Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Leiftursókn frjálslyndra

Nú liggur það fyrir að Magnús Þór Hafsteinsson var endurkjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins og um leið hefur þingflokkurinn staðfest völd sín í flokknum. Margrét Sverrisdóttir kveðst ætla að hugsa sinn gang eftir hinn nauma ósigur sinn, en ég fæ ekki séð að henni sé vært í flokknum lengur. Tala nú ekki um ef Samfylkingin getur fundið gott sæti fyrir hana. Aðalástæðan er þó grundvallarágreiningur um stefnuna í innflytjendamálum, sem Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, hamraði á í setningaarræðu sinni.

Það getur skipt sköpum um framvindu mála í komandi kosningum hvort Margrét hrekkur eða stekkur.

Skoðanakannanir benda til þess að mjótt verði á mununum hjá smáu flokkunum á miðju og vinstri væng stjórnmálanna. Fylgið hefur haldið áfram að kvarnast af Samfylkingunni og er aðeins um 18,5% samkvæmt hinni síðustu. Það þýðir að flokkurinn er að komast á jaðarinn, getur fengið að vera með, en verður tæpast það forystuafl á vinstri vængnum, sem að var stefnt. En hugsanlega gæti innreið Margrétar Sverrisdóttur verið sú blóðgjöf, sem Samfylkingin þarf svo ljóslega á að halda ef hún á ekki að enda í jafnaðarstyrk Alþýðuflokksins gamla. Og hver veit, kannski Margrét sé einmitt sá aðsópsmikli forystumaður með kjörþokka, hugsjónir, hreinan skjöld, óspjölluð af flokkadráttum og innanflokkserjum fortíðar, sem Samfylkinguna skortir — jafnvel fyrr en nokkur hugði — til þess að taka við formennsku flokksins.

Skoðanakannanirnar upp á síðkastið hafa gefið til kynna að hið pólitíska landslag sé að breytast ört. Í stórum dráttum má segja að þar veki afhroð Samfylkingarinnar mesta athygli, samsvarandi stórsókn vinstrigrænna, lífsbarátta framsóknar og uppgangur frjálslyndra.

Könnun Fréttablaðsins um liðna helgi var afdráttarlaus um þetta og hún var að mínu viti nokkuð söguleg. Hún var þriðja skoðanakönnunin í röð, sem gaf til kynna að Frjálslyndi flokkurinn gæti náð um 10% atkvæða í komandi kosningum. Það út af fyrir sig segir manni að fyrri mælingar voru engin slys og mér blandast enginn hugur um að því veldur upphlaup flokksins í útlendingamálum og ekkert annað. Ekki svo að skilja að frjálslyndir hafi tekið af skarið í þeim efnum og fráleitt er að jafna þeirri orðræðu við kynþáttahyggju, en hitt er deginum ljósara, að flokkurinn hefur náð eyrum fjölmargra, sem bera ugg í brjósti um áhrif nýrra landnema og efast um ágæti fjölmenningarsamfélagsins. Þær áhyggjur og efasemdir eru ekki úr lausu lofti gripnar, þó draga megi í efa að frjálslyndir hafi snjöll svör á reiðum höndum, en þeir eru þrátt fyrir það eini stjórnmálaflokkurinn, sem vakið hefur máls á þeim, og auðvitað höfðar það til einhverra.

Fyrst þegar frjálslyndir sóttu í sig veðrið mátti greina fylgistap hjá Sjálfstæðisflokknum, en úr því dró í næstu könnun og nú virðist það nær engin áhrif hafa á fylgi hans. Sjáum nú til hvernig það fer, en það blasir við að frjálslyndir eru engan veginn að sækja hið nýja fylgi sitt í þann rann einan. Umrótið á vinstri vængnum og hátt hlutfall þeirra, sem ekki vilja eða nenna að svara, kann þó að valda einhverju um og síðan má ganga að því sem gefnu að sjálfstæðismmenn uppskera ekki jafnmikið í kosningum og kannanir gefa til kynna.

Átökin meðal frjálslyndra kunna þó að setja strik í reikninginn. Fari Margrét mun hún örugglega taka talsvert fylgi með sér, einkum hinn gamla flokkskjarna, sem hefur skömm á innflytjendaorðræðu þingflokksins. Það er sjálfsagt ekki minna en 3% af fylgi flokksins, en með því að flytja sig á þekkilegri stað gæti hún hæglega uppskorið meira, sérstaklega ef hún nær sér á strik með viðræðu við almenning og setur fram markviss málefni. Fram að þessu hefur kjörþokki hennar byggst á þægilegri nærveru og skynsamlegri, almennri pólitík á mannamáli, en kjósendur þurfa að vita meira um fyrir hvað hún stendur til þess að hún nái umtalsverðum árangri.

Og þeir, sem eftir sitja í Frjálslynda flokknum? Þeir munu að venju sigla fram með eitt málefni í stafni og sjálfsagt uppskera betur en nokkru sinni. En varla nema rétt undir 10% ef vel gengur. Um leið munu þeir uppskera víðtæka fyrirlitningu á málstað sínum og erfitt er að sjá að nokkur annar flokkur vilji leiða þá til áhrifa. Verði þeim að góðu.


mbl.is Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gegnsæi ráðherrann

Ég minntist á það hér um daginn hvílík furða það væri að Valgerður Sverrisdóttir væri að hælast um af því að hafa aflétt leynd af viðaukum við varnasamning Íslands og Bandaríkjanna frá 1951, þegar hún hefði  hvergi komið nálægt þeirri ákvörðun. Í framhaldinu sá ég svo á innleggi Péturs Gunnarssonar, að framsóknarmenn eru svo sannfærðir um frábærleika Valgerðar, að þeir eru beinlínis í afneitun. Að minnsta kosti stendur Pétur á því fastar en fótunum, að ákvörðunin hafi verið hennar og er nánast agndofa yfir þessum skelegga utanríkisráðherra. Mér finnst því enn mikilvægara en fyrr, að utanríkisráðherra aflétti leyndinni yfir því hver tók ákvörðunina og hvenær. Tala nú ekki um eftir að Pétur lýsir því yfir að Valgerður hafi innleitt glasnost á Íslandi. Minna mátti það nú ekki vera! En þá er kannski vert að minnast þess hver örlög Míkhaíls Gorbatsjovs urðu. Eða ríkisins, sem hann veitti forstöðu.

Nú veit ég að margir framsóknarmenn eru orðnir harla taugaveiklaðir vegna komandi kosningar, en halda þeir virkilega að Valgerður verði þeirra sterkasta tromp? Auðvitað má vera að hún kunni að njóta einurðar sinnar í stóriðjumálum, enda í margra augum holdgervingur hennar, en mér finnst hæpið að embættisfærsla hennar sem utanríkisráðherra verði henni til vegsauka.

Í því samhengi er svo stórkostlegt að lesa um það hvernig Valgerður sér fyrir sér aukin umsvif Íslands á alþjóðavettvangi. Hvar liggja þau tækifæri? Jú, auðvitað í Afganistan. Og með hvaða hætti? Jú, auðvitað vill Álgerður virkja þar syðra! En ekki hvað?

Meira er nú rætt í NATO um borgaralegt framlag en áður og það má kannski segja að Afganistan sé vendipunkturinn í þeirri umræðu, í þessu felast tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að leggja meira af mörkum en áður. Ég gerði grein fyrir áætlunum okkar um aukin framlög til uppbyggingar og endurreisnar í landinu […] og höfum ákveðið að leggja fram fé í vatnsaflsvirkjanir.

Það er eins og svo oft, að raunveruleikinn er fjarstæðukenndari en nokkur lygasaga. En þegar kemur að leyndarafhjúpuninni miklu veit maður ekki hvort það er hlægilegt eða grætilegt hvernig alls konar skynsamt fólk — eins og Pétur — lætur með hana, líkt og Valgerður hafi tekið af skarið um eitthvað með sögulegum hætti. Í því samhengi er rétt að rifja upp að Valgerður sjálf treysti sér ekki til þess að leiða samningana um varnarmálin, sem vissulega var hárrétt ákvörðun. En það að framkvæma annarra manna ákvörðun í tengslum við þá samninga, sem hún kom hvergi nærri, og miklast af því, hvað er það? Og hvað segir það um þessa þernu almennings?

Mönnum kann að þykja það lofsvert hjá Valgerði að lýsa sig helsta andstæðing leyndarhyggju og pukurs; almennt þykir það betra í fari stjórnmálamanna, að þeir séu opnir og einlægir við umbjóðendur sína. En í samningum þykir yfirleitt óskynsamlegt að sýna á spilin sín og í milliríkjasamskiptum er trúnaður algerlega nauðsynlegur, jafnvel þannig að meira að segja frú Valgerður kann að þurfa að ræða fleira í reykræstum bakherbergjum en hún getur látið uppi. Nema náttúrlega að hún haldi áfram að úthýsa mikilvægari utanríkismálefnum til annarra ráðuneyta. Sjálfur myndi ég ekki leggjast gegn því, eins og nánar verður rakið.

En auðvitað er ýmislegt í utanríkisráðuneytinu, sem sjálfsagt er að aflétta leynd af og kann jafnvel að vera brýnt í þágu almannahagsmuna, að upplýsa. Mér dettur t.d. í hug, hvort ekki væri tilvalið að Valgerður — trú andúð sinni á leyndarhyggju — afétti trúnaði af skýrslunni um Byrgið frá 2002, sem skilað var til varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins af öllum stöðum? Þar er hún þó ekki bundin neinum trúnaði við þriðja aðila eða annað ríki. Valgerður, hleyptu ljósinu inn og skjölunum út!

Ástæðan fyrir því að varnamálaskrifstofa fékk skýrsluna inn á borð til sín var vitaskuld sú að í upphafi Kalda stríðsins voru öll málefni, sem tengdust varnasamningnum og varnarliðinu, á könnu utanríkisráðuneytisins, þar á meðal flugumsjón á Keflavíkurflugvelli og lögreglan þar. Raunar er lögreglustjóraembættið þar nýverið komið undir dómsmálaráðuneytið eins og vera ber, en miðað við vefsíðu utanríkisráðuneytisins virðist þeim ókunnugt um það. En það eru alls konar verkefni enn hjá utanríkisráðuneytinu, sem þar eiga engan veginn heima, en eru þar samt af sögulegum ástæðum eða vegna þeirrar hneigðar opinberrar stjórnsýslu að belgjast sífellt út og taka til sín fleiri verkefni ef ekkert er sérstaklega að gert.

  • Af hverju er flugumsjón á Keflavíkurflugvelli undir utanríkisráðuneytinu en ekki Flugmálastjórn eins og á öllum öðrum flugvöllum?
  • Af hverju er Ratsjárstofnun enn undir hatti utanríkisráðherra?
  • Af hverju í ósköpunum er Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. undirstofnun utanríkisráðuneytisins en ekki á snærum samgönguráðuneytisins eða fjármálaráðuneytis (ef menn vilja ekki einfaldlega selja sjoppuna?). 

Hugsanlega veldur eðlislæg tregða hins opinbera til breytinga nokkru um að þessi verkefni hafa ekki verið flutt frá utanríkisráðuneytinu, en breytingin á lögreglustjóraembættinu þar syðra ætti að vera fordæmi um skynsamlegar breytingar þar á. Og dugi það ekki til, ætti embættisfærsla Valgerðar að gera það æ augljósara, að eitthvað þarf að gera. Það væri þá dulin blessun við ráðherradóm Völlu frá Lómatjörn. 

Staðreyndin er sú, að utanríkisráðuneytið hefur höndlað viðskilnaðinn við varnarliðið ákaflega illa. Innan þess er mikil spenna vegna brottfarar varnarliðsins, þar sem ráðuneytið missir svo stóran spón úr aski sínum, að það treystir sér ekki að horfast í augu við missinn og reynir að halda í eitthvað, sem alls ekki fellur að eðlilegu hlutverki utanríkisráðuneytis, eins og öryggisþjónustu eða rekstri ratsjárstöðva, svo að ekki sé minnst á öryggissvæði á flugvelli. Þar gætir fyrrnefndrar hneigðar, enda mæla opinberir starfsmenn mátt sinn í deildarstjórum og milljónum á fjárlögum, en líkt og við flest vilja þeir vaxa fremur en visna.

Sérkennilegast í þessari stöðu er þó sú tilhneiging ráðuneytisins og ráðherrans að tala eins og það sé í og með varnamálaráðuneyti, en á sama tíma ber ráðherrann sér á brjóst um herleysi eins og hún vonist eftir friðarverðlaunum Nóbels fyrir kosningar (þau eru til ólukkunnar veitt í desember).

Morgunblaðið og Ólafur Þ. Stephensen, utanríkisráðherra þess, er í liði með þeim í utanríkisráðuneytinu, sem telja sér trú um, að þeir geti rætt við aðrar þjóðir um hernaðarleg málefni á jafnréttisgrundvelli. Það er engu líkara en að þeir hafi steingleymt því að Íslendingar lögðu aðeins til land í þágu hernaðarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna en ekki mannafla, tæki eða tól. Enn síður virðast þeir átta sig á því að þó utanríkisráðuneytið hafi gætt íslenskra hagsmuna á varnarsvæðum þeim, sem um var samið 1951, kemur utanríkisráðuneytinu ekki til annað umboð eða vald til þess að fara með varnarmál Íslands. Þeir hafa kannski ekki tekið eftir því við Rauðarárstíginn eða í Hádegismóum, en með brottför varnarliðsins hurfu varnarsvæðin. Að því leyti til má því ræða um valdþurrð ráðherra, þó Valgerður sé enn yfirhúsvörður á gömlu varnarsvæðunum með alkunnum afleiðingum.

Undir stjórn Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, sem státar sig af því, að Ísland verði herlaust land (hún er svo góð manneskja), fara erindrekar hennar, sem höfðu umboð í varnarmálum af því að bandarískur her var í landinu, til viðræðna við aðrar þjóðir, eins og þeir styðjist ennþá við einhvern her!

Þetta er náttúrlega tómt rugl. Utanríkisráðherra hefur ekki meira umboð til þess en umhverfisráðherra og herlaus hefur hún ekki um neitt að ræða í fundaherferð sinni um hernaðarlegt samstarf við aðrar þjóðir. Eða er hún kannski með einhver plön um friðargæsluna, sem við vitum ekki um?

En Morgunblaðið hefur aldrei vitað betri hugmyndir en þær, sem nú fæðast ein af annarri við Rauðarárstíginn. Síðasta sunnudag mátti þannig lesa Reykjavíkurbréf, þar sem rætt var af andakt um greiningarstarf á vegum ráðuneytisins — það er gagnnjósnadeild um hernaðarleg málefni! En væri ekki nær að spyrja hvernig slíkt starfsemi fellur að starfi utanríkisráðuneytisins? Hvar er alþjóðlegt fordæmi? Hvernig samræmist það alþjóðasamningum um diplómatískt samband, að utanríkisráðherra sé jafnframt yfirmaður gagnnjósnastofnunar á erlendri grund? Eða á deildin að starfa innan lands? Hvar eru lögheimildir ráðuneytisins til að reka hernaðarlega gagnnjósnadeild? Ætlar gegnsæi ráðherrann að flytja frumvarp til laga um þetta efni?

Samkvæmt yfirlýsingu forystumanna ríkisstjórnarinnar eru varnir landsins á ófriðartímum tryggðar með tvíhliða samningi við Bandaríkin. Hitt er svo annað mál að allur er varinn góður og sjálfsagt er að efla samstarf við vina- og grannþjóðir um eftirlit og ámóta starfsemi á friðartímum, en að utanríkisráðuneytið leiði þá umræðu með einhverjum órum um hernaðarsamstarf er út i hött. Það eru stofnanir á vegum dómsmálaráðuneytisins, sem unnt er að beita til raunhæfs samstarfs við aðrar þjóðir á þessu sviði, og öldungis fráleitt að utanríkisráðuneytið skuli ekki tengja ratsjárstofnun og öryggissamband við NATO þessum stofnunum.

En ætli það sé nokkur hætta á því? Athafnir ráðherrans og ráðuneytisins benda til þess að það séu einmitt hagsmunir ráðherrans og ráðuneytisins, sem séu hafðir að leiðarljósi, fremur en öryggishagsmunir Íslands.


mbl.is Meira rætt um borgaralegt framlag en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákar á móti stelpum?

Ég sé mér til ánægju að Kristján Jónsson, kollega minn og fyrrum samstarfsmaður á Mogga, er farinn að blogga. Það veit á gott, enda er hann einn ágætasti pistlahöfundur Morgunblaðsins.

En svo sé ég að hann ver í allnokkrum línum að styðja framboð Höllu Gunnarsdóttur til formanns Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Halla hefur unnið með Kristjáni á Mogganum og raunar skrifað pistla á sama stað og Kristján, þannig að hann þekkir hana og ekki undarlegt að hann snúist á sveif með henni. Hitt finnst mér þó einkennilegra, að ástæðan, sem hann nefnir fyrir stuðningnum er að með kjöri hennar yrði hrist „upp í viðteknum hugmyndum og kreddum um aldur og kynferði“ og eitthvað ámóta snakk um að þannig myndu „strákar með karlrembutilburði […] stöðugt verða minntir á að í fótbolta notar maður ekki tippið til að skora“. Já, var það? En hvaða líkamshluta er hann þá að gefa í skyn að Halla myndi nota til þess að stýra KSÍ af myndugleik?

Málið er auðvitað það að kynferði frambjóðendanna á ekki að skipta neinu máli í kjörinu, heldur hvað þeir hafa til málanna að leggja. Það sjónarmið hefur enda komið skýrt fram í málflutningi Höllu sjálfrar:

Örfáar neikvæðar raddir hafa heyrst og gagnrýnin er þá aðallega að ég sé ekki innmúruð í KSÍ eða að ég sé kona, og að konur eigi ekkert upp á dekk. Sumir virðast líka halda að ég sé að grínast og ég velti fyrir mér hvort aðrir frambjóðendur hafi verið spurðir hvort þeir séu að grínast. Mér finnst þessi málflutningur heldur ómerkilegur og vona að þessi kosningabaráttan muni snúast um málefni en ekki um kyn frambjóðanda. Með öðrum orðum er ég að bjóða mig fram þótt ég sé kona.

Halla hefur enda lagt fram skýra stefnu um áherslur sínar nái hún kjöri, sem í stuttu mál snýst um að fóstra barna- og unglingastarfið betur og að ljóst sé að formaður KSÍ er þjónn aðildarfélaganna en ekki yfirboðari. Á hinn bóginn vill hún draga úr þeirri áherslu, sem verið hefur á afreksfótboltamenn. Með öðrum orðum hefur hún efasemdir um að landsliðið eigi að vera alfa og ómega KSÍ.

Kannski einhver greini kynbundinn áherslumun frambjóðendanna, þar sem Halla er í hlutverki hinnar nærandi jarðmóður, sem ber ungviðið sér fyrir brjósti, en mótframbjóðendur hennar, þeir Geir Þorsteinsson og Jafet Ólafsson, þá væntanlega einhverjir testosteróngraddar, sem aðeins fýsir í sigra, blóð, svita og tár á vígvellinum fótboltavellinum. En ég er ekki í þeirra hópi, sem þannig líta á. Mér finnast frambjóðendurnir allir hafa sett fram fullgild sjónarmið, sem vert er að gaumgæfa og taka afstöðu til, öldungis óháð kynferði þeirra.

Sjálfur styð ég Geir Þorsteinsson, enda hefur hann yfirburðareynslu og þekkingu á þessum vettvangi. Hann er gamall bekkjarbróðir minn úr Hagaskóla og ég get borið um það að hann er mesti sómadrengur.

---------- 

Svo eru fleiri fletir á þessum framboðsmálum Höllu. Hún hefur til þessa bloggað með kommunum á Kaninku, en eins og hinn fjölfróði Stefán Pálsson rekur í bloggfærslu stendur Kaninku-klanið saman og heitir henni stuðningi sínum. Og bætir svo við enn einni bölbæninni um að Moggabloggið skuli farast. En það skrýtna er að Halla hefur tekið sér frí á Kaninku meðan á framboði hennar stendur og hefur opnað sérstakan framboðsvef. Hvar skyldi hann vera að finna? Jú, nema á Moggabloggnum, sem Stebbi hefur svo einstakan ímugust á!

Annað til: Halla er úr Aftureldingu. Ungmennafélagið í Mosfellssveit er ekki beinlínis í hópi stóru fótboltaklúbbanna, en er aldeilis að leggja þjóðinni til leiðtogaefnin þessa dagana. Fyrst Valdimar Leó Friðriksson og nú Höllu.


Afhroð Samfylkingarinnar

Skoðanakönnun Fréttablaðsins á laugardag um fylgi stjórnmálaflokka ef kosið yrði til Alþingis nú er um margt forvitnileg. Helst staldra ég þó við tvennt, annars vegar staðfestinguna á sókn frjáslyndra undanfarna mánuði, en hins vegar endalausa niðurlægingu Samfylkingarinnar. Ég ætla að geyma mér eilítið að fjalla um frjálslynda, en staða Samfylkingarinnar er með þeim hætti að það er engin ástæða til þess að bíða með að gefa út dánarvottorð óhafinnar kosningabaráttu hennar. Hún er andvana fædd.

En hvers vegna gengur Samfylkingunni svona afleitlega? Að öllu jöfnu hefði maður haldið að góður krataflokkur ætti að geta gengið að 30-40% fylgi vísu hjá þessari fremur hófstilltu þjóð, sem yfirleitt sneiðir hjá öfgunum nema þegar kemur að flugeldakaupum. En því er nú ekki aldeilis að heilsa.

Hrafn forseti rekur hugsanlegar ástæður þessara ófara í nýrri bloggfærslu og af viðbrögðum lesenda hans má sjá að flestir vilja kenna því um að kjósendur treysti ekki formanni flokksins, en það er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég hef svo sem áður drepið á forystuvanda Samfylkingarinnar, en þá var tilefnið fordæmalaus ræða hennar í Keflavík, þar sem hún kvað vantraust þjóðarinnar á þingflokki Samfylkingarinnar vera helsta vanda flokksins, en að formaðurinn bæri einhverja ábyrgð var henni vitaskuld algerlega fjarri. Ég skrifaði þá (13.XII.2006):

Það þarf […] að leggja á sig sérstaka króka til þess að komast að því að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi verið dragbítur flokksins. Það þarf ekki annað en að líta á skoðanakannanir til þess að átta sig á því hvernig sólókosningabarátta Ingibjargar Sólrúnar reytti fylgið úr rúmum 40% niður í 31% eða hvernig það fór í frjálst fall eftir að hún tók við formennskunni, úr 33%  niður í 25% þar sem það er nú. Miðað við síðustu þingkosningar lætur nærri að þriðji hver kjósandi Samfylkingarinnar hafi snúið við flokknum baki! Engin teikn eru á lofti um að það kunni að blása byrlegar á þeim 150 dögum, sem nú eru til kosninga. Við skulum ekki einu sinni minnast á skoðanakannanir, sem mæla traust á einstökum stjórnmálamönnum.  

Og nú er hún búin að þoka fylginu niður í 21%. Ingibjörg Sólrún er sumsé búin að fæla þriðja hvern stuðningsmann flokksins í burtu.

Ástæðurnar eru vafalaust margvíslegar og tvinnast saman með ýmsum hætti. Sú helsta er sjálfsagt sú, að Ingibjörg Sólrún er einfaldlega ekki sá stjórnmálaforingi, sem margir hugðu. Glýjan úr Ráðhúsinu villti mörgum sýn í þeim efnum, en eins og mörg dæmi sanna dugar stjórnkænska á þeim vettvangi skammt í landsmálunum ein og sér. Flokkurinn hefur misst fylgi eftir hverja einustu tímamótaræðu forsætisráðherraefnisins og formannsins (sem jafnan eru kenndar við alsaklaus sveitarfélög úti á landi). Kórvillan í Keflavík, þar sem hún lýsti yfir vantrausti á þingflokkinn, þessum sama og nú skipar framboðslista flokksins, varð bæði til þess að gengisfella formanninn, þingflokkinn og flokkinn. Þá er ég ekki í nokkrum vafa að málþófið vegna frumvarpsins um Ríkisútvarpið var verulega vanhugsað og Samfylkingin fékk að kenna á því í þessari könnun. Eins gerði Ingibjörg Sólrún nýverið enn einu sinni þau mistök að ræða efnahagsmál, sem hún hefur ævinlega komið illa út úr. Svo má nefna þá reginskyssu Ingibjargar að leggja til atlögu við vinstrigræna um umhverfismál (og leiða flokkinn um leið lengra til vinstri), en sú herför var fyrirfram töpuð og til þess helst fallin að undirstrika málefnastöðu vinstrigrænna, rifja upp fortíð Samfylkingarinnar (og þá ekki síst Ingibjargar Sólrúnar sjálfrar) í stóriðjumálunum og ýfa upp andstöðu innan eigin flokks við hina glænýju umhverfisstefnu. Daður formannsins við Sjálfstæðislokkinn í Morgunblaðinu á dögunum var svo öldungis ótímabært og ekki til þess fallið að auka trúverðugleika Samfylkingarinnar sem mótvægi við forystuflokk ríkisstjórnarinnar. Ég gæti haldið áfram að telja upp klúðrin, en læt þetta duga að sinni.

Í dag eru 110 dagar til kosninga og það eru engin teikn á lofti um að Ingibjörgu Sólrúnu takist að snúa flóttanum í sókn. Niðurlægingin er orðin slík, að einhver stórfengleg tíðindi þyrfti til þess að breyta því, eitthvað sem gerbreytti hinni pólitísku stöðu allri. Það verður að teljast ósennilegt, en jafnvel þó svo eitthvað slíkt henti er orðið líklegra að vinstrigrænum tækist að gera sér mat úr því en formanni Samfylkingarinnar.

Til hvers er hún þá að þessu? Ingibjörg Sólrún eða einhverjir í kringum hana hljóta að gera sér grein fyrir því að kosningarnar eru nánast búið spil og afhroðið fullkomlega fyrirsjáanlegt. Af hverju segir hún ekki bara af sér meðan enn er tími fyrir baráttuglaðari og farsælli stjórnmálamenn innan Samfylkingarinnar til þess að bjarga því, sem bjargað verður?

Ástæðan er einföld. Auðvitað veit Ingibjörg Sólrún að hún er búin að tapa kosningunum. En þó hún sé búinn að gefa flokkinn sinn upp á bátinn er hún upptekin við að bjarga því sem bjargað verður af pólitískum ferli hennar sjálfrar. Það getur hún aðeins gert með einum hætti, en það er að taka þátt í ríkisstjórnarmyndun eftir kosningar. Annars blasir afsögnin við. Og forystumenn hinna flokkanna vita, að hún mun kaupa ráðherrastól hvaða verði sem er.

Verði niðurstöður kosninganna í einhverri líkingu við það, sem könnun Fréttablaðsins segir fyrir um og sjá má hér að ofan, má ljóst vera að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heldur ekki velli. Jafnvel þó svo framsóknarmenn næðu að kreista fram enn eitt kosningakraftaverkið þannig að meirihlutinn héldi, yrði hann svo tæpur og ótryggur, að ósennilegt væri að sjálfstæðismenn kysu að framlengja stjórnarsamstarfið. Innan Framsóknarflokksins finnast svo margir, sem telja að flokkurinn þurfi einfaldlega að taka út sína refsingu, sleikja sárin utan stjórnar og byggja sig upp í stjórnarandstöðu.

En án Sjálfstæðisflokksins væri ekki unnt að mynda ríkisstjórn nema með þátttöku allra hinna flokkanna fjögurra. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig gengi að berja hana saman eða hvílíkur bastarður málefnasamningurinn yrði. Hvað þá hverjar líkurnar væru á að hún entist út kjörtímabilið.

Það verður því að teljast einkar líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn myndi enn sem áður leiða ríkisstjórnarsamstarfið og af því að ég er lítillega kunnugur innviðum flokksins get ég fullyrt að þar munu menn ekki taka annað í mál en tveggja flokka ríkisstjórn. Hugsanlega væri unnt að mynda stjórn með frjálslyndum, en það verður þó að teljast ólíklegt. Margir telja því nánast óumflýjanlegt að samið verði við Samfylkingu, sem útskýrir máske værukærð formanns hennar. Hún þarf aðeins að halda fylginu ofan við 15% til þess að geta landað þeim happafeng og skítt með flokkinn. Spurningin er kannski fremur hvort Geir H. Haarde kæri sig um að vera maðurinn, sem framlengdi pólitískt líf Ingibjargar Sólrúnar, þrátt fyrir að sjálfsagt njóti enginn stjórnmálamaður minna trausts innan Sjálfstæðisflokksins en einmitt hún.

Allt þetta kann því að lokum að velta á vinstigrænum og hvort þeir hafi í raun og veru áhuga á að takast á við landsstjórnina, en margir gruna þá um að líka best að vera í eilífri stjórnarandstöðu. Ég þykist vita að þá langi að komast til ábyrgðar, en af sögulegum ástæðum er mörgum þeirra bölvanlega við að starfa með íhaldinu. Þeir kunna því að freistast til þess að setja upp eitthvert leikrit um hvernig þeir kjósi ekkert fremur en vinstristjórn, en eftir langt og misheppnað samningaþóf í þá veru láti þeir til leiðast að höggva á hnútinn með ólundarsvip og mynda stjórn hinna sögulegu sátta við íhaldið. Að mínu viti er nógur leikaraskapur í pólitíkinni samt þó menn fari ekki út í slíkar æfingar gagnvart eigin flokksmönnum. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki una langri og óþarfri stjórnarkreppu í því skyni. Sérstaklega ekki ef Samfylkingin verður á útsölu eins og allt bendir til.


Úr byrgi til andlegra auðæfa

Kristján B. Jónasson, bókmenntafræðingur, bókagerðarmaður og formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, er með alskemmtilegustu mönnum og heldur úti bloggi hér í sókninni, sem er ljúf skyldulesning fyrir alla bókkæra menn. Og fleiri raunar, því það er mikið varið í lýsingu á samtímanum með hliðsjón af bókmenntum aldanna.

Í nýjustu færslunni minnist hann á bókmenntalegan grunn Byrgis-málsins og harmar að varla sé til snifsi af grunnritum þeirra fræða á íslensku, ekkert eftir markgreifann de Sade eða von Sacher-Masoch og segir hið eina, sem komið hafi út af viti hérlendis vera Sögu augans eftir Georges Bataille í þýðingu Björns Þorsteinssonar.

Varðandi Leopold von Sacher-Masoch, sem sjá má hér að ofan, var hann ljóslega hinn merkasti maður, þó ekki væri nema fyrir þá einstæðu að bæði nöfn hans hafa ratað í orðabækur, annars vegar í alþjóðlega orðinu „masókismi“ og hins vegar í „Sacher-tertunni“, sem er ekki síður alþjóðleg í vinsældum sínum þó hún dragi raunar nafnið af Franz, frænda hans. Ég las einhverntíman snotra gotneska novelettu eftir hann, Marzella eða Æfintýrið um hamingjuna, sem kom út 1929. Það var alveg ágætt, en þar var ekki eftir neinu fyrir leðurmenn í Byrginu (dýflyssunni?) að slægjast.

Svo ég fletti Sacher-Masoch upp í Gegni og viti menn, þar var miklu meira að finna eftir karlinn en mig hafði órað fyrir, jafnt og þétt frá 1889 til 1949. Og hvað skyldi hafa verið hið fyrsta, sem kom út á íslensku eftir hann? Auðvitað var það grein í Sögusafni Þjóðólfs undir fyrirsögninni „Besti grundvöllur hjónabandsins“! Svo kom fleira út eftir hann í sögusafni Ísafoldar, skáldsagan Fjegraftarmaðurinn virðist hafa verið útgefin tvisvar með 27 ára millibili, 1903 og 1930, og loks kom út bókin Dómarinn með hljóðpípuna árið 1949.

Nú var það auðvitað stórmerkilegt, hve mikið af fagurbókmenntum (og ritgerðum og vísindagreinum) var þýtt á íslensku á þessum árum, gefið út í alþýðlegum og aðgengilegum útgáfum, og lesið upp til agna. Það hefur örugglega orðið þessari nýendurfæddu þjóð til mikillar blessunar. Hún var þá að komast frá örbirgð til auðlegðar með undraskjótum hætti og orsakasambandið þar á milli var vafalaust gagnkvæmt.

Þessi árin upplifum við annan eins uppgang í efnalegum skilningi, en er upplýsingin með samsvarandi hætti? Aðgangur að margvíslegu efni til dægrastyttingar er nægur og með fylgir líka fræðsluefni í einhverjum mæli. En þegar kemur að hinu djúpristara óttast ég að það sé nær ekkert framboð af alþýðlegu efni og þvert á móti í tísku að þvæla fræðin svo mjög, að þau komast aldrei úr fílabeinsturnum akademíunnar með illum afleiðingum, beggja vegna múranna. Samt mætti draga þá ályktun af vinsældum Draumalands Andra Snæs Magnasonar (sama hvað mönnum kann að finnast um efnistökin), að almenning þyrsti í slíkt efni. Væri ekki verðugt viðfangsefni fyrir íslenska útgefendur og fjölmiðla að reyna að bæta úr því?


Aldursmörk á Alþingi

Í athugasemdum við fyrri færslu um forsetaframboð hefur nokkur umræða spunnist um heppilegan aldur manna í embætti. Af því tilefni endurbirti ég hér forystugrein, sem ég skrifaði í Blaðið hinn 22. ágúst 2006.  

Á sínum tíma var Ásgeiri Ásgeirssyni, síðar forseta lýðveldisins, borið það á brýn í kosningabaráttu, að hann væri fullungur til þess að setjast á þing, þó hann væri örugglega efnilegasti maður. Ásgeir svaraði þessu á þann veg að hann treysti því að þessi sinn ágalli myndi eldast af honum.

Í annarri kosningabaráttu nokkru síðar var aldur Ronalds Reagan, Bandaríkjaforseta sem þá sóttist eftir endurkjöri, gerður að umtalsefni í sjónvarpskappræðu. Reagan svaraði því til að hann vildi heyja heiðarlega kosningabaráttu og myndi því ekki gera sér mat úr æsku og reynsluleysi andstæðings síns. Jafnvel mótherjinn, hinn 56 ára gamli fyrrverandi varaforseti Walter Mondale, hló með salnum að þessu svari Reagans.

Af orðræðu sumra stjórnmálamanna og stjórnmálaskýrenda að undanförnu má ráða að margir telji að tími sé kominn til kynslóðaskipta í íslenskum stjórnmálum og að sú krafa kunni að skipta sköpum í kosningunum. En er það endilega svo?

Fáir efast um að kynslóðaskipti hafi orðið í Sjálfstæðisflokknum þegar Geir H. Haarde tók við formennsku af Davíð Oddssyni, en virðast þá gleyma því að Geir er aðeins þremur árum yngri en fyrirennari sinn og hefur setið einu kjörtímabili lengur á þingi. Stuðningsmenn Sivjar Friðleifsdóttur töluðu mikið um kynslóðaskipti í öðru orðinu en um tveggja áratuga pólitískan feril hennar í hinu, en hún atti kappi við nýgræðing í stjórnmálabaráttu, sem virtist helst hafa unnið það sér til óhelgi að hafa lifað lengur.

Þegar litið er yfir ganginn til stjórnarandstöðuleiðtoganna Guðjóns Arnar Kristjánssonar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Steingríms J. Sigfússonar verður ekki séð að kynslóðaskiptin eigi þar frekar upp á pallborðið. Þau Ingibjörg og Steingrímur eru á sextugsaldri og hafi verið í pólitík um aldarfjórðungsskeið, en Guðjón er meira að segja kominn á sjötugsaldur, er heilla 62 ára og hefur verið litlu skemur í pólitík en fyrrnefnd stallsystkin hans. Efast nokkur um erindi þeirra í íslenskum stjórnmálum á þeim forsendum?

Þegar kjósendur taka stjórnmálamenn til kostanna dettur vonandi engum í hug að láta kynferði, litarhátt eða trúarbrögð þeirra vefjast fyrir sér. Aldur á þar ekki heldur að hafa áhrif. Það sem máli skiptir eru afstaða og mannkostir þeirra sem bjóða sig fram til starfa í þágu þjóðarinnar. Hún hefur ekki efni á að afþakka reynslu, vísdóm og varfærni þeirra, sem eldri eru, fremur en að hafna hugmyndaauðgi, dugnaði og djörfung hinna yngri.


Fyrsta forsetaframboðið komið?

Það er fádæmaörlæti, sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir og Ólafur Ólafsson í Samskip (sem hér að ofan sjást með syninum Ólafi Orra), sýna með velgerðarsjóði sínum, sem fær einn milljarð króna í vöggugjöf. Áætlað er að árlega verði um 100-150 milljónir króna til ráðstöfunar, en þeim verður varið til þróunaraðstoðar erlendis og til þess að göfga íslenskt mannlíf. Gjafmildi þeirra hjóna er ekki ný af nálinni, en í fyrra gáfu þau 36 milljónir króna til uppbyggingar skóla í Síerra Leóne.

Á næsta ári verður gengið til forsetakosninga á Íslandi, en afar ólíklegt er að herra Ólafur Ragnar Grímsson gefi kost á sér enn á ný, enda hafði hann sjálfur að orði að það væri langur tími fyrir forseta að sitja í sextán ár í embætti, þótt svo að bæði Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir hefðu gegnt embætti svo lengi. Sjálfur teldi hann tvö til þrjú kjörtímabil hæfilegri tíma fyrir setu forseta í heimi hraðra breytinga, njóti forseti stuðnings til þeirrar setu í embætti í samræmi við hefð.

Forseti mun þó tæpast greina frá því fyrr en í næsta nýársávarpi, en það breytir ekki hinu, að þegar á þessu ári verður tímabært að velta fyrir sér heppilegum arftaka herra Ólafs Ragnars. Í ljósi reynslunnar finnst mér ósennilegt að fyrrverandi stjórnmálamaður verði mönnum efst í huga og raunar hygg ég að flestir kjósi að gera embættið ópólitískt á ný. Fyrirrennarar herra Ólafs Ragnars lögðu á það allt kapp að halda forsetaembættinu ofan við hið pólitíska dægurþras, en hann kaus hins vegar að sigla nær vindi í þeim efnum, sem ég er ekki viss um að menn telji hafa reynst embættinu eða þjóðinni til heilla. Eins hefur maður heyrt þá gagnrýni víða, að herra Ólafur Ragnar hafi gengið alltof langt í að „Séðogheyrtvæða“ embættið og því kæmi ekki á óvart ef þjóðin kysi að ljá því meiri virðugleikablæ á ný, meira inntak og minna skrúð. Með hefðbundnum fyrirvara um áreiðanleika netkannana kann yfirburðasigur herra Kristjáns Eldjárns í könnun Hrafns Jökulssonar, forseta Hróksins, hér á Moggabloggi um hver hefði reynst besti forsetinn, að gefa vísbendingu um vilja manna í þessum efnum.

Hver væri bestur í þetta starf? Sjálfur myndi ég vitaskuld vera til í að kjósa Hrafn sjálfan í embættið, enda er hann öðrum vanari forsetastörfum. En því er víst ekki að heilsa í bili — hvað sem síðar verður — og því heldur leitin áfram.

Framtíðarforsetinn þarf að vera á góðum aldri, ekki undir fertugu og helst ekki mikið yfir fimmtugu, því hann þarf að eiga gott starfsþrek í 12-16 ár. Hann þarf að vera vel menntaður og vel máli farinn, einnig á erlendum tungum. Helst þarf hann að eiga sér betri helming, sem helst þarf að vera miklu betri helmingur. Umfram allt þarf hann að hafa áunnið sér virðingu (ef ekki vinsældir), vera glæsilegur á velli og höfðingi í sér. Hann þarf að bera gott skynbragð á málefni líðandi stundar, hafa nasasjón af stjórnmálum, næmt eyra fyrir rödd almennings, skilning á atvinnulífinu og átta sig á því hver er kjarninn í þessu víðfeðma, margþætta og nánast óskiljanlega mengi, sem við nefnum einu nafni Ísland.

En getur verið að fyrsta framboðið sé þegar fram komið? Óli í Samskip þarf varla að leggja fram fleiri sönnunargögn um höfðingskap sinn, hann verður fimmtugur nú á þriðjudag, hefur glæsilega konu sér við hlið og hefur fátt að sanna á þeim vettvangi, sem hann hefur valið sér til þessa, af sömu ástæðum og Alexander mikli (sem grét það helst að hafa ekki fleiri lönd að vinna). Ég fæ ekki séð að hann vanti neitt sérstaklega upp á þá kosti framtíðarforseta, sem að ofan voru taldir. Einhver kynni að nefna að hann væri ekki nógu kunnur kansellíinu, en skorti eitthvað upp á það eru tengsl hans við núverandi forseta með þeim hætti, að hann gæti alltaf slegið á þráðinn og spurt ráða. Auðlegð hans yrði honum ekki fjötur um fót, því hann gæti sem hægast bent á, að einmitt vegna ríkidæmis síns væri hann ekki upp á neinn kominn, enginn þyrfti að óttast að hann yrði einhverjum auðjöfrum háður. Þvert á móti væri hann einn fárra Íslendinga sem gæti horft í augun á þeim öllum og spurt: „Hvað með það?“

Yrði Ólafur Ólafsson góður forseti? Ég veit það ekki, þekki manninn ekki nema af afspurn. En það væri sjálfsagt tímanna tákn — ef ekki löngu tímabært — að í forsetaembættið veldist maður úr viðskiptalífinu.

------ 

Nú er röðin komin að þér, kæri lesandi! Með því að smella á Athugasemdir hér að neðan til hægri er hægt að setja inn eigin athugasemdir og ég skora á þig, að tilnefna þann eða þá, sem þú telur að eigi helst að verða næsti forseti lýðveldisins Íslands.


mbl.is Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlapukur og kerlingaraup

Ég varð ekki minna hissa en Friðjón fóstri þegar ég las um tímamótayfirlýsingar Valgerðar Sverrisdóttur varðandi varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna. Þar var raunar svo margt skrýtið, að efni væri í heila ritgerð: grautað saman almæltum tíðindum, tilfinningavellu og fleygbognum ályktunum. En svo sagði hún þetta: 

Það andrúmsloft leyndarhyggju, sem áður var ríkjandi gagnvart þjóð, Alþingi og utanríkismálanefnd þegar að varnarmálum kom er ekki það vinnulag sem ég vil viðhafa. Raunar verð ég að játa að mér hefur oft fundist pukur af þessu tagi fremur einkenna karlana, sem hafa tilhneigingu til að leiða málin til lyktar í reykfylltum bakherbergjum.

Já, einmitt. Og þess vegna kvaðst hún aflétta leyndinni af viðaukum varnarsamningsins frá 1951. Afar kvenlegt hjá henni og eitthvað annað en menn hafa átt að venjast frá karlfauskunum, sem þarna hafa setið pukrandi í reykfylltum bakherbergjunum að Rauðarárstíg 25.

En það er merkilegt að Valgerði yfirsást það algerlega að ákvörðun þessi var tekin í utanríkisráðherratíð Geirs H. Haardes, en hins vegar var beðið með að fylgja henni eftir uns málið hefði farið sína leið í bandarísku stjórnsýslunni. Eða skyldi Valgerður kannski ekki vita það og bara halda að hún hafi ákveðið þetta einhverntíman? Kannski ráðherrann ætti að aflétta leyndinni af þeim pappírum í ráðuneytinu?


mbl.is Leynd létt af leynilegum viðaukum við varnarsamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleggjan í 101

Vangaveltur um stjórnmálin, ástand og horfur, geta verið afskaplega gefandi. Stjórnmálin eru list hins mögulega og endrum og sinnum hins ómögulega. Þannig að menn geta fabúlerað fram og aftur um einhverja kosti í stöðunni án ábyrgðar og síðan er pólitíkin nú einhvernvegin þannig, að stundum verður skáldskapur af því taginu að veruleika.

Skoðanakannanir að undanförnu hafa sýnt að frjálslyndir fengu talsverðan byr í seglin með þjóðvarnartali einstakra forystumanna flokksins. Mörgum þykir ljóst að þar hafi flokkurinn náð að fanga óánægjufylgi alls kyns, en hitt er óljósara hverjir eigi að vera fulltrúar slíkrar breiðfylkingar kverúlanta í komandi kosningum og ýmsir raftar á sjó dregnir. Þannig er allt í einu í dragfúlli alvöru farið að ræða um þingflokkinn Valdimar Leó Friðriksson sem upprennandi leiðtoga innan Frjálslynda flokksins!

En sjálfum þykir mér einna merkilegast að heyra að Kristinn H. Gunnarsson, sleggjan sjálf, vilji ganga til liðs við frjálslynda. Landið liggur hins vegar þannig, að það er tæpast rúm fyrir hann á framboðslista í heimakjördæminu fyrir vestan og því bollaleggja menn hvort það væri ekki gráupplagt að bjóða hann fram í Norður-Reykjavík.

Þannig að ég fór að velta því fyrir mér hvernig Kiddi tæki sig út sem fulltrúi 101-elítunnar á þingi. Ég sé hann alveg fyrir mér á Kaffibarnum með kjöltumakkann og tvöfaldan espresso að spá í pólitíkina. Þetta hugarflug varð uppsprettan að myndinni að ofan, sem vitaskuld er rammfölsuð, en minn góði og frjói vinur Freyr Eyjólfsson á talsvert í hugmyndinni.


mbl.is Kristinn H. ekki í framboð fyrir Framsóknarflokkinn í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seg mér hverjir vinir þínir eru...

Ég les í sunnudagsblaði Morgunblaðsins að Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sé í opinberri heimsókn til Sádí-Arabíu ásamt fríðu föruneyti þeirra Rannveigar Guðmundsdóttur, Arnbjargar Sveinsdóttur, Kolbrúnar Halldórsdóttur og Belindu Theriault, sem er forstöðumaður ferðaskrifstofu Alþingis.

Nú verð ég að játa að ég skil ekki hvaða erindi forseti Alþingis getur mögulega átt til Sádí-Arabíu, þetta miðaldaríki er einveldi, það á sér ekkert þing og raunar eru allir stjórnmálaflokkar bannaðir. Þar er hins vegar svokallað ráðgjafarþing, þar sem sitja 90 valda- og umboðslausir „þingmenn“, sem allir eru skipaðir af konungi! Það er í boði forseta þessa ráðgjafaþings, sem Sólveig og hofróður hennar, fara um 1200 ár aftur í tímann.

Í tilkynningu frá Alþingi kemur fram að sádí-arabíska ráðgjafarþingið hafi fengið inngöngu í Alþjóðaþingmannasambandið árið 2003 og vinni „nú að því að auka samskipti sín við þjóðþing annarra ríkja.“ Já, var það? Nú eru ekki ný sannindi að Alþjóðaþingmannasambandið sé ekki sérlega vant að virðingu sinni, en hvað á það að þýða að Alþingi Íslands sé með þessum hætti að veita viðurkenningu sína á því, að þetta svonefnda ráðgjafaþing sé á einhvern hátt jafnoki lýðræðislega kjörinna þjóðþinga? Með þessu er Alþingi að lítillækka sjálft sig á sama hátt og þegar fjöldamorðinginn Li Peng kom til Íslands í boði forseta Alþingis á þeirri forsendu að þeir væru jafningjar.

Þetta endalausa daður og flaður upp um gervilýðræðisstofnanir ógeðslegustu einræðisríkja heims er óþolandi. Lýðveldið Ísland og Alþingi eru að gengisfella sjálf sig með því að leita eftir samneyti við blóði drifnar harðstjórnir, en um leið er verið að niðurlægja fórnarlömb þeirra með því að segja að þau skipti engu máli. Umræða um þau myndu enda varpa skugga á skálaræðurnar.

En það verður ekki skálað í öðru en ávaxtasafa í Riyadh. Í ljósi þess hvernig sendinefndin er skipuð má ætla að forseti ráðgjafarþingsins mæli fyrir minni kvenna. En hvað skyldi Sólveig og hirðmeyjarnar vilja ræða í Sádí-Arabíu? Jú, „í heimsókninni verða rædd samskipti menningarheima, þjóðfélagsþróun í Sádi-Arabíu og málefni kvenna“. Flytji þær mál sitt af einlægni mega þær teljast heppnar að sleppa heim með opinbera hýðingu. En ætli það séu nokkrar líkur á einlægni í þessari heimsókn? Varla, því eftir að hafa fjallað um allt þetta ætlar sendinefndin nefnilega að brydda upp á einu umræðuefni enn: framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Og þá fer maður að átta sig betur á því til hvers refirnir eru skornir. Og þjófarnir handhöggnir. Og fórnarlömb nauðgana grýtt. Mikið hlýtur það að verða gaman fyrir Íslendinga að eiga fulltrúa í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sem um leið annast hagsmunagæslu fyrir konungsfjölskylduna í Riyadh.


mbl.is Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Sádi-Arabíu 7.-11. janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband