Leita í fréttum mbl.is

Vandamál Króniku

Í og með í framhaldi síðustu færslu: Sumir verið að spyrja mig hvað mér finnist um Krónikuna. Sjálfsagt vonast einhverjir til þess að ég hrauni yfir blaðið af því að ég hef látið í ljós tilteknar efasemdir um dómgreind ritstjórans við önnur tækifæri. En mér finnst það ástæðulaust og raunar ósanngjarnt að taka Krónikuna til kostanna út frá því hvernig fyrstu tölublöðin eru. Þó að þau hjónin, Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Valdimar Birgisson, hafi tekið sér drjúgan tíma til þess að undirbúa útgáfuna, á blaðið enn eftir að slípast og það er rétt að gefa því nokkrar vikur áður en menn fara að kveða upp mikla dóma.

Vandi Krónikunnar er þessa dagana sjálfsagt helstur sá að vikuritið stendur ekki fyllilega undir þeim væntingum, sem ritstjórinn kynti undir í aðdraganda útgáfunnar. Ég held hins vegar að flestir hafi gert sér grein fyrir að þar talaði Sigríður Dögg í nokkrum gleiðboga og það er mjótt á milli metnaðar og ofmetnaðar. Ef við leiðum það hjá okkur hvaða undrum og teiknum var lofað kemur ekki að sök þó ekki sé skúbb á hverri síðu (eða nokkurri síðu ef því er að skipta).

Hitt er verra, að mér finnst Krónikan ekki bæta nógu miklu við fjölmiðlaflóruna og ekki með nógu afgerandi hætti. Þar er eftir litlu að slægjast, sem ekki er að finna í öðrum miðlum. Þá er eins og Krónikan hafi ekki gert upp við sig hvort hún er fréttarit eða lífstílsblað með menningarlegu ívafi. En þetta má allt laga með tíð og tíma. Verst er að hann er yfirleitt af skornum skammti, því fjölmiðlar eru mjög viðkvæmir í rekstri og það þýðir ekkert að vera að vonast til þess að horfa á tekjujöfnun á árs- eða ársfjórðungsgrundvelli. Hjá vikuriti verður hver mánuður að vera innan marka. Febrúar og mars eru jafnan erfiðustu mánuðirnir í slíkri útgáfu.

Enn eitt, sem ég á kannski eftir að skrifa meira um í víðara samhengi því það á langt í frá við um Krónikuna eina. Almennt hef ég ekki heyrt annað en hrós um útlit Krónikunnar, sem Bergdís Sigurðardóttir annaðist af natni. Ég get ekki fyllilega tekið undir það hrós. Ekki svo að skilja, að mér finnist það slæmt, síður en svo. Mér finnst það einmitt afar vandað, stílhreint og afgerandi (þó það sé stundum soldið 90s).

Spurningin er fremur hvort það sé viðeigandi. Símaskráin er ekkert hönnunarlegt augnayndi, en hún er hárrétt hönnuð miðað við tilganginn. Sama má segja um auglýsingar Bónuss. Að því leyti finnst mér Krónikan nefnilega of vel hönnuð. Hönnunin gefur lesandanum vísbendingu um að þetta sé vikurit fyrir sama mengi og gúffar Wallpaper í sig með macchiato á Súfistanum. Fyrir vikið er ekki vottur af fréttafnyk af blaðinu, það skortir þá ákefð, mikilvægi og brodd, sem fréttum og fréttasíðum hæfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Óskapleg kurteisi er þetta, maður. Fyrr má nú rota en dauðrota. Ég er búinn að kaupa þessi blöð og það er nákvæmlega ekkert í þessu blaði. Að minnsta kosti get ég ekki séð að fólk hafi þurft að leggja heil ósköp á sig til að skapa þennan "valkost" á fjölmiðlamarkaði. Er fólk virkilega svona dómgreindarlaust að það er tilbúið að gera sjálft sig gjaldþrota? Eða tókst því að plata einhverja sem eiga pening? Ég held að þetta vikurit verði boðberi almæltra tíðinda.

Pétur Tyrfingsson, 5.3.2007 kl. 01:43

2 Smámynd: Andrés Magnússon

Kurteisi kostar ekkert og af því að ég hef sjálfur hrundið allnokkrum blöðum úr vör veit ég sem er að það tekur tíma að koma þeim af stað. Það er nú ástæðan fyrir nærgætninni og stimamýktinni. Yfirleitt má miða við að það taki menn um 3-4 vikur að sníða vankantana af, svo það fer væntanlega að koma á daginn hvort Krónikan er lífvænleg eða ekki.

Ég drep hins vegar eilítið á það, að mér finnst blaðið ekki nógu fréttalegt í útliti og uppleggi raunar líka, en slíkt má laga þó þess hafi engin merki sést enn. Eru þó nægar fyrirmyndir, bæði vestanhafs og austan, sem draga mætti dám af. Ætli The Week væri ekki ákjósanlegust til þess arna?

Mér finnst Krónikan hins vegar fremur líkjast laugardagsmagazíni dagblaðs en vikulegu fréttariti og er efins um þá ákvörðun. Eða saknar einhver Tímarits Morgunblaðsins ákaflega? Hins vegar hef ég trú á því að Hvaðeráseyði-kafli Krónikunnar þurfi ekki mikla fínpússningu til þess að verða býsna góður, jafnvel þannig að hann beri af. Þar er efnisflokkur sem enginn annar fjölmiðill er að gera almennileg skil og maður myndi ætla að eftirspurn væri eftir. Spurningin er þá fremur sú hvort Krónikan höfði að öðru leyti til nógu almenns lesendahóps til þess að hann nái til þeirra, sem helst nýta sér slíkt efni: fólk með rýmilegar ráðstöfunartekjur á aldrinum 18-38 ára. Það eru þrátt fyrir allt ýmsar vísbendingar um að það fólk sé læst.

Andrés Magnússon, 5.3.2007 kl. 10:00

3 identicon

Cactus hlustar á Tim Dog.

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 14:36

4 identicon

Eru einhverjir að lesa þetta blað? Leit á innihaldið í Krónunni og fannst lítið til koma. Dauðadæmt frá upphafi sýnist mér.

Það er rétt hjá Andrési, kurteisi kostar ekkert en hún er sjaldan metin heldur.

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 15:01

5 identicon

Heyrðu, mig langar að gera smá athugasemd við notkun þína á „gleiðbogi“. Orðið sem er notað í enskunni er hyperbole en ekki hyperbola sem þýðist sem gleiðbogi - talsverður munur þar á - þ.e. hyperbola er tengt rúmfræðinni en hyperbole er semsagt notað í merkingunni „ýkjur“. Vildi bara koma þessu að. 

Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 15:13

6 Smámynd: Andrés Magnússon

Nokkur atriði:

Fram hefur komið að Björgólfur Guðmundsson lánaði þeim hjónum fyrir fyrirtækinu, en ekki er ljóst í hverju hann hefur veð.

Ég hef lesið öll tölublöð Krónikunnar til þessa og það er ekki hægt að ganga svo langt, að í því sé ekkert að finna. En eins og ég nefndi vantar ennþá upp á að það gefi lesendum sínum eitthvað, sem þeir ekki finna annars staðar.

Hyperbole og hyperbola eru vitaskuld sama orðið í grísku, ὑπερβολη (vona að grískan virki), sem síðan barst um latínu í mörg önnur mál.

Andrés Magnússon, 5.3.2007 kl. 16:28

7 identicon

Mér finnst svakalega skrýtið að hafa þessardálkahöfundamyndir sem Einar minnist á í Svarthvítu, sérstaklega þegar fyrirsagnir eru skær-appelsínugular og heilsíðu auglýsingar með litríkum portrettum við hliðina. Svolítið einsog fólkið sé dautt, fyrir utan sjálfhverfuna.

 Annars hef ég ekki séð nema fyrsta tölublaðið, sem ég keypti á bensínstöð, eftir að hafa þurft að sannfæra afgreiðslufólkið um að blaðið væri ekki ókeypis, og að ég vildi borga fyrir það.

Völundur Jónsson (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 20:52

8 identicon

„Hyperbole og hyperbola eru vitaskuld sama orðið í grísku, ὑπερβολη (vona að grískan virki), sem síðan barst um latínu í mörg önnur mál.“

 Já ég veit ekki, er ekki fulldjúpt að vera með eitthvað forngrískt orð í kollinum sem hefur tvær afleiddar merkingar (ýkjur og gleiðbogi) og ætla sér svo að nota íslenska þýðingu á annarri afleiddu merkingunni sem þýðingu fyrir hina afleiddu merkinguna? Sérstaklega þegar þú vísar til íslensks-ensks orðasafns þar sem við höfum í enskunni tvö alveg aðskilin orð fyrir þessar tvær afleiddu merkingar?

Kannski er ég svona einfaldur en mér fannst einhvern veginn líklegra að þú værir að ruglast á ensku orðunum hyperbole og hyperbola sem eru ansi algeng mistök og er nú tekið fram í öllum orðabókum að hafa ekki sömu merkingu (og alveg sérstaklega fannst mér þetta líklegt þar sem þú vísar til orðasafns á ensku). Til dæmis stendur í Wikipedia greininni um hyperbole „This article is about a figure of speech, not to be confused with the mathematical term hyperbola.“

Þetta hefði kannski gengið upp ef þú hefðir vísað til íslensks-forngrísks orðasafns (eða íslensks-fransks) en reyndar hefði þetta samt verið heldur tæpt þar sem forngríska orðið hefur upprunalega merkinguna „kast sem er umfram getu“ og svo voru semsagt síðar dregnar af því tvær alls ólíkar afleiddar merkingar, þ.e. ýkjur og gleiðbogi. Ætli það mætti ekki líkja því við þegar fólk er að þýða orðatiltæki úr einu tungumáli í annað. Skemmtilegt ef maður vill vera sniðugur en hjálpar ekki beint við að gera sig skiljanlegan.

Reyndar er hyperbolic í enskunni notað í tengslum við bæði þessi fyrirbæri, gleiðbogann og ýkjurnar.

Andri Thorstensen (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 09:06

9 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Fjári góður pistill hjá Andra. Er þetta ekki málið: Kenna einum og benda öðrum.... Við gerum ekki nóg af þessu.

Ég hélt þó að þetta væri húmor hjá Andrési en ekki vankunnátta. Tengdi þetta strax við hliðstæðt orðatak: að tala í hring. Þannig fékk ég það út í mínum haus að þetta væri býsna hnyttið og fannst þessi vörpulegi blaðamaður hafa búið til nýtt orðtak: að tala í gleiðboga. Kannski misráðið því ekki eru allir jafnvel að sér í engelsku.

Hvað um það. Væri ekki skemmtilegt ef þessi nýsmíði festist í sessi og menn færu að nota orðtakið og leyfa því að þróast:

Ja, nú skautaði Guðmundur Steingrímsson heldur betur geliðbogann í Silfri Egils á sunnudaginn..... Skelfilegt gleiðbogamas er þetta alltaf í þessum verðbréfadrengjum.... Nú held ég að hæstvirtur ráðherra heillist meir en góðu hófi gegnir af gleiðboga skrifstofublóka sinna í fjármálaráðuneytinu og ætti að huga betur að því sem hver maður veit sem horfir í kringum sig....

Ég segi fyrir mig að orðtök sem eru pínulítið langsótt skemmta meir en önnur. Þetta orðtak og notkun á gleiðboga er barasta fjandi skondinn strákar þegar maður fer að leika sér að því.

Það var þó annað sem ég ætlaði að þusa um hér. Með orðinu kurteisi átti ég ekki við kurteisi! Ekki ætla ég Andrés minn að saka þig fyrir að halda ekki mannasiði. Ég átti ekki við það heldur hitt að mér þótti þú klæða gagnrýni þína í alls konar aukaatriði og fyrirvara og greinin minnti mig svolítið á sumar greinar eftir Árna Bergmann í gamla daga þar sem niðurstaðan var engin en mörg sjónarhorn á máli og umræðu sjálfsagt þörf og alveg óvíst hvert stefnir en við vonum það besta.

Ég met þetta blað í samræmi við þann gleiða boga sem finna mátti í leiðara fyrsta tölublaðs. Þar þóttist ritstjórinn vera af nýrri kynslóð blaðamanna sem er færari og frjálsari en þessir vesalingar á gömlu flokksblöðunum. Ja, hérna hér! Ég er nú eldri en tvævetur. Þegar ég var ungur þá las maður eina grein t.d. eftir Björn Bjarnason um eitthvað mál (hann skrifaði langt mál og ítarlegt). Svo tók maður Þjóðviljann og las grein Dags Þorleifssonar um sama mál (hvar er hann núna sá öndvegisöðlingur?) og loks gat maður gengið að því vísu að Tíma-Tóti hefði látið þýða einhverja grein úr útlendri pressu um málið. Eftir lesturinn gat maður haft einhverja skoðun og rifist.

Ég hélt eftir viðtal við ritstjórann að hún ætlaði að gefa út blað fyrir fólk sem nennti að lesa. Svo er ekki. Blaðiði er fyrir fólk sem nennir ekki að lesa. Þess vegna mun það ekki hafa neina sérstöðu og kemur til með að deyja. Ég hef áhyggjur af þessu unga fólki sem stendur að Krónikkunni því mér finnst skítt að fólk sem hefur hugsjón (þó ég telji hana ónýta) þurfi að fara illa út úr því að láta reyna á hana.

Pétur Tyrfingsson, 6.3.2007 kl. 23:50

10 Smámynd: Egill Óskarsson

Mér hefur fundist þetta blað vera allt í lagi hingað til. Ef að Valdimar og Kristínu tekst að marka sig af sem miðils á milli dagblaðanna og mánaðarritanna þá held ég að þau séu búin að hitt á áður óvirkjaða auðlind hér á landi. Við sjáum hvað setur.

Egill Óskarsson, 11.3.2007 kl. 04:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband