að skipta um formann án þess að leyfa Ingibjörgu Sólrúnu að tapa einu sinni enn, en þá verður það væntanlega fullreynt. En mér er til efs að Ingibjörg Sólrún segi af sér ótilneydd. Til þess er afneitunin of sterk, en um hana snýst þetta nú allt saman: Afneitun. Allt það, sem hún kenndi þingflokknum um, er það, sem hún óttast um sjálfa sig. Og það er meira en hugboð, því staðreyndirnar blasa við, en hún má ekki til þess hugsa að þetta sé sér að kenna. Þannig að syndahafrarnir í þingflokknum fengu að heyra það.

Með öðrum orðum, þá var hún að útskýra tapið fyrirfram og kenna öðrum um. Það hefur til þessa ekki þótt snjall upphafsleikur í kosningabaráttu. Tala nú ekki um þegar þeir, sem hún kennir um, eru hennar eigin frambjóðendur í kosningunum! Hvernig ætlast Ingibjörg Sólrún til þess að kjósendur treysti frambjóðendum flokksins þegar hún sjálf lýsir þá óalandi og óferjandi? Fyrst og fremst hygg ég þó að vantraust kjósenda muni beinast að Ingibjörgu Sólrúnu sjálfri, dómgreind hennar og forystuhæfileikum. „Fólk er ekki fífl,“ eins og hún orðaði það svo vel í Silfri Egils á dögunum og fólk veit alveg hverjum er um ógöngur Samfylkingarinnar að kenna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Góð og vönduð skrif. Virkilega gaman að lesa.

mbk. frá Akureyri

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.12.2006 kl. 02:28

2 identicon

Góður pistill. Það væri óskandi að aðrir fjölmiðlar rifjuðu svona hluti upp.

Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 02:55

3 identicon

Af hverju, Andrés, hefur þú þessar knýjandi áhyggjur af ræðu Ingibjargar Sólrúnar, valdalítils stjórnarandstöðuþingmanns? Ég klóra mér meir í kollinum yfir því en þessari lítilvægu ræðu og ég reiti hár mitt og skeggbrodda yfir ræðum og gjörðum þeirra sem einhverju ráða í þessu samfélagi. Segðu mér eitthvað um ræður þeirra, Andrés minn! - Friðrik Þór Guðmundsson, sem vill frekar að Norðmenn verji landið en fjandans Kanarnir!

Friðrik Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 13:20

4 Smámynd: Andrés Magnússon

Svo ég svaar Lilló aðeins: Vegna þess hvað v ið vitum fjarska lítið um pólitík téðrar ISG (og þá á ég ekki við Iraq Study Group) utan þess, sem hún sagði fyrir hönd kvennalistans í borarastjórn fyrir margt löngu. Af hinum örfáu frumlegu ræðum hennar vitum við meira um hverju hún er á móti en með. Og af því að við erum báðir eilítið "svag" fyrir krötunum er eins gott að vita fyrir hvað þeir — eða hún — standa.

Andrés Magnússon, 14.12.2006 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband