Leita í fréttum mbl.is

Ókeypis menn

Þegar ég var í Menntaskólanum var ein bekkjarsystir mín með límmiða á töskunni, sem á stóð „Free Afghanistan“, sem þá var hernumið af Sovétríkjunum. Þó við værum auðvitað sammála henni, stóðumst við samt sem áður ekki mátið að gantast með slagorðið og héldum því fram að þessi væna vinkona okkar væri að auglýsa ókeypis hass, en í þá daga þótti svartur afgan bera af í þeim efnum. 1-2 kynslóðum áður hafði Abbie Hoffmann slegið um sig með svipuðum brandara: „America is the land of the free. Free means you don't pay.“

Í Morgunblaðinu í morgun má lesa forystugrein undir fyrirsögninni „Frjálsir menn“. Þar er mikið látið með „hversu mikilvægt það samkomulag er, sem stjórnmálaflokkarnir hafa gert sín í milli um fjármögnun á starfsemi flokkanna í framtíðinni.“ Svo er haldið áfram og rætt um hvernig samfélagið hafi breyst og að ástæða sé til þess að verja stjórnmálamenn fyrir áhrifum frá auðmanna. „Margir þeirra, sem veita stuðning, gera kröfu um endurgjald,“ segir í leiðaranum, en svo er það ekki rökstutt nánar. Morgunblaðið hefur a.m.k. ekki flutt fregnir af slíku.

Stjórnmálaflokkarnir eru frjálsir af áhrifum þeirra, sem hingað til hafa fjármagnað starfsemi flokkanna að verulegu leyti. Stjórnmálamennirnir sömuleiðis. Sú breyting, sem er að verða, skapar alveg nýjar víddir í stjórnmálastarfseminni.

Það var og. Auðvitað er Morgunblaðið ánægt með þetta, því með þessum ólögum eru fjölmiðlum færð ný völd á silfurfati og stjórnmálamenn munu eiga mikið undir því að miðlarnir hampi þeim. En það verða ótal nýjar víddir í stjórnmálastarfseminni, eins og leiðarahöfundur  tiltekur. Á undanförnum árum hefur það til dæmis færst mjög í vöxt, að verkalýðsfélög og hagsmunasamtök beiti sér fyrir kosningar. Ég spái því að slíkt muni aukast um allan helming. Eins þykir mér líklegt að til verði ný fyrirbæri, sem við höfum að mestu leyti sloppið við, sem eru lobbýistar og meðfram þeim, það sem á ensku hefur verið nefnt Political Action Groups, sem eru ekkert annað peningamyllur fyrir stjórnmálamenn.

Gerir lýðræðisfyrirkomulag okkar ráð fyrir einhverri slíkri starfsemi? Það verður þá væntanlega næst að binda allt slíkt í lög, fram og til baka, en þá er stutt í allsherjarríkisvæðingu allrar lýðræðislegrar umræðu. Sárasaklaus áhugamannafélög — svo fremur sem þau eiga einhvern snertiflöt við stjórnmál — verða gerð nánast óstarfhæf vegna krafna um framlagða reikninga og gegnsæi við Ríkisendurskoðun. Verður það til þess að bæta lýðræðið?

Nú er rétt að halda því til haga að þó að stjórnmálaflokkarnir hafi til þessa haft óbeina löghelgun, þá hafa þeir ekki verið neitt annað en frjáls félagasamtök til þessa. En nú eru þeir orðnir annað og meira, en um leið eitthvað minna og ómerkilegra. Hver er trúverðugleiki stjórnmálaflokkanna sem stjórnmálaafla — sprottnum af þjóðinni fyrir þjóðina — þegar þeir eru nánast lögfestir og reknir fyrir illa fengið fé, skattfé. Tala nú ekki um þegar tálmanir eru svo lagðar fyrir aðra, sem leyfa sér að hafa skoðanir á þjóðmálum og afla þeim fylgis.

Með þessum aðgerðum, sem Morgunblaðið styður svo heilshugar, er verið að stofnanavæða lýðræðið og fjarlægja það frá lýðnum. Eins og teknókraatíið væri ekki orðið alveg nógu mikið fyrir. Allir stjórnmálamenn verða að vera atvinnustjórnmálamenn og helst aðeins á snærum þeirra flokka, sem vildi svo til að áttu menn á þingi á því herrans ári 2006. Um leið er miðstjórnarvald flokksskrifstofanna og flokksforystunnar aukið til muna. Af hverju var skrefið þá ekki bara stigið til fulls og komið á hefðbundu aðalskerfi?

Því það er auðvitað kjarni vandans, að þarna er útdeilt fjármunum og völdum án ábyrgðar. Þingheimur þarf ekkert að hafa fyrir hlutunum lengur og einskis að gæta heldur. Einu gildir hvaða óþverra flokkarnir bera á borð fyrir kjósendur, hversu heimskulega þeir fara að ráði sínu eða hvernig þeir sólunda þessu illa fengna fé. Þeir verða nefnilega áfram í áskrift að ókeypis peningum. Sem þeir ákváðu að gefa sjálfum sér.

Það eru ekki frjálsir menn, heldur ókeypis menn. Sams konar framferði á öðrum vettvangi myndi hins vegar leiða til þess að þeir yrðu sjálfsagt sviptir frelsi sínu um skeið. Árni Johnsen hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Bergz

"Einu gildir hvaða óþverra flokkarnir bera á borð fyrir kjósendur, hversu heimskulega þeir fara að ráði sínu eða hvernig þeir sólunda þessu illa fengna fé. Þeir verða nefnilega áfram í áskrift að ókeypis peningum. Sem þeir ákváðu að gefa sjálfum sér."

"Þungur hnífur", eins og segir í Hrafninn flýgur, er þarna tekinn fram. Og ekki veitir af. Ég gæti ekki verið meira sammála og finnst þetta paragraph þarna að ofan lýsa þessu vel: "Árni Johnsen hvað?"

Snorri Bergz, 16.12.2006 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband