Leita í fréttum mbl.is

Stjórnlagaþing

Stjórnlagaþing 

Nú stendur fyrir dyrum kosning til stjórnlagaþings, þar sem fjallað skal um hvort breyta þurfi stjórnarskrá lýðveldisins og þá hvernig. Tillögur þingsins verða svo ráðgefandi fyrir Alþingi en ekki bindandi, því hin norræna velferðarstjórn heyktist á slíku valdaafsali. Það hefði enda kallað á kosningar í millitíðinni, sem skiljanlegt er að hún hafi ekki viljað taka sjensinn á. Í ljósi þess, sem síðan hefur gerst (eða ekki gerst!), var það skynsamleg ákvörðun… fyrir ríkisstjórnina a.m.k.

Ég er engan veginn sannfærður um að afgerandi breytinga á stjórnarskránni sé þörf, þó auðvitað megi benda á eitt og annað, sem betur mætti fara. Ég hef engan mann séð leggja fram nein rök um það, að nokkuð í ógnaratburðum hrunsins megi rekja til vanbúnaðar stjórnarskrárinnar, hvað þá að menn hafi leitt líkur að því hvers konar ákvæði hennar hefðu getað fyrirbyggt hrunið eða skaða þess. Nær er að taka undir orð Sigurðar Líndals að menn hefðu betur mátt fylgja þeirri stjórnarskrá, sem við höfum haft.

Einkum má þá horfa til ákvæða þeirra er snúa að þrískiptingu ríkisvaldsins. Þar á milli eru mörk og mótvægi ekki tryggilega bundin og auðvelt er að benda á hvernig framkvæmdavaldið hefur seilst æ freklegar inn á svið löggjafans. Dómsvaldið raunar sömuleiðis, þó í miklu minni mæli sé. Á þessum dögum mega menn svo þola það að stjórnmálaflokkur, vinstrigrænir nánar til tekið, álykti um það hvernig framkvæmdavaldið og löggjafinn eigi að taka fram fyrir hendur löggjafans. Þá er ótalið fimmta valdið (fimmta herdeildin?), en svo nefni ég embættismannakerfið, sem smám saman hefur fengið ótrúleg og ábyrgðarlaus völd í gegnum framkvæmdavaldið, ekki síst hvað löggjöf áhrærir.

Efist menn um að pottur sé brotinn í stjórnskipan landsins nægir að nefna eitt dæmi til. Fjölmiðlasumarið 2004 voru samþykkt lög á Alþingi, sem forseti Íslands synjaði svo samþykkis, með þeim afleiðingum að þingið afturkallaði lögin. Látum þá deilu vera, en hitt blasir við að meiri háttar vafi sat eftir um grundvallarstjórnskipan landsins. Öllum völdum verða að fylgja ábyrgð, en halda má því fram að þarna hafi forseti tekið sér ábyrgðarlaust vald. Finna má öndverðar skoðanir, en um hitt verður ekki deilt að þarna leikur vafi á um stjórnarskrána og stjórnskipunina. Sex árum síðar hefur ekki minnsta tilraun verið gerð til þess að eyða þeim óþolandi vafa.

Vandasmíð

Það má því vel halda því fram að Lýðveldinu Íslandi veiti ekki af lagabót á sviði stjórnarskrár. Stjórnarskrá er hins vegar ekki plagg, sem menn hrista fram úr erminni sisona.

Stjórnarskrá þarf að vera hnitmiðuð, á skýru og algerlega ótvíræðu máli, hún þarf að vera skipuleg og knöpp og í henni á ekki að vera neinn óþarfi. Af henni skal öll önnur löggjöf leidd og stjórnskipunin sömuleiðis. Þar þarf að koma fram hvaðan vald ríkisins er runnið og á því þurfa að vera takmörk, svo ríkið setji ekki lög um annað en því kemur við og ríkið taki sér ekki völd umfram þau, sem þegnarnir hafa og geta framselt því.

— Ég hef ekkert vald til þess að banna þér að bora í nefið og því getur ríkisvaldið ekki tekið sér slíkt vald. Ég hef hins vegar vald til þess að banna þér að bora í nefið á mér og framsel ríkinu það vald og skylda það raunar til þess að framfylgja því banni.

— Eins þarf að liggja fyrir að það vald, sem borgararnir hafa framselt til ríkisins, er skilyrt og að láni. Ríkisvaldið getur ekki framselt það vald neitt annað en aftur til þjóðarinnar. Sumt kann hún að vilja framselja annað, en það verður að vera með afturkræfum hætti, því valdið varðar fleiri en eina kynslóð.

Það er enginn vandi að semja glæsilega stjórnarskrá, en það er gríðarlegur vandi að semja stjórnarskrá, sem hald er í. Mörg verstu einræðisríki heims hafa undursamlegar en gagnslausar stjórnarskrár, meðan gegnheil lýðræðisríki geta þrifist án eiginlegrar stjórnarskrár.

Það verður seint hamrað um of á nauðsyn þess að stjórnarskráin sé einföld og ótvíræð. Því má ekki gleyma að smávægilegustu yfirsjónir, hnökrar eða tvímæli í venjulegum lögum geta haft miklar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar þegar fram í sækir. Það á enn frekar við um stjórnarskrá.

Ógæfulegt fyrirkomulag

Ég verð að játa að það fyrirkomulag, sem nú er verið að reyna á, tel ég einkar óskynsamlegt til þess að smíða nýja stjórnarskrá eða betrumbæta hina gömlu. Á stjórnlagaþingi sem þessu er mjög hætt við að lýðskrumarar eða rugludallar taki völdin og að úr verði einhver óskapnaður. Ég hefði talið hálfu skynsamlegra að bjóða út tillögugerð um nýja stjórnarskrá og fela 3-5 hópum hæfra manna að gera drög að henni, sem síðan mætti leggja fyrir eins og 3 stjórnlagaþing og að lokum þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fyrir nú utan hitt, að vilji menn gera gagngerar breytingar á stjórnskipaninni — kjósa framkvæmdavald beinni kosningu, afnema forsetaembættið, skipta þinginu í tvær málstofur, áskilja gagnsæi í stjórnarathöfnum o.s.frv. — er málstofa á borð við stjórnlagaþing afar ósennilegur vettvangur til þess arna. Það mætti eins fela því að semja nýjan þjóðsöng, sem öllum líkaði.

Hér er svo mikið í húfi að okkur liggur ekkert á. Raunar er sérstök ástæða til þess að varast allan flýti og í því uppnámi, sem þjóðin skiljanlega er eftir hrunið, eru aðstæður alveg sérstaklega lítið til þess fallnar, að mönnum auðnist að setja saman skynsamlega, öfgalausa og lýðræðislega stjórnarskrá, sem hald er í.

Þess vegna ríður mikið á að á stjórnlagaþingið veljist skynsamt fólk, sem gerir sér grein fyrir ábyrgð sinni og takmörkunum.

Af helstu áhersluatriðum, sem ég hef séð frambjóðendur leggja fram, þykir mér augljóst að þar skorti víða á skilning á eðli stjórnarskrárinnar, nauðsynlegum ákvæðum og ónauðsynlegum. Að ekki sé minnst á hitt, sem til hreinnar óþurftar gæti verið.

Beinar tillögur um stjórnskipunina eru fremur sjaldgæfar og þær eru flestar fremur loðnar nótur um þjóðaratkvæðagreiðslur, persónukjör og þess háttar. Tillögur um skýra skipan valda og ábyrgðar finnast varla og oft eru þær ósamrýmanlegar. Rætt er um persónukjör og að landið verði eitt kjördæmi, mörgum er í mun að kveða flokkakerfið niður o.s.frv.

Í því samhengi er óhætt að minna á að þrátt fyrir margvíslegar tilraunir undanfarnar aldir, hefur mönnum hvergi auðnast að brjóta niður flokkakerfi fyrir fullt og fast og viðhalda lýðræði. Í lýðræðisríkjum spretta flokkakerfi jafnharðan upp aftur, eins og skiljanlegt er; þau byggjast á almennum lífsviðhorfum fremur en stjórnmálakreddum. Þó ekki sé um formlega flokka að ræða, taka menn með svipaðar skoðanir saman höndum á þingi sem utan þess. Slíkt er ekki unnt að koma í veg fyrir og sérhver tilraun til slíks brýtur vitaskuld á frelsi manna.

Vilji menn auka ábyrgð þingmanna og taka upp persónukjör verður því hins vegar trauðla við komið nema með einmenningskjördæmum. Breyti menn landinu í eitt kjördæmi er það hins vegar vísasti vegurinn til þess að slíta þingmenn úr tengslum við umbjóðendur sína, gera þá ábyrgðarlausa og knýta þá fastari böndum við flokksskrifstofurnar eða oddvita flokkanna.

Mannréttindaákvæðin burt!

Þegar frambjóðendur reifa stefnumál sín er algengast að sjá einhver hástemmd orð um hvernig þeir vilji tryggja fagurt mannlíf með hinum ýmsu „mannréttindaákvæðum“. Það rímar svo sem ágætlega við hugmyndir þeirra margra um einhver furðuleg stefnuákvæði um að Ísland skuli vera svona eða hinssegin. Þeir gætu eins reynt ákvæði á borð við: „Ísland er ævintýraeyja, þar sem þegnarnir ganga naktir og lesa súkkulaði af trjánum sér til viðurværis.“

Burtséð frá því hversu skynsamlegar slíkar tillögur eru, þá eru þær beinlínis óviðeigandi: Stjórnarskráin á að vera rammi en ekki pólitísk fyrirmæli.

Ennfremur er ég þeirrar skoðunar að þessi áhersla á mannréttindi í stjórnarskránni bendi til þess að menn séu mjög í viðjum þess vana, sem þeir þykjast vilja losna við. Mannréttindaákvæðin eiga nefnilega ekki heima í stjórnarskrá, en eru þar flest fyrir sögulega hendingu, sem rekja má til uppruna hennar í konungsríki.

Hlutverk stjórnarskrár ætti að vera hverjum manni ljóst, það stendur í nafninu. Stjórnarskráin á að snúast um stjórnskipan ríkisins og annað ekki. Þar inn í geta verið og eiga að vera óbein mannréttindaákvæði, en ekki bein. Þar á ég við það að í stjórnarskrá á að setja ríkisvaldinu hömlur, t.d. með „Hömlur á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða“ og ámóta ákvæðum.

Þar á hins vegar ekki að standa að „Frjáls sé sérhver maður skoðana sinna“, því það kemur stjórnarskrá ríkisins ekki við.

Slík mannréttindaákvæði eiga heima í sérstakri réttindaskrá, sem á að vera óháð stjórnarskránni. Slík ófrávíkjanleg réttindi eru þess eðlis, að um þau er ekki deilt og þeim á ekki að þurfa að breyta nema einhver stórfengleg ný sannindi blasi við mannkyni. En þess vegna þurfa menn líka að gæta sín á að þangað slæðist ekki eitthvert þvaður, að allir menn eigi rétt á hollri hreyfingu, ókeypis afþreyingu, lífshamingju eða því um líku.

Um leið væri þar sleginn tvöfaldur varnagli við því að vond stjórnvöld gætu hróflað við svo mikilvægum grundvelli lýðræðisþjóðfélags. Stjórnarskrárbreytingar eiga eðli máls samkvæmt að vera erfiðar og helst að kalla á aukinn meirihluta atkvæðisbærra manna til þess að minnka líkurnar á því að þeim verði breytt í hugaræsingi eða fyrir stundarhagsmuni. Breytingar á réttindaskrá ættu að vera enn torsóttari, hugsanlega með 4/5 atkvæða þjóðarinnar.

Þess vegna held ég að stjórnlagaþingið gæti gert sjálfu sér og öðrum mikinn greiða með því að byrja á því að úthýsa mannréttindakaflanum öllum og beina þeim ráðum til Alþingis að það hlutist um smíði slíkrar réttindaskrár. Þannig gæti það á fyrsta degi náð umtalsverðum árangri og þrengt hlutverk sitt með þeim hætti, sem líklegri er til árangurs.

Ekki svo að skilja að ég sé bjartsýnn á það. Stjórnskipunarmálin eru flókin og geta verið leiðinleg. Á hinn bóginn er það mun meira freistandi fyrir stjórnlagaþingmennina að eyða sem mestum tíma í smíði óendalega langs mannréttindabálks, sem rímað getur við áhugamál hvers og eins, enda er það þeim útgjaldalítið og einkar vel til þess fallið að kitla hégómagirndina um að komast á spjöld Íslandssögunnar sem einstakir mannvinir, er færðu réttlausri þjóð sinni langþráð réttindi af öllum stærðum og gerðum. Súkkulaði fyrir klæðlausa.

Hvaða fólk á erindi á stjórnlagaþing?

Þegar litið er yfir frambjóðendahópinn fer ekki hjá því að maður skilji sjónarmið „fúla kallsins“. Í þeim stóra hópi er óneitanlega dágott úrval kverúlanta, fólks með patentlausnir og fixídeur, lukkuriddara og sjálfhverfra spekinga, jafnvel þykist ég vita um nokkra sem líta á stjórnlagaþingið sem upplagt tækifæri fyrir sig í þægilegri innivinnu. Ójafnvægi í kynferði frambjóðenda bendir til þess að fólk sé misviljugt til þess að gefa kost á sér og það er ekki ósennilegt að ámóta misvægi sé þegar litið er til skoðana frambjóðenda, enda líklegra að hinir óánægðu foringjar hrópræðunnar bjóði sig fram en einhver úr hinum forystulausa, þögla meirihluta.

En það er líka dágott úrval af prýðilegu fólki, sem tekur sig og hlutverk stjórnlagaþingsins alvarlega. Margt af þessu fólki þekkir maður eða þekkir til. Kynningin á sjónarmiðum þeirra flestra er að vísu oft svo stuttaraleg eða almenn, að það er erfitt að átta sig á uppleggi margra eða hversu vel það fer við sjónarmið manns sjálfs. Yfirleitt getur maður þó áttað sig sæmilega á því. Og svo er það ekki heldur þannig að maður þurfi að vera sammála öllum þeim, sem maður telur að eigi erindi á stjórnlagaþing. Jú, auðvitað vill maður helst sjá sem flest skoðanasystkini sín inni á stjórnlagaþingi, en ég hef líka ríkan skilning á því að þar þurfi fleiri sjónarmið að koma fram.

Því þykir mér mikilvægara að halda rugludöllunum fjarri stjórnlagaþinginu en að þangað veljist aðeins þeir, sem eru yðar einlægum sammála í stóru og smáu. Með slíkum skilmálum myndi þingið enda seint verða fyllt.

Að neðan nefni ég 25 frambjóðendum, sem ég held að geti komið að gagni á stjórnlagaþingi. Rétt er að taka fram að ég er engan veginn sammála þessu fólki öllu í stóru eða smáu. Og ég er örugglega að gleyma einhverjum, sem ég á að vera að nefna… biðst forláts á því fyrirfram.

 

  • 2193 - Eiríkur Bergmann.
  • 2325 - Vilhjálmur Þorsteinsson.
  • 2358 - Þorsteinn Arnalds.
  • 2853 - Þorkell Helgason.
  • 3183 - Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson.
  • 3304 - Hjörtur Hjartarson.
  • 4063 - Garðar Ingvarsson.
  • 4426 - Margrét Dóra Ragnarsdóttir.
  • 4954 - Stefán Pálsson.
  • 5372 - Þorvaldur Hrafn Yngvason.
  • 5614 - Frosti Sigurjónsson.
  • 6186 - Ólafur Torfi Yngvaso
  • 6736 - Árni Björnsson.
  • 7264 - Valgarður Guðjónsson.
  • 7418 - Vilhjálmur Andri Kjartansson.
  • 7649 - Skafti Harðarson.
  • 7682 - Magnea J. Matthíasdóttir.
  • 7726 - Elías Pétursson.
  • 7759 - Elías Blöndal Guðjónsson.
  • 8386 - Guðjón Ingvi Stefánsson.
  • 8749 - Inga Lind Karlsdóttir.
  • 8947 - Patricia Anna Þormar.
  • 9035 - Brynjólfur Sveinn Ívarsson.
  • 9563 - Pawel Bartoszek.
  • 9904 - Elías Halldór Ágústsson.

 


Þetta er alveg að koma, bara aðeins að bíða…

Jóhanna komin eilítið fram yfir tólftu stundu.

Er það ekki merkilegt, að í þessari löngu yfirlýsingu frá ríkisstjórninni, sem á að afsanna gagnrýni formannafundar Alþýðusambandsins (ASÍ) um aðgerðaleysi stjórnarinnar í atvinnumálum, er ekki eitt einasta atriði, sem hefur verið gert? Ekki eitt einasta!

Þetta er allt eitthvað sem stefna ber að eða er komið í vinnuhóp, frumvarp á leiðinni o.s.frv., en til þessa hefur ekkert af því komið til framkvæmda. Hvenær á þetta allt að gerast? Þegar kreppan er búin? Er atvinnuástandið eitthvað sem kom ríkisstjórninni í opna skjöldu fyrir skömmu? Hvar er skjaldborgin, sem átti að slá upp fyrir nákvæmlega ári? Og hvað miðar 100 daga áætluninni? Það eru aðeins 280 dagar síðan henni átti að vera lokið.

Svo er þetta sama lið að gagnrýna Jón Gnarr fyrir að vera grínisti í framboði!


mbl.is Yfirlýsing forsætisráðuneytis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei nei, nei nei, nei.

Icesave, Iceslave… helvítis fokking fokk!

Aldrei hefur framganga stjórnarinnar verið einkennilegri en nú. Jóhanna Sigurðardóttir, sem segist vera forsætisráðherra, gefur út þá tilkynningu í málgagni ríkisstjórnarinnar að hún ætli að sitja heima í þjóðaratkvæðagreiðslunni af því að hún sé markleysa.

Markleysa?! Af hverju skyldi hún vera markleysa? Þarna er kosið um lögin, sem Jóhanna sjálf barðist fyrir með öllum ráðum (og ekki öllum vönduðum) að yrðu samþykkt. Enginn díll í heiminum væri betri. Þau lög — eða álög öllu heldur — væru nú skuldaviðurkenning þjóðarinnar á skuldum, sem sagðar eru tilkomnar vegna falls Landsbankans, Icesave-reikninganna nánar tiltekið. Og þannig stæðu málin, án þess að Íslendingar fengju nokkra rönd við reist, ef forsetinn hefði ekki höggvið á þann hnút með því að synja lögunum staðfestingar. Þess vegna er kosið í dag og þess vegna fengust Bretar og Hollendingar aftur að samningaborðinu.

Kosningin í dag er þess vegna engin markleysa, heldur kærkomið tækifæri fyrir þjóðina til þess að segja álit sitt á lögunum og málatilbúnaði stjórnarinnar. En með orðum sínum var Jóhanna að segja að hún tæki ekkert mark á þjóðinni. Að þjóðin væri marklaus. Við skulum sjá hvort sú traustsyfirlýsing verði ekki ríkulega endurgoldin.

Það var líka furðulegt að sjá forsætisráðherranefnuna, sem treystir sér ekki til þess að taka afstöðu til eigin laga og veigamesta álitamáls íslenskra stjórnmála, hugsanlega lýðveldissögunnar, trega það að málin væru komin í þennan farveg. Einmitt það? Og hverjum skyldi það nú vera að kenna?

Ef þjóðin færi hins vegar að fordæmi Jóhönnu og sæti bara heima, hvað þá? Jú, þá myndu lögin taka gildi. Og Bretar og Hollendingar myndu glaðir í bragði hverfa frá samningaborðunum og bíða þess að íslenska gullið tæki að streyma inn samkvæmt þessum vondu lögum, sem jafnvel forysta ríkisstjórnarinnar játar nú að hafi kannski ekkert verið svo frábær eftir allt saman. Afleiðingar þess væru nánast óhjákvæmilega örbirgð, greiðslufall, brottflutningur og landauðn.

Vandinn er sá að þessi ömurlega Icesave-umræða komst snemma í röng hjólför og hefur ekki komist upp úr þeim síðan. Fyrst og fremst hefur hún nefnilega snúist um tæknileg atriði eins og vaxtakjör á lánum frá Hollendingum og Bretum fyrir greiðslum til Hollendinga og Breta. Það byggir hins vegar á afar veikum og óútkljáðum forsendum um það hvort og hvers vegna Íslendingar ættu að inna þær greiðslur af hendi. Greiðslur, sem að miklum hluta eru tilkomnar vegna einhliða og ógrundvallaðra ákvarðana í stjórnkerfi þessara tveggja landa, sem þau vilja gjarnan að aðrir standi straum af.

Ríkisstjórnin og málaliðar hennar hafa frá öndverðu hamast á því að Íslendingar beri einhverjar þjóðréttarlegar skuldbindningar í málinu, en þeir hafa aldrei greint frá því við hvað er átt.

Þjóðréttarlegt hvað? Fór fram eitthvert fullveldisafsal til Landsbankans, sem gleymdist að segja okkur frá? Og ef þarna var um skuldbindingar að ræða, hvort sem þær væru þjóðréttarlegar eða ekki, af hverju þurfti þá að setjast að samningum um þær og samþykkja ný lög þar að lútandi? Væru skuldbindingarnar til staðar þyrfti ekkert slíkt.

En það er nú mergurinn málsins, að þarna var ekki um neinar skuldbindingar að ræða nema þær sem Tryggingasjóður hafði. Hann naut og nýtur ekki ríkisábyrgðar og má það ekki einu sinni, samkvæmt rammalöggjöf Evrópusambandsins. Fyrir nú utan hitt að það eru ekki mörg ár síðan hér fór fram mikil umræða um einkavæðingu gömlu ríkisbankanna og þar var sérstaklega rætt um mögulega ríkisbáyrgð á þeim. Niðurstaðan var óyggandi sú að sölu bankanna fylgdi ekki ríkisábyrgð og vitnað í reglur EU í því sambandi. Þær hafa ekkert breyst.

Það sem ekki má komast upp
Vandinn er hins vegar sá að aldrei hefur mátt á það minnast að þessi miklu álitaefni og hagsmunamál yrðu útkljáð fyrir dómstóli eða á annan þann hátt, sem menn gera út um deilur um lög og rétt. Þangað til það er gert mun aldrei nást viðunandi niðurstaða um þessi efni, því deilan snýst ekki um tæknileg atriði heldur grundvallaratriði valda og ábyrgðar.

Ástæðurnar fyrir því að Bretar og Hollendingar vilja ekki reka málið fyrir dómstólum eru vafalaust margvíslegar, en fyrst og síðast er þeirra að leita í Lundúnum. Það er nefnilega eins og allir hafi gleymt því að fall íslenska fjármálakerfisins má að mestu leyti rekja til Lundúna og aðgerða breskra stjórnvalda. Það var breska fjármálaráðuneytið sem ákvað að hirða Heritable bankann og Kaupþing Singer & Friedlander og loka Icesave. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur komið í ljós að þessir bankar voru hreint ekki gjaldþrota. Vel má vera að þeir hefðu ratað í megnustu vandræði fyrr en síðar, en þegar þar var komið voru helstu vandamál þeirra óvinveittar aðgerðir breskra stjórnvalda. Og það er vert að gefa því gaum að þar tók breska fjármálaráðuneytið ákvarðanir án þess að bera þær undir fjármálaeftirlitið breska.

Ef til dómsmála kæmi þyrftu bresk yfirvöld hins vegar að aflétta trúnaði af málatilbúnaðinum og það vilja þeir forðast í lengstu lög, einfaldlega af því að hann þolir ekki dagsins ljós.

Getur verið að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu, en vilji af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ekki færa það í tal, hvorki við hin erlendu ríki né íslensku þjóðina? Nóg hefur pukrið og leyndarhyggjan verið í málinu. Minnumst þess að Steingrímur J. Sigfússon laug að þjóð og þingi um það allt, hann vildi bera upphaflega samninginn undir þingið án þess að það fengi að sjá hann og síðan misstu menn tölu á því hversu oft Steingrímur sór og sárt við lagði að „öll gögn málsins“ væru fram komin. Hann er enn að leggja ný gögn fram!

Í fyrrgreindri frétt Fréttablaðsins hélt Jóhanna áfram að bulla um málið: „Sumir virðast halda að málið hverfi ef lögin verða felld en það er mikill misskilningur. Það er líka misskilningur að málið fari beint fyrir dómstóla. Þjóðirnar þrjár verða að standa sameiginlega að slíku en Bretar og Hollendingar hafa alltaf hafnað þeirri leið.“ Nú hef ég reyndar engan heyrt halda því fram að málið hverfi eða að fari beint fyrir dómstóla verði lögin felld. En það er misskilningur hjá Jóhönnu að þjóðirnar þrjár veði að standa sameiginlega að því að koma málinu fyrir dóm. Íslendingar þurfa ekkert að aðhafast sem þjóð í þessum efnum, en telji Hollendingar og Bretar sig eiga fjármuni hingað að sækja þá geta þeir stefnt málinu. Fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Flóknara er það nú ekki.

Nema auðvitað menn telji málið snúast um eitthvað annað, eins og hvar ábyrgðin liggi á hinu gallaða regluverki Evrópusambandsins og framkvæmd þess. Séu menn þeirrar skoðunar blasir jafnframt við að hér ræðir ekki um einhverjar óyggjandi skuldbindingar Íslendinga, hvað þá þjóðréttarlegar.

Hér ber allt að sama brunni, málið er rangt grundvallað frá öndverðu og þar til menn breyta því mun sitja við sama. Íslensk stjórnvöld, bæði þessi ríkisstjórn og sú sem sat á undan henni, létu kúga sig í veikri von um að verða auðsýnd einhver sanngirni. En auðvitað gerðist það ekki. Núverandi ríkisstjórn sendi fullkomna viðvaninga til samningaviðræðna um hluti sem átti ekki að vera að semja um og fannst síðan niðurstaðan alveg frábær fyrst hún var skárri en fyrsta samningstilboð Hollendinga frá vetrarbyrjun 2008. Tær snilld hvað?

Ofan af öllum þessum ósköpum verður að vinda. Það mun vafalaust taka tíma og það verður örugglega ekki sársaukalaust fyrir okkur Íslendinga. En það verður að gera, því ella blasir við óþolandi óréttur og upplausn. Fyrsta skrefið er að segja nei í dag.

— — —

Til þeirra stuðningsmanna Samfylkingarinnar, sem enn vilja fylgja Jóhönnu Sigurðardóttur og sitja heima hef ég þetta að segja: Hrunið og endurreisnin snýst ekki um Jóhönnu Sigurðardóttur. Eða Samfylkinguna. Hvað þá þessa ríkisstjórn. Hún snýst ekki heldur um Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn. Enn síður um útrásarvíkingana eða orsakir hrunsins. Hún snýst um þetta eitt: Vilja Íslendingar una því að þeir sem þjóð taki á sínar herðar allan skaða hrunsins, hverjum sem um er að kenna? Nei, það eiga þeir ekki gera og nei, það mega þeir ekki gera. Annars getum við allt eins hætt þessu basli, gefist upp á því að vera fullvalda þjóð í eigin ríki og gengið einhverjum á hönd. Því um það snúast þessir Icesave-samningar, að gera Ísland að skattlendu. Þá má ekki gerast.


Vélað gegn lýðræðinu — Steingrímur verður að segja af sér

 You can't handle the Truth!

Fregnirnar af tölvupóstsamskiptum Indriða H. Þorlákssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra og þá settum ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, og Mark Flanagan, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í málefnum Íslands, hinn 13. og 14. apríl síðastliðinn, sem Wikileaks hafa birt, eru alveg hreint ótrúlegar. Þar í felast ótal hneyksli á báða bóga. Það er t.d. varla sætt lengur fyrir fulltrúa AGS, sem nú hafa orðið uppvísir að ósannindum og óþolandi starfsháttum.

Stóri skandallinn er hins vegar hjá Indriða og yfirmanni hans, Steingrími J. Sigfússyni, sem hafði sannanlega vitneskju um hvernig í pottinn var búið og við blasir að stýrði ferðinni. Það snýr ekki aðeins að efni málsins, heldur miklu fremur hinu, að þarna var vélað gegn sjálfu gagnverki lýðræðisins.

Í þessu einu veigamesta viðfangsefni Íslendinga kaus ráðherrann að láta þrönga pólitíska hagsmuni sína og ríkisstjórnarinnar ganga fyrir hagsmunum hins opinbera og almennings. Það hlýtur að kalla á tafarlausa lausnarbeiðni Steingríms. Ella hlýtur einhver sómakær þingmaður að leggja fram vantrauststillögu á ráðherrann. Ekki ríkisstjórnina, heldur þennan tiltekna ráðherra, sem með leynimakki, pukri, lygum og falsi tók völdin fram yfir almannaheill.

Í tölvupóstinum hinn 13. apríl segir Indriði afar skýrt að nú verði lausn málsins að bíða, að minnsta kosti fram yfir kosningarnar hinn 25. apríl:

[…] a loan agreement along the previous lines (increased governmental debt) would be politically impossible to accomplish before the election on April 25 and possibly very difficult for a considerable period of time after the elections […]

Vandinn er ekki sá að drápsklyfjarnar séu óaðgengilegar, nei, hann er aðeins sá að þær séu pólitískt erfiðar fyrir ríkisstjórnina. Var einhver að tala um forgangsröðun?

Alvarlegra en Icesave-málið
Þetta er grafalvarlegt mál, mun alvarlegra en sjálft Icesave-málið, því hér var vegið að rótum sjálfs lýðræðisins. Í kosningunum var tekist um ýmis mál, fyrst og fremst uppgjör hrunsins, hverjir bæru ábyrgð á því og hverjir væru líklegastir til þess greiða úr óreiðunni. Þar var Icesave-málið eitt hið brýnasta og mikilvægasta, eins og Steingrímur sjálfur og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þreyttust ekki á að hamra á. Þar mátti engan tíma missa og framtíð landsins sögð hanga á spýtunni.

Kjósendur sárvantaði upplýsingar um framvindu Icesave-málsins til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun í kjörklefanum, en Steingrímur ákvað að leyna þá því; hann ákvað að afvegaleiða þá með þögninni og biðinni. Og þó hann þagði ekki alveg um Icesave; hann sagði „glæsilega niðurstöðu“ í augsýn!

Og það gekk upp, vinstrigrænir unnu sinn glæstasta kosningasigur. En biðinni og þögninni linnti ekki, þó samningunum yndi fram í kyrrþei. Undir lok maí fór þó að kvisast út að lyktir kynnu að vera í nánd og hinn 3. júní var Steingrímur spurður að því á Alþingi hvað Icesave-samningunum liði. Hann kom upp í pontu, en sagði lítið sem ekkert af þeim að frétta. Fullvissaði þó þingheim um að ef svo ólíklega færi að eitthvað gerðist á þeim vígstöðvum yrði þeim vitaskuld gert viðvart:

Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.

Á sama tíma voru hann, Indriði og Svavar að leggja lokahönd á samningana við stjórnarerindreka frá Lundúnum og Haag, en aðeins tveimur dögum síðar lagði hann samninginn fyrir ríkisstjórnina, sem samþykkti hann án þess að menn hefðu fyrir því að lesa hann yfir. Jafnvel ríkisstjórnin var ekki fyllilega upplýst um inntak samningsins, eins og forsætisráðherra átti raunar eftir að reka sig á. En ekki fyrr en búið var að undirrita samninginn í skjóli nætur. Þó ekki án fyrirvara um samþykkt Alþingis.

Alþingi átti að samþykkja óséða leynisamninga
Laumuspilinu var þó langt í frá lokið. Ríkisstjórnin vildi að Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á Icesave-samningum hennar án þess að samningarnir væru birtir þingmönnum, hvað þá aumingja þjóðinni, sem átti að borga fyrir þessa glæsilegu niðurstöðu. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra báru fyrir sig trúnað við Hollendinga og Breta, en á daginn átti eftir að koma að sá trúnaður hentaði aðeins íslensku ríkisstjórninni og svonefndum samningamönnum hennar.

Efni samninganna lak þó út í fjölmiðla, svo sú ráðagerð fór út um þúfur, það þurfti að birta uppgjafarsamningana. Eftir að spunalæknar ríkisstjórnarinnar höfðu gert yfirmönnum sínum grein fyrir að þeir hefðu valdið sjálfum sér verulegum skaða fór Steingrímur allt í einu að tala á þann veg að „auðvitað“ yrði allt uppi á borðum í þessum efnum, allt í kringum samningana yrði birt. En það var ekki þannig. Lögð voru fram skjöl, sem áttu að vera allt heila klabbið, en fljótlega komu í ljós eyður í þeim. Þegar eftir var gengið var játað að eitthvað væri enn ókomið og svo gekk áfram nokkrum sinnum, alltaf átti allt að vera komið upp á yfirborðið og alltaf kom hið gagnstæða í ljós. Loks fór svo að hluti skjalanna var settur í sérstakar möppur, sem þingmenn máttu skoða en ekki taka afrit af, færa til bókar eða vísa í á opinberum vettvangi.

Leyndin og hagsmunir Steingríms
Fyrir slíku geta verið málefnalegar ástæður. Það er hins vegar fróðlegt að hafa í huga að fyrrnefndir tölvupóstar Indriða og Flanagans voru hluti af þeim trúnaðarskjölum. Og þá má spyrja: Hvað í þessum tölvupóstum er svo viðkvæmt að ekki megi sýna nema með eftirgangsmunum í luktu bakherbergi Alþingis og þá aðeins ef þingmenn hafa undirritað sérstakan trúnaðareiðstaf? Er það eitthvað gagnvart viðsemjendunum? Gagnvart AGS? Alþjóðasamfélaginu? Nei, hið eina í þessum póstum sem ekki þolir dagsins ljós eru nákvæmlega þessi vélabrögð gegn lýðræðinu, vel heppnuð tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöður almennra kosninga.

Eftirleikinn þekkja menn svo. Steingrímur fullyrti hvað eftir annað að þetta væru langbestu, mögulegu samningarnir í stöðunni og í þeim væru margvíslegar varnir reistar fyrir Íslendinga. Þegar efast var um það lagði hann „pólitískt líf“ sitt „að veði“ með þeim glæsilegu samningsdrögum og lagði gífurlega áherslu á að hvergi mætti við þeim hrófla. Það gerði Alþingi nú samt og samt tórði Steingrímur. Þegar Bretar og Hollendingar höfðu skoðað fyrirvara Alþingis breyttu þeir þeim bara aftur og sendu til Steingríms til þess að láta Alþingi stimpla. Þá bar svo við að Steingrímur — þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um ágæti upphaflega samningsins — sagði að þessi útgáfa væri jafnvel enn betri og hagfelldari fyrir Íslendinga en sú fyrsta og sú önnur með fyrirvörunum! Án þess að blikna.

Er manninum fyrirmunað að koma hreint og beint fram í þessu máli?

Fjármálaráðherra er ekki trúandi um neitt lengur
Í ljósi þess hvernig Steingrímur  hefur opinberað sig sem raðlygara í Icesave-málinu er óskiljanlegt að nokkur maður, hvað þá fjölmiðlar og þingheimur, skuli taka við nokkrum athugasemdum frá honum um Icesave (eða annað) án þess að krefjast skjalfestra og vottaðra sannana þar um.

Mér þykir því einsýnt að hann verði að biðjast lausnar, ellegar þola vantraustsumræðu (það væri raunar athyglisvert að sjá hvaða þingmenn vilja taka þátt í lygavefnum hans svona eftir á). Það er niðurlæging fólgin í því, en þó skárra en hitt sem gæti beðið hans. Og Indriða, gleymum ekki ábyrgð hans í málinu.

Í þessari sömu viku í apríl tók Morgunblaðið viðtal við Steingrím og hvað skyldi hann hafa helst að segja því?

Fólk vill heiðarleg, hreinskiptin og opinská stjórnmál.

Það var einmitt það. Framhaldið var líka athyglisvert í ljósi annarra viðburða:

Ég held að það sé borin virðing fyrir því að við segjum það skýrt fyrir kosningar hvað við teljum að gera þurfi að loknum kosningum. Okkar tillögur í skattamálum sem og öðrum eru mjög hófstilltar og ábyrgar.

Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.

Stjórnin á einn sjens enn
En er ekki stjórnin fallin og allt í voða ef Steingrímur fer? Nei, í lýðræðisþjóðfélagi eru engir ómissandi menn. Allra síst af þessari sortinni. Það vill raunar svo til að vinstrigrænir eiga óþreyttan forystumann á hliðarlínunni, sem er þekktur fyrir hreinskiptni og að standa við sín prinsipp. Lausan við valdafíkn. Ekki bara í orði, heldur líka á borði.


mbl.is Icesave-póstar á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei er svarið

Senn verða atkvæði greidd á Alþingi um Icesave-uppgjafarsamningana. Mikið hef verið látið með fyrirvara þá, sem fylgja eiga samþyktinni, en þeir munu einu gilda. Á þeim mun enginn taka mark, en hið eina sem upp úr stæði væri viðurkenning þingsins á ábyrgð ríkisins. Hún er engin núna, en með samþykkt þingsins á samningunum myndi hún loks liggja fyrir og allt annað yrði samkomulagsatriði, þar sem Íslendingar væru einvörðungu þolendur og stjórnvöld í Lundúnum og Haag gerendur. Það má ekki verða.

Þess vegna er svarið nei. Það er hið eina rétta sem góðir þingmenn og góðir Íslendingar geta til þeirra mála lagt. Sérstaklega þeir, sem unna frelsi landsmanna og sjálfstæði landsins. Allt annað væru svik við land og þjóð, sem lengi munu verða uppi. Og nú er komið að einstökum þingmönnum að velja og hafna. Vilja þeir skrá nöfn sín á spjöld sögunnar sem þjóðníðingar eða ekki?

Svarið er nei; Íslandi allt!


Gylfi Magnússon byrjar í pólitík

Gylfi Magnússon ásamt umbjóðendum sínum báðum. 

Ég sé að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur ráðið til sín Benedikt Stefánsson sem aðstoðarmann ráðherra. Ég þekki þá báða af góðu, Gylfi var nágranni minn á æskuárunum og Benedikt bekkjarbróðir í Melaskóla, auk þess sem leiðir okkar hafa einnig legið tvisvar saman á starfsævinni. Þeir Gylfi og Benedikt eru báðir skynsamir menn og bæta hvor annan ágætlega upp, Gylfi hefur mest haldið sig í akademíunni, en Benedikt í athafnalífinu, var t.d. hjá deCODE á uppgangstíma þess og nú síðast í greiningardeild Landsbankans. Benni á rætur að rekja til krata (hann er sonur Stefáns Benediktssonar), en ég held að Gylfi hafi staðið nær Sjálfstæðisflokknum, a.m.k. man ég eftir honum á kosningaskrifstofu flokksins í Vestur- og Miðbæ hér til forna. Báðir eru þeir kurteisir menn, með fínlegan (að ég segi ekki lærðan) húmor og kunna að horfa víðar en til sérgreinar sinnar.

Ég set samt sem áður spurningamerki við þessa ráðningu. Jafnvel upphrópunarmerki líka.

Gylfi var skipaður ráðherra án umboðs frá kjósendum og rætt um að hann væri „faglegur“ og „ópólitískur“ ráðherra. Á sínum tíma var gefið til kynna að þar að baki lægi einkar göfugar hvatir um nýja stjórnarháttu og að best væri að sem flestir ráðherrar væru sóttir utan þings. Það er önnur umræða, en hins vegar grunar mann að það hafi meiru ráðið um skipan utanþingsráðherranna að stjórnarflokkarnir voru í vandræðum með ráðherraskipan úr þingflokkunum og síðan hafa almannatengslaráðgjafarnir örugglega mælt með því.

Látum það allt samt vera og föllumst einfaldlega á málatilbúnað stjórnarmeirihlutans, að Gylfi sé „faglegur“ og „ópólitískur“ ráðherra. En til hvers í fjáranum vantar hann þá pólitískan aðstoðarmann?

Aðstoðarmenn ráðherra standa eilítið utan við stjórnsýslunna, þeir eru ráðnir beint af ráðherra, án auglýsingar, og engum dylst að þeir eru pólitískir og persónulegir starfsmenn ráðherrans en ekki ráðuneytisins. Ráðuneytisstjórar hafa ekkert yfir þeim að segja og þeir láta sig hverfa úr ráðuneytinu um leið og ráðherrann.

Vanti Gylfa aðstoð til þess að sinna sínum „faglegu“ ráðherrastörfum er urmull af fólki til þess innan ráðuneytisins. Hann þyrfti ekki að sækja neinn til slíkra starfa utan ráðuneytisins nema af því að aðstoðarmaðurinn er pólitískur. Sem þýðir að ráðherrann er pólitískur. Þessi ráðning er viðurkenning viðskiptaráðherra á því. Það blasir við.

Með því er Gylfi auðvitað að taka undir þá gagnrýni, sem að honum hefur verið beint undanfarnar vikur, að hann sé orðinn rammpólitískur. Það hafa menn ekki síst þótt merkja af einarðri og pólitískri vörn hans í Icesave-vandræðum ríkisstjórnarinnar, en auk Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra er Gylfi eini ráðherrann, sem hefur haldið uppi vörnum fyrir þann vonda málsstað.

En gott og vel, af hverju skyldi Gylfi ekki vera pólitískur eins og hver annar? Jú, það er vegna þess að hann er ókjörinn. Embættismannsígildi, var okkur sagt. Þrátt fyrir að kosið hafi verið til Alþingis síðan Gylfi varð ráðherra vildi hann ekki taka sæti á framboðslista, þó honum hafi verið boðið það. Hann er sumsé að seilast lengra en að var stefnt, tekur þátt í hinni pólitísku orrahríð, án þess að gefa kjósendum færi á að veita sér umboð, hvað þá að þeir geti svipt hann því. Það er sama hvað Gylfi reynist arfaslakur, kjósendur geta ekki veitt honum lýðræðislegt aðhald.

Þetta er nokkur vandi. Sams konar vandi og ég hygg að hafi gert hrunið eins ömurlegt og raun ber vitni, þar sem samhengið vantaði milli valda og ábyrgðar.Þarna þarf Gylfi að gera upp við sig hvort hann ætlar að vera „faglegur“ og ópólitískur ráðherra eða hella sér út í pólitík. En hann getur ekki gera hvort tveggja. Nú þegar hann hefur valið að vera póltískur ráðherra skuldar hann þjóðinni svör um það í hvers umboði hann sitji. Hver veit nema honum gefist kostur að sækja sér það fyrr en varir.


mbl.is Ráðinn aðstoðarmaður viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðildarviðræður við vinstristjórnina?

Forysta Sjálfstæðisflokksins í þinginu.

Ég sé í Orðinu á götunni á Eyjunni, að þar telja menn víst að tillagan um aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði samþykkt á Alþingi nú á eftir. Ég ætla mér ekki þá dul að spá fyrir um það, en það má ljóst vera að afar mjótt er á mununum og getur hæglega farið á hvorn veginn sem er.

En ég hnýt um það að sagt er að einhverjir þingmenn Sjálfstæðisflokksins kunni að styðja málið eftir allt saman og nafn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sérstaklega nefnt í því samhengi. Það finnst mér nú fremur ósennilegt, því þótt Ragnheiður hafi ekki leynt Evrópuáhuga sínum, þá er ekkert í breytingartillögunni um tvöfalda kosningu, sem truflar það. Þvert á móti væri með þeim hætti komið samkomulag á þinginu um ferilinn, þar sem þjóðin er í aðalsæti, í stað þess að tillagan hökti í gegn við áköf mótmæli stjórnarandstöðunnar og við hálfan hug þjóðarinnar.

Með því væri engum dyrum til Evrópu lokað, eins og sumir hafa viljað orða það.

Breytingartillagan skiptir því engu til eða frá fyrir Evrópuunnendur, en pólitískt skiptir hún máli fyrir margsært stolt ríkisstjórnarinnar. Ég hef enga trú á því að Ragnheiður eða aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ákveði upp úr þurru að rjúfa samstöðu þingflokksins í þessu mikilvæga máli, styðji ekki sáttatillögu sjálfstæðismanna og hafi nýsamþykktar landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins að engu.

Færi svo þætti mér raunar tilefni til þess að boða til nýs landsfundar til þess að spyrja viðkomandi þingmann eða þingmenn að því hvers vegna þeir hefðu í senn ákveðið að hundsa stefnu flokksins, bæði eins og hún var boðuð á landsfundi og í kosningabaráttu, en þó ekki síður hvers vegna þeir hefðu snúist á sveif með ríkisstjórninni. Það væru vægustu viðbrögðin, því vel má spyrja hvaða erindi viðkomandi ættu í þingflokknum lengur.

Ég hef hins vegar enga trú á því að forysta Sjálstæðismanna hafi ekki þétt raðirnar í þessu veigamikla máli og að þingflokkurinn standi saman sem einn maður gegn ofríki og offorsi ríkisstjórnarinnar. Annað snerist um aðildarviðræður við vinstristjórnina vanhæfu og vitlausu.


Til varnar Borgarahreyfingunni

Þingmenn Borgarahreyfingarinnar ásamt Þráni Bertelssyni, þingmanni Samfylkingarinnar.

Ég skrifaði m.a. um það í fjölmiðlapistli mínum í Viðskiptablaðið í dag, hvernig mér þættu  sumir miðlanna hafa gengið hart fram gegn Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Borgarahreyfingarinnar, vegna meintra svika hennar við stefnu framboðsins, jafnvel kjósendur. Mér þóttu rökin harla fáfengileg, ekki síst í ljósi opinberrar stefnu Borgarahreyfingarinnar, sem víkur ekki einu orði að Evrópu eða evrunni. Enn frekar væri það þó umhugsunarefni að þessir sömu miðlar, jafnvel fleiri, virtust setja ríkisstjórnarflokkana undir einhvern allt annan kvarða. Að minnsta kosti væri ekki gengið jafnhart að þeim vegna tvöfeldni þeirra í Evrópumálflutningum.

Svo sé ég Staksteina Morgunblaðsins í dag, þar sem veist er að þremur þingmönnum Borgarahreyfingarinnar með offorsi — jafnvel á mælikvarða hinna harðskeyttu Staksteina — og rætt um „ógeðfellda verslunarhætti“, að „sannfæring þeirra sé til sölu“ og þar fram eftir götum. Tilefnið sú ákvörðun þingmannanna að styðja breytingartillögu sjálfstæðismanna við þingsályktunartillögu utaníkisráðherra um aðildarviðræður við ESB, sem snýst um að þjóðin eigi bæði fyrsta og síðasta orðið í þeim efnum: að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild. Það hafa þingmennirnir sagst ætla að gera þvert á fyrri yfirlýsingar, nema ríkisstjórnin taki Icesave-nauðungarsamningana út af borðinu.

Það er fráleitt að tala um að sannfæring þingmannanna sé til sölu. Það er áskilið í stjórnarskrá að engum þingmanni megi setja reglur um hvernig hann ráðstafi atkvæði sínu, þeir séu aðeins bundnir sannfæringu sinni. Það þýðir ekki að í hverju og einu máli verði þeir að greiða atkvæði eins og þeirra innsta hjartans sannfæring í því máli ráði, þar getur fleira komið til, eins og er í þessu máli.

Rætt er um að þeir séu að svíkja „handsalað“ „heiðursmannasamkomulag“, sem þingflokkur Borgarahreyfingarinnar mun hafa gert við stjórnarmeirihlutann, en þeir eru auðvitað ekki lagalega bundnir af því í atkvæðagreiðslu á þingi, frekar en öðrum reglum, þó þeir hafi verið siðferðislega bundir að því leytinu. Hins vegar er með ólíkindum að enginn hinna hneykslunargjörnu farísea hafi bent á að í því samkomulagi felast væntanlega hin upphaflegu hrossakaup, seld sannfæring og það allt! Látum það þó vera og setjum sem svo að það hafi allt verið fagurt og gott. Af hálfu Borgarahreyfingarinnar að minnsta kosti. Menn gleyma því nefnilega að það samkomulag var gert út frá öðrum aðstæðum, aðstæðum sem stjórninni var kunnugt um, en lét vera að upplýsa Borgarahreyfinguna (og alla aðra) um, en það er Icesave-málið, sem tengist Evrópuumræðunni beint. Samningar byggðir á slíku falsi eru einskis virði og Samfylkingarmenn ættu að tala varlega um „heiðursmannasamkomula“ í því samhengi. Eða nokkru samhengi, eins og málum er komið.

Þessir þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar átta sig á því að Icesave-málið er mál málanna á þessu þingi. Verði breytingartillaga sjálfstæðismanna samþykkt er engum dyrum lokað í Evrópumálinu, öðru nær. Þá mun liggja fyrir þingsályktun um aðildarumsókn að undangengum kosningum, sem maður skyldi ætla að styrkti umsóknina veiti þjóðin umboð sitt. Það kann að fresta umsókninni í 3-6 mánuði, en í ferli, sem að öllu jöfnu tekur 5-7 ár, skiptir sá tími engu máli til eða frá. Ekki fyrir efni málsins. Kannski ríkisstjórninni finnast það einhverju máli skipta fyrir eigið sjálfstraust og sjálfsvirðingu, en það er ekki stjórnarandstöðunnar að fóðra ranghugmyndir um það.

Punkturinn er nefnilega sá, burtséð frá því hvað mönnum finnst brýnt að komast í fang ESB eða ekki, að það skiptir engu máli í hinu stóra samhengi hlutanna, hvort óskað er eftir aðildarviðræðum mánuðinum fyrr eða seinna. Jafnvel þó svo þingsályktunin væri felld nú mætti hvenær sem er leggja hana fram aftur. Ríkisstjórnin gæti þess vegna — hefði hún þor til — hafið aðildarviðræður upp á eigin spýtur, það er ekkert sem segir að hún þurfi að leita heimildar þingsins til þess, aðeins að hugsanlegan samning yrði að bera undir það. Og þjóðina ef marka má pólitísk fyrirheit allra flokka.

Það er hins vegar nú eða aldrei að stöðva Icesave-uppgjafarsamningana.

Óþarfi er að rekja hvernig ríkisstjórnin hefur hrakist úr hverju víginu í annað í þeim efnum, þar sem ósannindi og óheiðarleiki, mistök og heimska, fyrirhyggjuleysi og forlagatrú virðast hafa ráðið ferðinni. Sérfræðingar hins opinbera og í einkageiranum eru enn að upplýsa um ótrúlega vankanta á samningnum og hinni pólitísku samfélagsumræðu er langt í frá lokið. Allt, sem fram hefur komið (og það er alveg örugglega ekki allt!), bendir til þess að Íslendingar eigi hugsanlega ekki að bera þennan skuldaklafa yfirleitt, eigi altjent ekki að bera hann einir og að einstaklega óhönduglega hafi tekist til um samningsgerðina.

Þess vegna á ekki og má ekki staðfesa Icesave-uppgjafarsamning ríkisstjórnarinnar, sem gæti hæglega haft hræðilegar afleiðingar fyrir land og þjóð.

Því átta þau Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari sig á og þess vegna hafa þau gripið til þessa ráðs, sem þeim er greinilega óljúft. Hafi þau þökk fyrir, frekar en skammir Staksteina. Sárni þeim þær skammir geta þau minnst þess að Morgunblaðið telur engan aðgöngumiða inn í ESB of dýran, jafnvel ekki þjóðargjaldþrot og landauðn.


Blekkingar á blekkingar ofan

Voru þau að blekkja eða vissu þau ekki betur?

Þarf frekari sannanir fyrir fullkomnum óheilindum ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu?

Hér skýtur upp kollinum skýrsla með allt öðrum áherslum en kynntar hafa verið, en eins og svo mörgu öðru var henni stungið undir stól. Þessa álits Mishcon de Reya (nafn stofunnar er misritað í fréttinni)  er hvorki getið í greinargerð Icesave-frumvarpsins né fylgdi það með í gögnum málsins. Samt taldi stjórnin sér sæmandi að skreyta sig með nafni skýrsluhöfunda!

Þessi vinnubrögð eru með ólíkindum. Frá einni af virtustu lögmannsstofum í Lundúnum kemur álit, sem svo óheppilega vill til að gengur gegn samningsmarkmiðum Breta, Hollendinga og Samfylkingarinnar og þá er það látið hverfa. Ekki fyrir mistök, því sú staðreynd að stofunnar er getið í greinargerðinni sýnir glögglega að ríkisstjórnarflokkarnir báðir þekktu til þess. Nei, henni var vísvitandi komið undan.

Er nema von þó spurt sé í hvers þágu samninganefndin og ríkisstjórnin hafi unnið? Ekki í Íslands þágu, svo mikið er víst. Samningsmarkmið Samfylkingarinnar hafa ávallt verið skýr og byggjast á ímyndun þeirra um að þessu verði megi kaupa hraðferð inn í Evrópusambandið, þó það þýði örbirgð lands og þjóðar. En hvað í skollanum gengur vinstrigrænum eiginlega til? Eru þeir virkilega svona miklir einfeldningar? Þeir ættu að hæðast meira að gáfnafari forsætisráðherrans.

Þetta er allt á sömu bók lært. Allt frá því Steingrímur J. Sigfússon talaði um þá „glæsilegu“ niðurstöðu, sem félagi Svavar Getsson væri að ná, til þess er samningsdrögin voru kynnt. Sú kynning reyndist meira og minna röng, jafnvel um það fáa, sem íslenska samningsnefndin virtist hafa haft til málanna að leggja. Einfaldir hlutir á borð við hvenær íslenskar eignir yrðu losaðar á Englandi eða hvernig vaxtakjörin væru hugsuð. Allt var það ríkisstjórnarrötunum framandi.

Eða það hélt maður. Nú er maður farinn að velta því fyrir sér hvort þau Steingrímur og Jóhanna Sigurðardóttir hafi máske vitað betur allan tímann, en ákveðið að blekkja þjóðina. Gleymum ekki því að Steingrímur var spurður í þinginu um það hvernig samningaviðræðurnar gengu og hann laug blákalt að það væri nú eiginlega ekkert að gerast í því nema svona „könnunarþreifingar“. Þá var verið að ganga frá ósköpunum!

Höfum einnig hugfast að upphaflega ætlaði ríkisstjórnin ekki einu sinni að leggja sjálf samningsdrögin fyrir Alþingi, hvað þá meir. Þingið átti veskú að samþykkja hann og opnasta tékka veraldarsögunnar án nokkurrar vitneskju, umfram fullvissu þeirra skötuhjúa um að samningurinn væri obboslea góður. Það var ekki nema fyrir nokkra harðfylgni hluta þingheims, sem fallist var með semingi á að sýna þinginu samningstillöguna og þá átti helst að skilja þjóðina eftir út undan. Leyndin var sögð að kröfu erlendra viðsemjenda, en þó Steingrímur hafi kallað stöku mann inn á kontór (er hann þá Rauða krumlan?) til þess að sýna þeim tölvupóst er átti að styðja þá fullyrðingu, þá var ekkert handfast um það í honum. Eða samningstillögunni.

Hvað má þá segja um hringlandann með gögnin? Steingrímur sagði að það yrði hvert snifsi birt, nema það sem væri ströngum trúnaði bundið eða fundargerðir. Nú eru fundargerðirnar raunar höfuðgagn í málinu, svo unnt sé að leggja mat á samningsforsendur, sókn, eftirgjöf og málamiðlun, en nei, um það getum við ekkert vitað. Og svo eru auðvitað leyniskjölin sem þingmenn mega aðeins skoða í lokuðu herbergi. Látum það þó vera, því Steingrímur varð auðvitað uppvís að því að leggja ekki einu sinni fram það, sem hann þó sagðist ætla að gera. Þegar eftir var gengið viðurkenndi hann að eitthvað hefði orðið eftir og að úr því yrði bætt. Sem hann sagðist svo hafa gert með því að leggja fram einhverjar þrjár nótur. Þá kemst aftur upp að enn vantar í bunkann! Og nú þessi falda skýrsla! Hvenær mun allt komast upp á yfirborðið?!

Hér í hafa verið svo miklar blekkingar og svik, að þingmenn geta ekki með góðri samvisku samþykkt Icesave-samninginn. Þó ekki væri nema vegna þess að þeir vita ekki hvort þeir viti allt, sem þeir þurfa að vita. Ríkisstjórnin hefur svo margsinnis orðið uppvís að lygum og rangfærslum, leyndarhyggju og pukri, að engin leið er að taka hana trúanlega um neitt í þessu máli.

Þá er órætt um sjálfa samningstillöguna. Hérlendir lögfræðingar segja að hún sé illa gerð, beinlínis gölluð að sumu leyti. Sumt sé þar skilið eftir í lausu lofti og geti haft verulega aukinn kostnað í för með sér, nær örugglega af athugunarleysi! Eru þessi vinnubrögð verjandi? Og eitt enn: Af hverju hefur engum dottið í hug að spyrjast fyrir um fyrri reynslu samningarnefndarmanna af alþjóðlegri samningsgerð? Nógu er svarið stutt.

Þessum samningi verður að hrinda. Það er skylda þingsins.


mbl.is Óvíst um ábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er stjórnarkreppa í landinu

sjs

Það er mikið skrafað um pólitíkina á Íslandi, enda um nóg að fjalla. Samt er það svo að ég hef engan séð fjalla stærsta málið, þá augljósu staðreynd að það er stjórnarkreppa í landinu.

Þetta Icesave-mál verður aðeins einkennilegra eftir því sem tíminn líður, en hvað sem mönnum kann að finnast um efni máls verður ekki hjá því litið að sífellt eru að koma upp fleiri fletir á því, sem stjórnvöld hafa ekki séð ástæðu til þess að færa í tal við þjóðina eða þingið. Ekki svona af fyrra bragði. Það eitt hlýtur að vekja menn til umhugsunar um málstaðinn. Ekki síst þegar sífellt eru að koma í ljós ný og ný atriði varðandi samninginn, sem ríkisstjórnin hefur í besta falli haft rangt fyrir sér um eða misskilið miðað við þá kynningu, sem hún hefur þó leyft.

Þeirri spurningu er einnig ósvarað, af hverju það liggi svona á að samþykkja þennan samning um svo veigamikið mál, sem allir geta verið sammála um að sé hjúpað verulegri óvissu og áhættu. Það liggur á mörgu í íslensku samfélagi, en ekki þessu. Þvert á móti er ástæða til þess að láta af óðagotinu, kynna málið og kanna til þrautar, ræða og gefa þjóðinni kost á því að móta sér upplýsta afstöðu til þess.

Það gengur ekki að Steingrímur J. Sigfússon kippi einum og einum inn á kontór til sín, fullvissi þá um að þetta sé eina færa leiðin, veifi tölvupóstum frá útlendum dándimönnum og segi leyndardómsfullur að ef fólk bara vissi það sem hann vissi, þá væri það sama sinnis. Slík röksemdafærsla innan úr myrkrum stjórnkerfisins (hvar sem er í heiminum) er nánast alltaf fölsk. Eftir allt það, sem á undan er gengið á Íslandi, væri slík leyndarhyggja enda óþolandi. Umfram allt getur Steingrímur ekki leyft sér slík mælskubrögð, til þess hefur hann ekki lengur trúverðugleika. Eftir að hann varð uppvís að því að segja þjóðinni ósatt um Icesave-málið og afvegaleiða þingið eru orð hans ein og sér einskis virði.

Skammir Steingríms
Í því ljósi var afar merkilegt að hlýða á orð Steingríms í hádegisfréttum RÚV í gær, þar sem hann lagði pólitíska framtíð sína að veði. (Eins og það sé hið mesta, sem lagt er að veði þessa dagana!) Hann hamraði á „yfirgengilegu ábyrgðarleysi“ sjálfstæðismanna og framsóknarmanna ef þeir styddu Icesave-samninginn ekki í þinginu. Hann tók þannig undir furðulegar hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttur um þann flöt málsins, sem hún reifaði í liðinni viku, en munurinn er sá að honum hefur gefist tími til þess að hugsa málið og Steingrímur er enginn einfeldningur.

Augljóst er að með þessu var Steingrímur ekki að ráðast að stjórnarandstöðunni nema rétt fyrir siðasakir. Þessar skammir voru ætlaðar þeim þingmönnum vinstrigrænna, sem ekki vilja styðja Icesave-samninginn.

Fjármálaráðherrann ítrekaði að sér hefði verið falinn þessi starfi af meirihluta Alþingis og það hefði hann gert af bestu getu. Með þessu var hann að ýja að ábyrgð eigin þingflokks og að nú skyldu menn veskú standa við hana. Þetta var heldur aumt klór af því að þó Steingrímur sitji í friði þingflokks síns þá var það hann sjálfur, sem sóttist eftir og fékk þennan tiltekna ráðherrastól í stjórnarmyndunarviðræðum, lagði þá tillögu fyrir þingflokkinn og fékk samþykkta. En það er deginum ljósara að hann vanrækti að leita samningsumboðs eða samningsmarkmiða vegna Icesave hjá þessum sama þingflokki. Sök bítur sekan.

Þetta offors Steingríms segir alla sögu um vanda hans. Það var nefnilega hann sjálfur, sem í vetur lagði á það alla áherslu að Alþingi hefði með ákvörðun og forræði málsins að gera á öllum stigum. En þá var hann náttúrlega ekki orðinn ráðherra. Hann var hins vegar orðinn ráðherra þegar hann sagði að þingmenn vinstrigrænna væru vitaskuld frjálsir skoðana sinna í þessum málum sem öðrum. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni, það eru einfaldlega of margir þingmenn í hópi vinstrigrænna, sem ekki vilja styðja samninginn; vilja ekki hlýða.

Það er ástæðan fyrir þessum skömmum öllum, það er ástæðan fyrir hinni sérkennilegu biðlun til stjórnarandstöðunnar og það er ástæðan fyrir því að samingurinn var ekki lagður fyrir þingið í gær eins og fyrirhugað var.


Af hverju er Steingrímur svo örvæntingarfullur?
En af hverju er Steingrímur svona heitur í málinu, sem hann hefur augljóslega megna óbeit á? Af hverju telur hann enga betri lausn mögulega? Af hverju spáir hann nánast ragnarökum ef Alþingi skyldi leyfa sér að hafna samningstillögunni?

Engum blandast hugur um að því yrði ekki tekið fagnandi af stjórnvöldum í Lundúnum og Haag ef sú yrði raunin, en það er ekki eins og þau myndu slíta stjórnmálasambandi, setja hafnbann á landið eða leggja hald á allt íslenskt góss. Ég dvelst á Englandi um þessar mundir og af samtölum við stjórnmálamenn, blaðamenn og fjármálamenn leyfi ég mér að fullyrða að ekkert slíkt er í kortunum. Breska ríkisstjórnin hefur enga hagsmuni af því að varpa kastljósi á málið á ný og fráleitt er að gripið yrði til einhverra refsiaðgerða nema fyrir lægi skýr vanræksla Íslands á viðurkenndum og lögmætum skuldbindningum þess. Svo er ekki og svo verður ekki nema Alþingi samþykki Icesave-samningstillöguna, því með henni myndi Ísland eyða óvissu með einhliða ábyrgðarviðurkenningu. Án samþykkis Alþingis hefur samningstillagan ekkert gildi, eins og skýrt er kveðið á um í stjórnarskránni, en viðlíka ákvæði um ráðstöfunarrétt almannafjár eru grundvöllur þingræðis bæði í Hollandi og Bretlandi.

Svo enn er spurt: Af hverju leggur Steingrímur þetta ofurkapp á málið? Svarið við því er einfalt. Hann óttast ekki endalok Íslands — eins og ætti að vera orðið hverjum manni ljóst — heldur endalok ríkisstjórnarinnar.

Stjórnin fellur með Icesave
Nú er það ekki bundið í stjórnarskrá að ríkisstjórn beri að leggja upp laupana þó það komi ekki öllum sínum málum í gegnum þingið, skárra væri það nú. Jafnvel ekki þó um sé að ræða mál, sem stjórnin leggur mest kapp á. Vilji meirihluti þingsins styðja stjórnina áfram til annarra verka situr hún bara áfram.

Vandinn er sá að ríkisstjórninni yrði ekki sætt ef Alþingi hafnaði Icesave-samningstillögu hennar. Ekki af völdum þingsins eða þjóðarinnar, heldur utanaðkomandi áhrifa. Og ekki vegna þess að engin erlend ríki vildu neitt við Íslendinga ræða, heldur vegna þess að engin erlend ríki hefðu neitt frekar við þessa tilteknu ríkisstjórn að tala.

Þá kæmi nefnilega sannleikurinn í ljós, að samninganefndin hafði aðeins samningsumboð frá ríkisstjórninni en ekki þingflokkunum að baki henni. Stjórnin gleymdi því einu sinni sem oftar að hér á að heita þingræði og það kemur í bakið á henni núna.

Stjórnarkreppa Steingríms
Þess vegna er nú þegar stjórnarkreppa í landinu og það skýrir fullkomlega hvers vegna ríkisstjórnin vildi forðast það í lengstu lög að upplýsa þingið um innihald og eðli samningstillögu sinnar. Hún vildi bara fá stimpilinn og engar óþægilegar spurningar.

Af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar er engra slíkra óþægilegra spurninga að vænta, enda stendur þeim hjartanlega á sama um allt annað en þá trú sína að samningurinn þoki landinu nær Evrópusambandinu (þó rök hnígi að því að hann myndi gera aðild enn fjarlægari en ella). Hið sama er ekki upp á teningnum meðal vinstrigrænna. Þar hafa margir þingmenn ríkar efasemdir um samninginn, frá hinu smæsta til hins stærsta, og þess vegna er Steingrímur að reyna að þröngva þingflokknum til þess með skömmum, hótunum og handafli.

Þar er hann sjálfsagt að misreikna sig verulega. Helstu efasemdamennirnir í þingflokknum, fólk á borð við Ögmund Jónasson, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Atla Gíslason, eiga það nefnilega sammerkt að vera ákaft þingræðisfólk. Afar ólíklegt er að það muni láta framkvæmdavaldið beygja sig í þessu, jafnvel þó Ögmundur sé sjálfur hluti þess. Þó hér væri ekki um þjóðarheill að ræða verður að teljast ólíklegt að þetta fólk (og þau eiga fleiri félaga í þingflokknum og ráðherraliðinu) féllu frá grundvallarafstöðu sinni, bara af því að formaðurinn vill það.

Hvað er þá til ráða? Ríkisstjórnin er skuldbundin til þess að leggja samningstillöguna fram í þinginu, bæði við aðra samningsaðila og stjórnarskrána. Drátturinn á að leggja hana fram bendir til þess að ætlaður stuðningur við hana í þingflokki vinstrigrænna hafi minnkað en ekki aukist og því sé loks verið að kaupa tíma í málinu. Í því samhengi skyldu menn ekki vanmeta afdráttarlausa afstöðu mikils meirihluta þjóðarinnar, samblástur á Facebook og þess háttar. Engir vita betur en forystumenn þessarra ríkisstjórnar hvernig slíkur þrýstingur getur dregið kjark úr stjórnarþingmönnum og fellt ríkisstjórnir sem hendi væri veifað. Sem stendur virðist það óumflýjanlegt.

Opinber stjórnarkreppa
Þá tæki við opinber stjórnarkreppa, sem vandséð er að megi leysa á þessu þingi. Margir hafa nefnt að þá yrði þjóðstjórn að taka við, en röksemdirnar fyrir því hafa heldur veikst og hún yrði enn ósennilegri en stjórnirnar, sem á undan gengu, til þess að taka afdráttarlausar og skjótar ákvarðanir, hvað þá óvinsælar. Um leið væri lýðræðinu hætta búin, því hver ætti að veita stjórninni aðhald ef engin er stjórnarandstaðan?

Hugsanlega gæti núverandi ríkisstjórn reynt að auka meirihluta sinn og mynda nýja stjórn með Borgarahreyfingunni, en ósennilegt verður að teljast að erlend stjórnvöld myndu fallast á að þar væri komin ný stjórn með grundvallaðra eða marktækara samningsumboð en hin fyrri. Hvað þá að slík stjórn væri líklegri til sveigjanleika varðandi samninga um Icesave. Hið sama ætti við ef reynt yrði að fá Framsókn til liðs við stjórnarflokkana.

Tæknilega gætu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndað tveggja flokka stjórn, en þess er enginn kostur sakir djúpstæðs og gagnkvæms vantrausts sem að líkindum mun taka áraraðir að græða. Þá er sá kostur eftir að mynda stjórn sjálfstæðismanna, vinstrigrænna og framsóknarmanna. Að mörgu leyti ættu þeir flokkar að geta náð vel saman um flest helstu viðfangsefni landstjórnarinnar, ótruflaðir af Evrópudraumum Samfylkingarinnar. Vandinn væri fremur persónulegs eðlis. Steingrímur hefur hvergi hlíft forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna — öðru nær — og þeir verið óhræddir við að standa uppi í hárinu á honum. Sérstaklega hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verið harður í horn að taka (Bjarni Benediktsson hefur hófstilltari stíl) og öllum augljóst að þar á milli ríkir gagnkvæmt óþol.

Þannig að við blasir óleysanleg stjórnarkreppa, sem aðeins má leysa með því að ganga til kosninga að nýju og er það þó ekki öruggt. Þingstyrkur flokkanna myndi örugglega breytast nokkuð, en alls væri óvíst að hlutföll á þingi breyttust nógu mikið til þess að hafa afgerandi áhrif á möguleg stjórnarmynstur. Á það að bætast við Íslands ógæfu?

Lausn Steingríms
Lykillinn að lausninni kynni að felast í fyrrgreindum orðum Steingríms um að pólitísk framtíð hans væri lögð að veði með Icesave-samningnum. Felli þingið samninginn er stjórnin í raun fallin, en við bætist fyrirheit Steingríms um að fallast á eigið sverð. Ef hann er úr sögunni væru líkurnar á stjórnarmyndun Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs og Framsóknarflokksins allt aðrar og betri, en jafnframt gæti sú stjórn horft blákalt framan í erlenda viðsemjendur, sem enga ástæðu hefðu til þess að neita samningaumleitunum væri sú raunin. Það gæti gerst án þess að boða þyrfti til kosninga.

Væru vinstrigrænir reiðubúnir til þess að ganga til samstarfs við sjálfstæðismenn? Það yrði mörgum þeirra afar erfið spor og hin nýja flokksforysta myndi baka sér mikla óánægju í grasrótinni. En hún gat myndað stjórn með Samfylkingunni, sem einnig var á vaktinni í hruninu, og vinstrigrænir hafa löngum haft megnustu skömm á. Hafi hún þá fjöður í hatti sínum að hafa afstýrt Icesave-samningnum — jafnvel þó að Steingrímur og Svavar hafi smíðað hann — yrði samstarf við íhaldið sjálfsagt skjótt fyrirgefið, svo framarlega sem frekari hörmungar dyndu ekki yfir.

— — —

Það er þó ekki útilokað að stjórnarkreppan linist fyrr en varir. Kannski þingmenn vinstrigrænna lyppist niður undan barsmíðunum og setji íslenska þjóð frekar í hættu en blessaða ríkisstjórnina. Það væri þó skammgóður vermir og það vita þeir mætavel. Icesave-samningur gæti hæglega kveikt elda á Austurvelli á nýjan leik. Þeir gera sér einnig grein fyrir því hversu illa getur farið við framkvæmd samningsins með ólýsanlegum hörmungum fyrir þjóðina. Síðast en ekki síst vita þeir þó að slík svik yrðu flokknum seint fyrirgefin; ekki aðeins myndi lausafylgið sópast af honum, heldur myndi verulegur hluti flokkskjarnans fyllast viðbjóði og fara.

Þingmennirnir myndu og vita það líkast til væri pólitískur ferill hvers og eins þeirra á enda, þeir hafa afar nýlegt dæmi um það frá flokksformanni sínum hversu skjótur, snarpur og sársaukafullur trúnaðarbrestur við kjósendur er. Orðstírinn, sem Steingrímur hafði byggt upp á 26 árum í þinginu, að þar færi orðhvass og tæpitungulaus, orðheldinn og áreiðanlegur maður, þurrkaðist út á nokkrum mínútum þegar hann sagði þinginu og þjóðinni ósatt um gang Icesave-viðræðnanna. Ósannindi, sem hann mátti vita að hann yrði uppvís að innan nokkurra klukkustunda eða dægra, eins og raunin varð.

Þess vegna búum við nú við stjórnarkreppu og það er á valdi Steingríms sjálfs að leysa hana. Ekki með því að leggja pólitíska framtíð sína að veði, heldur með því að binda enda á hana. Ekki með því að leggja þjóðina að veði, heldur með því binda enda á stjórnina. Með því myndi hann leysa flokk sinn úr pólitískri kreppu í stað þess að hneppa þjóðina í ánauðarfjötra.


Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband