Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Forseti á villigötum

Forstjórinn og forseti hans galdra peninga.

Það var gaman að hlýða á forseta lýðveldisins, herra Ólaf Ragnar Grímsson, áðan þar sem hann kynnti „áherslur sínar“ við lausn stjórnarkreppunnar. Sjálfsöryggi hans mátti vel merkja á því hversu oft hann endurtók það, sem hann hafði að segja. Og ef einhver efaðist um hver er aðalkallinn á Íslandi, þá vefst það ekki lengur fyrir honum hver er skoðun herra Ólafs á því. Gaman að hógværðin og sjálfsgagnrýnin, sem hann hét þjóðinni í nýársávarpi sínu, skuli hafa enst í heila 25 daga. Það er nýtt met.

Forsetinn sagði brýnast væri að skapa á ný „samfélagslega sátt í íslensku samfélagi“. Eða hvað menn vildu kalla það, þjóðareitthvað, nýtt Ísland, nýtt lýðveldi eða eitthvað svoleiðis. Í því samhengi kynni einhver að vilja minnast þess hversu vel forsetanum tókst til síðast þegar hann var á þessum buxunum, upptekinn af sínu eigin einstaka hlutverki við að „brúa gjána milli þings og þjóðar“. Ég nenni því ekki að sinni.

En er það verkefni í alvöru brýnast? Ég tek heilshugar undir þau sjónarmið að stjórnkerfi Íslands og helstu stofnanir þjóðfélagsins hafi brugðist; ekki aðeins á síðustu vikum á mánuðum, heldur ræðir hér um samfellda þróun undanfarna áratugi. Þar má tína flest allt til: löggjafann, framkvæmdavaldið og dómsvaldið; fjölmiðla, fræðasamfélag og fjármálamarkað. Og já, meira að segja sjálfan forsetann, þennan æðsta handhafa sannleika og réttlætis. Það, að smíða nýtt lýðveldi, er hins vegar ekki vandalaust verkefni og allra síst ber að flana að því. Nei, hér eru mun brýnni verkefni eins og að bjarga því, sem bjargað verður, koma í veg fyrir gjaldþrot atvinnulífsins, fjöldaatvinnuleysi, gjaldþrot heimila og að fólk missi heimili sín. Að ógleymdu langtímamarkmiðinu, sem er að koma í veg fyrir að hér blasi við landauðn innan nokkurra áratuga, sem er raunveruleg og aðsteðjandi hætta.

En finnist forsetanum brýnast að búa til nýtt lýðveldi, áður en ljóst er hvort hér verður þjóð, hann um það. Hann ætti þó máske að líta sér nær. Væri ekki tilvalið að forsetinn gengi á undan með góðu fordæmi við að skapa hið nýja Ísland með því að axla loks ábyrgð á öllu sínu ömurlega auðmannaflangsi sem brautryðjandi útrásarinnar og segði af sér?

Ef ekki, getur þess verið langt að bíða að búasáhaldabyltingin frelsi Bessastaði?


mbl.is Skapa þarf samfélagslegan frið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband