Leita í fréttum mbl.is

Röng frétt Ríkisútvarpsins

Ástandið í Líbanon er afar flókið og svo hefur lengi verið. Þjóðin — ef það er rétta orðið — er margklofin eftir sið, uppruna og stjórnmálaafstöðu… í þeirri röð. En það er nú samt alveg hægt að átta sig á grundvallaratriðum málsins án teljandi vandræða. Þess vegna varð ég steinhissa í morgun þegar ég heyrði Hildi Bjarnadóttur lesa aðalfréttina í Ríkisútvarpinu kl. níu. Líbanon og ástandið þar virðist henni fullkomlega framandi. Til þess að glöggva hlustendur á stöðu mála kom eftirfarandi kafli í fréttinni:

Mikil ólga er í Líbanon og valdabaráttan sögð hörð milli þeirra flokka sem fylgja Sýrlandsstjórn að málum og þeirra sem eru henni andvígir. Hezbollar eru í forystu andstöðunnar við Sýrlendinga og staðráðnir að fella ríkisstjórnina sem nýtur stuðnings Bandaríkjanna.

Þessi víðtæka vanþekking tekur þó ekki aðeins til ástandsins suður við Miðjarðarhafsbotn, heldur til enskrar tungu. Fréttin er nefnilega að mestu leyti byggð á fréttaskeyti Reuters og ofangreind málsgrein á að vera þýðing á eftirfarandi:

The killing will heighten tensions between the anti-Syrian government and the pro-Damascus opposition led by Hezbollah, the powerful Shi'ite Muslim guerrilla group determined to topple what it sees as a pro-U.S. cabinet.

Þetta er nú hreint ekki sami hluturinn og fréttin því röng í undirstöðuatriðum.

Hryðjuverkasamtökin Hezballah voru stofnuð af Írönum á sínum tíma til þess að útbreiða hina íslömsku byltingu shíta og eru leppar hennar, eins og best sást á dögunum þegar þau hófu hernað gegn Ísrael til þess að draga athygli leiðtogafundar G8 frá kjarnorkuvæðingu Írana með skelfilegum afleiðingum. Innan Líbanon hentar það þeim hins vegar að draga taum Sýrlendinga, enda fengu Hezballah að grafa um sig óáreitt meðan á hernámi Sýrlendinga stóð og hagsmunir þeirra fara fullkomlega saman, líbönsku þjóðinni til bölvunar.

Það er einnig rétt að halda því til haga að ríkisstjórn Líbanons — hvað sem annars má um hana segja — nýtur viðurkenningar og stuðnings alþjóðasamfélagsins. En af hverju telur Hezballah (eins og RÚV slær síðan föstu með smámisskilningi) að ríkisstjórnin fylgi Bandaríkjunum að málum? Jú, af því að Hezballah hefur neytt hluta ríkisstjórnarinnar til afsagnar og vinir þeirra í Damaskus reyndu að drepa tvo ráðherra til viðbótar í gær. Að vísu tókst aðeins að drepa annan, en ella hefði ríkisstjórnin sjálfkrafa farið frá samkvæmt stjórnarskrá. Þeir sem eftir eru í ríkisstjórninni eru ekki fortakslausir leppar Sýrlendinga og þar af leiðandi augljóslega á snærum Stóra Satans. Eða svo segir RÚV.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband