Leita í fréttum mbl.is

Bannsettar tölur og staðreyndir

Umræðan um fátækt á Íslandi hélt áfram í Silfri Egils núna áðan. Þar var áfram deilt um viðmið fátæktar, en mér fannst samt furðulegast að heyra Kristrúnu Heimisdóttur (sem meðal annars er frambjóðandi hjá Samfylkingunni, í framtíðarhópi Samfylkingarinnar til forna, félagi í Viðbragðshóp Þjóðarhreyfingarinnar og lögfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins) æpa það á Illuga Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins in spe, að sjálfstæðismenn væru alltaf að rugla umræðuna með tölum og staðreyndum.

Hvílíkir kveinstafir í opinberri umræðu! En ef menn vilja ekki tölur og staðreyndir, þá hvað? Á að slá því sisona föstu, að hér sé landlæg fátækt og grípa bara til einhverra aðgerða í von um að þær hitti hina fátæku fyrir og bæti hag þeirra?

Nei, ætli það sé ekki affarasælla að menn komi sér saman um grundvallarhugtök og staðreyndir málsins áður en þeir takast á um hvort grípa þurfi til aðgerða og þá hverra. Hér á hamingjuheimilinu rífumst við hjónin t.d. ekki um það allt í einu hvort það vanti mjólk og hversu mikla mjólk þurfi þá að kaupa og hvar eigi að finna peninga fyrir henni og hver eigi að fara út í Þingholt að kaupa hana. Við gáum í ísskápinn og síðan þarf stundum að ræða hvort kaupa eigi tvo potta eða sex, svona eftir því hvort von er á gestum, hvar í vikunni við erum stödd o.s.frv.

Á sama hátt held ég að það sé augljóst, að menn verði að geta sett vandann niður fyrir sér, bæði hvað varðar eðli og umfang, með mælanlegum hætti. Þá fyrst er hægt að ræða skynsamlegar aðgerður til þess að ráða bót á honum og í framhaldinu er þá hægt að mæla árangurinn, ef svo ólíklega skyldi fara að það vefðist fyrir mönnum í fyrstu atrennu að útrýma fátækt.

Til þess þurfa menn að koma sér upp mælikvörðum, þó Kristrúnu kunni að finnast slíkt leiðinlegt. Það segir sig t.d. sjálft að það er eitthvað bogið við OECD-mælikvarðann í fátæktarskýrslu forsætisráðherra ef heimflutningur einhverra af hinum ofboðslega ríku útrásarvíkingum okkar erlendis einn og sér verður til þess að auka meinta fátækt hér, eins og Hjálmar Árnason benti á í sama þætti.

En Kristrúnu varðaði ekkert um það, heldur fannst henni mestu skipta að núa Illuga því um nasir að Davíð Oddsson, fyrrverandi yfirmaður hans, hefði sagt hitt og þetta í umræðu um fátækt á árum áður. En sagðist henni rétt frá? Óekkí. Fyrst minntist hún á orð Davíðs um styrkþega Mæðrastyrksnefndar og síðan að hann hefði efast um það á fundi í Valhöll að Harpa Njáls væri til. En henni láðist að geta samhengisins. Sumsé að Davíð hefði ekki viljað nota lengd biðraðarinnar hjá Mæðrastyrksnefnd sem óyggjandi mælikvarða á fátækt í landinu. Ætli Kristrún sé á öndverðum meiði við hann um það?

Enn síður ferst henni það vel að minnast á Hörpu Njáls, sem dags daglega gegnir raunar nafninu Harpa Njálsdóttir. Davíð var nefnilega að benda á það að bók hennar um fátækt hefði verið ákaflega hampað af fólki, sem hefði viljað slá pólitískar keilur með því en láðst að lesa hana. Þegar menn hefðu svo farið að gera það, hefði í ljós komið að meirihluti R-listans í Reykjavík hefði ekki borið minnstu sökina á bágum kjörum þeirra, sem höllustum fæti stóðu. Um leið hættu kyndilberar vinstriaflanna að tala um hana og hið merkilega var, að fjölmiðlar hættu um leið að tala við hana. Líkt og hún væri ekki til. Var nema von þó spurt væri hvort hún væri til? En það er víst ekki hægt að kenna húmorslausu fólki að skilja húmor.

Allt um það þá hugsa ég að það eigi enn eftir að teygjast á fátæktarumræðunni, þó ekki væri nema vegna viljaleysis vinstrimanna til þess að komast að niðurstöðu um eðli hennar og umfang. Það hentar enda orðræðu þeirra best að láta leiðindi eins og tölur og staðreyndir ekki vefjast fyrir sér, sérstaklega ef þá má þvæla um málið án nokkurrar niðurstöðu fram til 12. maí. En þá geta menn líka áttað sig á því af hversu mikilli umhyggju sú vandlæting er látin í ljós. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Miðgildi talnasafns er fundið með því að raða tölunum eftir stærð og taka svo út töluna í miðjunni, hún er miðgildið eða meðaltal talnanna tveggja næst miðju ef fjöldinn er slétt tala.  Það hefur því sömu áhrif (og hverfandi lítil) hvort Björgúlfur flytur til landsins eða einhver annar sem hefur laun yfir miðgildinu.

Hjalti Sigurjónsson (IP-tala skráð) 18.12.2006 kl. 09:30

2 Smámynd: TómasHa

En þegar Björgúlfur og félagar borga 1000 manns betri laun í kjölfar einkavæðingarinnar hefur það áhrif? En ef 12 þúsund verkaamenn flytja til landsins?  Menn verða að bera saman sambærilegt lýði.

TómasHa, 18.12.2006 kl. 18:05

3 Smámynd: Bragi Einarsson

en mikið rosalega virðist það fara í "taugarnar" á sumum, þegar verið er að benda á fátækt í landinu! Fátækt er staðreynd, þó að hún sé kannski ekki landlæg, en hún er staðreynd engu að síður. Og í okkar "velferðarþjóðfélagi" (sem Andrés og Pétur Blöndal vilja helst leggja niður) þá er það skömm að það sé til fólk sem lifir við sultarmörk!

Bragi Einarsson, 18.12.2006 kl. 20:26

4 identicon

Ef Björgúlfur borgar þúsund manns betri laun hefur það sama og engin áhrif, ef miðgildismaðurinn eða einhver tekjulægri en hann skyldi vera einn þeirra heppnu hoppar sá framar í röðina til verður nýr miðgildismaður, með örlítið hærri laun en hinn fyrri.  Mikill fjöldi láglaunamanna sem koma nýir til landsins gæti lækkað miðgildið aðeins.  En fyrst og fremst mundu þeir líklega stækka þann flokk hefur laun undir helmingnum af miðgildistekjum.

Ég nefndi þetta aðeins vegna þess að mér sýnist Hjálmar, Andrés og fleiri rugli saman tölfræðilegum hugtökum, og fátæktarmælikvarðinn hafi ekki þann annmarka sem þeir vilja vera láta.  Ég vil hins vegar ekki fullyrða að þeir sem eru skilgreindir fátækir eftir þessari aðferð þurfi endilega að vera það.

Hjalti Sigurjónsson (IP-tala skráð) 18.12.2006 kl. 23:01

5 identicon

Mér sýnist að miðgildismaðurinn margfrægi sé með svona 300 þúsund á mánuði... Skoðið bara kjarakönnun VR 2006 og kjararannsókn Hagstofunnar!

Síðan hef ég alltaf gífurlegan vara á þeim sem telja fólk sem er á þingfararkaupi eða því sem næst til hátekjumanna

Kristján Emil Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 09:22

6 Smámynd: Andrés Magnússon

Bragi Einarsson kemst líklega að kjarna málsins þegar hann ræðir um þá skömm að til sé fólk, sem lifi við sultarmörk. Skýrslan segir okkur nefnilega ekkert um það, heldur einungis hlutfallslegan "ójöfnuð" og gengur út frá því sem vísu að alger jöfnuður sé augljóst og ótvírætt markmið.

Andrés Magnússon, 19.12.2006 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband