Leita í fréttum mbl.is

Fyrst Kjartan, nú Margrét

Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin í stjórnmálunum, einmitt þegar manni hafði skilist að allt ætti að falla í ljúfa löð í miðjusókn allra flokka. Þingflokkur frjálslyndra rak Margréti Sverrisdóttur sumsé sem framkvæmdastjóra sinn í gærkvöldi og fyrr um daginn hafði formaðurinn raunar reynt að bola henni út af flokksskrifstofunni líka.

Hreyfiafl stjórnmálanna er að vísu alltaf valdafíknin og átökin eru einatt harðari eftir því sem völdin eru minni, svo það á ekki að koma fullkomlega á óvart að eitthvað þessu líkt myndi koma fyrir í Frjálslynda flokknum. Tala nú ekki um þegar flestir forystumenn flokksins virðast hafa einsett sér að gera út á mið þjóðernisjafnaðarstefnunnar, en miðað við nýjustu skoðanakönnun Capacent virðast þeir hafa fundið nokkurn hljómgrunn fyrir þeirri stefnubreytingu, fyrst og fremst á kostnað okkar sjálfstæðismanna. (Sjá athyglisverðar heimsendaspár Friðjóns út frá könnuninni.) Margrét hefur á hinn bóginn verið fremst í flokki þeirra liðsmanna frjálslyndra, sem hafa óbeit á slíkum málflutningi. Og þá er hún bara rekin. Á maður að þora að tala um „nótt hinna löngu hnífa“?

Nú er alveg ljóst hvar formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, stendur í þessum djúpstæðu deilum innan flokksins, en hann hefur reynt að halda sig eilítið ofan við þær upp á síðkastið og guðfaðirinn talaði um að Addi væri bara svona aumingjagóður, að hann hefði ekki fengið af sér að setja ofan í við hinn herskáa Magnús Þór Hafsteinsson. En nú er grímunni kastað og stefnir í friðarjól hjá frjálslyndum eða hitt þó heldur. Sjálf rekur Margrét uppsögn sína sem framkvæmdastjóra þingflokksins til Jóns Magnússonar, hæstaréttarlögmanns.

En eru „rasismi“ eða kynþáttaöfgar að grípa um sig meðal frjálslyndra eða hluta flokksforystu hans? Mér hefur sýnst að hér séu tvö sjónarmið á ferðinni, annars vegar almennur beygur gagnvart útlendingum, sem Magnús Þór hefur helst talað fyrir, og hins vegar áhyggjur af sókn íslamista gegn vestrænni siðmenningu, sem Jón Magnússon hefur kveðið fastast að orði um. Orðræða Magnúsar Þórs og félaga er gamalkunn og hefur víða þekkst án þess að menn séu vændir um „rasisma“. Hún hefur á hinn bóginn yfirleitt aldrei fundið sér frjóan jarðveg nema þar sem atvinnuleysi er verulegt og landlægt. Því er nú aldeilis ekki að heilsa hér. Áhyggjur af íslamistum eru svo í eðli sínu ekki „rasískar“, því þær snúa að hugmyndafræði og trú. Sjálfur get ég alveg tekið undir þær fyrir hönd „gömlu Evrópu“, en fæ ekki séð að þær eigi á nokkurn hátt við hér á landi, því hvergi í Evrópu er að finna lægra hlutfall múslima en hér og flestir þeirra eru í hófsamasta lagi, þó sjálfsagt megi finna dæmi um hið gagnstæða.

Þannig að líkast til er fulldjúpt í árinni tekið að tala um kynþáttahyggju meðal frjálslyndra. En það er dagljóst, að forystumenn frjálslyndra eru að gera út á slíkar hneigðir, sem vissulega blunda með mörgum. Það þykir mönnum vitaskuld ógeðfellt, enda hófust nazistar ekki til valda í lýðræðislegum kosningum með því að lofa útrýmingarbúðum í hvern hrepp Þýskalands. En þær komu.

Hitt er svo annað mál til hvers þingflokkur frjálslyndra var að reka Margréti. Kannski þeim hafa þótt vera slíkur skoðanaágreiningur milli þingflokksins og framkvæmdastjóra hans, að ekki væri unnt að reiða sig á að hún myndi vinna fyrir hann af heilindum. En ekki þykja mér það mikil pólitísk klókindi. Margrét er eini forystumaður frjálslyndra með vott af kjörþokka, þó ekki sé þar með sagt að hinir hafi bara óþokka. Vinkona mín orðaði það sem svo, að Margrét væri hin mennska ásýnd flokksins og það er nokkuð til í því, sérstaklega þegar hún er borin saman við spýtukarlana á þingi og í borgarstjórn. Og stjórnmálaskoðanir hennar og áherslur eru með þeim hætti, að hún gæti bæði verið á vinstri kantinum í Sjálfstæðisflokknum og þeim hægri í Samfylkingunni. Báðir flokkar myndu sjálfsagt taka henni fagnandi ef hún vildi hafa vistaskipti, en til ólukkunnar eru báðir búnir að velja í aðalsæti lista sinna fyrir Alþingiskosningar.

Það er greinilega áhættusamara að vera framkvæmdastjóri — aðalritari — íslenskra stjórnmálaflokka en oftast áður. Fyrst Kjartan og nú Margrét. Ég sé að það er boðað til flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju kl. 12.00 á morgun. Ætli það sé ástæða fyrir Skúla Helgason, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, að óttast hrókeringar á þeirri bænastund?


mbl.is Margréti Sverrisdóttur sagt upp hjá Frjálslyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hélt um tíma þegar Andrési Magg. var sagt upp á Blaðinu (eða hætti hann sjálfur, en er samt enn að) að það hefði verið gert til að færi í Valhöll, því Kjartan var að fara (bláa höndin að upplitast). Sé það núna að þetta spark með Margréti er upplagt fyrir Andrés og hann getur þá orðið framkvæmdastjóraklúbbnum með Skúla sem er örugglega ekki á förum, enda nýkominn !

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 1.12.2006 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband