Leita í fréttum mbl.is

Lánleysi framsóknar

Alveg hefur það verið ámátlegt að fylgjast með áhugaleikhópi framsóknarmanna reyna að tala sjálfa sig upp sem málsvara landvættanna á framhaldsflokksþingi flokks síns með miklum heitstrengingum um ríkisstjórnaslit verði ekki samþykkt stjórnarskrárbreyting um eignarhald náttúruauðlinda. Og hún þarf að ganga í gegn núna á eftir, að manni skilst.

Látum vera að ræða hvaða gildi slík stjórnarskrárgrein hefði ef hún væri lögfest um kaffileytið á morgun. Látum líka vera að ræða hvort hún væri skynsamleg, jafnvel þótt gildi hennar væri ótvírætt. En ef hún er svona bráðnauðsynleg, af hverju í ósköpunum nefndu framsóknarmenn hana ekki fyrr? Eða ætla þeir kannski að klína því klúðri á Jón Kristjánsson, formann stjórnarskrárnefndar, þingmann, fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi ritstjóra Tímans? Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, víkur að bakgrunni málsins í færslu sinni á föstudag, sem rétt er að benda fólki á.

Auðvitað er þetta helber og alger gervimennska hjá framsóknarmönnum. Þeir meina ekkert með þessu, eins og best sést á því að Siv Friðleifsdóttur var falið það hlutverk að ganga lengst í málinu og hóta stjórnarslitum ef ekki yrði farið að þessum lið stjórnarsáttmálans, einmitt núna — loks þegar þeir mundu eftir honum — þegar örstutt er til þingslita og kosningabaráttan að hefjast. Nú hefur grams í kvótakerfinu aldrei verið sérstakt áhugamál framsóknarmanna, alls ekki raunar, þannig að það er ekki nokkur angi þessa máls trúverðugur. Samt er það svo að helstu málsvarar flokksins og forystumenn hafa lagst á vagninn, þannig að maður verður að trúa því að þeir meini eitthvað með þessu. En hvað?

Ég held að þetta sé bara stælar, þeir séu að búa til skyndiágreining við Sjálfstæðisflokkinn til þess að geta betur haldið því fram, að þeir séu sínir eigi herrar. Örvar ofurbloggarans Össurar svíða.

Pólitísk klókindi þessa eru umdeilanleg. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn fari ekkert á taugum út af þessu og það er tómt mál að tala um að orðið verði við þessari síðbúnu „kröfu“ framsóknarmanna. Þá er úr vöndu að ráða. Þeir gætu reynt að leggja fram slíka tillögu í þinginu sjálfir og gætu sjálfsagt fengið stuðning stjórnarandstöðunnar við þann fleyg. En hverjir skyldu þá uppskera mögulegan ávinning þess í kosningum? Ekki framsóknarmenn. Þá gætu stjórnarslit einnig komið til greina, en þá frekar fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins. Hvaða afleiðingar hefði það? Væntanlega hinar sömu og ef fraamsóknarmenn slitu henni: Geir H. Haarde myndi ganga á fund forseta, segja honum tíðindin og bjóðast til að mynda minnihlutastjórn fram að kosningum. Ég hygg að slík stjórn yrði varin vantrausti af öðrum flokkum, sem kærðu sig ekki um frekari truflun á kosningunum en orðin væri og gætu um leið aflað sér trausts fyrir ábyrgðarfulla afastöðu. En um leið væri skrípaleikurinn öllum augljós, sérstaklega kjósendum. Ætli nokkur myndi tapa á þeirri afhjúpun nema framsóknarmenn?

Framsókn má ekki við neinu slíku, svo ég held að þeir leiki ekki gambítinn til enda. Um leið kemur í ljós hversu vanhugsaður hann var, það var aldrei neinn ávinningur mögulegur. Eftir mun standa að í huga almennings verður þetta klúður eini afrakstur flokksþingsins, en hitt sem eitthvert kjöt var í mun aldrei koma honum fyrir sjónir. Framsókn hefur ekki efni á ennþá fleiri glötuðum tækifærum. Flokknum lá á að kynna hvað hann hefði af mörkum að leggja til framtíðar, en ekki hvað hann kannski vildi sagt hafa í fortíð. Þetta dæmigerða lánleysi er ástæðan fyrir því að ég hygg að flokksforystunni geti ekki auðnast að laga flokkinn og ná fyrri tiltrú kjósenda. Það þarf nýja kynslóð til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband