Leita í fréttum mbl.is

Íslandsflokkurinn

Samfylkingarkonan Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir greinir frá því í bloggi sínum, að hinn nýi flokkur þríeykisins Jakobs Frímanns Magnússonar, Margrétar Sverrisdóttur og Ómars Ragnarssonar muni bera nafnið „Íslandsflokkurinn“. Ég er sammála henni um að það sé stórt nafn Hákot, en gott og vel, stefnumið flokksins munu að líkindum bera þess merki að flokksmenn beri hagsmuni lands ekki síður en lýðs sér fyrir brjósti.

Ég verð hins vegar að játa að ég er mjög forvitinn um það hvaða pól í hæðina hinn óstofnaði flokkur mun taka í málefnum útlendinga. Ég veit ekki annað en að Ómar sé afskaplega umburðarlyndur maður á flestum sviðum og Jobbi frændi er alþjóðahyggjumaður eins og góðum krata sæmir. En hver verða áhrif Margrétar Sverrisdóttur að því leyti? Þegar Frjálslyndi flokkurinn var við það að yfirgefa hana töluðu margir eins og hún hefði tekið vörnina gagnvart hinni xenófóbísku nýju flokksforystu. Því var hins vegar hreint ekki þannig farið eins og heyra mátti á framboðsræðu hennar á flokksþingi frjálslyndra:

Hvað málefni innflytjenda varðar, þá vil ég taka fastar á þeim málum en gert hefur verið hingað til. Það þarf að bregðast skjótt við til að leita lausna á þeim vanda sem óheft flæði vinnuafls hefur þegar skapað. Við megum hins vegar aldrei falla í þá gryfju að taka á málefnum innflytjenda af óbilgirni eða fordómum gagnvart ákveðnum hópum útlendinga.

Engum á að blandast hugur um að Margrét tók þarna undir þau sjónarmið, sem flokkurinn hafði kynnt í vetrarbyrjun. Eini fyrirvarinn, sem hún gerir um það, er að hún telur að ekki eigi að mismuna útlendingum innbyrðis. Með þessu var hún hugsanlega að sneiða sérstaklega að Jóni Magnússyni lögmanni, sem hafði öðru fremur hnykkt á þvi hvernig vofa íslamismans gengi ljósum logum um heimsbyggðina, en henni var sérdeilis í nöp við hann og liðsmenn hans úr Nýju afli, er rutt höfðu sér rúms innan Frjálslynda flokksins skömmu áður. Var framboðsræða hennar mestöll lögð undir aðfinnslur um Jón og lið hans.

En afstaða Margrétar til innflytjenda almennt var hins vegar augljós og í framboðsræðu sinni vék hún raunar sérstaklega að því að ekki væri um neinn málefnaágreining að ræða: „Ég vil nota tækifærið hér og vísa á bug kenningum um að ég hafi búið til einhvern málefnaágreining til þess eins að sækjast eftir valdastöðu innan flokksins.“ Svo ég bíð spenntur eftir málefnaskrá Íslandsflokksins og pólitísku erindi Margétar undir nýjum merkjum.

Mér virðist einsýnt að kjörorð hins nýja flokks verði „Íslandi allt!“; nema þeim lítist betur á „Ísland fyrir Íslendinga“. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Var ekki "Íslandi allt" á sínum tíma slagorð ungmennahreyfingarinnar? Og "Ísland fyrir Íslendinga" var víst upphaflega slagorð hjá Sjálfstæðisflokknum og gott ef ekki Framsókn líka.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.3.2007 kl. 01:28

2 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Og skv. heimasíðu Ungmennasambands Íslands eru kjörorð þes enn þann dag í dag "Íslandi allt".

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.3.2007 kl. 01:30

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þau ættu að fá inni hjá UMFÍ með fundi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 10.3.2007 kl. 01:51

4 Smámynd: Andrés Magnússon

Ungmennahreyfingin gerði „Íslandi allt“ að einkunnarorðum sínum, en það er nú nokkru eldra. Ég man ekki eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi notað „Ísland fyrir Íslendinga“ en rámar í að Framsókn hafi gert það. Snorri Bergs hlýtur að kunna þetta.

Margrét sjálf hafði þau orð að flokkurinn hefði yfirgefið sig. Hún meinti þau ekki sem brechtískt háð, held ég, en mér fannst rétt að halda þessari skýringu hennar til haga. 

Andrés Magnússon, 10.3.2007 kl. 02:30

5 Smámynd: Andrés Magnússon

Notaði Þjóðernisflokkurinn ekki líka „Íslandi allt“? Minnir það endilega.

Andrés Magnússon, 10.3.2007 kl. 02:31

6 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Snorri segir einmitt eftirfarandi um þetta hér:

"The Icelanders differed on political issues as much as other democratic nations. Iceland's largest party, the Independence Party (Sjálfstæðisflokkurinn) was comprised of liberal and conservative elements, which had merged in 1929. Its members published two of the largest newspapers in Iceland, the Morgunblaðið and Vísir. The second in rank was the Progressive Party (Framsóknarflokkurinn), which consisted of farmers and conservative nationalists. This party enjoyed the benefits of the outdated electoral system in Iceland, and once had a solid majority in the Althing, only backed up by some 30% of the votes. Both these parties found many similarities with Nazism. The Independence Party was anti-Communist to a large extent and found in the Nazi Party (NSDAP) a common ground in that matter. On the other hand, the Progressive Party had several policies in common with the NSDAP. In fact, the only significant difference was the totalitarian and repressive nature of the Nazis, which was unacceptable to its Icelandic counterpart. It was in many ways similar to the Swedish Farmers' Party, which was under the leadership of the antisemite K. G. Westman.
    These two parties, especially the latter one, rallied under the slogan of Ísland fyrir Íslendinga - Iceland for Icelanders,39which does in fact have similarities to the Nazi Deutschland über alles."

Ég sá líka einhverju sinni annað hvort stefnuskrá eða lög Sjálfstæðisflokksins frá 1929 þar sem stóð örugglega í fyrstu grein "Ísland er fyrir Íslendinga".

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.3.2007 kl. 20:56

7 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Svo er bara spurningin hvað átt var við með þessu, "Ísland fyrir Íslendinga". Ég held að a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn hafi aðeins átt við með þessu það sama og kom fram í stefnuskrá hans á þessum tíma og lesa má m.a. um í Íslandssaga a-ö eftir Einar Laxness, þ.e. að gæði landsins ættu að vera fyrir landsmenn eina.

Þetta er þannig kannski svipað og með "Deutschland über alles". Merkingin þarna er tvíræð. Upphaflega var ljóðið samið á fyrri hluta 19. aldar af Hoffmann von Fallersleben og boðskapurinn sá að þýzkumælandi fólki ætti fyrst og fremst að líka á sig sem íbúa Þýzkalands fremur en íbúa Saxland, Prússlands, Bæjaralands o.s.frv. Þýzkaland ætti að vera ofar öllu í hugum þess. Nasistunum aftur hentaði vitaskuld að túlka þetta sem svo að Þýzkaland ætti að vera ofar öllu.

Hjörtur J. Guðmundsson, 10.3.2007 kl. 21:03

8 Smámynd: Andrés Magnússon

Held að rétt sé að hafa í huga að á þessum tíma var Ísland enn í ríkjasambandi með Danmörku, þó það væri næsta sjálfrátt um alla hluti nema utanríkismál. Það voru ýmsir að ýta á það að Ísland yrði að huga að sjálfstæðismálunum, enda fyrirsjáanlegt að sambandslögin myndu hníga til viðar 1943. Svo gerðu sumir sér það að leik að ræða þessi mál til þess að stríða krötunum, sem voru svo miklir alþjóðasinnar (les: of nánir systurflokknum í Danmörku) að þeir áttu erfitt með að ræða þau af hreinskilni. Menn geta svo skoðað sér til skemmtunar hverjir voru fremstir í flokki lögskilnaðarmanna 1944.

Í bók sinni A History of the English People bendir sagnfræðingurinn Paul Johnson á það að rauði þráðurinn í Englandssögunni hafi frá örófi alda verið Evrópumálin, hvort sem í hlut áttu Rómverjar, pápistar eða Evrópusambandið. Mætti ekki eins snúa því upp á Ísland? Ég held a.m.k. að Einar Þveræingur ætti auðvelt með að skipa sér í sveit með Heimssýn. Og getur verið að það sé engin tilviljun að arftakar Alþýðuflokksins í Samfylkingunni séu einmitt þeir sem harðast berjast fyrir því að gefa sjálfstæði þjóðarinar upp á bátinn og ganga Evrópusambandinu á hönd? Hið merkilega er að manni sýnast hvatirnar nær því sem gerðist á 13. öld en hinni 20. 

Andrés Magnússon, 11.3.2007 kl. 21:32

9 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Góðir punktar ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 12.3.2007 kl. 01:09

10 identicon

Er eitthvað óeðlilegt við það að Ísland sé fyrir Íslendinga? Má ég minna á að margir menn af erlendum uppruna hafa gerst góðir og gegnir Íslendingar.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 10:23

11 Smámynd: Andrés Magnússon

Nei, auðvitað er ekkert að því að Ísland skuli vera fyrir Íslendinga. Nýja sem gamla. Að minnsta kosti gast fæstum að þeirri tilhugsun að Ísland væri fyrir Þjóðverja á fjórða áratugnum og fram á þann næsta. Eins þekkti maður einn og einn sem sagði að Ísland ætti ekki að vera fyrir „Amríkana“.

Andrés Magnússon, 13.3.2007 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband