Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Hr. Rokk, langflottastur!

 Rúnar Júlíusson, hr. Rokk!

Það var sérdeilis ánægjulegt að sjá greifann af Keflavík, sjálfan hr. Rokk, Rúnar Júlíusson, heiðraðan fyrir sitt æviframlag á hátíðarsamkomu Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Rúnni Júl er og hefur alltaf verið langflottastur, sbr. goðsögnina um það þegar hann spilaði með landsliðinu í fótbolta á daginn, með landsliðinu í músík á kvöldin (Hljómum) og gekk svo til náða með Ungfrú Ísland (konu sinni Maríu Baldursdóttur) að loknu ærlegu dagsverki. Til þess að nýta tímann til fullnustu var hann einnig að smíða einbýlishúsum þær mundir. Íslenski draumurinn eða hvað?

Auðvitað hefur tónlistarferillinn ekki verið einstefna alla tíð, skárra væri það nú á 45 árum. En hann er eiginlega eins og Elvis Íslands: fyrir Rúnna var ekkert rokk. Einhverjir reyndu að spila þessa bítmúsík að utan, en það var hann, sem kom með rokkið í íslenska rokkið. Og hann er enn að. Geri aðrir betur!


Er allt að fara til fjandans?

Fé græðist, fé eyðist.

Fyrir rétt tæpu ári þótti mér enginn hafa verið jafntímanlegur og Rannsóknarstofnun um samfélags- og efnahagsmál (RSE) þegar hún gaf út safnritið Þjóðareign um þýðingu og áhrif stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á auðlindum sjávar. Ritið hafði verið nokkurn tíma í smíðum, en kom út einmitt í sama mund og framsóknarmenn sprengdu eina misheppnuðustu kosningabombu íslenskrar stjórnmálasögu, þegar þeir þóttust myndu slíta stjórnarsamstarfinu ef stjórnarskránni yrði ekki breytt í einum grænum. Eftirleikinn þekkja allir.

Mér sýnist Viðskiptablaðið vera við það að slá þetta met, því í fyrramálið kl. 8.00 hefst morgunfundur á Kjarvalsstöðum þar sem leitast verður við að svara þessari spurningu: Er allt að fara til fjandans?

Miðað við ástandið á mörkuðum í dag segir mér svo hugur að mætingin í fyrramálið verði betri en nokkur þorði að vona, þó tilefnið sé að sönnu áhyggjuefni.

Á fundinum verður fjallað verður um íslenskt efnahagslíf út frá forsendum meginstoða atvinnulífsins sem og í þjóðhagslegu samhengi. Horft verður til erlendrar umræðu um íslensk efnahagsmál, fjallað um af hvaða rótum hún kunni að vera sprottin, hvaða hagsmunum hún þjóni og hver áhrif hennar geti orðið. Frummælendur eru þeir Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, sem fjalla mun um alþjóðlega umræðu um íslensk efnahags- og atvinnumál; Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, mun ræða stöðu sjávarútvegsins; Stefán Pétursson, forstjóri HydroKraft Invest, ræðir um  orkufrekan iðnað; Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, talar um framtíð íslenska fjármálageirans; og loks fjallar dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um meginstrauma efnahagslífsins og hvert beri að horfa.

Aðgangur er öllum opinn, en það þarf að skrá sig og er víst hver að verða síðastur til þess. Það geta menn gert með því að smella hér!

 


mbl.is Krónan lækkaði um 6,97%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland á móti lýðræðinu

 

Kínverska fréttastofan Xinhua er ekki ávallt sú áreiðanlegasta, þannig að ekki er öruggt að það sé rétt eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, haft, að Íslendingar geti ekki stutt þjóðaratkvæðagreiðslu Taívana um aðildarumsókn að Sameinuðu þjóðunum, að áformuð þjóðaratkvæðagreiðsla sé mistök og að Íslendingar styðji stefnuna um „eitt Kína“ heilshugar. En það er ekkert ósennilegt að þetta sé rétt hermt hjá Xinhua.

Að því gefnu að svo sé held ég hins vegar að þar sé ráðherrann á villigötum. Má það vera að Lýðveldið Ísland sé á móti þjóðaratkvæðagreiðslum í öðrum löndum? Alveg burtséð frá efni atkvæðagreiðslunnar eða afleiðingum niðurstöðu hennar, sem Ísland getur vel haft skoðanir á, hlýtur það að ganga gegn öllum hugmyndum Íslendinga um erindi sitt í alþjóðasamfélaginu og lýðræðishugsjóninni sjálfri, að leggjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslum.

Málefni Taívans og Kína eru að sönnu flókin og af einhverjum ástæðum hafa íslenskir ráðamenn kosið að binda trúss sitt við alræðisstjórnina í Peking fremur en lýðræðisstjórnina í Taípei. Þessi mikla áhersla á tengsl Íslands við einræðisríkið hafa aldrei verið rædd eða skýrð með fullnægjandi hætti. Vonandi rennur sá dagur upp innan tíðar.

Hitt vekur hins vegar furðu, að utanríkisráðherra Íslands leggi lykkju á leið sína til þess að ítreka stefnuna um „eitt Kína“ í sama mund og blóðið flýtur á götum Lhasa, hinnar fornu höfuðborgar Tíbets. Hvernig ber að skilja þá yfirlýsingu ráðherrans?

Kínversk stjórnvöld hafa gefið mótmælendum í Tíbet frest til mánudags til þess að gefast upp og gefa sig fram. Eftir það verður alþýðuherinn láta koma á sínum himneska friði líkt og 1989. Ef það verður gert með sams konar blóðbaði og fjöldahandtökum er erfitt að sjá hvernig íslensk stjórnvöld geta mótmælt því eftir að hafa svo nýverið ítrekað stuðning sinn við „eitt Kína“. Sá er líka munurinn nú og 1989 — og það á við um flest Vesturlönd — að viðskipta- og efnahagstengsl við Rauða-Kína hafa margfaldast síðan. Í viðtalinu við Xinhua lýsti Ingibjörg Sólrún enda  „yfir ánægju með þróun samskipta landanna tveggja og sagði að miklir möguleikar fælust í frekari samvinnu Íslands og Kína.“ Þeir hagsmunir einir og sér kunna að verða þess valdandi að lýðveldið Ísland þegi þunnu hljóði ef til frekari ódæða kemur í Lhasa.

En Ingibjörg Sólrún og ríkisstjórnin öll má vita að hún talar og þegir ekki í nafni Íslendinga. Það þarf enga þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að leiða það í ljós.


mbl.is Íslendingar styðja ekki SÞ-umsókn Taívan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanreifun stefnda um að kenna?

Úr Hæstarétti.

Enn um þennan dæmalausa dóm í höfundarréttarmáli Halldórs Kiljan Laxness & co. Andspunalæknirinn Guðmundur Rúnar Svansson spyr hvort lyktir hefndarleiðangurs Dunu Laxness gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og Bláu höndinni (biting the hand that fed you?!) megi rekja til vanreifunar  eins þáttar þess. Í dómnum segir (með feitletrunum Guðmundar Rúnars):

Ekki verður talinn á því vafi að ritun ævisögu rithöfundar telst út af fyrir sig viðurkenndur tilgangur í merkingu 14. gr. höfundalaga. Vafinn lýtur að því hvort fullnægt sé öðrum skilyrðum greinarinnar um að tilvísun sé innan hæfilegra marka og rétt með efni farið, sem og hvort áðurnefndum skilyrðum 10. gr. Bernarsáttmálans hafi verið fullnægt. Í sáttmálanum er beinlínis vísað til venja við mat á því hvort tilvitnun teljist heimil og venjur hljóta einnig að skipta miklu við mat á fyrrnefndum skilyrðum 14. gr. höfundalaganna þótt ekki sé bein vísun til venja í ákvæðinu. Hefur gagnáfrýjandi, sem ber fyrir sig undanþáguákvæði 14. gr. höfundalaga, ekkert gert til að leiða í ljós hvaða venjur gilda hér á landi um tilvísanir í verk höfunda við ritun á ævisögum þeirra, hvorki með matsgerð né á annan hátt. Verður hann að bera hallann af skorti á þeim upplýsingum að því marki sem slíkt kann að skipta máli við úrlausn málsins, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ég hjó einnig eftir þessu í dómnum og það er auðvelt að afgreiða það sem vanreifun, en þá verður að hafa í huga að dómur Hæstaréttar byggir á málflutningi í héraði. Af dómsorðinu þaðan verður ekki ráðið að venjan í þeim efnum hér á landi hafi verið sérstakt álitamál. Þar segir:

„Telur dómari stefnda hafa með þessu farið út fyrir hæfileg mörk við meðferð texta Halldórs Laxness er stefndi ritaði verk sitt.“ Þar á dómarinn ekki við samfléttuna heldur að skort hafi á skýra auðkenningu á heimild í hvert sinn.


Ég er út af fyrir sig ekki fyllilega sammála dómaranum um þetta. Í fræðilegri ritgerð eða bók af svipuðum toga kynni það að eiga við, en í bók almenns eðlis — alþýðlegri jafnvel — þar sem mikil áhersla er lögð á lipran texta, samfellda framvindu, fróðleik og  skemmtan væru þau vinnubrögð svo hamlandi og íþyngjandi að eftir stæði mun lakara rit og óaðgengilegra.

Hæstiréttur hefur nú mótað jafnvel enn stífari hefð í þeim efnum, jafnvel þannig að líta má á sem fyrirmæli til rithöfunda um hvernig þeir skuli haga pennum sínum. Það jaðrar við fyrirfram ritskoðun taki maður dóminn til röklegrar afleiðingar og kann að gera út af við þessa tilteknu bókmenntagrein.

Það dómsorð byggir að töluverðu leyti á þessari meintu vanreifun. Í ljósi þess að ekki verður séð að um þann þátt hafi verið fjallað í héraði hefði verið ástæða til þess að taka það til sjálfstæðrar skoðunar í Hæstarétti. Það gera dómararnir ekki, enda fylgja þeir út í ystu æsar þeirri absúrdhefð að forðast eiginlegan málflutning í sölum sínum. Þetta mál sýnir ljóslega réttarháskann, sem fylgir þeirri hefð.

Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að dómararnir taki það til sjálfstæðrar rannsóknar, hvort sem þeir óska atbeina málsaðila við það eða ekki. Af dómnum er augljóst að dómararnir töldu ekki eftir sér að leggjast í verulega rannsóknarvinnu við samanburð á hinum umdeildu textum (240 talsins!) til þess að leggja á það mat. Af hverju í dauðanum létu þeir þetta grundvallaratriði þá liggja milli hluta eins og þeim eða réttlætinu kæmi það ekki við?

Hefði verið ofverkið fyrir Hæstarétt að skipta með sér verkum og kanna hvernig höfundar eins og Guðjón Friðriksson, Gylfi Gröndal og fleiri, sem leikið hafa sér að þessu formi, hafa gert þetta? Nei, ætli það hefði mátt gera á einni ánægjulegri kvöldstund.

Dómararnir kusu hins vegar að láta slíkt alveg eiga sig. Miðað við textamatið er tæplega unnt að saka þá um leti, svo þá býr eitthvað annað að baki. Kannski dómararnir tjái sig eitthvað um það, þannig maður fari ekki að ímynda sér að þessi nóta um vanreifunina sé þeim skálkaskjól.

En áður en menn velta þessu öllu fyrir sér væri kannski rétt að spyrja annarar spurningar fyrst: Er það stefnda að bera af sér sakir, sem ekki verður séð að hafi verið reifaðar gegn honum eða komið til álita í réttarhaldi?


Háðung Hæstaréttar

Hæstiréttur Íslands

Hæstiréttur telur sig hafa fellt dóm yfir Hannesi Hólmstein Gissurarsyni, en í raun hefur hann fellt enn einn dóminn yfir sjálfum sér. Verra er hins vegar að ég fæ ekki betur séð en að rétturinn hafi kveðið upp dauðadóm yfir alþýðlegri ævisagnaritun ef svo óheppilega skyldi vilja til að viðfangsefnið hafi skilið eftir sig heimildir.

Dómurinn er raunar óvenjulegur fyrir þær sakir að þar játar Hæstiréttur að 

engin skýr og afdráttarlaus skilgreining [verði] gefin á því hvar mörkin liggja milli þess sem talist getur annars vegar heimil nýting á efnisatriðum eða staðreyndum úr höfundaréttarvernduðum texta og þess hins vegar að nýting textans sé með þeim hætti að hún varði lögvernduð höfundaréttindi samkvæmt I. kafla laganna. Hljóta þessi mörk að ráðast í hverju tilviki á mati, sem óhjákvæmilega getur á stundum orðið vandasamt og umdeilanlegt. 

Mörkin milli hins löglega og ólöglega eru sumsé óþekkt, en Hæstiréttur leggur á það mat, sem þó er umdeilanlegt. Tæpast getur það talist góður dómur í máli, sem gefa mun fordæmi um ókomna tíð. Hvað þá að Hæstiréttur dæmi stefnda til verulegra fébóta þó sjálfsöryggi réttarins sé ekki meira en þarna greinir. 

Ég gluggaði í þessi textabrot, sem fébæturnar eru dæmdar vegna. Ég er einfaldlega ekki sammála réttinum um að þar sé texti Halldórs K. Laxness endurnýttur með óleyfilegum hætti í stórum stíl. Í nokkrum tilvikum finnst mér Hannes halda sig svo fast við frumheimildina að ástæða sé til þess að finna að því, en fráleitt þannig að afkomanda hans beri fébætur fyrir. Þar er ekki vegið að sæmdarrétti Halldórs og þó vel megi kalla hann höfund þeirra málsgreina er vandséð að það feli í sér höfundarréttarbrot að því leyti að Hannes hafi þóst eiga þá stílsnilld (eða tilgerð eftir atvikum), hvað þá þannig að erfingjarnir verði fyrir fjártjóni af.

Líkindin með dæmunum, sem dæmt var vegna, eru auðvitað augljós, enda er annar textinn heimild hins. Það eru hins vegar aðeins svo og svo margar leiðir til þess að segja frá sama lítilfjörlega atburðinum, þar sem helsti liturinn felst í orðum eða orðalagi. Hannes endursegir mikið af minningabrotum Nóbelskáldsins og notar óhjákvæmileg mikið sömu orð, ekki aðeins af því að önnur séu ekki tiltæk til þess að lýsa hinu sama af nægilegri nákvæmi, heldur ekki síður til þess að lesendur haldi sambandi við þann heim, sem bar fyrir augu Laxness. Fáir íslenskir höfundar eru með sterkari höfundareinkenni en Killi og það hefði unnið fullkomlega gegn tilgangi verksins ef Hannes hefði lagst í að dauðhreinsa það af karlinum.

Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson , sem seint verður sakaður um sérstakt dálæti á Hannesi Hólmsteini, orðar þetta afar skýrt:

Í mínum huga liggur það beint við þegar rituð er ævisaga rithöfundar eða annars þess manns sem lætur eftir sig mikið af skrifuðum texta, þá hlýtur bókarhöfundur að nýta sér þann sjóð.

Öllum lesendum bókanna nema ösnum er ljóst hver heimildin er, að höfundi dytti ekki í hug að reyna að finna slíkt upp hjá sjálfum sér og að önnur leið er vart fær við ritun þeirra. Öllum nema ösnum og hæstaréttardómurunum Árna Kolbeinssyni, Garðari Gíslasyni, Hjördísi Hákonardóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur og Páli Hreinssyni.


mbl.is Bótaskyldur vegna ævisögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kurr á kærleiksheimilinu

Það er áfall fyrir Össur að sveitarfélög í landinu skuli ekki bara fara að vilja hans um hvar og hvenær megi stunda iðnað, jafnvel þó svo hann hafi ekkert yfir málinu að segja þrátt fyrir að eiga að heita iðnaðarráðherra (sem er náttúrlega aðaláfallið). Helst vildu ráðherrarnir líkast til bara getað stjórnarð landinu með tilskipunum.

Hin uppgefna ástæða fyrir andstöðu Össurar við álver í Helguvík er ekki síður merkileg:

Heppilegra væri fyrir efnahag þjóðarinnar að bíða með framkvæmdirnar svo Seðlabankinn geti farið að lækka stýrivexti.

Já, var það málið? Menn rausa um efnahagslífið endalaust og ef ástandið er ekki Davíð að kenna, þá bera bankarnir ábyrgðina, nú eða útrásarfurstarnir. Þegar allt um þrýtur eru það bannsettir neytendurnir og húsnæðiskaupendur. En aldrei heyrir maður þessa herra anda um hið augljósa: að aðalsökin liggur hjá hinu opinbera, sem hefur þanist út á undanförnum árum og þar á bænum datt aldrei neinum í hug að slaka á klónni, þó þeir væru alla daga að vanda um við þegnana að nú yrðu þeir að hætta þenslunni.

Orð Össurar eru þó aðallega merkileg fyrir aðrar sakir. Hinn síkáti starfsmaður á plani er með þeim að efna til ófriðar við Geir H. Haarde forsætisráðherra, sem hefur sagt það hið besta mál að efna til stóriðjuframkvæmda til þess að gera örðugari tíma í efnahagslífinu bærilegri. Þar var Geir ekki aðeins að lýsa einhverri almennri, abstrakt skoðun, heldur að tala sem forsætisráðherra. Efnahagsmál eru ótvírætt á hans forræði. En nú ætlar iðnaðarráðherra að sýna hvað í honum býr á því sviði!


mbl.is Bíða hefði átt með að veita framkvæmdaleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasta sort 2

Sport, Sport 2, Extra og Bíó. Mikið er það þjóðlegt! Ég skil vel að 365 vilji styrkja sitt helsta vörumerki, en það er ekki gert með svona flatneskju. Stöð 2 Sport 2? Síðasta sort 2.
mbl.is Nafnabreytingar á sjónvarpsstöðvum 365 miðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klám

24 stundir, 7. mars 2008.

Þegar ég staulaðist fram að dyrum eftir blöðunum í morgun blasti þessi forsíðufyrirsögn við mér á 24 stundum: „Vændi á netsíðu“. Sem mér fannst nú álíka fréttnæmt og að finna mætti nígeríska svikahrappa á netinu. Eða að íslenskar bloggsíður bentu sumar til þess að móðurmálskennslu væri ábótavant. „En fréttin“ snerist sumsé um þetta, að til væri fólk á Íslandi, sem falbyði sig og þætti bara ekkert að því, eins og lesa mátti úr svörum vændiskonu til blaðsins. Jamm og já. Síðan flettir maður á næstu síðu og þar blasti við burðarfréttin á síðu 2: „Vantar alls staðar konur“. Samhengi?

Þessi forsíðufrétt 24 stunda þarf tæpast að koma mönnum í opna skjöldu, þó blaðinu þyki þetta greinilega firn mikil. Og sjálfsagt hefur fréttin verið lesin upp til agna, hún gerir út á gægjuhneigð lesenda en frá sjónarhóli púritanans, þar sem fordæmingin á athæfinu á að gera yfirbót fyrir áhugann á beðmálum annara. En er það ekki sem hvert annað klám?

Þetta þversagnakennda viðhorf, að mönnum komi við hvað aðrir aðhafast á holdlega sviðinu í nafni siðferðishreinleika, hefur verið í verulegri sókn á undanförnum árum og ber vott um minnkandi umburðarlyndi. Sumir stæra sig meira að segja af því að hafa ekkert umburðarlyndi í þessum efnum og færa fyrir því alls kyns rök þar sem allt er lagt að jöfnu: nektardans, klám og erótík, vændi, sérviskur í kynlífi, kynferðisofbeldi, þrælkun og barnaníð. Ég gat samt ekki varist því að velta einu fyrir mér: Í umræðu um fóstureyðingar ber jafnan mest á þeirri röksemd að konan eigi sinn eigin líkama og megi því gera það sem henni sýnist. Í öðru samhengi hafa menn svo ítrekað rétt kvenna til kynfrelsis. En þegar kemur að vændi virðast þau rök hverfa sem dögg fyrir sólu og allt í einu er kvenlíkaminn orðinn á forræði og ábyrgð samfélagsins alls. Er það ekki umhugsunarvert?


mbl.is Vændi á netsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband