Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
11.6.2008 | 00:59
Hvíti snákurinn kemur
Ég er búinn að vera aðdáandi Whitesnake í 28 ár, æ síðan þeir Jon Lord og Ian Paice gengu til liðs við David Coverdale, sinn gamla félaga úr Deep Purple. Þeir gengu síðar sinn veg, en hápunkti náði bandið líkast til árið 1987 þegar gítarsnillingurinn John Sykes (Thin Lizzy) hjálpaði Coverdale til við að búa til sándið, sem aflaði þeim þeirra vinsælda, sem hljómsveitin lifir enn á. Ég hef fyrir löngu misst sjónar á tíðum mannabreytingunum, enda á Coverdale sveitina rekur og ræður menn eftir þörfum. Núna er hann með gítarleikarana Doug Aldrich (spilaði um hríð með Dio) og Reb Beach (Winger og Dokken), þannig að ég gerði ráð fyrir nóg af rifjárnsgítartilþrifum í bland við hársprey í Laugardalshöllinni, þaðan sem ég var að koma.
Mér kom hins vegar skemmtilega á óvart að bandið hljómaði talsvert nær nútímanum en ég hafði búist við, en án þess að skemma gömlu lögin. Jú, Coverdale er farinn að eldast eilítið, en það kemur ekki að sök nema þegar hann er að reyna að syngja á því háa céi, sem hann tamdi sér 1987-1993. En gamla, góða djúpa blúsröddin er þarna ennþá og þannig naut hann sín best. Það kom vel í ljós snemma á tónleikunum þegar hann tók Fool for Your Lovin' sem var fyrsti alvöru smellurinn með gamla Whitesnake. Seinna komu fleiri gamlir standardar eins og Ain't Gonna Cry No More, Love Ain't No Stranger og Ain't No Love in the Heart of the City. Einnig hljómuðu nokkur ný lög og ljóst að bandið er enn undir áhrifum frá Zeppelin. Mest bar þó á metsölulögunum af plötunni Whitesnake (1987), lögum á borð við Is This Love, Here I Go Again, Crying in the Rain, Still of the Night og Give Me All Your Love. Undir lokin kom Whitesnake svo á óvart með því að taka gamla Deep Purple lagið Burn, með smá viðkomu í Stormbringer. Síðast kom Coverdale einn fram á sviðið og söng Soldier of Fortune einn og óstuddur. Tær snilld.
Tónleikarnir voru miklu skemmtilegri en ég eiginlega þorði að vona. Bandið var þétt, hafði gaman af þessu og stemmningin í salnum var fyrirtak. Íslendingar geta verið kaldir áheyrendur, en Coverdale sjómaður sem hann er átti ekki í vandræðum með að stjórna salnum til dáða.
Ég sá Whitesnake tvisvar á níunda áratugnum í London, og síðan fyrir 18 árum, fyrst á Donington og svo í Reiðhöllinni ef ég man rétt. Skrýtnir tónleikar. Coverdale ekki í miklu stuði en gítarleikararnir Steve Vai og Adrian Vandenberg héldu tónleikunum uppi. Ég missti því miður af seinni tónleikunum þá helgina, því kvöldið eftir var Coverdale lagstur með hálsbólgu og Pétur heitinn W. Kristjánsson gerðist staðgengill hans. Það hefði ég viljað sjá. Fyrir þá tónleika tók ég símaviðtal við Coverdale fyrir Morgunblaðið, sem var einkar ánægjulegt; hann er herramaður og með hærri greindarvísitölu en gengur og gerist í þungarokkinu.
Set af þessu tilefni inn Whitesnake-lagið Crying in the Rain af plötunni 1987, þó fyrri útgáfa á Saints & Sinners hafi einnig verið ágæt. Læt einnig fylgja Soldier of Fortune með Deep Purple, sem Coverdale syngur af innlifun og Ritchie Blackmore leikur á kassagítar af ekki minni tilfinningu. Á þau má hlýða í tónlistarspilaranum efst til hægri hér á síðunni.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.11.2007 | 12:05
Mogginn sannar nauðsyn kristinfræðikennslu
Það er talsvert skeggrætt og kristnina og menntakerfið þessa dagana og ég get alveg tekið undir þá gagnrýni, sem fram hefur komið á frumvarp menntamálaráðherra, þar sem fjölmenningargrauturinn er tekinn fram yfir kristindóminn. Siðmenning okkar og siðfræði, sem byggist á snjallri blöndu kristni, gyðingdóms og grískrar heimspeki með síðari lagfæringum og viðbótum, tekur að mínu viti öllu öðru fram. Hún er samofin íslenskri menningu og þjóðlífi, en það væri beinlínis verið að ala á ranghugmyndum með því að láta öðru vísi. Ég tel að menn ættu að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir kasta því fyrir róða í nafni hins fjölmenningarlega umburðarlyndis. Með því væri verið að höggva að rótum þjóðarinnar og við vitum hvernig rótlausum, skjálfandi, litlum grösum vegnar. Verst af öllu þykir mér þó þessi póst-móderníska nálgun, að allt skuli lagt að jöfnu, en með því er í raun verið að innræta börnum, að stórt séð skipti ekkert nokkru máli.
En síðan sé ég í jólablaðinu, sem fylgdi Morgunblaðinu í dag, að það veitir örugglega ekki af aukinni kristinfræðikennslu í íslenska menntakerfinu. Þar er á síðu 83 að finna viðtal Hrundar Hauksdóttur við Láru Sveinsdóttur, leikkonu, sem fer með hlutverk Maríu Magdalenu í væntanlegri uppfærslu Borgarleikhússins á rokkóperunni Jesúsi Kristi súperstjörnu. Þar gætir óviðjafnanlegs misskilnings, sem er opinberaður í fyrirsögn og inngangi:
Leikur móður Jesú Krists
Borgarleikhúsið setur upp á næstunni Súperstar hina sígildu og kraftmiklu rokkóperu frá 1970. Lára Sveinsdóttir fer með hlutverk Maríu Magdalenu og lék Hrund Hauksdóttur forvitni á að vita hvernig Lára upplifir hlutverk Maríu Magdalenu, móður Jesús Krists.
Það var og. Fyrir utan mismunandi beygingu á nafni frelsarans í fyrirsögn og texta kemur þarna fram ný kenning um uppruna hans. Er virkilega til of mikils mælst að fólk gerir greinarmun á Maríu Magdalenu og Maríu Guðsmóður? Það er ekki eins og menn þurfi að vera doktorar í Nýja-Testamentinu til þess að kunna á því skil, Da Vinci lykillinn ætti að duga. Hér að ofan má hins vegar sjá hluta af málverki Grecos af Maríunum tveimur.
Lára nefnir svo í viðtalinu, að í uppfærslunni komi fram að María Magdalena hafi stundað vændi, en það hefur ekkert að segja; Hrund kippir sér ekkert upp við það að María mey hafi verið hóra, eins og hún hefur skilið það. Engin frétt í því.
Á venjulegum degi væru svona vinnubrögð eftirtektar og ámælis verð. En í jólablaði? Hrund er heppin að kjarni kristindómsins er takmarkalaus fyrirgefning og kærleikur Guðs.
....................
Viðbót 28.XII.2007: Vek athygli á athugasemd frá Hrund Hauksdóttur í athugasemdakerfinu, þar sem hún ber af sér sakir. Rétt skal vera rétt.
Trúmál og siðferði | Breytt 28.12.2007 kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar