Leita í fréttum mbl.is

Andleg eyðimerkurganga stjórnmálaflokka

Nýir tímar? Á traustum grunni?

Í forystugrein Morgunblaðsins í dag er fjallað talsvert um erindi íslenskra stjórnmálaflokka og hugmyndagerjun innan þeirra. Það er raunar gert í lengra máli en tilefni má teljast til, en af því að Styrmir hefur trassað það um helgina að setja ritstjórnarefnið inn á morgunbladid.blog.is leyfi ég mér að setja snilldina inn hér:

Hvar eru hugmyndirnar?
Pólitík byggist á hugmyndum. Ef hugmyndagrunnur stjórnmálaflokkanna er ekki í stöðugri endurnýjun kemur fljótt í ljós, að þeir hafa ekkert nýtt fram að færa. Þetta á við um alla íslenzku stjórnmálaflokkana eins og nú standa sakir.

Það kom mjög fljótt í ljós í sumar, að Samfylkingin kom ekki með neinar nýjar hugmyndir inn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Núverandi ríkisstjórn fylgir í öllum meginatriðum sömu stefnu og fyrri ríkisstjórn. Það hafa engar nýjar hugmyndir komið fram í utanríkismálum, í umhverfismálum, í samgöngumálum, í iðnaðarmálum eða í viðskiptamálum eftir að Samfylkingin gerðist aðili að ríkisstjórn.

Það stendur engin hugmyndaleg endurnýjun yfir í Sjálfstæðisflokknum. Sú endurnýjun að þessu leyti, sem fram fór í Sjálfstæðisflokknum fyrir tveimur áratugum eða svo og mótaði stefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins á síðasta áratug síðustu aldar og fram á þessa öld, hefur runnið sitt skeið á enda. Það hefur ekkert nýtt komið í staðinn. Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn?

Framsóknarflokkurinn er í öngstræti og er ekki búinn að gera upp við sig hvers konar flokkur hann ætlar að verða. En það er að vísu orðið ljóst hvað Framsóknarflokkur Guðna Ágústssonar ætlar ekki að verða. Hann ætlar ekki að verða flokkur sem berst fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Vinstri grænir eru heldur ekki uppfullir af nýjum hugmyndum. Þeir eru ekki búnir að gera upp við sig hvort þeir ætla að vera vinstri eða grænir. Þessi togstreita er sennilega djúpstæðari innan flokksins en margir gera sér grein fyrir.

Frjálslyndir hafa frá upphafi byggt á ákveðinni pólitík í sjávarútvegsmálum og á því hefur engin breyting orðið. Þess vegna þurfa þeir ekki á hugmyndalegri endurnýjun að halda.

Þessi skortur á nýjum hugmyndum stendur öllum íslenzku stjórnmálaflokkunum fyrir þrifum. Þeir hafa ekkert nýtt fram að færa og þess vegna er ekkert merkilegt að gerast á vettvangi stjórnmálanna.

Jafnvel þegar Sjálfstæðisflokkurinn fær loksins yfirráð yfir heilbrigðisráðuneytinu stendur á því að flokkurinn leggi fram nýjar hugmyndir í heilbrigðismálum. Það er vissulega eðlilegt að nýr flokkur, nýr ráðherra og nýir ráðgjafar fái tíma til að móta og leggja fram nýjar hugmyndir en tíminn er að renna út. Kom Sjálfstæðisflokkurinn ekki með neitt veganesti inn í heilbrigðisráðuneytið?

Flokkarnir þurfa allir að taka sig taki og hrista upp í hugmyndabönkum sínum. Annars verður stöðnun í þróun og uppbyggingu samfélags okkar.

Þetta er ekki slæm greining. Ég held að vísu að það sé ekki hægt að halda því fram um flokka í heild sinni, að þar megi engar ferskar hugmyndir finna. Vandinn er fremur sá að þeir hugmyndaríkustu eru ekki í forystu flokka sinna. Ennþá.

Sumir kunna að setja þessa gagnrýni Mogga á Sjálfstæðisflokkinn í samhengi við nótur, sem hann hefur verið að senda hinum og þessum í forystu flokksins og hefði einhverntíman þótt ganga heimsslitum næst að lesa á síðum Morgunblaðsins. Það má vera að því sé þannig farið, en ég held ekki. Eru þetta ekki alveg réttmætar áhyggjur, sem verið er að lýsa? Þegar ég gramsa í eigin skrifum undanfarin ár greini ég vel svipaðan þráð, að forysta flokksins virðist ekki hafa erindi hans á hreinu, umfram það að sjálfsagt fari best á því að hann sé við völd og almennar hugmyndir um að frelsið sé betra en nauðung.

Þetta verður fleirum yrkisefni og ég má til með að benda á færslu Dharma um þetta. Efni henni leynir sér ekki, því fyrirsögnin er Hugmyndafræðileg auðn Sjálfstæðisflokksins. Ég er að vísu ekki alveg sammála því að Sjálfstæðisflokkinn skorti hugmyndafræði. Umfram sjálfstæðisstefnuna skortir hann enga hugmyndafræði, enda eru slík kenningakerfi ávallt stórvarasöm. Hægriflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem frjálshyggjumenn og íhaldsmenn geta setið saman, byggist á lífsviðhorfi en ekki kenningakerfi. Það er hinu megin í hinu pólitíska litrófi sem menn byggja á kreddunni. Með ömurlegum afleiðingum eins og saga síðustu aldar var glöggt dæmi um.

Hitt held ég að sé rétt athugað hjá Dharma, að Sjálfstæðisflokkinn virðist skorta hugmyndir og það má vafalaust að miklu leyti rekja til þess að forysta hans hefur misst sjónar á þeim grunngildum, sem gerðu hann að því afli, sem hann hefur lengst af verið. Slík feilspor geta leitt menn í megnar og langvarandi ógöngur. Slíkar eyðimerkurgöngur geta tekið áratugi áður en menn rata til fyrirheitna landsins.

Án þess að ég skrifi undir allt, sem Dharma hefur fram að færa í þessu skrifi sínu, held ég að það sé skyldulesning allra borgaralega þenkjandi manna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

það skortir sko ekki hugmyndafræðina, heilaþvottinn og fjálglegt blaður innan Dlistans, nei nei, en það vantar eiginlega frekar eitt og eitt verk til að standa undir áframhaldandi bulli og loforðum (ég held að það rætist ekki úr því í bráð en ef hugmyndafræðin sem flestir sjálfstæðismenn aðhyllast væri í alvörunni iðkuð af frambjóðendum flokksins þá væri mér persónulega ekki eins mikill hlátur í hug og mér er núna, þegar mér verður hugsað til ykkar)

grein Dharma sýnir vel frammá hvað þetta er allt mikill brandari hjá þessum blessaða stórkarlaflokki

halkatla, 5.2.2008 kl. 14:39

2 Smámynd: Elías Theódórsson

Sjá www.andriki.is pistil 2.febrúar 2008 um nýlegan skatta hækkunar gjörning hjá X-D.

Elías Theódórsson, 5.2.2008 kl. 17:31

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Eiginlega sammála. 

Góð viðbót hjá þér við pælingar Moggans.

Sigurður Þórðarson, 5.2.2008 kl. 21:21

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Andrés.

"

Frjálslyndir hafa frá upphafi byggt á ákveðinni pólitík í sjávarútvegsmálum og á því hefur engin breyting orðið. Þess vegna þurfa þeir ekki á hugmyndalegri endurnýjun að halda. "

Má til með að benda á það atriði í þessari úttekt sem ekki er í samræmi við niðurstöðu þá að allir flokkar þurfi endurnýjun að halda, þ.e. þessi fullyrðing um Frjálslynda flokkinn.

Sem mér líkar nú nokkuð vel he he.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.2.2008 kl. 00:59

5 Smámynd: Alexander Kristófer Gústafsson

D listinn þarf að fara og alvöru hægri flokkur ætti að koma

Alexander Kristófer Gústafsson, 7.2.2008 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband