Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
18.3.2007 | 18:31
Morgunblaðið í heljargreipum
Þeir, sem efast um gildi samkeppninnar, þurfa ekki annað en að líta á Morgunblaðið og sjá hina umfangsmiklu endurnýjun, sem blaðið hefur gengið í gegnum eftir að eigendurnir áttuðu sig loksins á því að Fréttablaðið veitti Mogga ekki aðeins samkeppni, heldur var á góðri leið með að ganga af blaðinu dauðu. Mönnum líst misvel á breytingarnar eins og gengur, en þó mörgum þyki Morgunblaðið íhaldssamt hygg ég að lesendurnir séu jafnvel enn íhaldssamari. Á blaðið að minnsta kosti.
Ég er almennt á því að vel hafi tekist til með þessar breytingar, sem enn sér ekki fyrir endann á. Dagblöð eiga enda að vera eins og seigfljótandi massi, sem tekur sífelldum breytingum, en þó þannig að lesendurnir þekki það og skilji. Blaðið er á margan hátt fersklegra og snarplegra en áður og mér finnast Moggamenn vera að nálgast nokkuð gott jafnvægi í blaðinu, þar sem á vegast harðar fréttir og dægurmál, skoðanir og dægradvöl.
Þetta hefur tekist án þess að lesandanum finnist gamli, góði Mogginn hafa horfið úr lífi sínu, en þó merkja allir hvílík umbylting hefur orðið á blaðinu. Ég skal þó játa að mér finnst hin nýja baksíða ekki alveg vera að gera sig, það mátti alveg breyta henni, en það er eins og vinir mínir á Morgunblaðinu hafi ekki lagt í að stíga skrefið til fulls, þannig að hún er hvorki fugl né fiskur. Það verður áreiðanlega lagað. Mér finnst blaðið sneisafullt af efni, þó auðvitað sé það misáhugavert, en mér sýnist að auglýsingahlutfallið sé að jafnaði um 40%. Áskrifendur fá því alveg peninganna virði.
Það er samt eitthvað að uppbyggingu blaðsins ennþá. Það er hinn lifandi dauði miðhluti blaðsins: ásinn, sem allt annað virðist verða að snúast um. Nei, ég er ekki að tala um forystugreinar blaðsins og miðopnuna, heldur minningagreinarnar.
Í blaði, sem hefur þurft að draga verulega úr síðufjölda, er óskiljanlegt hvað þessi lík í lestinni (ég stóðst ekki mátið) fá mikið rými, lesendum og blaðinu sjálfu til truflunar. Það má nánast segja að minningasíðurnar haldi Morgunblaðinu í gíslingu.
Nú veit ég sem gamall Moggamaður að það er ekki hlaupið að því að breyta þessu. Minningargreinarnar eru hluti af því, sem blaðið er í hugum manna, innan blaðs sem utan. Með birtingu þeirra er verið að veita íslensku samfélagi eftirsótta þjónustu, því þó þorri lesenda blaðsins fletti sjálfsagt hratt yfir eða í gegnum minningasíðurnar, lendum við öll illu heilli í því að þurfa að leita til blaðsins vegna erinda við þær. Á Íslandi er maður eiginlega ekki dáinn fyrr en nánum hafa verið gerð skil á þeim síðum. Morgunblaðið hefur að vísu ýmsar takmarkanir á lengd greina, en á móti eru menn farnir að mæla stærð bautasteina hinna látnu í fjölda greina. Um leið og þjóðinni fjölgar eykst um leið aðsóknin í þessar síður blaðsins hægt og bítandi. Svo má ekki gleyma hinu, að Morgunblaðið hefur tekjur af þessum síðum, á þeim er nefnilega líka auglýst. Svo blaðinu er vandi á höndum.
Ég hygg að það verði að umbylta þessum síðum, helst þannig að eftir sitji ekki nema eins og ein opna helguð hinum horfnu. Dánarauglýsingarnar þurfa sitt rými áfram, en aðsendar minningargreinar verða einfaldlega að víkja af síðum blaðsins. Hins vegar gæti blaðið áfram veitt þeim viðtöku og búið um á vef sínum, þar sem unnt er að tryggja betra aðgengi allra langt fram eftir eilífð. Morgunblaðið gæti áfram birt stutt æviágrip þeirra, sem bornir eru til grafar þann daginn, og síðan gæti blaðið jafnframt líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði. Í bresku stórblöðunum er þessi háttur hafður á og greinarnar eru jafnan svo vel skrifaðar að þær eru hið ágætasta lesefni. Sjálfur glugga ég reglulega í þær, enda fær maður þar oft nasasjón af merkisfólki, sem maður hefur oft ekki einu sinni vitað að væri til. Þar er líka kærkominn spegill af mannseðlinu, sem fjölmiðlar ná yfirleitt illa um að fjalla með öðrum hætti.
Finnist mönnum nályktin af slíkri opnu of megn mætti láta annað efni fljóta með: Árnað heilla, Afmælisbörn dagsins og dálk, sem heitið gæti Áfangar, þar sem greina mætti frá útskriftum, ráðningum og öðru slíku er varðar líshlaup manna.
Við eigum að auðsýna látnum og lífi þeirra virðingu; eftirlifendum nærgætni, huggun og hlýju; um leið og við eigum að reyna að draga lærdóma af æviskeiði þeirra, ekki aðeins hvað hina látnu varðar heldur sjálf okkur. Með breytingu, eins og rakin var að ofan, má gera það án þess að leggja fimmtung af efnissíðum blaðsins undir græna torfu.
Vilji Morgunblaðið lifa þarf það að leggja áherslu á að lofsyngja lífið fremur en liðna.
16.3.2007 | 19:07
Lögin og friðurinn
Merkileg niðurstaða hjá Hæstarétti að staðfesta úrskurðinn úr héraði um frávísun ákæru gegn þremur núverandi og fyrrverandi forstjórum olíufélaga vegna samkeppnisbrota. Ég er ekki alls kostar ánægður með þá ákvörðun, því mér finnst afar mikilvægt að æðstu stjórnendur fyrirtækja forstjórar, framkvæmdastjórar og stjórnarformenn beri ábyrgð á rekstri fyrirtækja. Ella er hætta á að þeir geti notað fyrirtæki sín sem skálkaskjól fyrir hvers kyns glæpastarfsemi. Eins og margvísleg dæmi eru um, bæði hér á landi og erlendis.
En ég sé að Ólafur Börkur Þorvaldsson skilaði sératkvæði þar sem hann vildi fella úrskurð héraðsdóms úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Sératkvæði Ólafs Barkar hlýtur að hafa eyðilagt daginn fyrir samsæriskenningasmiðum þjóðarinnar. Ég les reglulega hjá þeim hvernig Ólafur Börkur eigi bara að vera strengjabrúða íhalds- og auðvaldsaflanna í þjóðfélaginu, en svo reynist hann bara sá eini sem vill láta olíufurstana sæta ábyrgð takist að sanna sekt þeirra. Hinir vilja hins vegar ekki einu sinni hlýða á efnisatriði málsins.
Þarna er hins vegar enn fram komin áhættan af því að vera með margskonar réttarfar í landinu, þar sem t.d. samkeppnismál eru tekin út fyrir sviga og Samkeppniseftirliti falin æði mikil völd til eftirlits, rannsókna og úrskurða, heimild til samninga við seka o.s.frv. Nú vilja menn svipað fyrirkomulag í jafnréttismálum. Hvílík firra!
Það hefur ekkert breyst undanfarinn aldatug. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér slítum í sundur friðinn. Það þarf ein lög í landinu og eitt réttarfar.
Ákæru á hendur forstjóra olíufélaga vísað frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.3.2007 | 17:24
Ný þjóðarsátt?
Það er hárrétt hjá Sigurjóni Þ. Árnasyni, Landsbankastjóra, að það á að ganga fyrir öllu öðru, að ná mjúkri lendingu í hagkerfinu. Það er einnig rétt hjá honum að hún mun reynast torsótt ef hið stjórnmálamenn og hið opinbera geta ekki stillt sig í athafnagleðinni. Nú eru kosningar á næsta leyti og því sérstaklega ólíklegt að stjórnmálamenn auðsýni nauðsynlega gætni í þeim efnum. Ef vinstristjórn kemst svo að völdum í vor má Guð vita hvernig fer. Vinstriflokkarnir hafa sæg útgjaldafrekra aðgerða á prjónunum og það vekur sérstakan ugg hversu frjálslega þeir hafa talað um hvernig skuli fjármagna þær með lánsfé.
Að því leyti hefur ábyrg og farsæl stefna í ríkisfjármálum undanfarinna ára skapað ný vandamál, helstan sumsé þann að ríkissjóður stendur feykilega vel og illir eða heimskir fjármálaráðherrar gætu slegið ódýr lán eins og þeim sýndist. Spor R-listans hræða í því samhengi. Þá má ekki gleyma breyttu fjármálaumhverfi hér, þar sem peningar flæða inn og út úr landinu eins og vindurinn blæs. Þess vegna er líka ástæða til þess að gefa gaum orðum Sigurjóns um pólitíska óvissu. Aukin hætta á vinstristjórn hér á landi, sem var nánast óhugsandi fyrir nokkrum vikum, er þegar farin að hafa áhrif á lánsfjármörkuðum Íslendinga ytra. Nái ómenguð vinstristjórn völdum hér kynnu slík viðbrögð að verða enn ákveðnari með skelfilegum afleiðingum hér heima.
Það stendur því ekki upp á ríkið eitt að haga sér skynsamlegar í efnahagsmálunum. Á sínum tíma varð þjóðarsátt aðila vinnumarkaðarins til þess að skapa hér langþráðan frið og stöðugleika á vinnumarkaði og í efnahagslífi eftir að menn höfðu loksins áttað sig á því eftir margra áratuga tilraunir að þingi og framkvæmdavaldi myndi aldrei auðnast það. Þjóðarsáttinn lagði grundvöllinn, sem ríkisstjórnir sjálfstæðismanna, krataog síðar framsóknarmanna, gátu reist mestu hagsæld Íslandssögunnar á. Ekki með fyrirskipunum um aðgerðir eða fjáraustri í þjóðhagslega arðbærar framkvæmdir, heldur þvert á móti með því að eftirláta borgurunum á ný frelsi og svigrúm til þess að komast til bjargálna og auðlegðar með dugnaði og hyggjuviti. Ætli það sé ekki sú virkjun, sem mest hefur munað um á Íslandi.
Hinar breyttu efnahagsaðstæður Íslands kunna því að kalla á breytt viðbrögð við aðsteðjandi vanda sem þessum. Fjármálastofnanir eru engu veigaminni í þjóðarbúinu en sjávarútvegurinn var á árum áður. Áhrif þeirra og völd hafa aukist gífurlega, sem kallar þá vonandi á aukna ábyrgð. Bankarnir hafa ekki minni hagsmuni en aðrir af því að lendingin verði mjúk, en þá má ekki gleyma því að þeir geta haft umtalsverð áhrif á þá þróun alla.
Vilji bankarnir að hið opinbera hagi sér af meiri ábyrgð, sem vissulega má taka undir, er líka hægt að ætlast til þess af þeim, að þeir fari fram af meiri hófsemi og ábyrgð. (Ástæða er til þess að taka fram að í því samhengi er ég alls ekki að beina orðum mínum sérstaklega að Landsbankanum, síður en svo.) Í ljósi breyttra valdahlutfalla og veruleika hér á landi mætti jafnvel ræða nýja þjóðarsátt þar sem framkvæmdavald og fjármálalíf stillti strengi sína saman. Ég tel engan vafa leika á því að aðilar vinnumarkaðarins myndu koma að þeirri umræðu af ábyrgð líka. Og þjóðin með, því það er víst vissara að hafa hana með í þjóðarsátt.
Gríðarlega mikilvægt að ná mjúkri lendingu segir bankastjóri Landsbankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.3.2007 | 13:55
Samsæriskenning Sollu
Athyglisvert er að lesa kenningu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, núverandi formanns Samfylkingarinnar, um auðlindamálið. Samkvæmt henni virðast stjórnarflokkarnir hafa ætlað frá upphafi að kenna stjórnarandstöðunni um lyktir auðlindamálsins.
En hvað veit hún um það? Var hún ekki úti á Kanaríeyjum eða einhversstaðar að sinna einkaerindum meðan þetta mál tröllreið þjóðinni? Hún virðist a.m.k. ekki hafa tekið eftir því að málið kom sjálfstæðismönnum í jafnvel enn opnari skjöldu en stjórnarandstöðunni þegar framsóknarmenn settu það í gang. Hún virðist ekki heldur hafa tekið eftir því frumkvæði, sem stjórnarandstaðan tók undir forystu Össurar Skarphéðinssonar, á öðrum blaðamannafundi og merkilegri í liðinni viku. Það kann að henta framsóknarmönnum að benda á sviptingarnar í afstöðu stjórnarandstæðinga til málsins, en ég þekki engan sem tekur því alvarlega. Nema kannski Ingibjörg Sólrún.
Menn þurfa ekki að vera mjög verseraðir í pólitík til þess að sjá að mál þetta ber öll höfuðeinkenni vanhugsunar, klúðurs og hentistefnu. Hefði maður þó haldið að hún væri öðrum stjórnmálamönnum kunnugri því öllu.
Segja stjórnarflokkana hafa ætlað að nota stjórnarandstöðu sem blóraböggul | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.3.2007 | 12:10
Framsókn refsað í Gallup-könnun
Það er að koma ný könnun frá Gallup, sem gerð er fyrir Morgunblaðið og RÚV. Farið er að kvisast út hvernig hún er í laginu, en stóru tíðindin munu vera þau að Sjálfstæðisflokkurinn mun hafa bætt talsvert við sig, en Framsóknarflokkurinn tapað verulega. Hafði framsóknarmaddaman þó ekki úr háum söðli að detta. Mér skilist að aðrir flokkar væru á svipuðu róli og verið hefur.
Samkvæmt því er óhætt að fullyrða að þetta vanhugsaða upphlaup framsóknarmanna, þar sem þeir ætluðu að nota stjórnarskrána sem hverja aðra dulu, hefur ekki orðið þeim til álitsauka hjá nokkrum manni. Sá skaði kann að reynast langvinnur, því þessi dæmalausa framganga snýst um grunneðli flokksins og forystu hans. Hingað til hafa framsóknarmenn jafnan lagt áherslu á öfgaleysi, hófsemi og ábyrgð. Hvert verður kosningaslagorðið núna? Rugludallurinn í hafinu?
Hvað klikkaði?
Það hafa margir velt fyrir sér hvernig þetta mál varð til úr engu, þandist út á augabragði, var öllum hrein ráðgáta meðan það varði, en féll svo jafnskjótt saman aftur og varð að nánast engu. Minnir raunar frekar á kosmólógískar kenningar um alheiminn en pólitískt dægurrugl.
Mínar heimildir svo ég noti orðfæri heilagrar Agnesar herma að þetta hafi ekki verið djúphugsað plott úr iðrum Framsóknarflokksins. Fremur að forysta framsóknarmanna hafi ætlað að nota það sem miðlungi stóra bombu á flokksþingi sínu til þess að undirstrika sjálfstæði flokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Guðni Ágústsson hafi hins vegar lyft eilítið meira undir það en efni stóðu, en Siv Friðleifsdóttir, hinn tilvonandi fyrrverandi heilbrigðisráðherra og 5. þingmaður Suðvesturkjördæmis, hafi svo sprengt málið upp úr öllu samhengi með stjórnarslitahótun sinni. Það mun þó ekki hafa verið einkaframtak, flokksforystan hafði rætt þá imprun.
Hins vegar lítur út fyrir að framsóknarmenn hafi engan veginn hugsað málið til enda og ég er ekki frá því að þeir hafi ekki valið sér þennan ásteytingarstein af nægilegri kostgæfni. Þarna var allt of mikið undir: sjálf stjórnarskráin, eðli eignar- og atvinnuréttar, að ógleymdri sjávarútvegsstefnunni og því öllu. Þá voru þeir svo steinheppnir eða hitt þó heldur, að vangaveltur um olíuleit í íslenskri lögsögu komu upp í miðju þófinu, sem fengu jafnvel hörðustu framsóknarmenn til þess að játa, að hugsanlega þyrfti stjórnarskrárákvæðið að vera aðeins öðru vísi. Svo sættust menn á að tala ekki meir um það að sinni, nóg væri ruglið samt.
Höfuðvandi framsóknarmanna var þó frá upphafi sá, að hugur fylgdi ekki máli; þeir meintu ekkert sérstakt með þessu umfram það að slá nokkrar pólitískar keilur í kringum flokksþingið sitt og fá nokkrum sekúndum meira í fréttatímunum. Þeim krossbrá því þegar stjórnmálin fóru allt í einu öll að snúast um þetta eina mál. Fyrst hugðu þeir sér gott til glóðarinnar, eins og sjá mátti á bloggkór framsóknarmanna. Ekki leið þó á löngu áður en á þá runnu tvær grímur. Fyrst varð þeim ljóst að innan Sjálfstæðisflokksins voru raddir ég á eina þeirra sem töldu sjálfsagt og eðlilegt að slíta stjórnarsamstarfinu kysi Framsókn að leggja áherslu á þetta mál sitt; það væri frágangssök. En síðan tóku vísir menn í þeirra röðum, ekki síst lögfræðingar, að hvísla um það að þetta væri eiginlega ekki hægt.
Út á við létu þeir sig hins vegar ekki, en það var samt um seinan, því það hafði komist upp um strákinn Tuma. Þeir voru ekki og höfðu aldrei verið reiðubúnir til þess að rölta suður á Bessastaði til þess að bera vanda sinn upp við stjórnmálafræðiprófessorinn, sem þar býr. Það er gömul saga og ný, að hótanir eru einskis virði nema menn séu reiðubúnir að efna þær. Hugsanlega áttaði Geir H. Haarde sig of seint á því að ekkert bjó að baki og gaf of mikið eftir. Til allrar hamingju var lögfræðitríóið, sem nefnt var í fyrri færslu, með á nótunum og lék vel af fingrum fram í kakófóníunni á þingi.
Með kjökri fremur en hvelli
Hins vegar kom það öllum á óvart hversu hratt og fullkomlega framsóknarmenn gáfu eftir þegar stungið var upp á þeirri lausn, sem ofan á varð. Þeir báðu ekki um neitt í staðinn, heldur lúffuðu algerlega og án nokkurrar útleiðar til þess að bjarga andlitinu, þó ekki væri annað.
Framsóknarflokkurinn á mikið og erfitt starf fyrir höndum til þess að byggja upp trúverðugleika sinn eftir þetta fíaskó og var hann þó í þröngri stöðu fyrir. Framsóknarmönnum lætur pólitískur refskapur af þessu tagi ekki vel og þarf að hlú að grunninntaki sínu, þó sumum finnist það soldið sveitó og gamaldags. Umfram allt er forysta flokksins á skilorði og hún getur ekki beðið lengi eftir ósigur í vor til þess að hliðra til fyrir nýjum og ferskum mönnum.
........................
Ath. Þessi færsla var skrifuð í nokkrum bútum, sem duttu inn einn af öðrum, jafnharðan og þeir voru skrifaðir á Segafredo við Lækjartorg. Biðst forláts ef það hefur truflað menn við lesturinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2007 | 10:31
Yðar skál!
Góðir hlutir gerast hægt var mér einhverntíman kennt. En fyrr má nú rota en dauðrota. Hugmyndir um sölu léttvíns og bjórs hafa skotið upp kollinum með reglubundnum hætti undanfarna tvo áratugi og lengur jafnvel, en það er nú fyrst sem það hillir undir að málið kunni að mjakast áfram og ekki seinna vænna, því þetta er í þriðja sinn, sem þetta tiltekna frumvarp er lagt fram af Guðlaugi Þór Þórðarsyni og félögum hans í þinginu, bæði úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki. Sú seigla er þakkarverð, en nú hefur Allsherjarnefnd afgreitt málið til annarar umræðu og mælir með því að frumvarpið verði samþykkt. Aðeins Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstrigrænna, var því andvíg í nefndinni, en meirihluti er sjálfsagt fyrir málinu á þingi (séu menn nógu vel fyrir kallaðir til þess að mæta).
Flutningsmennirnir ásamt Gulla voru þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Katrín Júlíusdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Örlygsson, Ásta Möller og Sigurrós Þorgrímsdóttir. Ég er almennt þeirrar skoðunar að þjóðin geti betur treyst þeim þingmönnum, sem treysta henni, en hinum sem líta á það sem sitt helsta hlutverk að hafa sífellt vit fyrir henni.
Við þetta er því svo að bæta að Kjartan Ólafsson, þingmaður úr Ölfusi, vildi ganga lengra en þetta í Allsherjarnefnd og hefur lagt fram fram breytingartillögu um að einkaleyfi ÁTVR til smásölu á áfengi verði afnumið með öllu, en fyrrgreind tillaga tekur aðeins til víns og bjórs.
Í kvöld hyggst ég skála fyrir flutningsmönnum frumvarpsins og stuðningsmönnum þess á þingi. Það mun ég gera með barmafullu glasi af Jim Beam í kók. Fyrir Kjartani mun ég svo skála tvisvar.
Allsherjarnefnd afgreiddi frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á léttvíni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.3.2007 | 09:56
Framsókn lúffar
Mikið er ég feginn að þessi vonda og vanhugsaða tillaga um breytingar á stjórnarskrá náði ekki fram að ganga. Í bili. Það hefði verið hrein hneisa ef hún hefði hlotið afgreiðslu frá Alþingi, bæði vegna innihalds hennar og vinnubragðanna.
Ég skil raunar ekki hvað framsóknarmönnum gekk til með þessu lélega leikriti, sem eyddi viku af síðustu dögum þessa þings í nákvæmlega ekki neitt. Engum kemur til hugar að þeir bróstvörn kvótakerfisins hafi meint eitthvað sérstakt með þessu, það var vitaskuld galin hugmynd að reyna óforvarandis að knýja í gegn stjórnarskrárbreytingu á síðustu metrum þingsins, enn klikkaðra var þó að reyna að koma í stjórnarskrána grein sem eykur óvissu í stað þess að eyða henni og loks komu þeir upp um heilindi sín á þjóðþinginu með því að líta stjórnarskrána sem leikfang í pólitískum hráskinnaleik.
Framsóknarmenn voru þó ekki einir um að koma hljóta slæma dóma fyrir frammistöðu sína í absúrdleikhúsinu við Austurvöll. Það er t.d. óskiljanlegt hvernig forysta Sjálfstæðisflokksins lét hótanir um stjórnarslit hræða sig til þess að taka mark á þessu þvaðri. Á hinn bóginn tel ég að þjóðin standi í þakkarskuld við nokkra af hinum ungu þingmönnunum í Sjálfstæðisflokknum, sem sýndu siðferðisstyrk og dug við þessar sérkennilegu aðstæður. Sigurður Kári Kristjánsson greindi t.d. frá því opinberlega að sér væri ófært að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið og vakti þannig eflaust marga til umhugsunar um það. Þá vakti framganga Birgis Ármannssonar, formanns sérnefndar um stjórnarskrármál, og Bjarna Benediktssonar einnig athygli og aðdáun fyrir vönduð og varfærin vinnubrögð í þessu veigamikla máli, en þau einkenndust af bráðnauðsynlegri virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins, sem hefur hreint ekki verið áberandi á þingi síðustu daga. Þessi þrenning situr í sérnefnd um stjórnarskrá og eru allir lögfræðingar. Lærifeður þeirra í lagadeild geta verið stoltir af þeim og landslýður allur raunar.
Sumir hafa viljað gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir ístöðuleysi og óheilindi í málinu. Ég get tekið undir það að málflutningur hennar var nokkuð flöktandi og helgaðist ljóslega af pólitískri hentisemi í aðdraganda kosninga. Af því að sjálf stjórnarskráin átti í hlut er það auðvitað alvarlegra en aðra daga. En bjuggust menn við einhverju öðru? Það er þetta sem stjórnarandstaðan gerir.
Fyrst og síðast er skömmin þó framsóknarmanna, sem fóru fram af alefli til þess að taka snúning á stjórnarskránni í þágu óskiljanlegra stundarhagsmuna. Og þeir voru allir sem einn tilbúnir að taka þátt í ruglinu. Það er rétt að minna á það nokkrum sinnum í komandi kosningabaráttu og á komandi árum.
En má ekki treysta því að Siv hætti?
Ásakanir á báða bóga eftir frestun auðlindaákvæðis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.3.2007 | 03:44
Samráð við Göran
Það var vel til fundið hjá núverandi formanni Samfylkingarinnar að fara til Svíþjóðar á landsfund jafnaðarmanna í höll alþýðunnar um leið og verið er að ljúka þingstörfum á Íslandi og kosningabaráttan hefst af alvöru.
Spurningin er bara sú, hver eigi að læra af hverjum. Sænskir sósíaldemókratar eru einmitt að funda til þess að velja sér nýjan formann eftir að Göran Persson leiddi flokkinn til kosningaafhroðs í fyrra. Gaman að segja frá því að þar í landi líta jafnaðarmenn á það sem afsagnarástæðu formanns þegar flokkurinn fær aðeins 35% úr kjörkössunum. Það er eins og mig rámi að hafa heyrt þá prósentu nefnda áður bara í öðru samhengi.
Ósigur Görans fólst í því að tapa 4,8% atkvæða frá kosningunum 2002, en fyrir vikið misstu þeir 14 þingsæti, fóru úr 144 sætum í 130.
Hvað ætli íslenskir jafnaðarmenn geti lært af systurflokknum í Svíþjóð?
Horft um öxl
Árið 2002 hafði Samfylkingin verið í jafnri og góðri sókn í skoðanakönnunum, farið úr 26,8% kjörfylgi í kosningunum 1999 í 32-35% fylgi að jafnaði og raunar farið fram úr Sjálfstæðisflokknum í janúar 2003 með 38% fylgi. Svo var tilkynnt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir væri forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Í framhaldinu útskýrði hún að ekkert minna en 35% kjörfylgi væri ásættanlegt, en auk þess ætti að fella ríkisstjórnina og hún að verða forsætisráðherra. Þjóðin svaraði þessari áskorun og næstu vikur minnkaði fylgi flokksins aftur hratt og örugglega. Í kosningunum fékk Samfylkingin svo 31% atkvæða, en skömmu áður hafði markið raunar verið lækkað í 32%. Hin markmiðin náðust ekki heldur og til þess að bæta gráu ofan á svart náði forsætisráðherraefnið ekki inn á þing.
Í framhaldinu minnkaði fylgið nokkuð áfram, en náði nokkru jafnvægi í kringum 28% þar sem það hélst út árið, en um haustið hafði Ingibjörg Sólrún gerst varaformaður flokksins. Upp úr áramótum 2003-2004 hélt hún svo utan til náms. Þá stóð fylgið í 26%. Varaformannslausum tókst Össuri Skarphéðinssyni þó bærilega að þrauka veturinn og kom flokknum upp í 34% í janúar 2005. Lengst af frá landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005 hefur leiðin legið niður á við og aldrei náð fyrri hæðum. Fylgi í kringum 25% var vanalegast, en undanfarna mánuði hefur það farið niður í um 20% (±2% eftir því hvaða könnuði skal trúa) Þá undanskil ég raunar könnun Fréttablaðsins í fyrrihluta febrúar, en ég held að hún hafi verið eitthvað misheppnuð, enda mjög á skjön við allar aðrar kannanir, sem gerðar voru um svipað leyti.
Með öðrum orðum hefur Ingibjörg Sólrún helmingað fylgi Samfylkingarinnar frá því hún færði sig með braki og brestum úr Ráðhúsinu yfir í landsmálin. Þegar spurt er um traust stjórnmálamanna eða hverjum fólk treysti best til þess að gegna embætti forsætisráðherra hefur útkoman reynst enn hraklegri fyrir hana. Í fyrrnefndri Fréttablaðs-könnun, þar sem heil 27,9% svarenda kváðust styðja Samfylkinguna, voru ekki nema 12,1% sem treystu henni best af stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar. Jafnvel í lýði þar sem stuðningsmenn Samfylkingarinnar voru nánast örugglega fleiri en með réttu, var traustið á þessum mikla mannkynsfrelsara ekki meira en raun bar vitni. Og það sem verst var: Þrír af hverjum fimm stuðningsmönnum Samfylkingarinnar treystu einhverjum allt öðrum en henni betur fyrir lyklavöldum í stjórnarráðinu.
Hvað hefði Göran gert?
Í þessum ömurlegu sporum er vandséð að Göran Persson hefði látið nægja að segja af sér formennsku. Ég hugsa að hann hefði flutt til Túrkmenistan, skipt um nafn, fengið sér vefjarhött og safnað skeggi.
Það er hins vegar engin hætta á því að Ingibjörg Sólrún geri eitthvað slíkt alveg í bráð. Til þess er afneitunin of sterk. Aðspurð um fylgistapið horfir hún aðeins á síðustu vikur og segir skýringuna vera þá, að konur séu sérfræðingar í samviskubiti og sektarkennd! Með því átti hún við að margar konur, sem áður hefðu stutt Samfylkinguna, sæju nú eftir því að hafa ekki staðið upp gegn Kárahnúkavirkjun á sínum tíma og hölluðu sér því að vinstrigrænum þessa dagana af iðrun og til yfirbótar. Er það virkilega? Í ljósi þess, að Samfylkingin (og ekki síst Ingibjörg Sólrún sjálf) studdi stóriðjuna fyrir austan, er hún sumsé að segja, að stuðningsmennirnir hefðu átt að flýja miklu fyrr. Eða hvað? Enginn er jafnblindur og sá sem ekki vill sjá.
Kropið við kagann
Nú eru 57 dagar til kosinga og auðvitað tómt mál að tala um afsögn Ingibjargar svo skömmu fyrir kosninga, þó sumir hafi látið í það skína að Kanaríeyjaferðin á dögunum hafi nánast verið flótti frá raunalegum raunveruleikanum hér heima. Eftir það sem á undan er gengið gæti hún enda ekki verið þekkt fyrir að skilja flokkinn eftir í sárum rétt fyrir kosningar. Þá er frekar að setja hausinn undir sig og vona það besta, en búa sig undir hið versta.
Sumir vinir mínir í Samfylkingunni segja raunar að niðurlægingin sé orðin slík, að ástandið geti ekki annað en skánað úr þessu. Það kann að vera rétt hjá þeim, en ég hygg að slíkt sé háð utanaðkomandi ástæðum; hneykslismáli í öðrum flokki, efnahagsáföllum, íhlutun Guðs eða ámóta. Það sé a.m.k. ekki fyrir mér að Ingibjörg Sólrún nái sér á slíkt strik, að það muni valda einhverjum straumhvörfum í kosningabaráttunni. Og haldi einhverjir, að vinstrigrænir séu komnir að endimörkum vaxtarins í fylgi, þykir mér rétt að minna á að þeir eru ekki einu sinni byrjaðir að nota sitt nýja og ferska fólk að neinu ráði. Þegar þær Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir fara að beita sér er hætt við að afgangurinn af kvennafylgi Samfylkingarinnar hugsi sér til hreyfings. Og einhverjir karlarnir örugglega líka.
Fari sem horfir mun Samfylkingin fá sinn versta skell frá því stofnað var til kosningabandalagsins, sem síðar varð flokkur. En þá er flokknum það líkast til einnig hollast að enginn velkist í vafa um ábyrgðina á ósigrinum. Með afsögn eftir kosningar gæti núverandi formaður þá dregið strik í tímans sand, tekið fúla fortíðina með sér og gefið flokknum tækifæri til þess að endurnýja sig og erindi sitt.
Spyrjið bara Göran!
Ingibjörgu Sólrúnu boðið á landsfund sænska Jafnaðarmannafloksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2007 | 22:00
Ekki orð
Mér hefur nú alla tíð þótt þetta lið í PETA vera alveg sérstaklega galið og lélegt. Sér í lagi eftir að þessi húmorslausi skríll sigaði lögfræðiherdeild sinni á Michael Doughney, sem hafði leyft sér að að setja upp hreint prýðlega fyndinn vef á léninu peta.org í nafni hinna ímynduðu samtaka People Eating Tasty Animals. Þar mátti finna uppskriftir, ábendingar um notkun leðurs og ámóta. Meira um það hér.
PETA hefur varið margs konar einkennilegar herferðir sínar og óþverralegar baráttuaðferðir á þeirri forsendu að samtökin séu að taka svari þeirra, sem ekki geti varið sig: Blessaðra málleysingjanna.
Er þá ekki harla lélegt hjá þeim að fara af stað með ásakanir gegn fólki, sem hefur svarið Guði þess dýran eið að tala ekki?
PETA saka þagnarmunka um slæma meðferð á dýrum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2007 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2007 | 23:59
Sumarfrí
Sá fráneygi Pétur Gunnarsson bendir á það í bloggi sínum að Nyhedsavisen, systurblað Fréttablaðsins í Danmörku, verði lokað vegna sumarleyfa, líkt og tíðkaðist hjá Ríkissjónvarpinu skömmu eftir landnám. Þetta kemur fram á viðskiptasíðum Berlingske Tidende, sem vitna í Svenn Dam, forstjóra Nyhedsavisen, en hann segir að lokunin muni standa í 2-5 vikur.
Þetta þykja mér tíðindi. Nú höfðu vísir menn raunar reiknað út að Nyhedsavisen yrði búið að brenna upp öllu hlutafé sínu í fyrstu viku júlí, eins og greint var frá í febrúar í fagblaðinu Journalisten, málgagni danska blaðamannafélagsins. Sú spurning er því ekki út í loftið, hvort Nyhedsavisen komi nokkuð úr sumarfríi.
Ég hef unnið á mörgum blöðum á tveggja áratuga blaðamannsferli og sum hafa verið býsna blönk. En ég hef aldrei vitað slíka erfiðleika að loka verði yfir sumarið. Eða yfir háveturinn þegar auglýsingatekjurnar eru hvað rýrastar. Það er eitthvað óendanlega aumt við það að gefast upp með þessum hætti, yppta bara öxlum og halda því fram, að það gerist nánast ekkert þegar sumarið stendur sem hæst, eins og Damm segir í viðtali við Berling. Mig grunar því að verið sé að kaupa tíma til þess að finna ferskt hlutafé til þess að brenna upp.
En það er svo skrýtið, að það er ekki nema um vika síðan minn gamli vinur Gunnar Smári Egilsson, forstjóri eignarhaldsfélags Nyhedsavisen, átti varla orð til um það hvað framtíð blaðsins væri ofboðslega björt:
Við reiknum með því að í næsta mánuði eða í síðasta lagi þarnæsta verðum við komnir með flesta lesendur í þessum þremur borgum. Ég reikna með því að við verðum komnir með flesta lesendur í Danmörku á endanum, en það er í rauninni ekki okkar meginmarkmið. Allur rekstur og hugsunin snýr að því að búa til eitthvert batterí sem þjónar auglýsendum vel með því að finna þá lesendur sem henta þeim.
Það var og. En blaðið verður varla með flesta lesendur ef það kemur ekki út, hvað þá að það þjóni auglýsendum vel eða finni handa þeim hentuga lesendur! Nema náttúrlega þeir telji hagsmunum auglýsenda, lesenda og eigenda best borgið með því að koma alls ekki út.
Í sama mund og þessi undursamlega viðskiptahugmynd blómstrar með ofangreindum hætti meðal vorra læsu frænda í Danmörku, hyggjast Íslands fremstu útrásarvíkingar herja á nýja heiminn með sömu hugmynd, bara á enn stærri vísu. Það á að byrja í Boston, en markmiðið mun vera að gefa út blöð með sama sniði í 8-10 bandarískum borgum.
Eftir gjaldþrot smávörukeðju Baugs í Bandaríkjunum árið 2002 hafði Jón Ásgeir Jóhannesson á orði að sú þriggja milljarða króna sneypuför hafi verið dýrt námskeið, en á því hafi Baugsmenn lært að halda sig við Evrópu. Síðastliðinn nóvember hafði sú lexía loksins gleymst, en þá skýrði Jón Ásgeir Viðskiptablaðinu frá því, að Baugur stefndi að því að hefja starfsemi í Bandaríkjunum á ný árið 2008 og notast við sama viðskiptamódel og hefur reynst svo arðbært á Englandi. Jón Ásgeir taldi að Baugsmálið myndi ekki verða fyrirtækinu til trafala vestanhafs, enda fyrirtækið lítt þekkt þar, ólíkt því sem gerist í Bretlandi. Já, kannski Baugi vegni best þar sem enginn þekkir til félagsins. En lýsir það mikilli fyrirhyggju af hálfu Baugs, að fyrsta dótturfélagið, sem sent er inn á völlinn vestra, skuli vera fullkomnasta peningabrennsluvél, sem fundin hefur verið upp á Íslandi?
Það er ekki að sjá að Baugsmenn hafi mikið lært á fjölmiðlanámskeiði sínu, sem aðeins hér á Íslandi kostaði ótal miðla lífið og litla sjö milljarða króna á síðasta ári (og Jón Axel Ólafsson setti í samhengi fyrir oss auma launþega, sem þekkjum ekki milljarða nema af afspurn). Nema náttúrlega tilgangur þessa rekstrar sé hreint ekki viðskiptalegs eðlis. Síðastliðinn föstudag var haldinn starfsmannafundur hjá 365 miðlum og farið yfir hrakfarir liðins árs. Það er skemmst frá því að segja að þar var Gunnari Smára bara svo og svo fínlega kennt um allt saman, hinum sama og nú ætlar að kenna Bandaríkjamönnum hvernig eigi að búa til blöð. Í boði Baugs.
Ætli einhverjir Baugsmiðlarnir hérna heima fari líka í svona sumarfrí eins og Nyhedsavisen? Hvenær hefst réttarhlé?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.3.2007 kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar